Blik 1978/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, II. hluti
Signet eru notuð þannig, að bráðið lakk er látið drjúpa á pappírinn, þar sem signetsmerkið skal standa og signetinu síðan þrýst á lakkið, áður en það storknar.
1061. Signet: Kóróna, og svo Bœjarfógetaembættið í Vestmannaeyjum.
1062. Signet: Kóróna, og svo Vestmannaeyjasýsla.
1063. Signet: Vestmanöe Syssel Segl. Þetta signet er sagt vera frá embættistíð hins danska sýslumanns hér, Abels (Johan Nikolai Abel), sem var hér alls ráðandi f.h. danska konungsvaldsins á árunum 1821—1852 að tveim árum undanskildum.
1064. Signet: Gísli J. Johnsen, Vestmannaeyjum. Þetta var einkasignet Gísla J. Johnsen, kaupmanns, útgerðarmanns og brezks konsúls í Eyjum þrjá fyrstu áratugi aldarinnar eða þar um bil. (Hann varð brezkur konsúll með skipan dags. 9. okt. 1907). Sjálfur gaf hann Byggðarsafninu signetið.
1065. Signet: Brynj. Sigfússon, Vestmannaeyjum. Þetta var einkasignet Brynjúlfs Sigfússonar frá Löndum, kaupmanns hér, organista og söngstjóra um tugi ára. Hann stofnaði hér einkaverzlun 1914 og rak hana til dánardægurs.
Ekkja hans, frú Ingrid Sigfússon, dönsk kona, gaf Byggðarsafninu signetið.
1066. Signet: J.E. Þetta signet átti Jón Einarsson á Hrauni, faðir Þorsteins skipstjóra og útvegsbónda Jónssonar í Laufási. Jón á Hrauni (nr. 4) við Landagötu var bókavörður Eyjafólks um árabil. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var frú Þórunn Þorsteinsdóttir, móðir Þorsteins í Laufási. Síðari konan var Solveig Jónasdóttir, móðir Ólafs Auðunssonar útvegsbónda í Þinghól (nr. 19) við Kirkjuveg.
1067. Signet: Katrín Gísladóttir. Hún var dóttir Gísla Engilbertssonar, verzlunarstjóra við Júlíushaabverzlunina á Tanganum og konu hans frú Ragnhildar Þórarinsdóttur. Frú Katrín var gift Páli Ólafssyni verzlunarmanni, og bjuggu þau á Sunnuhvoli (nr. 24) við Miðstræti.
1068. Signet: M. Sigurðardóttir. Kona Ólafs Auðunssonar, útvegsbónda í Þinghól, frú Margrét Sigurðardóttir, átti þetta signet.
1069. Signet: L.J.S. Lárus Jónsson, bóndi, útgerðarmaður og hreppstjóri á Búastöðum, átti þetta signet. (Sjá Blik 1976, bls. 213—214). Kona hans var frú Kristín Gísladóttir. Þau hjón hófu búskap í Mýrdal árið 1861 en flutti til Vestmannaeyja árið 1863. Þá hafði Lárus Jónsson eignazt þetta signet.
1070. Signet: G.M. Signet þetta er sérlegt. Það er smíðað úr alabasti. Það gerði Ástgeir smíðameistari Guðmundsson í Litlabæ. Frú Guðrún Magnúsdóttir, húsfreyja á Búastöðum, kona Gísla bónda Eyjólfssonar, sem þar bjó, átti þetta signet. Dóttir hennar, frú Lovísa á Búastöðum, gaf Byggðarsafninu hlutinn.
1071. Signet: Jón Einarsson. Signet þetta átti Jón kaupmaður Einarsson á Gjábakka (nr. 8) við Bakkastíg. Hann var frá Yzta-Skála undir Eyjafjöllum. J.E. hafði jafnan nokkur umsvif hér í Eyjum, var t.d. kaupfélagsstjóri um sinn, útgerðarmaður, kaupmaður, og svo bóndi á Vestri-Gjábakkajörðinni. Hann sat í stjórn merkra samtaka Eyjamanna, svo sem Ísfélags Vestmannaeyja.
