Blik 1973/Ólafur kaupmaður Ólafsson
Hugur minn hvarflar hálfan fimmta áratug aftur í tímann. Ég var þá gestur í þessum bæ. Hinir mörgu og virtu oddborgarar í bænum komu gestinum býsna misjafnlega fyrir sjónir, og þá ekki síður í kynningu. Þannig hefur þetta vitaskuld einnig verið þá gagnvart gesti þessum, verðandi skólamanni í kaupstaðnum. Vissar ástæður voru til að líta hann illu auga. Hann var sendur í bæinn til þess að „tæla“ uppvaxandi æskulýð inn á skólabekk frá önnunum miklu í fiskkróm og beituskúrum. Var ekki nær að hvetja uppvaxandi æskulýð, eftir að hann hafði smogið í gegnum nálarauga tektarinnar, til að vinna, ganga í fiskhúsin til að gera að fiski, í beituskúrana til að beita línuna, á bryggjurnar til þess að skipa út afurðum eða upp vörum o.s.frv.? Var verið að breyta þjóðfélaginu íslenzka í letingjabæli?
Einn af þessum gildu oddborgurum var Ólafur kaupmaður Ólafsson. Einhvern veginn dróst hugur minn að þessum manni, undi sér vel í návist hans. Eitthvað hafði hann við sig í orði og æði, sem vakti athygli mína og heillaði hugann. Og með okkur tókst góður kunningsskapur. Hann var fordómalaus maður, vandaður til orðs og æðis, stilltur vel og íhugull, — og það sem mér var mest um vert: Hann hafði brennandi áhuga á hugsjónamálum mínum hér í bæ, unglingafræðslunni, söfnun gamalla sögulegra muna og bættum verzlunarháttum almennings á samvinnugrundvelli, þó að hann væri kaupmaður sjálfur. — Hann gaf einna fyrstur manna gamla muni til Byggðarsafnsins.
Ólafur Ólafsson fæddist að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum 8. ágúst 1873. Þar bjuggu þá foreldrar hans, Ólafur bóndi Jónsson og k.h. Guðlaug Ólafsdóttir. Hér er því minnzt 100 ára afmælis þessa mæta samborgara hér í bæ.
Svo sem mörgum er kunnugt úr sögunni, þá eignaðist séra Jón Steingrímsson eldprestur fimm dætur með fyrri konu sinni, madd. Þórunni Hannesdóttur Scheving. Yngsta dóttir prestshjónanna hét Helga. Hún var glæsileg heimasæta hjá foreldrum sínum á Prestsbakka á Síðu um 1780, þegar Páll klausturhaldari Jónsson (Sjá Blik 1969, bls. 315) kom syni sínum Ólafi í læri hjá séra Jóni Steingrímssyni. Prestur skyldi búa hann undir nám í Skálholtsskóla. Það gerði hann með góðum árangri. En jafnframt náminu gaf sonur klausturhaldarans sig að heimasætunni Helgu og kveikti varanlega ást í brjósti hennar. Séra Ólafur Pálsson klausturhaldara Jónssonar kvæntist síðan Helgu Jónsdóttur, unnustu sinni frá námsárunum á Prestsbakka, árið 1787. Sonur þeirra hjóna var Jón bóndi Ólafsson í Hlíðarendakoti, sem gat af sér Ólaf föður Ólafs Ólafssonar kaupmanns að Sólheimum í Vestmannaeyjum, — þess, sem hér er minnzt. Þannig var hann fjórði liður frá séra Jóni eldspresti, eins og guðsmaður þessi og trúarhetja hefur stundum verið nefndur í sögunni.
Presthjónin séra Ólafur Pálsson og madd. Helga Jónsdóttir í Eyvindarhólum voru lengi virt og metin undir Eyjafjöllum, en þau sátu „Hólana“ nær fjóra áratugi (1797— 1835).
Óli strákur í Stóru-Mörk ólst upp við venjuleg sveitastörf, eins og þau gerðust á síðustu áratugum 19. aldarinnar. Hann reyndist allra mesti hreystigarpur, hugrakkur og slyngur fjallamaður. Hann kleif fjöll og fýlabyggðir Eyjafjalla betur og öruggar en flestir aðrir og þótti á ýmsum öðrum sviðum snjall í hetjudáðum.
Snemma tók Óli frá Stóru-Mörk að stunda sjóinn. Átján ára gamall dvaldist hann eina vertíð á Eyrarbakka og dugði vel við sjósókn þar vetrarvertíðina 1892. Þótti hann þar fiskinn á færið sitt í bezta lagi og fengsæll á góða drætti. Eftir Eyrarbakkadvölina stundaði hann sjó á vetrarvertíðum í Vestmannaeyjum og svo út frá Eyjafjallasandi, þegar svo bar undir.
Rúmlega tvítugur að aldri gerðist Ólafur Ólafsson vinnumaður í Berjanesi undir Austur-Eyjafjöllum hjá öldruðu hjónunum þar Jóni bónda Guðmundssyni og Vilborgu húsfreyju Jónsdóttur. Hjá þeim hjónum var hann vinnumaður um árabil og undi vel lífinu, enda áttu þau hjón dóttur, sem Stórumerkurpiltinum leizt vel á og felldi ást til. Hún hét Steinunn Auðbjörg.
