Blik 1978/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1978



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

Framhald, (1. hluti)


(Í Bliki, ársriti Vestmannaeyja, hefi ég áður birt skýringar við 989 muni í Byggðarsafni Vestmannaeyja, þ.e., árin 1972, 1973 og 1976 eða 29., 31. og 32. árgangi ritsins. Hér kemur svo framhaldið).


16. kafli
Buddur, veski, sparifjárbækur o.fl.


990. „Budda“, prjónaður „peningapungur“ frá tímum dalanna, markanna og skildinganna. Þennan peningapung áttu bóndahjónin á Kirkjubæ, Björn Einarsson og frú Guðríður húsfr. Hallvarðsdóttir. Þau voru foreldrar Guðjóns bónda á Kirkjubæ og frú Guðbjargar Björnsdóttur húsfr. í Gerði. Hjónin Björn og Guðríður hófu búskap á Kirkjubæ árið 1885 og höfðu þá verið gift í eitt ár eða svo.
Tengdadóttir hjónanna, frú Ólöf Lárusdóttir húsfr. á Kirkjubæ eftir þeirra dag, gaf Byggðarsafninu „peningapunginn“.
991.„Budda“, prjónaður „peningapungur“, enskur að lögun og gerð. Peningapung þennan átti Gísli bóndi Eyjólfsson á Búastöðum, faðir Eyjólfs fyrrv. skipstjóra í kaupstaðnum, og frú Lovísu húsfr. á Búastöðum. — Góðviðrisdag einn árið 1896 var Gísli bóndi Eyjólfsson á skaki suður af Súlnaskeri. Þar setti hann í vænan þorsk. Þegar hann hafði bylt honum inn í bátinn, féll þessi hlutur úr gini hans. Okkur er tjáð, að enskir togarasjómenn hafi oft sézt handleika þessa prjónuðu „peningapunga“, þegar þeir komu í íslenzka höfn til kaupa á síðari hluta síðustu aldar. — Eyjólfur Gíslason skipstjóri gaf Byggðarsafninu „budduna“.
992. „Budda“. Þennan „peningapung“ áttu hjónin Eyjólfur bóndi Eiríksson og frú Jórunn Skúladóttir. Þau bjuggu á Norðurbæjarjörðinni á Kirkjubæjum á síðustu áratugum 19. aldarinnar.
993. Bréfaveski. Á því stendur ártalið 1790. — Frú Þórdís Magnúsdóttir prestsfrú á Ofanleiti á árunum 1827—1859, kona séra Jóns Austmanns Jónssonar, sóknarprests, erfði bréfaveski þetta eftir móður sína, frú Helgu Ólafsdóttur (f. 1752), sem var kona Magnúsar Andréssonar klausturhaldara á Þykkvabæ í Álftaveri.
Dóttir prestshjónanna á Ofanleiti var frú Jórunn húsfreyja í Jómsborg í Vestmannaeyjum. (Seinast var íbúðarhús þetta nr. 9 við Víðisveg í kaupstaðnum).
Hún erfði veskið eftir móður sína. Fósturdóttir hennar var frú Kristín Árnadóttir, sem síðar giftist Jóhanni Jónssyni bónda Vigfússonar í Túni. Hún erfði veskið eftir fósturmóður sína. Sonur Kristínar og Jóhanns er hinn þekkti trésmíðameistari í kaupstaðnum, Engilbert Jóhannsson. Hann gaf Byggðarsafninu veskið.
994. Sparisjóðsbók. Þetta var viðskiptabók við Landsbanka Íslands í Reykjavík á árunum 1902—1906 og sögulegt sýnishorn af þeim bókum bankans þá.
Bókin er nr. 7867. Bók þessa áttu hreppstjórahjónin í Eyjum, frú Jóhanna Gunnsteinsdóttir, húsfr. og Jón Jónsson, bóndahjón í Dölum í Eyjum um árabil. Eftir þeirra dag (Sjá Blik 1962, bls. 236—240) var Gísli J. Johnsen, kaupmaður, skipaður fulltrúi erfingjanna, þegar dánarbúið var gert upp. Bókin var síðan í fórum hans. Hann gaf síðan Byggðarsafninu bókina.