1072. Signet: Salvör. Þetta signet smíðaði á sínum tíma Árni gjaldkeri Filippusson í Ásgarði handa stjúpu sinni frú Salvöru Þórðardóttur, sem dvaldist í Ásgarði á elliárum sínum hjá stjúpsyni sínum og konu hans frú Gíslínu Jónsdóttur. Salvör Þórðardóttir lézt í Ásgarði árið 1911. — Dætur þeirra hjóna í Ásgarði, frú Katrín og frú Guðrún, gáfu Byggðarsafninu signetið.
1073. Signet I.J. Signet þetta átti og notaði um langt árabil hinn kunni athafnamaður á Vestri-Gjábakka í Eyjum, Ingimundur Jónsson, bóndi þar og hreppstjóri. Hann var kvæntur frú Margréti Jónsdóttur bónda Einarssonar á Gjábakka. Þau hjón bjuggu á Gjábakkajörðinni í 54 ár eða þar til Ingimundur bóndi lézt árið 1912, (1858—1912)
1074. Signet: L. Jónsson. (Sjá fyrra
númer). Þetta signet átti Lárus Jónsson á Búastöðum. Árni Filippusson, gjaldkeri í Ásgarði við Heimagötu (nr. 29) smíðaði það handa L.J., þegar hann gerðist hreppstjóri í Vestmannaeyjahreppi um 1870. Lárus Jónsson var fæddur 30. jan. 1839. Hann drukknaði innan við hafnarmynnið hér í Eyjum árið 1895, þegar sexæringnum Hannibal hvolfdi, er hann var að koma úr fiskiróðri. Brotsjór af Hnyklinum olli slysi því, en svo hét bjarg neðan sjávar innan við hafnarmynnið.
1075. Signet: S.Árnason. Þetta signet átti Sigfús Árnason bóndi og organisti á Löndum í Eyjum. Hann gegndi margháttuðum og merkum störfum í kauptúninu á Heimaey. Hann var formaður á stærsta teinæringnum í verstöðinni, Auróru. Hann var organisti í Landakirkju um tugi ára, sá fyrsti, sem gegndi því starfi. S.Á. stofnaði söngkór í Eyjum og stjórnaði honum um árabil. Þá var S.Á. fyrsti póstmeistari í Eyjum. Því starfi gegndi hann í 8 ár (1896—1904). Áður hafði sýslumannsembættið í kauptúninu jafnan haft á hendi póstafgreiðsluna eða bréfhirðinguna, eins og starfið var þá nefnt. Alþingismaður Vestmannaeyja var S.Á. kosinn árið 1893.
S.Á. beitti sér fyrir samtökum bænda í Eyjum til hagstæðra vörukaupa handa heimilum þeirra og varð mikið ágengt í þeim efnum.
Síðustu ár sín í Eyjum var hann næturvörður. Hann andaðist árið 1922. (Sjá grein um hann í Bliki 1963, bls. 1—38).
1076. Signet: C.W.R. Signet þetta átti Daninn Carl Wielhelm Roed, veitingamaður og beykir í Frydendal hér í Eyjum. Hann fluttist hingað til Eyja um 1850 til þess að taka að sér veitingastörf hjá frú Ane Johanne Ericsen, ekkju Morten Ericsen, skipstjóra („Skipper“), sem fórst hér á skútu sinni með allri áhöfn árið 1847. Jafnframt veitingarekstrinum var C.W. Roed beykir hjá einokunarverzluninni. Þá iðn hafði hann lært í Danmörku.
Árið 1864 (29. okt.) fengu þessir dönsku þegnar konunglegt leyfi til að láta gifta sig án lýsinga í kirkju. Tveim árum síðar létu þau giftingarathöfnina eiga sér stað eða árið 1866. Þá var hún 56 ára og hann 13 árum yngri.-
Vert er svo að geta þess með virðingu og þakklæti, að þessi hjón, sérstakleg frúin, kenndi Eyjafólki kartöflurækt, sem ekki þekktist áður í Eyjum. Sú ræktun varð víðtæk í kauptúninu og leiddi vissulega til þess, að fólkið í sárustu fátækt fékk fremur bjargað sér og sínum frá sárustu neyð og sulti vissa tíma ársins. — Hjónin bjuggu í gamla Frydendal, sem frúin hafði byggt með fyrri manni sínum eftir 1840. Þar ráku þau veitingahús m.m. þar til fúin lézt árið 1878.
