Blik 1976/Dyrhólaey
Einhverju sinni heyrði ég því fleygt, að hver sá, sem sæi sæmilega skýrt „dyrnar“ á Dyrhólaey af austanverðri Heimaey í björtu veðri, teldist sjá vel frá sér.
Talið er, að frá lokum ísaldar hafi Dyrhólaey verið syðsti tangi landsins þar til árið 1918, er Katla bar fram svo mikið af jarðefnum, að sérstakur tangi myndaðist suður af Hjörleifshöfða. Sá tangi var kallaður Kötlutangi í mæltu máli í landinu með almenningi, en Mýrdælingar munu hafa kallað hann Höfðatanga vegna afstöðu hans til Hjörleifshöfða.
Fyrsta áratuginn eftir Kötluhlaupið mikla 1918 var Kötlutangi talinn syðsti tangi landsins. En svo tók Ægir að sverfa utan af honum jafnt og þétt. Og nú er Dyrhólaey sögð hafa tekið aftur við hinu virðulega hlutverki sínu að vera syðsti tangi landsins, eins og hún er sögð hafa verið frá örófi alda eða síðan Ísland varð til, svo að ekki sé of djúpt í árinni tekið. Þannig varð sigurinn hennar að lokum, eins og hins viljasterka og óhaggandi einstaklings, sem sýnir í hvívetna skapfestu og hugrekki. Fasta og trausta jarðbergið eins og sálarberg einstaklingsins bilar aldrei, og ekki, þó að rigni eldi og brennisteini og öldur ægis hins mannlega lífs urgi og surgi, skafi og meitli.
Dyrhólaey er 120 metra há, þar sem hún er hæst. Lengd hennar frá austri til vesturs er sem næst 2000 metrar. Breiddin frá norðri til suðurs er sem næst 1300 metrar, en af þeirri vegalengd er mjór bergtangi um 400 metrar á lengd. Hann gengur til suðurs. Hæð hans er 95 metrar. Hliðar hans eru lóðréttir bergveggir frá hafi að brún. Í þeim bergvegg er „dyragáttin“, sem bergtangi þessi dregur nafn af. Sjór fellur um „gáttina“ og er þar fært litlum báti.
Á flestum sjókortum erlendum a.m.k. er Dyrhólaey nefnd „Portland“ sökum dyranna (Portsins).
Úr hafinu suður af Dyrhólaey rísa sker og drangar. Hæstur er Háidrangur, sem er 56 metra hár; þá Lundadrangur, sem er 54 metrar; síðan Mávadrangur, sem er 35 metra hár, og Kambur, sem er 43 metra hár.
Að ofan er Dyrhólaey allmikið gróin, og þar er sums staðar allmikill moldar jarðvegur.
„Hvergi hefi ég séð basalt svo vindsorfið sem þar. Sem dæmi um vindsörfunina má nefna, að hún er búin að eyða öllum jökulrispum af hraunhellunni nema þar sem eitthvert skjól hefur verið. Á norðanverðri lágeyjunni liggur víða sandsteinsklöpp ofan á hrauninu, en hún er nú víða að veðrast burt. Á einum stað, þar sem svo stendur á, hefi ég fundið greinilega ísrákir á hrauninu. Það bendir til þess, að þær hafi ekki verið farnar að mást, þegar foksandsskaflarnir hlóðust upp á eynni að norðan, en þeir eru nú orðnir að fastri klöpp ... Þessir geysistóru sandskaflar virðast hafa hlaðizt upp í fádæma miklum sandstormum eftir ísaldarlokin, en efni þeirra er að mestu vikurborinn, grófur sandur, blandaður smágerðri möl ...“
Mikið og fjölbreytt fuglalíf er á Dyrhólaey og í kringum hana. Sjófuglar hreiðra sig tugþúsundum saman í bergveggjunum og dröngunum suður af þeim.
(Þó nokkur hluti þessara fróðleiksmola er tekin traustataki úr grein um Dyrhólaey, sem birt er í Náttúrufræðingnum, 3. og 4. hefti 1967. Höf.: Einar H. Einarsson, bóndi og sjálfmenntaður jarðfræðingur, frá Skammadalshóli, Mýrdal).