Blik 1978/Í Bæjarbókasafni Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1978



Í Bæjarbókasafni Vestmannaeyja


ctr


Hér birtir Blik mynd af þrem mönnum, sem eiga sér merka sögu í Vestmannaeyjum. Veggmyndin er af Bjarna E. Magnússyni sýslumanni Eyjafólks á árunum 1861—1872. Hann beitti sér fyrir stofnun Lestrarfélags Vestmannaeyja árið 1862 með þeim séra Brynjólfi Jónssyni, sóknarpresti, og J.P. Bryde kaupmanni.
Þetta Lestrarfélag varð vísir að Sýslubókasafni Vestmannaeyja og svo Bæjarbókasafni kaupstaðarins. (Sjá sögu Bókasafns Vestmannaeyja, sem birt er í Bliki 1962, 23. árg. ritsins.)
Þannig eru nú liðin 116 ár, síðan vísir að bókasafni Eyjafólks var stofnaður í Vestmannaeyjum. Fullyrða má, að bókasafn þetta hafi flest árin síðan miðlað Eyjafólki bókum til lesturs og fróðleiks, þó að á ýmsu hafi gengið um rekstur þess frá einu tímaskeiði til annars.
Átakanlegust var niðurlæging og vanhirðan á bókasafninu á árunum 1918—1923. Þá var það látið mygla í saggafullum húsakynnum. Um það segir í merkri heimild: „... Þá var safnið að grotna niður í hrúgum á kjallaragólfi barnaskólans ...“
Maðurinn til vinstri á myndinni er Hallgrímur Jónasson, kennari við barnaskólann í Vestmannaeyjum á árunum 1921—1931. (Hann var 84 ára, þegar þessi mynd var tekin). — Segja má með sanni, að hann hafi átt ríkastan þátt í því að endurreisa bókasafn Eyjabúa, taka það myglað og fúkkað til hirðu og handargagns og hefja á ný reglubundin útlán á því. Það gerðist árið 1924.
Næstu 6 árin vann Hallgrímur Jónasson sleitulaust að þessu verki. Hann bjargaði miklum hluta safnsins frá algjörri tortímingu og hóf safnið „til vegs og virðingar“, ef ég mætti orða það þannig. A.m.k. óx Eyjafólki skilningur á margþættu gildi þess, eftir að Hallgrímur tók að starfrækja það og tryggði því örugga framtíð og eðlilegan og heilbrigðan viðgang í kaupstaðnum.
Maðurinn til hægri á myndinni er Haraldur Guðnason bókavörður. Hann hefur verið bókavörður Bæjarbókasafns Vestmannaeyja síðan árið 1949. Þá taldist bókasafn Vestmannaeyja eiga um 3000 bindi. Nú telur bókasafn Eyjabúa um 22000 bindi og þó munu hafa tapazt um 1500 bóka í eldgosinu, afleiðingar af þeim ósköpum, sem þá dundu yfir Eyjabyggð.
Þannig hefur Haraldi Guðnasyni tekizt að efla þróun eða vöxt Bókasafns Eyjabúa s.l. 29 ár, sem hann hefur verið bókavörður kaupstaðarins í Eyjum. Allir Eyjabúar ljúka upp einum munni um ágæti starfsins og þann myndarbrag, sem þar hefur ríkt í starfinu frá fyrstu tíð, þrátt fyrir þröng og ófullnægjandi húsakynni, þar til nú að hann er fluttur með safnið í nýja safnahúsið, sem mun vera hið fullkomnasta eða eitt hið fullkomnasta, sem til er í landinu.
Áður en Haraldur Guðnason gerðist bókavörður við Bæjarbókasafn Vestmannaeyja, hafði hann verið bókavörður hjá Einari Sigurðssyni frystihúsaeiganda og útgerðarmanni. Hjá þessum stóratvinnurekanda unnu tugir fólks við hraðfrystistöð hans og útgerð í Eyjum árið í kring. Um það bil sem hann tók að reka hraðfrystistöð sína, festi hann kaup á bókasafni í eigu einstaklings, 2—3 þúsundum binda, og hóf að reka þetta bókasafn til gagns og gleði starfsfólki sínu í kaupstaðnum. Mundi þetta framtak hans ekki vera einsdæmi í allri atvinnusögu íslenzku þjóðarinnar? —
Bókasafn Einars Sigurðssonar undir stjórn Haralds Guðnasonar óx ár frá ári með því að allar bækur, sem þá komu út á landinu, voru keyptar handa safninu.
Þetta einstæða bókasafn Einars Sigurðssonar annaðist Haraldur Guðnason í 7 ár, áður en hann gerðist bókavörður Bæjarbókasafnsins.