Þá seldi C.W. Roed íbúðar- og veitingahúsið Frydendal Jóhanni Jörgen Johnsen frá Vilborgarstöðum, föður þeirra Johnsenbræðra, sem kunnir eru af störfum sínum hér í Eyjum.
C.W. Roed veitingamaður lézt árið 1896, og þá var hann farinn mjög að heilsu og kröftum, eins og það er orðað í merkri heimild, og hafði þá verið hreppsómagi í Eyjum um árabil.
Signet þetta mun fjölskylda Jóhanns J. Johnsen hafa eignazt eftir daga veitingamannsins. Gísli J. Johnsen gaf Byggðarsafninu signetið.
1077. Signet: Kóróna, og svo: Vestmannaeyjar. Þetta signet notaði sýslumanns- og síðan bæjarfógetaembættið hér í Eyjum eftir stofnun „Íslenzka konungsríkisins“ árið 1918. Bæjarfógetaembættið gaf Byggðarsafninu signetið.
1078. Signet: Jón Ingim.son. Þetta signet átti hinn kunni sjómaður í Eyjum, útgerðarmaður og hákarlaformaður, Jón Ingimundarson í Mandal Jónssonar bónda og hreppstjóra á Gjábakka.
1079. Signet, sem er mjög gamalt, svo að stafirnir á því eru ólesanlegir.
1080. Signet: I.I., þ.e.: J.J. Þetta signet átti og notaði Jón bóndi Jónsson í Gvendarhúsi. Hann fæddist árið 1833 og fluttist til Vestmannaeyja með föður sínum Jóni bónda Símonarsyni fyrir miðja síðast liðna öld og síðari konu hans frú Þuríði Erasmundsdóttur, sem var stjúpa Jóns Jónssonar. Fjölskyldan hafði fengið réttindi til búskapar á jörðinni Gvendarhúsum og settist þar að.
Árið 1872 kvæntist Jón bóndi Jónsson ungfrú Sesselju Jónsdóttur heimasætu í Nýjakastala, hálfsystur Hannesar Jónssonar, síðar hins kunna formanns og hafnsögumanns í Vestmannaeyjum og bónda á Miðhúsum.
Áður hafði Jón Jónsson búið nokkur ár með bústýru. Hún var Margrét Sæmundsdóttir, sem ekki æskti þess að gefa kost á að giftast bóndanum. — Jón bóndi í Gvendarhúsi lézt árið 1919. (Sjá mynd í Byggðarsafninu af bónda þessum).
1081. Signet: L.P.
1082. Signet: E.Ásbjörnsson. Þetta signet átti Eiríkur útgerðarmaður og
formaður Ásbjörnsson frá Stokkseyri. Hann var einn kunnasti útgerðarmaður og formaður í Vestmannaeyjakaupstað á sinni tíð. Hann fluttist til
Vestmannaeyja 1918 og var hér formaður og útgerðarmaður um tugi ára.
Hann fæddist árið 1893 og lézt 24. nóv. 1977.
Eiginkona hans var frú Ragnheiður Ólafsdóttir, sem lifir mann sinn.
1083. Stimpill: Sjúkrasamlag Vestmannaeyja. Árið 1927 var stofnað fyrst sjúkrasamlag í Vestmannaeyjum. Lög þess fengu staðfestingu stjórnarráðsins 14. marz 1927. Þegar til kom, kærði almenningur sig ekki um slík samtök, svo að ekkert varð úr starfseminni. Átta árum síðar eða árið 1935 hafði almenningur öðlast skilning á gildi þessara samtaka. Páll Bjarnason, skólastjóri barnaskólans, beitti sér fyrir stofnun Sjúkrasamlagsins og lét gera þennan stimpil handa því. (Sjá Blik 1971, bls. 18—20).
1084. Stimpill: S.Sveinsson. Þennan stimpil átti Sigurður Sveinsson, hinn merki borgari í Eyjum, trésmiður, útgerðarmaður og jarðyrkjumaður. Hann byggði Nýborg (íbúðarhúsið nr. 17) við Njarðarstíg árið 1876. Kona hans var frú Þóranna Ingimundardóttir ljósmóðir frá Vestri-Gjábakka. Frú Jónína Sigurðardóttir húsfr. á Háeyri (nr. 11) við Vesturveg, dóttir þeirra hjóna, gaf Byggðarsafninu stimpilinn.
