Blik 1976/Bréf til vinar míns og frænda, V. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit Blik 1976ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


(Æviþáttur)
(5. hluti)


Fyrsta lota

(Framhald)


Dómurinn fellur
Fulltrúi bæjarfógeta, sem hafði einskonar „prókúru“ eða umboð frá dómsmálaráðuneytinu til þess að fella dóma í ýmsum málum í kaupstaðnum án afskipta bæjarfógeta, lauk nú loks við að fella dóm í meiðyrðamáli fjármálaráðherra gegn Þ.Þ.V. Þá kom í ljós, að afla mátti ríkissjóði tekna með því að háttsettir embættismenn ríkisins gerðu sér það til dægrastyttingar að ærumeiða þegnana af tilefnislausu og gegn gildandi landslögum. Ég var dæmdur til að greiða ríkissjóði kr. 1000,00 fyrir þá bíræfni eða ósvífni að svara ráðherranum fullum hálsi, þó að hann gerði sér það til gamans að reyna að svipta mig ærunni. Jafnframt var ég dæmdur til að greiða honum sjálfum kr. 400,00 í málskostnað. Samtals nam þessi greiðsla tæpum hálfsmánaðarlaunum mínum, eins og föst laun mín voru þá.
Og hvað hafði ég svo til saka unnið? Ég hafði fórnað eigin fjármunum í vandræðum mínum til þess að gagnfræðaskólinn gæti eignazt nauðsynlegt tæki til að efla félagsstörfin í skólanum, sem áttu að auka áhrif hans í uppeldisstarfi stofnunarinnar. Í öðru lagi leitaðist ég við af fremsta megni að ná valdaaðstöðu, svo að ég gæti hindrað það, að byggingarframkvæmdirnar við gagnfræðaskólahúsið yrðu stöðvaðar í miðjum klíðum.
Ég hrósaði happi að hafa ekki ráðið mér málafærslumann. Ég vissi deili á kerfinu og þekkti allt mitt heimafólk, vissi fyrirfram, hvernig dómurinn myndi falla.
Ég sendi þér, frændi minn, afrit af bréfum mínum til dómsmálaráðuneytisins, þegar ég reyndi eftir megni að sækja rétt minn í skaut þess:

Vestmannaeyjum, 12. des. 1950.

Með bréfi dags. 25. júlí s.l. til yðar, tjáði ég yður, að formaður Sjálfstæðisflokksins hér, Guðlaugur Gíslason, kaupmaður, Skólavegi 21 hér í bæ, hefði á almennum framboðsfundi 27. jan. s.l. lesið upp bréf, sem hann sagði vera frá „ráðuneytinu“ og fjallaði um skattamál mín.
Í þessu bréfi mínu til yðar beiddist ég þess, að þér létuð fram fara réttarrannsókn í máli þessu, hver væri höfundur bréfsins, hvernig hann hafði fengið efnið í bréfið, hvort bréfið var upphaflega sent nefndum Guðlaugi til upplesturs á fundinum eða hvort annar maður hefði lánað honum það, t. d. skattstjórinn hér, til upplesturs í eyru almennings.
Bæjarfógetinn hér hefur tjáð mér, að þér hafið fyrirskipað rannsókn í máli þessu og að rannsókn hafi farið fram. Hinsvegar hefur bæjarfógetinn neitað mér afdráttarlaust um að fá að kynnast þvi, sem fram fór í þessum réttarhöldum og að fá lesið yfir það, sem skráð kann að hafa verið í þeim. Mánuðir munu liðnir, síðan þessi réttarhöld fóru fram, og enn hef ég ekkert frá yður heyrt heldur um þau.
Ég þykist eiga þegnlegan rétt á að fá ýtarlega greinargerð um þessi réttarhöld og leyfi mér því hér með að biðja yður með fullkominni virðingu að láta mér í té leyfi til þess að lesa réttarbækur fógeta þar um og að þér tjáið mér jafnframt, hvað þér ætlizt fyrir í málinu. Ég sætti mig ekki við að verða að trúa því, að réttarfarið i landinu sé svo rotið og máttvana, að hægt sé að lesa meiðyrðabréf í eyru almennings, án þess að sjálft dómsmálaráðuneytið sé því vaxið með öllu undirliði sínu að fá upplýst, hver er höfundur bréfsins eða hvaðan efni þess er fengið. Ég krefst þess, að þér gerið skyldu yðar í þessu máli og sýnið myndugleik yðar.
Í Tímanum 15. apríl 1950 er fullyrt, að skattstjórinn hér hafi lánað þetta umrædda bréf til upplesturs á umræddum fundi. Ég leyfi mér hér með að benda yður á þetta og krefjast enn rannsóknar.