ctr


Hjónin frú Ille og Haraldur Guðnason í Bæjarbókasafninu.


ctr



Þetta glœsilega veggteppi prýðir húsakynni Bókasafns Vestmannaeyja. Veggteppi þetta hefur kona bókavarðarins Haraldar Guðnasonar, frú Ille Guðnason, saumað og gefið Bókasafninu.
Mynsturgerðin á teppinu mun vera forn gerð evrópskra veggteppa og hlaðin táknum, sem lýsa og vernda. Frúin gefur okkur þessa skýringu á mynstrunum:
Þetta er svokallað bænateppi. Aðaltákn þess er lífstréð stórt og lítið. Lamparnir tákna ljósgjafa, sem á að bera birtu í stofnuninni. Viss bekkur eða útsaumsrönd í teppinu á að tákna einskonar verndarvætt, sem verndar heimilið eða húsið fyrir veikindum. Þá eru einnig mörg hamingjuhjól í bekkjunum eða röndum teppisins. Yzti bekkurinn á að tákna vizku, t.d. bókvit.


Of almennt hefur hér á landi verið ríkjandi sú venja að geta maka að litlu eða engu, þegar getið er um mikilsvert starf einhvers manns eða jafnvel ævistarf. Nú er þessi siður að breytast. Ef til vill er það „jafnréttiskrafan“, sem haft hefur áhrif til góðs í þessum efnum. Mér þótti t.d. verulega vænt um það, að þáttur konu minnar gleymdist ekki, þegar Eyjabúar fögnuðu Byggðarsafni Vestmannaeyja á sínum stað í safnabyggingunni sinni nýju. Þannig skal það einnig vera, þegar minnzt er hins mikla og mikilvæga starfs, sem Haraldur Guðnason, bókavörður, hefur innt af hendi áratugum saman til eflingar Bæjarbókasafni Vestmannaeyja.
Kona Haraldar Guðnasonar er Ille Emilie H.F. Guðnason, þýzk að ætt. Hún hefur vissulega reynzt honum og Eyjafólki í heild traustur bakhjarl í bókavarðarstarfi manns síns. Lengi vel vann hún kauplaust með manni sínum að þessu starfi honum til trausts og halds. En nú síðustu árin hefur bæjarstjórn ráðið hana aðstoðarbókavörð við Bæjarbókasafnið og hefur hún þá notið einhverrar þóknunar fyrir starf sitt.
Þegar við tveir skegglausir karlar skeggræddum á s.l. vori um liðin ár og ég spurði Harald bókavörð, hvað væri honum ríkast í huga, þá svaraði hann: „Það skal ég segja þér hreinskilnislega. Þá er það fyrsta eldgosið. Þá var mér brennandi sú spurning, hvort takast mætti að bjarga bókakosti safnsins. — Í öðru lagi eru mér orð tveggja kvenna minnisstæð. Þá var ég loks eftir flutning og hrakninga kominn með hluta safnsins í rúmgóða kennslustofu í barnaskólahúsinu. Þá sögðu tvær Vestmannaeyjakonur við mig hvor í sínu lagi, þegar þær komu til þess að fá sér lánaðar bækur: „Það þurfti sem sé gos til þess að þú kæmist í almennilegt húsnæði með bókasafn bæjarins.“
Í þriðja lagi vekur það mér sár minni, að bæjarráð þverneitaði að fallast á þá einu tillögu, sem ég gerði um breytingu á innréttingu í húsrými bókasafnsins í nýja safnahúsinu.
Ég vona þó einlæglega, að sá sári atburður mætti fyrnast og gleymast við hin ljúfu minni frá þeim stundum, er við hjónin gátum unnið að því að flytja bókasafnið í hin glæsilegu húsakynni og koma því þar fyrir. Þær unaðsstundir gleymast ekki.“
Hinn 1. des. á s.l. ári (1977) komu ráðandi menn Vestmannaeyjakaupstaðar með boðsgestum sínum saman í húsrými Bæjarbókasafnsins á neðri aðalhæð hins nýja safnahúss. Þar var þess minnzt, að bókasafnið væri nú flutt í hin veglegu og rúmgóðu húsakynni í safnahúsinu nýja, sem þá hafði verið í byggingu í kaupstaðnum undanfarin átta ár. Þá voru liðnir hart nær fjórir áratugir frá því að fyrst var imprað á því, hversu nauðsynlegt væri að byggja safnahús í kaupstaðnum. Stundum var mál þetta líka harðsótt. Lengi vel kom það fyrir ekki. Við skulum hylma yfir þau átök öll að sinni.
Við óskum bænum okkar og Eyjabúum í heild innilega til hamingju með nýja safnahúsið.

Þ.Þ.V.