1085. Stimpill: Sparisjóður Vestmannaeyja. Árið 1893 stofnuðu Eyjamenn sparisjóð. Það var Sparisjóður Vestmannaeyja hinn fyrri. Hann var sameinaður útibúi Íslandsbanka í Eyjum, þegar það tók hér til starfa árið 1920. Árni Filippusson í Ásgarði var gjaldkeri sparisjóðsins flest árin, sem hann var starfræktur. Í fórum hans geymdist þessi stimpill og gefinn Byggðarsafninu að honum látnum árið 1932.
1086. Stimpill: Sparisjóður Vestmannaeyja. Sparisjóður Vestmannaeyja hinn yngri eða síðari var stofnaður haustið 1942 og tók til starfa í aprílmánuði 1943. Hann átti þennan stimpil og var hann notaður frá stofnun sparisjóðsins til ársins 1975.
1087. Stimpill: Greitt. Sparisjóður Vestmannaeyja. Þetta er svokallaður greiðslustimpill Sparisjóðs Vestmannaeyja hins yngra og notaður á árunum
1943—1975.
1088. Stimpill: Gagnfrœðaskólinn í Vestmannaeyjum. Samkvæmt lögum nr. 48, 19. maí 1930 var gagnfræðaskólinn í kaupstaðnum stofnaður. Þá var þessi stimpill gjörður eða búinn til. Hann var notaður í þágu skólans frá 1930—1963.
1089. Stimpill: Gagnfrœðaskólinn í Vestmannaeyjum. Einnig þennan stimpil átti Gagnfræðaskólinn og var hann notaður frá 1930—1963.
1090. Stimpill: Brynjúlfur Sigfússon, Vestmannaeyjum. Verzlunin stofnsett 1914. Brynj. Sigfússon frá Vestri-Löndum, kaupmaður, organisti og söngstjóri, rak verzlun sína til dauðadags 1951. Þessi stimpill var búinn til í Danmörku árið 1930. (Sjá Blik 1967, bls. 1—76).
1091. Stimpill: Líftryggingarfélagið Andvaka. Þessi stimpill er 50—60 ára gamall. Hann var búinn til, þegar Líftryggingafélagið Andvaka eignaðist fyrst umboðsmann hér í Eyjum. Það var Páll heitinn Bjarnason, barnaskólastjóri. Nokkru eftir 1922 gerðist hann umboðsmaður tryggingafélags þessa. Því umboði hélt hann til dánardægurs 1938. Byggðarsafninu barst þessi stimpill nokkru eftir fráfall hans.
1092. Stimpill: Ársœll Sveinsson. Þetta var stimpill Ársæls Sveinssonar, útgerðarmanns frá Sveinsstöðum í Vestmannaeyjum (nr. 6 við Njarðarstíg).
Á.Sv. var fæddur 31. des. 1893, sonur hjónanna á Sveinsstöðum, Sveins Jónssonar trésmíðameistara og frú Guðrúnar Runólfsdóttur konu hans. Hann var útgerðarmaður í Vestmannaeyjum nálega sex áratugi, vélamaður og formaður. Hann gegndi forustu í mörgum merkum félagasamtökum Eyjamanna, svo sem Björgunarfélagi Vestmannaeyja, Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja, Ísfélagi
Vestmannaeyja o.fl. Hann stofnaði Skipasmíðastöð Vestmannaeyja árið 1941 og rak hana um tugi ára. Þá sat hann í Hafnarnefnd kaupstaðarins um árabil og gat sér þar góðan orðstír. Einnig sat hann í bæjarstjórn kaupstaðarins um tugi ára frá 1938.
Ársæll Sveinsson var kvæntur frú Laufeyju Sigurðardóttur, sem ættuð var úr Njarðvíkum. Hann lézt 14. apríl 1969.
1093. Myndarammar. Á þriðja tugi aldarinnar og lengur bjuggu í Uppsölum (nr. 51 A) við Vestmannabraut öldruð hjón. Þau hétu Guðmundur Einarsson og Guðrún Þorfinnsdóttir. Þau áttu 8 börn og voru flest þeirra uppkomin þá. Eitt af börnum þeirra er Sigurður Guðmundsson, sem búsettur er á Skagaströnd. Þegar á unga aldri reyndist hann áberandi handlaginn. Hann tók snemma til að skera út. Byggðarsafnið á umgjörðir, sem hann skar út ungur að árum, svo sem umgjörðina um myndina af séra Hallgrími Péturssyni sálmaskáldi, rammann um fermingarmynd Þórunnar Ketilsdóttur frá Uppsölum o.fl. (Sjá mynd nr. 1 og nr. 2 hér í safninu).
