Christiane Dorothea Thomsen

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Christiane Dorothea Thomsen, fædd Knudsen, húsfreyja í Godthaab, síðar í Danmörku, fæddist 9. október 1814 í Reykjavík og lést 31. júlí 1859 í Kaupmannahöfn.
Foreldrar hennar voru Lauritz Michael Knudsen kaupmaður í Reykjavík og kona hans Margrete Andrea Hölter Knudsen húsfreyja, f. 4. janúar 1781, d. 3. maí 1849.

Hún var hjá foreldrum sínum í Knudsenshúsi í Reykjavík 1816, fluttist til Eyja frá Reykjavík 1832, átján ára ,,til að giftast“ og giftist Hans Edvard á árinu.
Þau eignuðust barnið Aurora Engeline 1833 og fluttust til Reykjavíkur á því ári.
Hjónin voru í Brekkmannshúsi í Reykjavík 1833-1834, í Knudtzonshúsi í Reykjavík 1835.
Þau fluttust til Þingeyrar þar sem Hans Edvard var verslunarstjóri hjá P.C. Knudtzon 1836-1840.
Christiane var með 3 börnum sínum hjá Ane systur sinni á Vatneyri í Patreksfirði 1840.
Þau fluttust til Kaupmannahafnar 1840 og bjuggu þar síðan, eignuðust saman 8 börn.
Christiane Dorothea var stúlkan, sem Jónas Hallgrímsson leit í Reykjavík og hreifst mjög af. Eftir að hún hafnaði honum, orti hann kvæðið Söknuð:

Man ég þig, mey,
er hin mæra sól
hátt í heiði blikar;
Man ég þig, er máni
að mararskauti
sígur silfurblár.


Heyri ég himinblæ
heiti þitt
anda ástarrómi;
fjallbuna þylur
hið fagra nafn
glöð í grænum rinda.


Lít ég það margt
er þér líkjast vill
guðs í góðum heimi:
brosi dagroða,
blástjörnur augum,
liljur ljósri hendi.

Maður Christiane Dorotheu, (29. október 1832), var Hans Edvard Thomsen verslunarstjóri, síðar kaupmaður í Godthaab, f. 6. júlí 1808, d. 27. apríl 1881.
Börn þeirra:
1. Aurora Engeline Thomsen, f. 7. mars 1833. Hún var í Knudtzonshúsi með foreldrum sínum 1835, með móður sinni og systkinum á Vatneyri 1840 og fluttist með foreldrum sínum til Danmerkur. Maður hennar var Carl Möller.
2. Nicoline Henriette Christiane Thomsen, f. 30. ágúst 1835. Hún var með móður sinni og systkinum á Vatneyri 1840 og fluttist með foreldrum sínum til Danmerkur. Maður hennar var Thomas Thomsen. Þau munu hafa búið í Noregi og síðar í Ameríku, ókunn að öðru leyti.
3. Hans Thomsen, f. 1. apríl 1837, d. 13. maí 1837.
4. Juliana Thomsen (Julie Thomsen) húsfreyja í Tönder og Vordingborg, skírð 3. nóvember 1838, d. 1868. Hún var með móður sinni og systkinum á Vatneyri 1840. Maður hennar var Peter Martin Petræus læknir, f. 10. október 1838, d. 16. janúar 1900.
5. Hans Edvard Thomsen, f. 24. september 1842. Hann var assistent við Godthaabsverslun 1859, verslunarstjóri við Knudtzonsverslun á Þingeyri 1862-1864, fluttist til Kaupmannahafnar 1867 og gerðist bakarameistari. Kona hans var Ragnheiður Metta Pétursdóttir húsfreyja, f. 27. nóvember 1842 á Búðum á Snæfellsnesi, d. 13. mars 1885.
6. Nicolaj Heinrich Thomsen verslunarstjóri, síðan kaupmaður í Godthaabverzlun, f. 9. desember 1844 í Kaupmannahöfn, d. 23. apríl 1923 þar.
7. Alvilda Thomsen, f. 24. júní 1847 í Kaupmannahöfn, dó ung.
8. Katarina Alvilda Thomsen Möller, f. 10. júlí 1850 í Kaupmannahöfn, d. 9. maí 1927 í Keflavík. Maður hennar Jóhann Georg Kristjánsson Möller.
9. Julius Thomsen, f. 21. júní 1852 í Kaupmannahöfn, d. í Chicago í Bandaríkjunum. Kona hans var Eliza Mary Lily Bertelsen, f. 19. desember 1845, d. 1. janúar 1938 í Kaupmannahöfn.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Knudsensætt 1-2. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Sögusteinn 1986.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.