Virðingarfyllst.
Þorsteinn Þ. Víglundsson.
Dómsmálaráðuneytið,
Reykjavík.


Og enn barst mér ekkert bréf frá dómsmálaráðuneytinu. Hins vegar tjáði fulltrúi bæjarfógeta mér, dómarinn, að dómsmálaráðuneytið bannaði sér enn afdráttarlaust að segja mér niðurstöðu rannsóknarinnar.
Nafnið á höfundi „skattsvikabréfsins“ fengi ég aldrei skjalfast í hendur. Og þetta tjáði dómarinn mér brosandi. Ég skyldi ofur vel hvað klukkan sló. Hæstiréttur var kunnur að því að dæma að lögum.
Í aðra röndina fannst mér þetta orðið broslegt fyrirbrigði. Hræðslan við þennan sektaða þegn, sem greitt hafði ríkissjóði þó nokkurt fé, nær hálf mánaðarlaun sín, fyrir þá þjónustu eins af ráðherrunum, að æruskerða þegninn alsaklausan. Það gat orðið dýrt spaug ráðherranum, ef t.d. Hæstiréttur fengi mál þetta til meðferðar. Það óttuðust hinir háu herrar í embættismannaklíkunni. Vika leið af næsta ári (1951). Þá skrifaði ég dómsmálaráðuneytinu þriðja bréfið. Það fer hér á eftir:

Vestmannaeyjum, 7. jan. 1951.

Þar sem ég hef ekki enn fengið nein svör frá yður eða greinargerð varðandi erindi mitt í bréfum mínum dags. 25. júlí og 12. des. f.á., þá leyfi ég mér enn á ný að biðja yður eða krefjast þess, að þér svarið erindi mínu um rannsókn í því máli, er þar um er fjallað og sendið mér ítarlega greinargerð um rannsókn þess, hafi hún farið fram, sem bæjarfógetinn hér fullyrðir, þó að hann jafnframt neiti mér um að kynnast rannsóknarskjölunum eða bókunum þar um, að mér skilst samkvæmt boði yðar. Jón Eiríksson skattstjóri, sem rak meiðyrðamál á hendur mér s.l. ár fyrir hönd upplesara umrædds „skattsvikabréfs,“ lýsti því yfir í bæjarþingi Vestmannaeyja í september s.l. haust, að þetta umdeilda bréf væri víst. Hann neitaði því jafnframt ekki, að það mundi finnast á vegum Jóhanns Þ. Jósefssonar, þá krefst ég þess, að framhaldsrannsókn verði látin fara fram í þessu máli og mér gefinn kostur að vera áheyrandi þeirra réttarhalda.
Ef þér enn ætlið yður að hunza þetta erindi mitt og leyfa mér ekki að fylgjast með þessum rannsóknum eða ganga úr skugga um, að þær nokkru sinni hafi fram farið, hlýt ég að álykta, að réttarfarið í landinu undir yðar valdi sé meira en lítið rotið og görótt og vilhalt flokksbræðrum yðar, þ. e. dómsmálaráðherra.
Hafi ég ekki fengið fullnægjandi svör frá yður fyrir lok þessa mánaðar, mun ég endurtaka þessa beiðni mína til yðar opinberlega og birta almenningi þessi bréf mín. Afrit af bréfi þessu er sent sjálfum dómsmálaráðherranum.