1094. Íslenzku bóndahjónin öldruðu. Ágúst Sigmundsson, útskurðarmeistari í Reykjavík, skar þau út. Þ.Þ.V. gaf þau Byggðarsafninu.
1095. Trérenglur. Bergur Guðjónsson á Kirkjubæ skar þær út. (Sjá næsta nr.)
1096. Ljósmyndarammi, sem Bergur Guðjónsson á Kirkjubæ skar út nokkrum dögum áður en hann lézt, en það var 5. maí 1940. Systir hans, frú Lára Guðjónsdóttir, húsfr. á Kirkjulandi (nr. 10) við Birkihlíð, gaf Byggðarsafninu þessa þrjá s.n. útskornu muni eftir Berg Guðjónsson, bróður sinn.
1097. Kassi, stokkur, útskorinn. Hann er mjög gamall. Sennilega um 200 ára. Þegar hjónin Jón Sighvatsson, sem síðar gerðist kunnur bóksali hér í Eyjum, og frú Karólína Oddsdóttir fluttust til Eyja árið 1898, áttu þau þennan útskorna stokk. Þá var hann sagður mjög gamall. Lokið fylgdi honum ekki, þegar Byggðarsafnið eignaðist hann.
1098. Borðvog, búðarvigt. Þessi borðvog var notuð hér í verzlun einokunarkaupmanns í Danska-Garði, Austurbúðinni, um tugi ára, líklega frá því að Brydearnir keyptu verzlunarréttindin hér í Eyjum og settust hér að, en það var árið 1844. Vogin var notuð fram á annan tug þessarar aldar.
1099. Borðvog, búðarvigt. Hún var fyrst notuð hér í Verzlun Egils Jakobsen, sem hann hóf að reka hér árið 1913. Síðan eignaðist Verzlunin Anna Gunnlaugsson vogina, þegar hún keypti verzlunarhús Jakobsensverzlunarinnar við Bárustíg (nr. 3) eftir lát Halldórs héraðslæknis Gunnlaugssonar 1924 (Sjá Blik 1972).
1100. Lóð, vigtarlóð. Það er enskt að uppruna. Það vegur 56 lbs eða sem næst 25,4 kg. Enginn veit aldur lóðsins. Ef til vill gæti það verið frá tímum enskra kaupmanna hér í Eyjum, t.d. frá byrjun 16. aldar. Lóðið fannst hér í jörðu árið 1876, eftir því sem næst verður komizt.
1101. Vogarlóð. Það vegur eitt lýsipund eða 16 pund (8 kg.). Lóð þetta var eign Edinborgarverzlunarinnar, Verzlunar Gísla J. Johnsen. Það var notað á svokallaða desimalvigt. Hún vó tífalda þyngd lóðsins. Þannig var vegið með þessu lóði hálft skippund eða 160 pund (80 kg). Desimalvog var notuð, þegar vegin var þungavara, svo sem fiskur, kol, salt o.s.frv.
1102. Vogarlóð. Það er 100 pund (50 kg.) að þyngd. Á því er hið konunglega danska merki Kristjáns konungs IX. Lóð þetta var notað í einokunarverzluninni í Danska-Garði hér um tugi ára.
1103. Vogarlóð af yngri gerðinni. Það vegur 10 kg. og var notað á desimalvog og þannig vegið með því 100 kg. þungi.
1104. Vogarlóð, sem vegur eitt kg. og var ýmist notað í Verzlun G.J.J. á borðvog eða desimalvog.
1105. Vogarlóð, sem vegur hálft kg. eða 500 grömm. Það var ýmist notað á borðvog eða desimalvog.
1106. Reizla. Hún er smíðuð úr eirblendi. Magnús bóndi Eyjólfsson, hinn kunni snillingssmiður á Kirkjubæ, smíðaði reizluna. Bæjarfógetahjónin, Sigfús M. Johnsen frá Frydendal, og frú Jarþrúður Pétursdóttir Johnsen frá Kálfafellsstað, gáfu Byggðarsafninu reizluna. Reizlan var lengi í eigu frú Sigríðar Árnadóttur Johnsen, húsfr. í Frydendal, móður bæjarfógetans.