995. Sparisjóðsbók. Þetta var viðskiptabók við Sparisjóð Vestmannaeyja hinn fyrri, sem Eyjamenn stofnuðu árið 1893. Hann var starfræktur til ársins 1920, en þá var hann sameinaður hinu nýstofnaða Íslandsbankaútibúi í Eyjum, sem hóf starf sitt í kaupstaðnum þetta ár. Sparisjóðsbók þessi var notuð á árunum 1899—1917 og er nr. 114. Bókina átti og notaði Sigfús M. Johnsen í Frydendal í Eyjum, síðar kunnur embættismaður í Reykjavík og bæjarfógeti í fæðingarbyggð sinni, Vestmannaeyum, frá 1940—1949. Bókina notaði hann mest á námsárum sínum. Hann gaf hana Byggðarsafninu.
996. Sparisjóðsbók. Viðskiptabók við útibú Íslandsbanka í Vestmannaeyjum á árunum 1928—1930. Bók þessa átti Ungmennafélag Vestmannaeyja, sem var stofnað árið 1928 og starfaði fá ár. Bókin er nr. 2248.
997. Sparisjóðsbók. Viðskiptabók við Sparisjóð Vestmannaeyja hinn síðari, sem stofnaður var árið 1942 og starfar mikið og vel, þegar þetta er skrifað.
998. Sparisjóðsbók. Þetta er sýnishorn af viðskiptabók við Útvegsbanka Íslands, Vestmannaeyjum, árið 1937. Hana átti Garðræktin í Háagarði eða undirritaður (Þ.Þ.V.)
999. Sparisjóðsbók Verkamannafélagsins Drífanda, sem stofnað var 1917.
1000. Sparisjóðsbók við Útvegsbanka Íslands árið 1928.
1001. Veski. Þetta peningaveski átti einn kunnasti útgerðarmaður í Vestmannaeyjum á sinni tíð, Jón Jónsson, Hlíð (nr.4) við Skólaveg.
1002. Sparisjóðsbók við Landsbanka Íslands árið 1974 (sýnishorn).
1003. Sparisjóðsbók við Landsbanka Íslands árið 1978 (sýnishorn).


17. kafli
Skrifföng og skrifpúlt


1004. Pappírshnífur. Þennan pappírshníf átti einn af kunnustu útvegsmönnum hér í bæ á fyrri helmingi þessarar aldar, Jón Jónsson í Hlíð (nr. 4) við Skólaveg. Kona hans var Þórunn Snorradóttir. Frú Ásta dóttir þeirra hjóna gaf Byggðarsafninu hnífinn.
1005. Skrifspjald með upphleyptum línum. Það er ætlað blindum til þess að læra að skrifa línurétt. Skrifspjald þetta átti og notaði Halldór Brynjólfsson, sjómaður frá Norðurgarði, fóstursonur Jóns bónda Jónssonar í Gvendarhúsi og frú Sesselju Jónsdóttur konu hans.
Halldór Brynjólfsson missti sjónina milli tektar og tvítugs. Hann lærði að skrifa línurétt með tíð og tíma, m.a. með því að nota spjald þetta. (Sjá Blik 1954, bls. 1—9)
1006. Pennastöng. Þessa mjög venjulegu pennastöng, áður en fyllingarpennarnir komu til sögunnar, notaði um tugi ára einn af kunnustu skrifstofumönnum hér í bæ og gjalderi Lifrarsamlags Vestmannaeyja um árabil, Bjarni Jónsson á Svalbarða, kvæntur frú önnu Tómasdóttur. (Sjá nr. 620 hér í skránni).
1007. Pennastöng. Hún er vafin grænum silkiþræði. Hún er merkt: Jón Einarsson 1903. Pennastöng þessa átti og notaði um árabil einn af þekktustu verzlunarmönnum hér í bæ á sinni tíð, kaupfélagsstjóri, kaupmaður og útgerðarmaður, Jón Einarsson á Gjábakka (nr. 8 við Bakkastíg). Hann kvæntist heimasætunni á Gjábakka, Sesselju Ingimundardóttur, árið 1898. Hún var dóttir hjónanna á Vestri-Gjábakka, Ingimundar hreppstjóra og bónda Jónssonar og frú Margrétar Jónsdóttur bónda Einarssonar á Gjábakka. Frú Sesselja vafði stöngina og saumaði síðan í vafið nafn manns síns og ártalið.
