Goslokahátíðin
Goslokahátíðin er hátíðleg haldin fyrstu helgina í júlí. Þá er goslokanna á Heimaey minnst með ýmsum hætti, svo sem harmonikkuleik og öðru skralli í krónum í Skvísusundi.
Þessi hátíð er minni í sniðum en Þjóðhátíðin, en mun nánari og fjölskylduvænni. Gamlir Eyjamenn snúa aftur frá meginlandinu til þess að endurnýja gömul kynni, og viðstöðulausri dagskrá er haldið uppi víða um bæinn með málverkasýningum, leikrænum tilburðum og öðrum listrænum gjörningum. Gjarnan eru listaverk vígð á goslokahátíðinni og þau þá annaðhvort gefin bænum eða sýnd tímabundið.
Veglega var haldið upp á goslokin árið 1998 þegar 25 ár voru frá goslokum. Síðan þá hefur verið haldið upp á goslokin á hverju ári. Mikið er haft fyrir hátíðinni á heila og hálfa tugnum, síðast árið 2003 þegar þrjátíu ár voru frá gosinu. Dagskráin er nú orðin full af skemmtilegum venjum og er hápunkturinn mannfögnuðurinn í krónum á laugardagskvöldinu. Krærnar eru skreyttar og í þeim spilað og sungið fram á morgun. Ýmisskonar tónlist er leikin, allt frá sígildu harmonikkuspili til poppaðra Eyjalaga.