1107. Reizla, smíðuð úr járni. Hún er með steinlóði, mjög gömul. Sigurður smiður Sæmundsson frá Hallormsstað (nr. 11) við Brekastíg gaf Byggðarsafninu reizluna.
1108. Reizla. Hún var lengi í eigu búenda á Gamla-Hrauni í Stokkseyrarhreppi, einskonar fylgifiskur þeirrar jarðar. Hún er mjög gömul.
Guðmundur Jónsson, fyrrv. skipstjóri og bátasmíðameistari, Háeyri (nr. 11) við Vesturveg, gaf Byggðarsafninu reizluna, sem hann erfði eftir foreldra sína, bóndahjón á Gamla-Hrauni.
1109. Reizlulóð. Reizlan sjálf barst aldrei Byggðarsafninu.
1110. Reizla, smíðuð úr eirblendi. Reizlu þessa átti Árni Jónsson, útgerðarmaður í Görðum (nr. 32) við Vestmannabraut (Árni í Görðum). Magnús bóndi Eyjólfsson á Kirkjubæ smíðaði reizluna og gróf á hana orðin „Árni í Görðum“.
1111. Reizla með þríhyrndum hönkum. Lóðið úr blýi, sem rennt er í koparhulstur. Reizlu þessa átti einn af kunnustu formönnum hér á sinni tíð, Bernótus Sigurðsson, Vestra-Stakkagerði. Hann fórst með allri áhöfn sinni árið 1920, þegar v/b Már fórst. Bernótus formaður var kvæntur frú Jóhönnu Þórðardóttur, systur Ágústs Þórðarsonar, yfirfiskimatsmanns, Aðalbóli. Hann gaf Byggðarsafninu reizluna. (Sjá annars Blik 1957, bls. 117).
1112. Reizla. Hún er mjög gömul, enda með steinlóði. Reizla þessi var smíðuð austur á Síðu á fyrri hluta síðustu aldar og notuð m.a. um tugi ára á sl. öld á bænum Á, en þar bjuggu foreldrar Sigurðar verkamanns í Hruna (nr. 9) við Miðstræti (Sjá Blik 1972, bls. 95—103) Þorleifssonar. Börn Sigurðar Þorleifssonar og frú Margrétar Gunnlaugsdóttur, konu hans, gáfu Byggðarsafninu reizluna eftir þeirra dag.
1113. Skálavog. Þessi skálavog var eign Halldórs Gunnlaugssonar héraðslæknis, sem var mikilsmetinn læknir hér 1906—1924. Hann notaði mikið þessa vog á fyrstu starfsárum sínum hér í kauptúninu, sérstaklega á árunum
1906—1913, en þá var engin lyfjabúð rekin hér, svo að læknirinn varð sjálfur að laga lyfin handa sjúklingum sínum. Börn læknishjónanna gáfu Byggðarsafninu vogina eftir þeirra dag.
1114. Gormvog. Jón Sighvatsson, bóksali í Jómsborg (nr. 9) við Víðisveg, átti þessa gormvog.
1115. Reizla. Hún er merkt: Guðm.G.1935. Reizlu þessa átti Guðmundur Guðlaugsson verkamaður að Sólbrekku (nr. 21) við Faxastíg. Hann bjó lengi í óvígðri sambúð með frú Unu Jónsdóttur, skáldkonu. Þau höfðu nokkra kvikfjárrækt, og þau ræktuðu sér æðistórt tún suður í Kinn. Þau seldu mjólk í bæinn um árabil.
Guðmundur Guðlaugsson hafði ánafnað Byggðarsafninu reizluna eftir sinn dag.
Magnús Eyjólfsson, bóndi á Kirkjubæ, mun hafa smíðað hana. (Sjá Blik 1963, bls. 108—119).
1116. Reizla, sem er að hálfu leyti skálavog. Efnið er eirblendi. Þessar litlu vogir voru helzt notaðar til að vega á smágert band, fræ, sykurlús í bakstur, krydd o.fl. þess kyns. Karl Guðmundsson, skipstjóri gaf Byggðarsafninu vogina.