Virðingarfyllst.
Þorsteinn Þ. Víglundsson.

Til Dómsmálaráðuneytisins, Rvík.

Risgjöld Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum áttu sér stað 29. sept. 1951, eða mánuði eftir að átökin miklu hófust um framhald á byggingarframkvæmdum.

Tók því fyrir þessa valdamenn íslenzka lýðveldisins að fordæma réttarfarið „austantjalds?“
Og sjá: Nú loks var mér anzað!
- Bjarni Benediktsson var orðinn dómsmálaráðherra. Hann fól einum af starfsmönnum sínum að eiga símtal við mig.
Erindið var þríþætt.
Í fyrsta lagi tilkynnti þessi starfsmaður dómsmálaráðuneytisins mér, að sannazt hefði, að höfundur þessa svokallaða skattsvikabréfs, var enginn annar en fyrrverandi fjármálaráðherra, þingmaður Vestmannaeyinga, sem þá hafði skipt um hlutverk og var nú orðinn sjávarútvegsmálaráðherra, þegar hér var komið sögu.
Í öðru lagi hafði það sannazt, að efni bréfsins voru bréf skattstjórans í Vestmannaeyjum til fyrrv. fjármálaráðherra varðandi framtöl mín og samspil þeirra í þessu máli.
Í þriðja lagi færði starfsmaðurinn mér þá einlægu ósk dómsmálaráðherrans, sem jafnframt var kennslumálaráðherra og þannig húsbóndi minn að vissu marki, að gera það fyrir sín orð, að láta þetta mál falla niður, því að afleiðingarnar af þessum skrifum fyrrverandi fjármálaráðherra gætu orðið óhugnanlegar einum og öðrum aðila, ef málið yrði t. d. dæmt að lokum í Hæstarétti.
Jafnframt þessari málaleitan kennslumálaráðherrans æskti hann þess, að takast mætti góð samvinna á milli okkar í fræðslumálum Vestmannaeyinga.
Ég fór að orðum Bjarna Benediktssonar, dóms- og kennslumálaráðherra, og lét málið falla niður. Ég þekkti hann af afspurn og treysti honum, treysti á manndóm hans og góðvild í framfaramálum. Ég viðurkenni það fúslega, að hér réði eigingirni mín gjörðum mínum. Ég sá hugsjónamálum mínum hag í því að eiga kennslumálaráðherrann að í þeim málum. Enda get ég fullyrt það, að enginn kennslumálaráðherra reyndist mér betri, meðan ég var skólastjóri í Vestmannaeyjum, en Bjarni Benediktsson að öllum hinum ólöstuðum. Ráðherrann kom til Eyja árið eftir að við sömdum frið. Fyrstu gjörðir hans í kaupstaðnum var að koma í skólann til mín. Þá vorum við flutt í kjallara nýbyggingarinnar með skólann. Erindi ráðherrans var að ráðgast við mig um frekari framkvæmdir við bygginguna og útvega peningalán til þeirra hluta. Ég hafði þá á hendi til veðsetningar fyrir byggingarláni flestar eignir kaupstaðarins við höfnina. Og ráðherrann gerði sitt bezta til að útvega bæjarsjóði Vestmannaeyinga lán út á eignir þessar. Það fé skyldi síðan notað til þess að fullgera gagnfræðaskólabygginguna. Ráðherranum varð vissulega minna ágengt í þessum efnum hjá tryggingarfélögum en hann ætlaði í fyrstu. Kom þar margt til. En mörg ráð hafði hann í hendi sér. Og ég mat og dáðist að vilja hans og þjónslund við þessa byggingarhugsjón mína.
Þannig sneru hin duldu öfl þessari ofsókn mér til góðs í þessu starfi, hugsjón minni til eflingar og framdráttar.
Og líklega átti „skattsvikabréfið“ drýgstan þáttinn í því mikla fylgi, sem við Helgi Benediktsson hlutum við bæjarstjórnarkosningarnar 1950. Dómgreind Eyjafólks brást mér ekki, þegar á reyndi fremur en fyrri daginn. Og vísa ég þá til Bréfsins til þín í Bliki 1974.