1008. Reiknispjald með griffli. Þessi tæki voru almennt notuð við reikningskennslu í barnaskólum hér á landi fyrstu tvo tugi aldarinnar eða lengur. Reiknispjald þetta átti Engilbert Gíslason, málarameistari. Hann gaf það Byggðarsafninu.
1009. Þerriblaðsvalta. Hún var algengt tæki á skrifborðum til þess að þerra með skrift á fyrstu tugum aldarinnar, en hvarf af skrifborðum manna við vaxandi notkun sjálfblekunganna. Þessa þerriblaðsvöltu átti og notaði Jón útgerðarmaður Jónsson í Hlíð (nr. 4) við Skólaveg.
1010. Skrifpúlt. Það er smíðað úr harðviði. Oftast höfðu menn þessi litlu skrifpúlt á hnjám sér, þegar skrifað var á þeim. Þægilegt þótti, að geyma pappír og ritföng í púltum þessum. Frú Sesselja Ingimundardóttir á Gjábakka mun hafa erft þetta skrifpúlt eftir föður sinn, Ingimund Jónsson bónda og hreppstjóra. Hann mun hafa smíðað það sjálfur og notað það um árabil. Ingimundur hreppstjóri lézt árið 1912. Frú Sesselja gaf síðan Berent Sveinssyni Sigurhanssonar frá Brimnesi í Eyjum skrifpúlt þetta, og hann gaf það Byggðarsafninu.
1011. Pappírshnífur. Bergur Guðjónsson bónda Björnssonar á Kirkjubæ smíðaði þennan pappírshníf og skar út skaftið. Síðan gaf hann hnífinn sveitunga sínum, Sigfúsi M. Johnsen frá Frydendal í Eyjum. Hann notaði hnífinn um árabil, m.a. þau ár, sem hann var bæjarfógeti í Eyjum, og gaf hann síðan Byggðarsafninu.
1012. Skrifpúlt. Það er með skúffu. Þessi skrifpúlt voru venjulega látin vera á borði, þegar þau voru notuð.
Einn af kunnustu Eyjabúum um aldamótin síðustu átti þetta skrifpúlt og notaði það mikið í opinberum störfum. Nafns hans verður ekki getið hér samkvæmt óskum gefenda.
1013. Skrifpúlt. Þetta skrifpúlt átti og notaði um tugi ára hinn kunni bóndi í Gvendarhúsi hér í Eyjum, Jón Jónsson, kvæntur frú Sesselju Jónsdóttur bónda Gíslasonar í Túni. Jón bóndi í Gvendarhúsi var fæddur 30. okt. 1833. Faðir hans var Jón Símonarson, bóndi í Gvendarhúsi. Bóndahjónunum Jóni og frú Sesselju í Gvendarhúsi varð ekki barna auðið, en þau fóstruðu nokkur börn, sem erfitt áttu uppdráttar. Ef til vill sannar það bezt manngæzku þeirra og manndóm. Jón bóndi Jónsson lézt árið 1919. Hann þótti hygginn bóndi og var kunnur hreppsnefndarmaður í Eyjum um eitt skeið. (Sjá nánar um þau hjónin í Bliki 1956, bls. 67—71, og Blik 1958, bls. 116—117).
1014. Blekbytta. Hún er gjörð úr málmblendi. Við köllum hana Hina konunglegu blekbyttu. Sigfús Maríus Johnsen frá Frydendal hér í Eyjum, fyrrv. bæjarfógeti hér, las á sínum tíma lög við Kaupmannahafnarháskóla. Hann dvaldist oft síðar í borginni. Þar átti hann skólabræður, sem lokið höfðu lagaprófi ásamt honum árið 1914. Skólabróðir hans var háttsettur embættismaður við konungshirðina dönsku. Hann gaf Sigfúsi bæjarfógeta blekbyttu þessa, sem gaf hana Byggðarsafninu. Þá hafði hann átt hana hálfa öld.