1117. Reizla. Þessi reizla er skaftfellsk að uppruna, send Byggðarsafninu að gjöf um langan veg. Hún er sérleg að því leyti, að teinninn er skeyttur saman af mismunandi málmblöndu á listilegan hátt.
1118. Lóð af svokallaðri teinvog, en það orð er myndað af danska orðinu tenvigt. Vogir með þessum léttu lóðum og af þessari gerð voru helzt notaðar til þess að vega fræ eða smágert band. Þessar vogir voru algengar í Danmörku frá því um 1800. Lóðið lék um vogarteininn með því að hann gekk í gegnum lóðið.
Frú Thora Bryde, kona Jóhanns Péturs Th. Bryde kaupmanns í Danska-Garði á árunum 1879—1910, átti þessa teinvog, sem lóðið er af. Því miður eignaðist Byggðarsafnið ekki sjálfa vogina.
1119. Reizla úr járni með sérlegu lagi. Þessi reizla er frönsk að uppruna.
Árið 1913 fékk hinn franski ræðismaður í Reykjavík, Brillouin, leigða lóð á
Eiðinu í Eyjum til þess að byggja þar beinamjölsverksmiðju. Grunnurinn
var steyptur, en svo varð ekki meir úr þeim framkvæmdum. Þetta franska
hlutafélag, Brillouin og Co, flutti nokkur tæki til Eyja, m.a. þessa reizlu.
Geir vélstjóri Guðmundsson á Geirlandi (nr. 8) við Vestmannabraut eignaðist þessa reizlu og dætur hans gáfu hana Byggðarsafninu að honum látnum.
1120. Reizla úr járni. Hana átti Sigurður útgerðarmaður Hróbjartsson á Litlalandi (nr. 59) við Kirkjuveg.
1121. Lóð, tíu kvinta lóð, sem notað var í Austurbúðinni. Eitt kvint var jafnt 5 grömmum. Hér er því um 50 gramma lóð að ræða.
1122. Lóð. Tíu gramma lóð af eilítilli skálavog. Lóðið átti Jón formaður Ingimundarson, Mandal (nr. 18) við Njarðarstíg.
1123. Lóð, járnlóð. Tíu punda eða fimm kg. járnlóð, sem geymzt hafði á góðum stað frá því að Godthaabsverzlunin, Miðbúðin, var lögð niður. Það var um 1890.
1124. Lóð úr eirblendi. Það vegur eitt lýsipund eða 16 pund, þ.e. 8 kg.
1125. Lóð, sem vegur 25 kvint eða 1/4 úr pundi, því að 100 kvint voru í hverju pundi eða 200 kvint í einu kg. Lóð þetta er ársett 1848.
1126. Reizla, smíðuð úr eirblendi. Magnús bóndi Eyjólfsson á Kirkjubæ smíðaði þessa reizlu. Á hana er greipt ártalið 1928. Þessa reizlu átti Lárus G. Árnason frá Búastöðum, kunnur bifreiðastjóri hér í bæ á sinni tíð. Hann ánafnaði Byggðarsafninu reizluna eftir sinn dag.
1127. Reizla. Þessi reizla er erlend að gerð. Lóðið er áletrað.
1128. Reizla. Þessa reizlu áttu hjónin í Sjávarborg (nr. 8) við Sjómannasund, frú Kristín Vigfúsdóttir og Halldór Brynjólfsson frá Gvendarhúsi. Þau eignuðust hana úr dánarbúi fósturforeldra Halldórs, hjónanna í Gvendarhúsi, Jóns bónda Jónssonar og frú Sesselju Jónsdóttur. (Sjá Blik 1954, bls. 1—9).
1129. Reizla. Þessi litla koparreizla er úr dánarbúi hjónanna á einni
Kirkjubæjarjörðinni (Norðurbænum), frú Höllu Guðmundsdóttur og Guðjóns bónda Eyjólfssonar.
Frú Halla Guðmundsdóttir frá Prestshúsum, dótturdóttir hjónanna, gaf Byggðarsafninu reizluna.
1130. Reizla. Þetta mun vera elzta reizla Byggðarsafnsins. Hún er smíðuð úr járni og er með blýlóði. Blýinu er rennt í koparhulstur. Reizlan mun vera um 100 ára gömul, smíðuð austur í Mýrdal og flutt hingað um aldamótin.
