Guðlaugur Guttormsson (Lyngfelli)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðlaugur í Lyngfelli.

Guðlaugur Guttormsson fæddist 7. nóvember 1908 að Hafrafelli í Fellnahreppi í Norður-Múlasýslu og lést 6. apríl 1996 í Vestmannaeyjum. Hann bjó að Hafrafelli fyrstu tuttugu árin en þá fór hann í skóla að Laugarvatni í tvo vetur. Hann réði sig í vinnu á Korpúlfsstöðum í Reykjavík og var hann þar við hirðingu kúa og heyskap. Korpúlfsstaðir voru stórbú og 60-70 manns í vinnu þegar mest var.

Árið 1935 kom Guðlaugur til Vestmannaeyja og kom á hænsnabúi með Magnúsi Bergssyni bakara og hálfbróður sínum Einari lækni. Þeir keyptu landið að Lyngfelli af Guðlaugi Br. Jónssyni og kostaði landið 30.000 kr. Guðlaugur sá um bú þeirra félaga.

Þeir höfðu mest hænsnarækt en auk þess reyndu þeir svínarækt fyrstu árin. Þeir prófuðu minkarækt og voru með á annað hundrað minkalæður. Skinnin fluttu þeir út og fylgdu bæði kjaftur og klær bjórnum. Þar sem minkaræktin passaði ekki vel með hænsnaræktinni þá seldu þeir Einari Sigurðssyni minkana og kom hann þeim upp í búinu í Dölum. Um tíma voru einnig 12 kýr á Lyngfelli. Oft var erfitt að koma mjólkinni og eggjunum niður í bæ en til þess notaði Guðlaugur hesta og vagn.

Guðlaugur hætti rekstri Lyngfellsbúsins árið 1979 og flutti þá á Hraunbúðir. Þar leið honum vel og tók virkan þátt í starfinu þar. Hann lést árið 1996.


Heimildir

  • „Guðlaugur Guttormsson, Lyngfelli.“ Tímamót. Vestmannaeyjar: Lionsklúbburinn, 1987.