Gróðurlendi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gróðurkort Vestmannaeyjar, Náttúrustofa Suðurlands.Rannveig Thoroddsen, Lovísa Ásbjörnsdóttir

Flóra Heimaeyjar skiptist aðallega í gras og mosa en aðrar tegundir eru í minni mæli. Hægt er að skipta flórunni í fjögur samfélög, mosagróður, graslendi, blómlendi og ræktarland.

Grasvíðir finnst einnig en ekki er þó hægt að tala um heilt samfélag af víðimóa og kjarri. Mosi er mjög víða á Heimaey bæði innan um annan gróður sem og aðaluppistaða gróðurlendis. Hann finnst einkum á ófrjóum stöðum svo sem í hrauni og móum.

Mosagróðri nægir eilítil fokmold sem sest í holur á gróðurlausum stöðum og eru því mosar oft fyrstir plantna til að nema land. Undir mosanum verður svo til góður jarðvegur fyrir aðrar plöntur er mosinn víkur fyrir þeim.

Mosabreiður finnast á stórum svæðum austur á Nýjahrauninu. Svæðið takmarkast við hraunið sjálft en mosinn vex ekki í lausum vikri. Í hraunkantinum næst bænum hafa grös náð góðri festu í mosabreiðunni. Hið sama gildir um hraunið við Flakkarann og Skansinn. Á toppi Kervíkurfjalls er einnig sami flokkur og í hlíðum Sæfjalls.

Undirlagið er mosavaxið en upp úr mosanum vaxa grastegundir og víðitegundir sem smárunnar.

Samfélagið finnst aðallega í bland við önnur samfélög. Út við Kinn og á Sæfjalli er þekjan í bland við graslendi. Neðst í vesturhlíðum Sæfjalls má finna nokkra bletti sem eingöngu eru samfélag mosa með grösum og smárunnum.

Þekja þessara svæða er um 50%. Ofanleitishraun er einnig mosavaxið í bland við lyngmóa og grös. Graslendi þekur stærsta hluta gróðurvaxins svæðis á Heimaey.

Þar er jarðvegur í ríkari mæli en á búsvæðum mosaplantna enda vaxa grös ekki nema þar sem nokkuð góður jarðvegur er til staðar. Graslendi einkennist af lágum plöntum, frekar litlausum en grænkar gjarnan á sumrin. Á graslendi vaxa ýmsar plöntur í bland við grösin en á heildina litið er um að ræða plöntur sem almennt kallast gras og strá.

Graslendi á Heimaey er skipt í fjóra flokka; grös, grös með smárunnum, melgresi og grös með elftingu. Ræktað land og uppgræðslusvæði er einnig að mestu graslendi en flokkað sérstaklega sem ræktað land.

Samfélagið sem inniheldur aðeins grös er algengast og finnst víða syðst á Heimaey sem og í kring um Helgafell. Víða finnast aðrar gróðurtegundir á graslendum svæðum og ber þar helst að nefna blómlendi. Þau svæði eru einkar algeng í lundabyggðum og hafa grasafræðingar gjarnan flokkað þau sérstaklega sem lundabyggðaflóru.

Flóra Norðurklettanna og Stórhöfða er að miklu leyti lundabyggðaflóra. Grös með smárunnum þekja stórt svæði í hlíðinni sunnan í Kinn, vestan við Litla höfða.

Þekja svæðisins er ekki mikil og er svæðið sendið og grýtt. Innan um grösin finnast víðitegundir í smárunnum. Tilvera melgresis er aðallega af mannavöldum en það hefur verið notað til uppgræðslu með misjöfnum árangri.

Blettir með melgresi finnast milli Eldfells og Helgafells og í hlíðum Eldfells. Melgresi er í nokkru magni á uppgræðslusvæðum og flokkast því sem slíkt. Grös með elftingu eru á stóru svæði á Kervíkurfjalli sem og í vesturhlíðum Sæfjalls. Sunnan Helgafells er einnig nokkuð stórt svæði með um 75% meðalþekju.