Eva Sæmundsdóttir (Langa-Hvammi)
Eva Sæmundsdóttir frá Spjör í Setbergssókn á Snæfellsnesi, húsfreyja í Eyjum og Reykjavík fæddist 22. ágúst 1908 í Ólafsvík og lést 16. desember 1993.
Foreldrar hennar voru Sæmundur Skúlason bóndi, síðar sjómaður, f. 18. janúar 1876, d. 9. júní 1938, og kona hans Ragnheiður Elín Guðbrandsdóttir húsfreyja, f. 20. október 1879, d. 10. janúar 1917.
Stjúpmóðir Evu var Eva Júlíana Gísladóttir.
Eva var með foreldrum sínum í fyrstu, en móðir hennar lést, er Eva var á níunda árinu. Hún var tökubarn á Hömrum í Eyrarsveit 1920, en fór aftur til föður síns og síðari konu hans Evu Júlíönu Gísladóttur.
Hún fór 15 ára til Stykkishólms í vist. Þau Jón hittust þar.
Þau Jón Hjaltason giftu sig, fluttust til Eyja, eignuðust Hjalta Ólaf þar 1926. Þau bjuggu í Háaskála við Brekastíg 11b og í Langa-Hvammi. Þau Jón fluttu til Stykkishólms og síðan til Reykjavíkur, bjuggu á Básenda 10. Síðar fluttu þau til Keflavíkur í skjól dætra sinna þar.
Jón lést 1972 á Sjúkrahúsinu í Keflavík.
Eva keypti hús að Kirkjuvegi 14 þar og bjó þar uns hún flutti á Garðvang í Garði og lést þar 1993.
I. Maður Evu var Jón Hjaltason verkstjóri hjá Vegagerð ríkisins, f. 29. mars 1898, d. 7. desember 1972.
Börn þeirra:
1. Hjalti Ólafur Jónsson múrarameistari, f. 5. október 1926, d. 25. ágúst 2006. Kona hans Halldóra Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
2. Ragnheiður Elín Jónsdóttir húsfreyja, skrifstofumaður, f. 9. desember 1927, d. 2. október 2021. Maður hennar Ingvi Brynjar Jakobsson.
3. Jóhannes Bjarni Jónsson rafvirkjameistari, f. 27. mars 1934, d. 5. október 2006.
4. Sæbjörg Elsa Jónsdóttir húsfreyja, bankastarfsmaður, f. 30. desember 1941, d. 19. október 2011.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Morgunblaðið 28. desember 1993. Minning.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.