Blik 1974/Ræktun lands og lýðs

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974


TRAUSTI EYJÓLFSSON:


Ræktun lands og lýðs


(Vestmannaeyjakaupstaður rekur vinnuskóla barna og unglinga. Starfsemi þessi er hin markverðasta og mikilvægasta, svo að segja má með sanni, að hér eigi sér stað ræktun lýðs og lands.
Trausti Eyjólfsson, æskulýðsfulltrúi bæjarins, hefur skrifað hér nokkur orð fyrir Blik um þetta menningarstarf.)

ctr


Eitt af því heillastarfi, sem lögð er rœkt við í Vinnuskóla
Vestmannaeyja er að grœða rof á Heimaey. Ef við lítum suður í hlíðar Sœfells, þegar
við erum stödd á flugvellinum í Eyjum, sjáum við nokkur rof, sem Vinnuskólinn hefur
gert sitt til að grœða upp. - Hér birtum við tvær myndir úr þeirri ræktun.


Hin dásamlega náttúrusmíð, Heimaey í Vestmannaeyjum, er tæplega hálfur annar tugur ferkílómetra að flatarmáli. Hún er að mestu gróin og grösug. Meira að segja kemur fyrir, að fuglabjörgin séu allt að því sígræn allan ársins hring. Þó hrjáir hana uppblástur á ýmsum stöðum. Misjafnlega stór sár að vísu, en öll ljót. Þannig hafa þykkar jarðvegsspildur fletzt gersamlega af, eða þá að einstaka hólmar og torfur eru enn eftir. Ýmsir náttúruskoðarar, útlendir og innlendir, sem heimsótt hafa Vestmannaeyjar, hafa furðað sig á, að fimm þúsund manna byggðarlag, með ekki meira landrými, skuli hafa látið slíka eyðingu viðgangast. Hægt er að grípa til ýmissa skýringa og afsakana fyrir orsökum þessarar eyðingar. Ekki verður það samt reynt hér. Hitt skal aftur á móti talið, að nú eru Vestmannaeyingar staðráðnir í að stöðva þessa þróun og reyna að bæla það eftir föngum, sem eyðilagzt hefur.
Nú, hin síðari ár, hefur bæjarfélagið rekið vinnuskóla fyrir unglinga, sem staðið hefur um tveggja mánaða skeið að sumrinu. Meðal annarra verkefna skólans hefur honum verið falið að sjá um uppgræðslu og umhverfisvernd. Það hefur sýnt sig, að þar var vel ráðið. Þetta unga fólk hefur af áhuga og dugnaði tekið svo til höndunum, að nú er vörn snúið í sókn. Þá hafa ýmiss menningarfélög sent meðlimi sína til starfa, sjálfboðaliða. Þannig voru stungin niður, hlaðið fyrir og sáð í 2 km af rofabörðum, vorið 1971. Að flatarmáli reyndist það vera hálfur annar hektari. Sáð var þá einnig í flög á ýmsum stöðum um eyna, svipað flatarmál. — Sumarið 1972 var svo gert stórátak í þessu efni. Lokið var við að ganga frá uppblástursrofunum í Sæfjalli og Lyngfellisdal og sáð og borið á örfoka landið milli þeirra, svo og allan Lyngfellisdalinn. Þá var sáð í alla hlíðina suður að Kinn. Var það mikið verk og erfitt, þar sem allt varð að gjöra með höndunum.
Samtals voru bornir á 500 pokar af tilbúinni áburðarblöndu, en það eru 25 smálestir. Svæðið, sem á var borið, mun vera um 30 hektarar.
Auk þess, sem upp er talið, hefur Vinnuskólinn séð um að hreinsa öll opin svæði í bænum, götur, þar sem ekki eru gangstéttar, hafnarsvæðið og í nágrenni byggðarinnar. Af þessu svæði var safnað saman rúmlega 200 bílhlössum sumarið 1971 og 150 hlössum 1972, en þá var einnig gjört stórátak í að fjarlægja allar skranhrúgurnar, sem búið var að setja niður víðsvegar um Heimaey. Það reyndust vera 110 bílhlöss. Þó höfðu bæði einstakligar og atvinnufyrirtæki grynnt nokkuð á þessum ósóma.
Vestmannaeyingar hirða yfirleitt vel húslóðir sínar, og margir leggja fram mikla vinnu og alúð við ræktun ýmisskonar gróðurs við hús sín. Það er eins og fólk láti aldrei hugfallast í þessum efnum, þó að erfiðlega gangi oft og tíðum vegna hins óhagstæða veðurfars, sem hér er of algengt. Við vitum það, að með sömu þrautseigju og sömu elju tekst að græða öll sár landsins. Guði sé þökk fyrir hugarfar það og seiglu.

Vm 30. okt. 1972.


ctr


Til þess að gera hinu unga starfsfólki Vinnuskólans glaðan dag og breyta til, var því boðið í hringferð umhverfis Heimaey með hafnarbátnum „Lóðsinum“. Hér sitja nokkrar broshýrar meyjar framanvert við stýrishús bátsins.


ctr


Verkstjórar Vinnuskólans. Frá vinstri: Trausti Eyjólfsson, Birgir Guðsteinsson og Karl Vignir Þorsteinsson.





Þegar Guðmundur Ingvarsson, starfsmaður Kaupfélags Vestmannaeyja, fyllti sextíu árin, sendi Guðni B. Guðnason, kaupfélagsstjóri, honum þessa vísu:


Guð mun alltaf gæfu strá
á góðra manna vegi.
Óskir beztar okkur frá
áttu á þessum degi.