Og svo leið blessaður tíminn með nýjum málsóknum, stefnum, vitnaleiðslum, meinsærum og dómum. Ég varðist af fremsta megni og skemmti mér konunglega.
Eins og ég hef tjáð þér, þá lét ég Framsóknarblaðið í kaupstaðnum birta almenningi alla greinargerð mína, sem hér er birt, sókn og vörn í deilunni við fjármálaráðherrann og skattstjórann. Það fannst mér borgaraleg skylda eins og komið var.
Þau skrif voru mikið lesin í bænum og rædd manna á milli. Þau vöktu býsna mikla athygli, og ekki síður ofstækislausra og skynugra Flokksmanna.
Helgi Benediktsson var þá ritstjóri Framsóknarblaðsins. Hann sendi blaðið út um allt land og í hina óliklegustu króka og kima þjóðfélagsins, líka í öll skot dómsmálaráðuneytisins. Þess vegna var þeim allt þetta mál þar kunnugt. Blaðið var lesið þar sökum þess, að ráðherra átti hlut að máli.


Sér grefur gröf, þótt grafi
Eftir að greinargerðin, sem ég sendi þér hér með í þessu vina og frændabréfi mínu, tók að birtast í blaðinu, sem ég nefndi, hófust umræður í bænum um þessi viðskiptamál þingmannsins og fyrirtækja hans í höfuðstaðnum. „Háttvirtir kjósendur“ stefnanda, þingmannsins, ræddu þau líka, en þó mest í „hálfum hljóðum“. Þeir stungu nánast saman nefjum um þau innan veggja heimilanna eða í saumaklúbbum og svo yfir ölskutlum innan veggja Samkomuhússins og á „leynifundum“ broddborgaranna í samkomuhúsi þeirra neðst við Heimagötuna, þar sem fundarmenn komu til móts og skeggræðna í „sjakket“ með gljáandi silkipípuhatta. Flestum fór búningurinn vel nema þeim, sem voru of þrýstnir um þjóhnappana eins og Siggi bonn og Guffi gossi!
Ekki fór þessi andi hinna lágrödduðu viðræðna fram hjá „upplesara“ skattsvikabréfsins. Sá hann sér ekki slag á borði? -Til þess að leikurinn sá mætti takast, þurfti að tryggja sér vináttu og fylgispekt vissra manna í fulltrúaráði Flokksins. Sjálfsagt hlaut það að taka nokkurn tíma. Fyrst og fremst þurfti að geta gert einlægum fylgifiskum sínum vel til og hamla því á sama tíma, að ýmsir aðrir næðu tangarhaldi eða valdaaðstöðu í metorðastiganum.
Og allt tókst þetta smám saman. Og vinátta þingmannsins var nýtt út í yztu æsar, þó að honum sjálfum væri það algjörlega hulið að hverju var stefnt og hvað skrafað var að tjaldabaki. Og í fyllingu tímans birtist árangurinn af starfi þessu.
Meistararnir Þórbergur Þórðarson og Einar ríki Sigurðsson segja svo frá í 2. bindi af ævisögu athafnamannsins, Fagur fiskur í sjó, bls. 283-284:
„Þegar Guðlaugur komst í framboð til alþingis í fyrsta sinn, hafði hann undirbúið framboð sitt í fulltrúaráði flokksins í Eyjum á bak við þáverandi þingmann Jóhann Þ. Jósefsson. En þessu var haldið svo vandlega leyndu, að J.Þ.J. hafði engar njósnir af. Þingmaðurinn var kominn til Vestmannaeyja með konu sinni til þess að sitja þar árshátíð Flokksins. Þá var alþingismanninum fært bréf þangað, þar sem hjónin voru að búa sig til hátíðarhaldanna. Bréfið var frá fulltrúaráðinu. Í bréfinu stóð skýrum stöfum, að þess væri ekki óskað, að hann yrði áfram þingmaður Vestmannaeyinga.
Þegar hjónin höfðu lesið bréfið, var þeim ríkast í huga að hætta við að taka þátt í skemmtuninni. Þó gerðu þau það og létu sem ekkert væri.“
Svo mörg eru þau orð meistaranna og miklu fleiri.
Fulltrúaráð Flokksins hafði afráðið, að „upplesari skattsvikabréfsins“ skyldi erfa þingsætið. Og það gerði hann.