1015. Tréblýantur. Þessi tréblýantur er um það bil aldar gamall. Matthías hét lærður „snikkari“ frá Danmörku. Hann var Markússon. Hann settist að hér í Vestmannaeyjum eftir að hann lauk trésmíðanámi í Danmörku um það bil árið 1840. Hér kvæntist hann Solveigu Pálsdóttur fyrrverandi sóknarprests Jónssonar á Kirkjubæ. Hún var ein af þeim fyrstu íslenzkra kvenna, sem lærði ljósmóðurfræði í Danmörku. — Matthías Markússon „snikkari“ byggði hér „Stiftelsið“ (Landlyst) árið 1847 og svo íbúð þeirra hjóna við austurenda Stiftelsisins (Landlystar) árið eftir (árið 1848). Þannig er Landlyst við Strandveg hér í bæ þann dag í dag. Afkomendur þeirra hjóna voru t.d. Ásgeir Ásgeirsson, fyrrv. forseti, og Ragnar Ásgeirsson, garðyrkjuráðunautur. Þeir voru barnabörn þeirra hjóna Matthíasar „snikkara“ og frú Solveigar ljósmóður. Frá þeim barst tréblýantur þessi Byggðarsafninu.


18. kafli
Snyrtitæki


1016. Skegghnífur. Þennan skegghníf átti einn af kunnustu borgurum þessa bæjar á sinni tíð og snillingssmiður Sigurður Ísleifsson í Merkisteini (nr. 9) við Heimagötu. Um tvítugt smíðaði hann sér hulstrið utan um rakhnífinn sinn. Hvorttveggja gaf hann Byggðarsafninu eða börn þeirra hjóna eftir fráfall hans.
Sigurður Ísleifsson var fæddur 1. ágúst 1863. Kona hans var frú Guðrún Jónsdóttir frá Káragerði í Landeyjum (Sjá Blik 1969, bls. 159—169).
1017. Skegghnífur.
1018. Rakvél. Nokkru eftir aldamótin tóku að fást rakvélar keyptar hér í verzlunum. Hér á Byggðarsafnið eina af elztu gerð þeirra.
1019. Krullujárn. Snyrtitæki þetta átti frú Anna Gunnlaugsson, kona héraðslæknisins Halldórs Gunnlaugssonar.
1020. Krullujárn. Snyrtitæki þetta átti frú Ingibjörg Högnadóttir frá Baldurshaga.


19. kafli
Gleraugu og sjónaukar


1021. Gleraugu í málmumgjörð. Þessi gleraugu átti og notaði Halldór Brynjólfsson frá Norðurgarði. Hann notaði þau á bernsku- og æskuskeiði sínu, þar til hann missti sjónina að fullu og öllu milli tektar og tvítugs. Samt stundaði hann sjó hér í Eyjum um tugi ára. (Sjá Blik 1954, bls. 1—8)
1022. Gleraugu í gleraugnahúsum. Á gleraugnahúsin eru skornir stafirnir G.Ö.S. og ártalið 1895. Þessi gleraugu átti fyrsti vitavörðurinn í Stórhöfða, Guðmundur Ögmundsson, sem bjó lengi í Batavíu, íbúðarhúsinu nr. 8 við Heimagötu. Áður hét þetta tómthús Brandshús. — Þegar vitinn var tekinn í notkun í Stórhöfða árið 1906, gerðist Guðmundur Ögmundsson vitavörður þar. Vitavarðarstarfinu gegndi hann næstu fjögur árin. Sjálfur smíðaði hann gleraugnahúsin. Friðrik Guðmundsson, vélstjóri, sonur vitavarðarins, gaf Byggðarsafninu þessa hluti. Hann bjó í Batavíu með frú Sigríði Guðmundsdóttur, konu sinni, um tugi ára og var jafnan kenndur við það hús.
1023. Sjónauki. Þessi sjónauki fannst fyrir nokkrum árum undir yfirborði jarðar austur á Skansi. Kunnugir Eyjabúar verzlunarstjórahjónunum í Danska-Garði, Antoni Bjarnasen, faktor, og konu hans frú Sigríði Guðmundsdóttur, telja, að þau hafi átt þennan kíki, því að þau höfðu iðulega yndi af að fylgjast með ferð skipa og báta um höfnina. Til þess höfðu þau líka góða aðstöðu, þar sem þau bjuggu austur við Skansinn.
Gísli Eiríksson, þá verkstjóri í Eyjum, fann sjónaukann og gaf hann Byggðarsafninu.
1024. Gleraugnahús. Þau eru smíðuð úr silfri. Það gerði Gísli gullsmiður Lárusson í Stakkagerði. Hann smíðaði þau handa frú Jóhönnu Lárusdóttur, systur sinni, húsfreyju á Litlu-Grund við Kirkjuveg (nr. 31). Þetta var afmælisgjöf gullsmiðsins til góðrar systur, er hún fyllti 60 árin. Það var árið 1928.
