Blik 1980/Aflakóngar takast á um titilinn
Það var lengi siður í Vestmannaeyjum, meðan lokadagurinn 11. maí var í sínu rétta gildi að sjómenn héldu upp á daginn með ýmsu móti. A.m.k. vildu þá margir gera sér glaðan dag á ýmsan hátt. Svo var og að þessu sinni eftir vertíðina 1932. Mér er þessi lokadagur enn í fersku minni.
Hér greini ég frá einu atviki, sem þá gerðist.
Það vildi svo til, að tveir bátar urðu svo að segja jafnir að afla þessa vertíð. Formenn þeirra eru nú báðir látnir og verða ekki nafngreindir hér og heldur ekki bátarnir.
Nú fannst skipshöfnum þessara báta, að það þyrfti helzt að fá úr því skorið, hvor þessara manna bæri með réttu sæmdarheitið aflakóngur. Fiskitalan reyndist það jöfn, að hvor um sig taldi sig eiga heiðurstitilinn aflakóngur með réttu. - Þetta varð að ásannast svo ekki yrði um deilt.
Það gerðist á sunnudaginn næsta eftir lokadag, að skipshafnir þessara beggja aflabáta settust að lokafagnaði. Skipshöfnin af öðrum bátnum hélt lokafagnaðinn í kjallaranum undir Nýjabíósalnum. Þar var þá veitingastaður, sem Jón Bjarnason rak. Hin skipshöfnin kom saman að Sigríðarstöðum í norðanverðum Stórhöfða, þar sem Stefán Gíslason seldi veitingar. -
Hófið byrjaði hjá báðum skipshöfnum að áliðnu hádegi. Ég nefni þessa tvo hópa kjallaramenn og Sigríðarstaðamenn, og kenni þá þannig við veitingastaðina.
Þegar líða tók á daginn og menn gerðust vel hreifir, ákváðu Kjallaramenn að skreppa suður að Sigríðarstöðum undir forustu formanns síns og gera upp aflakóngsheiðurinn við þá þarna suður-frá. Var svo leigður bíll til fararinnar.
Eins og gengur eiga allir sína vini. Og svo var með Sigríðarstaðamenn. Hraðboði var snögglega sendur þangað suður eftir til að þess að gera þeim viðvart.
Óþarfi er að orðlengja það, að Kjallaramenn aka suðureftir syngjandi orustusöngva. - Veður var skínandi fagurt, sól og sumarveður. Nú átti að taka hús á þeim á Sigríðarstöðum og sýna þeim svo að ótvírætt væri, hverjir hefðu sigurinn sín megin, - hvor fyrirliðanna væri hinn rétti aflakóngur.
Þegar þeir Kjallarakappar voru komnir suður á móts við Klauf, sjá þeir, að Sigríðarstaðamenn standa úti, - utan við gildaskálann, þar sem aðstaða var góð, - vígi gott til átaka. Þar skipuðu þeir sér í fylkingu og formaðurinn fremstur, eins og lög gera ráð fyrir. Svo var þar hver af öðrum eftir vaskleika og hreysti.
Þegar Kjallaramenn létu bílinn nema staðar, var örskammt til Sigríðarstaðamanna. -
Formaður Kjallaramanna raðaði köppum sínum í fylkingu. Sjálfur var hann fremstur. Síðan sagði hann nokkur hvatningarorð til manna sinna og eggjaði þá til átaka. Gengu þeir síðan fylktu liði til móts við andstæðingana.
Þegar rúm seilingarlengd var milli formannanna, nam foringi Kjallaraliðsins staðar og mælti: „Ég skora á þig nú í heyranda hljóði og á þessari stundu að takast á við okkur, því að þér ber ekki heiðursheitið aflakóngur á þessari nýliðnu vertíð. Það skyldi sannast, ef afli beggja bátanna væri veginn. Þú komst að landi með blöndulóka, þegar ég lagði á land rígaþorsk. Töluna er ekki að marka, þó að þú ætlir þér að fljóta á henni.“
„Þú lýgur þessu,“ hrópaði foringi Sigríðarstaðaliðsins. „Þú lýgur því aftur,“ hrópaði hinn, og á því augnabliki runnu fylkingarnar saman.
Þarna stóðu átök æðistund. Þó varð ekki af meiðingum, svo að orð væri á gert. Hvorug fylkingin vann á hinni, og einhvern veginn endaði þessi kappaslagur með einskonar bræðrabyltu. Átökin leiddu ekki til neinna úrslita. Foringjarnir tóku hvorn annan hryggspennutökum, ultu síðan um koll og veltust svo hvor yfir annan langt niður eftir brekkunni. Stýrimenn beggja liða sáu þá þann kost vænstan að stilla til friðar, enda áttu þeir ekki von á neinum heiðurstitli, hvernig sem allt færi.
Slagurinn endaði þannig, að foringjarnir linuðu tökin hvor á öðrum, líklega þegar þeir sáu, að skipshafnir þeirra voru hættar öllum átökum. Þegjandi stóðu þeir upp hvor í sínu lagi. - Áður en þeir gengu til manna sinna, sýndu þeir, að þeir voru sannir heiðursmenn með því að takast í hendur, en án allra orða. Þeir, sem sáu bardagann, báru það, að þetta hefðu verið drengileg átök.
Þannig lauk þessum eftirminnilega „kóngaslag“.
Það er mér í minni, að Kjallaraformaðurinn var í nýjum, ljósgrænum sumarfötum, þegar hann fór til þessa leiks. En heim kom hann með jakkann rifinn neðan úr klauf og upp í hálsmál. Hann hékk aðeins saman á kraganum.
Buxur Sigríðarstaðaformannsins voru rifnar úr vasa og langt niður á skálm.
Önnur merki átakanna voru nokkrir myndarlegir kíkjar eða baugar kringum augu og svo sprungnar, blæðandi varir. Engin önnur meiðsli sjáanleg.
Aldrei fékkst síðan úr því skorið, hvor þessara dugnaðarformanna væri eða hefði verið hinn réttnefndi aflakóngur þessa vertíð. Þeir voru vissulega báðir jafnvel að titlinum komnir.