Hvers vegna svo að halda
þessari sögu við lýði?
Ég hneykslast ekki á þessari spurningu. Hvað er okkur dýrmætara en óskert mannorð? Ég hef fundið mig knúðan til að hnekkja þessum lygum og óskað þess, að svör mín geymist í Bliki, þar sem ég hef birt nokkra smákafla úr ævi- og starfssögu minni á undanförnum árum.
Og viltu svara mér, vinur minn? Hvers vegna erum við að láta söguna geyma nöfn þeirra manna, sem beittu sér fyrir galdrabrennunum á 17. öldinni hér á landi? Hvort kysir þú heldur að verða brenndur lifandi með óskert mannorð en að látast á sóttarsæng ærulaus, stimplaður svikari, lygari og þjófur?
Í hvert sinn, sem trúarjátningin er lesin, minnir hin kristna kirkja á þátt Pontíusar heitins í píslarsögu Krists. Enginn álasar kristinni kirkju það.
Það tók mig um það bil tvo áratugi að uppræta úr sálarlífinu beiskju þá, sem allar þessar mannskemmdir ollu mér. Nú brosi ég að þessu öllu saman og vildi ekki hafa verið án þessara átaka fyrir nokkurn mun. Sending hinna duldu afla hugsjónamálum mínum til framdráttar!
Ég finn þó til. Ég finn til með þjóð minni, þegar trúnaðarmenn hennar og þjónar bregðast henni, verða sér og henni til minnkunar eða jafnvel svívirðingar sökum þroskaleysis eða skorts á manndómi, svo að ekki sé grófara til orða tekið.
Þegar ég er hingað kominn í þessum skrifum mínum, heyri ég, að biskupinn er að flytja ræðu í Útvarpið um séra Hallgrím Pétursson í tilefni þrjú hundruð ára ártíðar hans. Ég hætti að skrifa og hlusta af áhuga, eins og ávallt, þegar ég á þess kost að heyra hann flytja ræðu. Hann er líka embættismaður ríkisins.
Þegar biskupinn hefur flutt ræðu sína og lagt Guðríði húsfreyju gott orð, farið um nafn hennar hlýjum viðurkennandi orðum, kemst ég við og setzt á ný við skrifborðið. Ég er hrærður. Og hvers vegna það? Af því að þjóð mín hefur níðzt á nafni þessarar blessaðrar konu um aldir. Hún hefur í ræðu og riti verið dregin í svaðið sem hvert annað úrþvætti. Og enn eru sum skáld okkar „að slá sig til riddara“ með þeirri kenningu, að hún hafi verið lauslætiskvendi. Það er skepnunum óvirðing og níð að kalla slíkan skáldskap skepnuskap. Þar hæfir grófara orð um það andans sorp.
Já, ég hrærist af gleði, þegar níðingslundin er kveðin í kútinn.VI. hluti

Til baka