Árni símritari Árnason, sonur hjónanna á Litlu-Grund, frú Jóhönnu og Árna Árnasonar tómthúsmanns þar, gaf Byggðarsafninu gleraugnahúsin.
1025. Gleraugu. Þau eru dekkri en gengur og gerist, eins konar snjóbirtugleraugu. Frú Matthildur Guðmundsdóttir á Löndum (Stóru-Löndum, nr. 11 við Landagötu) átti þessi gleraugu. Hún var ljósmóðir hér í Eyjum á árunum 1905—1923. Áður var hún húsmóðir á Dyrhólum í Mýrdal og ljósmóðir þar í hreppi á árunum 1877—1905. Eiginmaður hennar var Þorsteinn bóndi Árnason á Dyrhólum.
Þau voru foreldrar frú Elínar Þorsteinsdóttur húsfr. á Löndum, konu Friðriks Svipmundssonar, hins kunna útgerðarmanns og aflasæla skipstjóra í Vestmannaeyjum.
Frú Matthildur ljósmóðir fæddist 14. ágúst 1848 og lézt að Stóru-Löndum 14. febr. 1937.
1026. Gleraugu.
1027. Gleraugu.
1028. Sjónauki (kíkir). Þennan sjónauka átti Þorsteinn Jónsson, bóndi og alþingismaður í Nýjabæ hér á Heimaey. Hann lézt á alþingi 28. ágúst 1886.
Þorsteinn Jónsson var seinni maður frú Kristínar Einarsdóttur húsfr. í Nýjabæ (d.1899). Sjónauka þennan eignaðist Þorsteinn Jónsson árið 1861, þegar hann fluttist vinnumaður austan úr Mýrdal til frú Kristínar Einarsdóttur, sem þá var ekkja Magnúsar Austmanns Jónssonar, alþingismanns og bónda í Nýjabæ.
Eftir lát Þorsteins alþingismanns eignaðist Lárus bóndi Jónsson, hreppstjóri á Búastöðum, sjónaukann. Eftir lát hans 1895 erfði Pétur bóndi Lárusson á Búastöðum hlutinn. Ekkja hans, frú Júlíana Sigurðardóttir, fyrrum húsfr. á Búastöðum, gaf Byggðarsafninu sjónaukann.
Sjónaukar eins og þessi voru orðnir algeng verzlunarvara í Reykjavík um miðja 19. öldina.
1029. Sjónauki (kíkir). Þennan sjónauka átti Jón bóndi og bátasmiður Pétursson í Þórlaugargerði. Hann erfði sjónaukann eftir föður sinn, Pétur bónda Benediktsson í Þórlaugargerði. — Fóstursonur Jóns bónda og konu hans, frú Rósu Eyjólfsdóttur frá Kirkjubæ, var Jón Guðjónsson bóndi og smiður frá Oddstöðum. Hann gaf Byggðarsafninu sjónaukann.
1030. Sjónauki. Þennan sjónauka (kíki) átti Árni bóndi og hreppstjóri Diðriksson í Stakkagerði (d. 1903) Hann var seinni maður frú Ásdísar húsfr. Jónsdóttur frá Berufirði eystra, hinnar merku húsmóður í Stakkagerði um tugi ára. Hún lézt 21. nóv. 1892. Þessi hjón, frú Ásdís og Árni, voru tengdaforeldrar Gísla Lárussonar, gullsmiðs, útgerðarmanns og kaupfélagsstjóra í Stakkagerði, foreldrar frú Jóhönnu Árnadóttur í Stakkagerði, eystri jörðinni.
1031. Sjónauki. Hann átti Jón útgerðarmaður og hákarlaformaður Ingimundarson í Mandal (nr. 18) við Njarðarstíg. Hann var einn af kunnustu athafnamönnum í Eyjum á liðinni öld, sonur Ingimundar hreppstjóra, bónda og útgerðarmanns Jónssonar á Gjábakka og konu hans frú Margrétar Jónsdóttur bónda Einarssonar á Gjábakka.
1032. Sjónauki. Þennan sjónauka átti Halldór Gunnlaugsson, héraðslæknir, sem hér starfaði frá 1906—1924. Þau hjón frú Anna og Halldór bjuggu að Kirkjuhvoli (nr. 65) við Kirkjuveg. Hann drukknaði norðan við Eiðið í desember 1924. Eftir fráfall hans rak frúin verzlun hér í bæ að Bárugötu 3 um árabil.