1131. Fjaðravogir tvær, erlendar að gerð. Við vitum engin deili á þeim.
1132. Rúmfjöl, sem er ársett 1788 Hún er sem sé 190 ára gömul, þegar þetta er skráð. Þessi rúmfjöl átti hér í Eyjum Gottskálk Hreiðarsson, verkamaður. Hann flutti hingað frá Vatnshól¹) í Landeyjum árið 1912 (f. 1867; d. 1936). Hann gaf hana Byggðarsafninu nokkru fyrir endadægur sitt.
1133. Rúmfjöl með útskornum stöfum á miðri fjöl. Þar standa stafirnir R.J. Rúmfjöl þessa átti frú Ragnhildur Jónsdóttir í Stóra-Gerði, móðir þeirra systra frú Sigurfinnu Þórðardóttur, húsfr. í Gerði, konu Stefáns Guðlaugssonar, útgerðarmanns og skipstjóra, og frú Jónínu Þórðardóttur, sem á sínum tíma var gift Vilhjálmi Brandssyni gullsmiði í Hvammi við Kirkjuveg. Frú Sigurfinna gaf Byggðarsafninu rúmfjölina, eftir að móðir hennar lézt árið 1937.
1134. Rúmfjöl, sem öll er skorin út. Þetta er hin nafnkunna rúmfjöl, sem Bjarni bóndi Bjarnason á Kirkjulandi í Landeyjum skar út á árunum 1880—1885. Bjarni bóndi var fæddur að Hvoli í Mýrdal 29. jan. 1821. Þegar hann var á bernsku- og æskuskeiði var handlagni hans og snilldar handbragð haft á orði. Þá smíðaði hann rokk og lítinn vefstól.
Árið 1848 kvæntist Bjarni smiður Bjarnason heimasætunni á Kúfhól í
A.-Landeyjum, Katrínu Jónsdóttur bónda Þorsteinssonar og konu hans frú Guðrúnar Jónsdóttur. Ungu hjónin Bjarni og Katrín reistu bú á Kirkjulandi í sömu sveit.
Svo gerðust sérlegir atburðir. Einar gullsmiður Eiríksson, sem ég get um hér í Minjaskránni í kaflanum um skrautmuni, kom aftur frá Utha í Ameriku árið 1885 og tók að boða mormónatrú í Landeyjum. Þarna dvaldist hann við trúboð sitt veturinn 1885—1886 og sagt er, að honum hafi orðið býsna vel ágengt. Víst er um það, að Bjarni bóndi Bjarnason á Kirkjulandi afréð að hverfa vestur til Utha vorið 1886 frá konu sinni, þar sem hún var ófáanleg til þess að flytja af landi brott. „Hún kaus að bera beinin á Íslandi,“ stendur skráð í merkri heimild. Frú Katrín lézt í Hallgeirsey árið 1908, þrotin að sjón og kröftum. — Fáum árum fyrir andlátið hafði hún gefið rúmfjölina Margréti litlu dóttur hjónanna í Hallgeirsey, Jóns bónda Guðmundssonar og frú Ingibjargar Jónsdóttur bónda og formanns Brandssonar. Þau hjón fluttu til Eyja árið 1903 og fengu þá byggingu fyrir jörðinni Svaðkoti fyrir ofan Hraun á Heimaey. Síðar var bær þessi fluttur og hlaut þá nafnið Suðurgarður. Margrét dóttir hjónanna var þá 7 ára, er þau fluttu til Eyja.
Gjafvaxta giftist hún Árna J. Johnsen frá Frydendal í Eyjum og bjuggu þau í Suðurgarði um árabil. Þau gáfu Byggðarsafninu rúmfjölina.
1135. Rúmfjöl, sem er ársett 1883. Ónafngreind hjón áttu þessa rúmfjöl og standa fangamörk þeirra á rúmfjölinni: I.S. og M.S.D.
1136. Rúmfjöl með útskorinni rós á miðju og flúri til endanna. Þessa rúmfjöl gaf frú Jóhanna Jónasdóttir húsfr. í Nýjabæ Byggðarsafninu. Hún var kona Sigurðar Þorsteinssonar sjómanns og bónda þar. Jónas Helgason, faðir Jóhönnu, og kona hans Salvör Jónsdóttir fluttu úr Mýrdal til Vestmannaeyja 1860 eða þar um bil.
¹) Leiðr. (Heimaslóð).