Friðrik Pétursson (kennari)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Friðrik Pétursson.

Friðrik Pétursson frá Skjalda-Bjarnarstöðum í Strandasýslu, kennari fæddist þar 9. apríl 1924 og lést 30. júlí 2009.
Foreldrar hans voru Pétur Friðriksson bóndi á Skjalda-Bjarnarstöðum og í Reykjarfirði, f. 18. júní 1887, d. 9. september 1979, og kona hans Sigríður Elín Jónsdóttir frá Seli í Bolungarvík á Hornströndum, f. 10. nóvember 1893, d. 30. mars 1984.

Friðrik var með foreldrum sínum í æsku, í Skjalda-Bjarnarvík og í Reykjarfirði á Ströndum.
Hann var við nám í Héraðsskólanum í Reykholti, Borg. 1941-1943, lauk kennaraprófi 1948, nam í framhaldsdeild Kennaraskólans 1968-1969 og lauk sérkennaraprófi þar.
Friðrik var kennari við barnaskólann á Finnbogastöðum í Trékyllisvík, Strandas. veturinn eftir skólavistina í Reykholti, var kennari í Barnaskólanum í Eyjum frá 1948-1956 og 1958-1968, í Barnaskóla Kópavogs 1956-1958, á Brúarlandi í Mosfellssveit 1969-1970, Breiðholsskóla 1970-1974 og var sérkennari í Þinghólsskóla, en lengst var hann sérkennari við Snælandsskóla í Kópavogi.
Hann vann á námsárunum í síldarverksmiðjunni á Ingólfsfirði og var til sjós í Eyjum og við við stækkun flugvallarins, var bókari í Sparisjóðnum í Eyjum í eitt ár.
Síðar starfaði hann með Skógræktarfélagi Kópavogs um árabil, þar sem hann veitti um tíma forstöðu skógræktarstöðinni Svörtuskógum og sá um skógrækt í landi skógræktarfélagsins í Kjós í Hvalfirði. Í Kópavogi fór drjúgur hluti sumranna í skógrækt og á tímabili gerði hann þaðan út trillu.
Á síðari árum ritaði hann nokkrar greinar um lífið í Skjaldar-Bjarnarvík á æskuárunum. Þær hafa m.a. birst í Strandapóstinum og verið lesnar í útvarpi.
Friðrik eignaðist barn með Áslaugu Jónsdóttur 1957.
Þau Jóhanna Herdís giftu sig 1958, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu í Núpsdal við Brekastíg 18, fluttu til Kópavogs 1968, bjuggu við Borgarholtsbraut.
Friðrik lést í júlí 2009 og Jóhanna Herdís í október 2009.

I. Barnsmóðir Friðriks var Áslaug Jónsdóttir frá Flatey á Breiðafirði, verslunarstarfsmaður, f. 6. október 1926, d. 20. desember 2007.
Barn þeirra:
1. Rósa Friðriksdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 15. desember 1957. Maður hennar Ólafur Halldórsson.

II. Kona Friðriks, (10. september 1958), var Jóhanna Herdís Sveinbjarnardóttir frá Núpsdal, húsfreyja, tónlistarmaður, f. 16. janúar 1929, d. 25. október 2009.
Barn þeirra:
2. Ríkharður Helgi Friðriksson tónlistarmaður, f. 5. nóvember 1960 í Núpsdal. Fyrrum sambúðarkona hans Svanhildur Bogadóttir. Sambúðarkona hans Eygló Harðardóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.