20. kafli
Brennimörk


Margir einstaklingar í Eyjum áttu jafnan brennimark, sem var þannig notað, að það var glóðhitað yfir eldi og hlutir síðan merktir með því.
Þetta tæki var mikil nauðsyn eins og fyrrum var háttað afkomu manna og lífsbaráttu. Þurrabúðarmenn, tómthúsmenn, sem engin tök höfðu á að afla sér og sínum afurða af jarðnæði eða með búrekstri, kostuðu jafnan kapps um að eiga samt fáeinar kindur. Handa þeim keyptu þeir beit í úteyjum yfir sumartímann, fengu að hafa þær þar í skjóli bændanna í Eyjum, sem einir höfðu rétt á öllu beitilandi, bæði á Heimaey og í úteyjum. —
Eyrnamörkin á kvikfénu sögðu ekki rétt til um það, hver eða hverjir væru hinir eiginlegu eigendur þessa fjár, heldur brennimörkin á hornunum, því að fé þetta var jafnan keypt af bændum í Landeyjum eða undan Eyjafjöllum. Af þessum gildu ástæðum sóttust bændur og þurrabúðarmenn í Eyjum jafnan eftir því að kaupa hyrnt fé til útigöngu, hvort sem því var ætlað að ganga á Heimaey eða í úteyjum.
Útvegsmenn brennimerktu sér einnig ýmsa hluti útgerðar sinnar, svo að eignarrétturinn væri óvéfengjanlegur.
En fyrst skulu skilgreind hin konunglegu brennimörk.
1033. Löggildingarbrennimark. Það er danskt og merkt Kristjáni V. Danakonungi, sem mun hafa sett lög um notkun þessara brennimarka.
Kórónan er hluti brennimarksins, tákn hins konunglega valds. Þessi brennimörk áttu að heita að vera réttaröryggi Íslendinga í viðskiptunum við einokunarkaupmennina dönsku. Ýmsar vörur voru jafnan seldar eftir máli, t.d. korn, salt, kol o.fl. Mál þessi voru löggilt með því að umboðsmenn konungsvaldsins brennimerktu þau með þessum löggildingarbrennimörkum, sem svo voru kölluð. Þannig gat kaupandinn sannfærzt um, að málin væru rétt og ekki svikin. — Kristján konungur V. lézt árið 1670.
Þetta brennimark notaði einokunarverzlunin í Danska-Garði hér á Heimaey. Það fannst á hanabjálkalofti eins af verzlunarhúsunum. Þar hirti Stefán Árnason, fyrrv. yfirlögregluþjónn, það og gaf Byggðarsafninu.
1034. Löggildingarbrennimark. (Sjá fyrra númer). Þetta brennimark var notað í Júlíushaabverzluninni á Tanganum eða Tangaverzluninni, sem einnig var tugi ára á fyrri öld eign einokunarkaupmannsins í Danska-Garði.
Ónefnd fjölskylda hér átti þetta brennimark um 70 ára bil, þar til það var gefið Byggðarsafninu.
1035. Brennimark: U.st.SS. Brennimark þetta átti Unnsteinn Sigurðsson, sem bjó um árabil að Vesturvegi 23 hér í bæ. Hann var á sínum tíma kunnur bátasmiður í bænum og vann að bátasmíðum hér um tugi ára.
1036. Brennimark: S.G.S. Þetta brennimark átti Stefán Guðlaugsson, kunnur skipstjóri, útgerðarmaður og bóndi í Gerði hér á austanverðri Heimaey. Foreldrar hans bjuggu einnig á þessari jörð (Stóra-Gerði) öll búskaparárin sín. Þeir voru Guðlaugur Jónsson, útgerðarmaður, formaður og bóndi, og frú Margrét Eyjólfsdóttir. Þau hjón voru í hópi brautryðjenda í jarðrækt á Heimaey fyrir og um síðustu aldamót.
1037. Brennimark: VE 163. Þetta brennimark átti „Skuldarútgerðin“, þ.e. útgerð v/b Skuldar VE-163. Þessi bátur var keyptur til Eyja árið 1912. Sjá nánar um hann við nr. 222 hér í skránni.
