Blik 1978/Minnismerki um einstakt afrek Eyjabúa (mynd)
Vestmannaeyingar festu kaup á fyrsta björgunarskipi íslenzku þjóðarinnar veturinn 1920. Það var björgunarskipið Þór, sem ríkið keypti árið 1926, þegar það stofnaði landhelgisgæzlu þjóðarinnar. Þá keypti ríkisstjórnin einnig nýtt skip, sem hún lét smíða í Árósum í Danmörku til landhelgisgæzlu við strendur landsins.
Björgunar- og varðskipið Þór strandaði á Sölvafjöruskerjum 7 km. norður af Blönduósi 22. des. 1929 kl. rúmlega 8 að morgni. Skipshöfnin bjargaðist öll.
Ýmsir hlutir úr skipinu eru geymdir á Byggðarsafni Vestmannaeyja.
Tryggvi Blöndal skrifar: „Það munu vakna minningar um hetjuskap, fórnfýsi og drenglund, þegar „Þórs“ er minnzt.“
Nú vilja Vestmannaeyingar minnast varanlega þessara eiginleika þeirra, sem upprunalega keyptu skipið til landsins og stofnuðu fyrsta björgunarfélagið hér á landi, með því að reisa minnismerki um framtak þetta fyrir botni Vestmannaeyjahafnar.
Hér vill Blik geyma mynd af því minnismerki, sem þar er verið að reisa. Skrúfan af skipinu er steypt föst á háa vörðu. Stjórn Björgunarfélags Vestmannaeyja undir forustu Jóns Í. Sigurðssonar hafnsögumanns á Látrum (nr. 44) við Vestmannabraut beitir sér fyrir þessu merka framtaki og hefur nána samvinnu við Ólaf Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún, fyrrverandi bæjarstjóra í
Vestmannaeyjakaupstað. En hann hefur gert teikningar af hinu fyrirhugaða minnismerki og veitt ýmsa aðra mikilvæga aðstoð.