Stefán Gíslason (Sigríðarstöðum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Stefán Gíslason (eða Stebbi Gilla eins og hann er jafnan kallaður) er fæddur 6. janúar á því herrans ári 1950 kl. 06. Það var ekki að sökum að spyrja að um leið og styttist í fæðingu Stefáns og þrátt fyrir eða vegna þess þá skall á ofsaveður sem lengi verður í minnum haft. Þetta var eitt af verri veðrum sem skollið hafa á Eyjunum og er þá af nægu að taka og brann til að mynda Hraðfrystistöðin til grunna og Vélbáturinn Helgi VE fórst, þar sem 2 menn komust upp á Faxasker en lifðu ekki af og horfði fólk aflvana á. Móðir Stefáns bjó út í Stórhöfða um þetta leyti og varð að senda sjúkrabíl eftir henni en veðrið var svo vitlaust að bílinn næstum fauk svo að ekki komust þau á sjúkrahúsið, heldur var ákveðið að fara heim til ljósmóðurinnar sem bjó á Faxastig 7 Uppsölum, þar sem sveinninn fæddist. Sveinninn kom steinþegjandi í heiminn, en var fljótt flengdur og rak þá upp gól mikið, en svo brá við að hann hefur látið öll gól eiga sig síðan.

Stefán fór í Barnaskóla Vestmannaeyja og Gagnfræðaskólann og gekk allan þann tíma utan úr Höfða í skólann um 3 km. leið í hvort skipti. Stefán hefur unnið flest störf á landi og á sjó. Hann vann sem verkamaður hjá Vestmanneyjabæ og um tíma við netagerð. Þá vann hann við stíflugerð við Þórisvatn og réri á netabát frá Þorlákshöfn, en einnig á humri. Stefán fór utan um tíma og vann sem þjónn í Danmörk og hélt síðan til Færeyja og vann þar við smíðar, útvapsvirkjun og sem húsamálari. Frá Færeyjum hélt Stefán til Bretlands og fór í listaskóla að læra Calligraphylettering og grafik. Eftir stutt stopp heima hélt kappinn til Grænlands og stofnaði listaskóla í Nuuk og hélt þar sína fyrstu málverkasýningu. Í Nuuk stofnaði hann skákfélag á staðnum og var það í annað skipti sem hann stofnaði skákfélag, í fyrra skiptið var það í Reykjavík "Skákfélag Vesturbæjarins", en það félag varð ekki langlíft.

Stefán bjó um tíma með konu sem átti 2 börn frá fyrra hjónabandi. Löngu síðar bjó hann um tíma með annarri konu sem lést eftir stutta sambúð. Í dag býr Stefán að Baldri að Brekastíg 22 ásamt kettinum Góði dátinn Sveik og una þeir hag sínum hið besta. Stefáni finnst verst að kötturinn kann ekki að tefla.

Stefán hefur lengi verið virkur félagsmaður í Taflfélagi Vestmannaeyja og teflt með félaginu á flestum mótum. Um langt skeið á níunda og tíunda áratugnum skrifaði hann fjölda skemmtilegra skákpisla í bæjarblöðin. Hann var formaður Taflfélags Vestmannaeyja á árunum 1989-90 og aftur 1995-97. Hann var Skákmeistari Vestmannaeyja 2015. Hann hefur teflt allt frá upphafi vega og er enn að.


Heimildir