1038. Brennimark: Ó.Á. Ólafur Ástgeirsson, formaður og bátasmíðameistari frá Litlabæ (nr. 16) við Miðstræti, átti þetta brennimark og gaf það Byggðarsafninu.
1039. Brennimark: Á.Þ.S. Þetta brennimark átti Ágúst yfirfiskimatsmaður Þórðarson á Aðalbóli. Um 30 ára skeið átti hann fé. Það keypti hann á haustin af „Landbændum“ og keypti handa því vetrarbeit í úteyjum. Þetta var á árunum 1924—1954.
1040. Brennimark: B.B.S. Brennimark þetta átti Brynjólfur smiður Brynjólfsson á Litlalandi (nr. 59) við Kirkjuveg. Eitt sinn var hann „spítalaráðsmaður“ hér í kaupstaðnum. Annars stundaði hann smíðar um tugi ára og m.a. beykisstörf.
1041. Brennimark: Gotta. Þetta er brennimark vélskipsins Gottu eða Gottuútgerðarinnar. Þetta vélskip varð frægt á sínum tíma (1929), þegar það var notað í Grænlandsferðina nafnkunnu. Það var Gottuleiðangurinn svonefndi (Sjá Blik 1967, bls. 329 og byssu nr. 1269 hér í safninu.
1042. Brennimark: G.Ó. og Co. Þetta brennimark átti og notaði fyrirtækið Gunnar Ólafsson og Co á Tanganum um tugi ára. Það var stofnað árið 1910. Þá keypti það gömlu verzlunarhús Julíushaabverzlunarinnar á Tanganum og byggði þá ný verzlunarhús á verzlunarlóðinni. Það rak síðan verzlun, útgerð o.fl. um langt skeið
1043. Brennimark: H.S. Brennimark þetta átti Högni bóndi Sigurðsson í Vatnsdal (nr. 30) við Landagötu. Högni var sonur Sigurðar Sigurfinnssonar hreppstjóra á Heiði og fyrri konu hans frú Þorgerðar Gísladóttur, sem kennd var við tómthúsið Skel eftir að þau hjónin skildu samvistir. Högni var barnakennari á Norðfirði fyrir og um aldamótin síðustu á eigin vegum og barnakennari hér í fæðingarsveit sinni veturna 1904—1908. Þá gerðist hann íshússtjóri Ísfélags Vestmannaeyja og stjórnaði þar fyrstu frystivélum, sem keyptar voru til landsins. (Sjá Blik 1963, bls. 163—181).
1044. Brennimark: J.H. Þetta brennimark átti Jón Hjálmarsson, útgerðarmaður, Sætúni (nr. 10) við Bakkastíg. Kona Jóns Hjálmarssonar var frú Fríður Ingimundardóttir hreppstjóra og bónda Jónssonar á Gjábakka.
1045. Brennimark: Jón. Jón Ingimundarson frá Gjábakka, útvegsbóndi og hákarlaformaður í Mandal (nr. 18) við Njarðarstíg, átti þetta brennimark. Hann átti jafnan margar kindur í úteyjum í skjóli föður síns, sem bjó á annari Gjábakkajörðinni.
1046. Brennimark: K.V. Þetta brennimark átti frú Kristín Vigfúsdóttir, kona Halldórs Brynjólfssonar frá Norðurgarði. Sjá nr. 1021 hér í skránni. Hún átti jafnan nokkrar kindur í úteyjum. Þær keypti hún af „Landbændum“ á haustin og kom þeim til beitar eftir að hafa brennimerkt þær á hornum.
1047. Brennimark: P.L. Brennimark þetta átti Pétur bóndi Lárusson á Búastöðum.
1048. Brennimark: 149. Þetta brennimark notuðu eigendur v/b Marz VE-149. Vélbátur þessi var keyptur til Eyja árið 1926. Björgvin Jónsson í Úthlíð (nr. 58 A) við Vestmannabraut átti 1/3 hlut í báti þessum og var formaður á honum níu vertíðir samfleytt. Hann gaf Byggðarsafninu brennimarkið.
1049. Brennimark: Á.Ó. Brennimark þetta átti Árni bóndi Ólafsson í Túni á Heimaey.
1050. Brennimark: E.S. Þetta er brennimark Einars Sigurfinnssonar fyrrum bónda á Iðu í Biskupstungum, föður hr. Sigurbjarnar biskups Einarssonar. Einar beiddist þess, að Byggðarsafnið vildi eiga þetta brennimark til minnis um 12 ára starf hans hér í Eyjum.
1051. Brennimark: Olga. Þetta brennimark átti útgerð vélbátsins Olgu VE-139. Útgerð hennar hófst árið 1909. Vélbátur þessi var 8,98 rúmlestir (tonn) að stærð með 10 hestafla Dan-vél. Guðmundur Jónsson, formaður á Háeyri (nr. 11) við Vesturveg og bátasmíðameistari, var formaður á v/b Olgu 11 vertíðir. Báturinn var seldur úr bænum árið 1919. Tveim árum síðar hófst útgerð á v/b Olgu VE-239. Guðmundur Jónsson var einnig formaður á þeim vélbáti samtals 18 vertíðir. Öll þessi útgerðarár notaði hann þetta brennimark á hina ýmsu hluti útgerðarinnar, svo sem línuból, bjóð, stokktré o.fl. — Guðmundur Jónsson gaf Byggðarsafninu brennimarkið til minningar um öll formannsárin sín og útgerðarstörf við báða þessa vélbáta.
1052. Brennimark: Nói. Jón Stefánsson, formaður í Mandal, dóttursonur Jóns hákarlaformanns Ingimundarsonar, gerði út lítinn vélbát, sem hann kallaði Nóa. Útgerð þessi átti þetta brennimark. Jón Stefánsson gaf það Byggðarsafninu.
1053. Brennimark: H.B. Þetta brennimark átti Halldór Brynjólfsson eiginmaður frú Kristínar Vigfúsdóttur. Hann var sonur Brynjólfs bónda Björnssonar í Norðurgarði og fóstursonur hjónanna í Gvendarhúsi, Jóns bónda Jónssonar og frú Sesselju Jónsdóttur. H.B. stundaði sjó og vann að öðru leyti öll sín verk eins og alsjáandi maður, enda þótt hann væri blindur frá æskuárunum.
Þessi brennimörk hjónanna sanna okkur, að eignir þeirra voru ekki skráðar aðeins á aðra hönd. Fullkomið jafnrétti var þar ríkjandi.
1054. Brennimark: S.St. Þetta brennimark átti Stefán Stefánsson, skipstjóri frá Gerði á Heimaey, sonur Stefáns skipstjóra og útgerðarmanns Guðlaugssonar bónda Jónssonar, Gerði.
1055. Brennimark: S.G.S. Þetta brennimark átti Stefán útgerðarmaður, skipstjóri og bóndi í Gerði.
1056. Brennimark: Þ.Þ.V. Þegar undirritaður var á æskuskeiði í fóstri hjá hjónunum á Hóli í Norðfirði, Vigfúsi Sigurðssyni frá Kúfhóli í Landeyjum og Stefaníu Guðjónsdóttur frá Hamarsholti í Hrunamannahreppi, þá smíðaði fóstri minn mér þetta brennimark til gamans okkur báðum. — Þegar við hjónin höfðum til ábúðar hér í Eyjum eina af Vilborgarstaðajörðunum, Háagarð (1935—1947), áttum við sum árin kindur í úteyjum. Þá merktum við þær með þessu brennimarki.
Við biðjum nú Byggðarsafn Vestmannaeyja að geyma það fyrir okkur til minningar um þessi farsælu búskaparár og þátt okkar í tilveru safnsins.
1057. Brennimark: B.S. Þetta brennimark átti Björn útgerðarmaður Sigurðsson í Heiðarhól (nr. 16) við Brekastíg. Erfingjar hans gáfu það Byggðarsafninu.
1058. Brennimark: Guðjón. Þetta brennimark átti Guðjón Jónsson, skipstjóri á Heiði (nr. 19) við Sólhlíð. Hann var einn af kunnustu vélbátaformönnum í Eyjum á sinni tíð, — stjúpi Einars ríka Sigurðssonar.
1059. Brennimark: Þ.G. Þorvaldur Guðjónsson frá Sandfelli (nr. 36) við Vestmannabraut var um langt skeið hér í bæ kunnur skipstjóri, og aflasæll svo að af bar oft og tíðum. Hann átti þetta brennimark.
1060. Brennimark: Á.B. Þetta brennimark átti Árni Böðvarsson rakarameistari og útgerðarmaður í kaupstaðnum hér um tugi ára, eigandi hins nafnkunna vélskips Gottu.

II. hluti