Þegar hjónin Jón og Vilborg fluttu frá Berjanesi að Núpakoti, fylgdi Ólafur þeim og var þeirra mesta hjálparhella.
Ólafur Ólafsson vinnumaður kvæntist Steinunni dóttur hjónanna árið 1905. Þá tóku ungu hjónin við búsforráðum í Núpakoti.
Eigandi Núpakots var Þorvaldur Björnsson, sem í sögunni er oftast kenndur við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Hann bjó í Núpakoti á árunum 1863—1886.
Þegar þessi stórbrotni bóndi hafði búið á Þorvaldseyri (áður hét jörðin Svaðbæli) um tvo tugi ára og reynt sig síðan á togarútgerð í Reykjavík, vildi hann enda ævidaga sína á gömlu heimalendunum. Þá tók hann aftur Núpakot til ábúðar. Urðu þá hjónin Ólafur og Steinunn að víkja þaðan. Það var árið 1909. Þá fékk Ólafur Ólafsson inni í Hvoltungu um hríð og fleyttu þau fram bústofni sínum á leiguslægjum þar í sveitinni.
Árið 1911 fengu hjónin Ólafur og Steinunn til ábúðar prestssetrið að Eyvindarhólum undir Austur-Eyjafjöllum. Þau festu kaup á jörðinni. Þar með var Ólafur Ólafsson frá Stórumörk orðinn óðalsbóndi. Þarna undu þau sér vel. Þessi jörð, prestssetrið gamla að Eyvindarhólum, var í augum Ólafs bónda einskonar óðalssetur ættarinnar. Þar voru hin merku prestshjón séra Ólafur Pálsson, sóknarprestur, og madd. Helga Jónsdóttir búsett um langt árabil, eins og ég drap á. Vitundin um það og ættarmetnaðurinn, sem bærði á sér í brjósti Ólafs bónda, hafði öðrum þræði áhrif á framtakssemi hans á jörðinni og hug til framfara og nýbreytni í búskaparháttum. Ólafur bóndi á Eyvindarhólum gerðist brátt hinn mætasti bóndi, sem ruddi nýjar brautir í ræktunarmálum og notkun nýtízku tækja þá um öflun heyja á jörð sinni. Hann sléttaði tún jarðarinnar og græddi út, efldi nýrækt á jörðinni. Jafnframt var hann í fararbroddi um kaup og notkun nýrra tækja við heyskapinn. Hann keypti einna fyrstur bænda þar í sveit heyvagn, svo að lokið var bindingu heys á heimalendum og flutningi þess á klakk, svo að eitt mikilvægt dæmi sé nefnt um framfarahug hans og nýbreytni í búskaparháttum til aukinna afkasta við heyskapinn.
Ýmis nýtízkutæki önnur, sem þá voru kölluð „hestaverkfæri“, enda knúin afli hestsins, hóf Ólafur bóndi að nota við búskap sinn.
Vísir vélaaldar átti sér þarna stað í Eyvindarhólum í búskap þeirra hjóna. Ólafur bóndi ruddi sem sé upphafi véltækninnar braut undir Eyjafjöllum með ýmsum svokölluðum hestaverkfærum.
Ólafur Ólafsson var frá barnæsku trúhneigður maður og trúræktarmaður. Jafnan voru honum trúmálin hjartans mál og trúarlegt siðgæði honum hugleikið. Hann varð brátt meðhjálpari í Eyvindarhólakirkju, sem var annexía frá Holti. Fyrstu tvö árin, sem þau hjónin bjuggu í Eyvindarhólum, var séra Kjartan Einarsson í Holti sóknarprestur þeirra Austur-Eyfellinga. Og svo eftir dauða hans (1913) tók séra Jakob Ó. Lárusson við embættinu. Hann bjó einnig í Holti, eins og séra Kjartan tengdafaðir hans.
Þessi sæluár þeirra hjóna í Eyvindarhólum, Ólafs og Steinunnar, urðu ekki mörg, því að dauðinn skildi þau að fyrr en ætla mátti. — Frúin Steinunn Auðbjörg Jónsdóttir, húsfreyja í Eyvindarhólum, andaðist árið 1919. Árið eftir brá Ólafur bóndi búi og flutti af jörðinni. Brátt seldi hann hana.
Eftir fráfall konu sinnar dvaldist Ólafur Ólafsson um sinn í Reykjavík.
Árið 1924 fluttist Ólafur til Vestmannaeyja og dvaldist þar og starfaði síðan til dánardægurs (8. apr. 1956).
Hjónunum í Eyvindarhólum, Ólafi og Steinunni, varð þriggja barna auðið, þriggja sona.
Þeir eru þessir:
1. Kjartan hagfræðingur, búsettur í Reykjavík. Hann hefur ferðazt víða um lönd og er kunnur tungumálamaður, sem þýtt hefur bók eða bækur úr rómönskum málum og skráð bækur, sem vakið hafa athygli, svo sem ferðasaga hans frá Suður- Ameríku, bókin Sól í fullu suðri, sem mér er tjáð, að orðið hafi metsölubók á sínum tíma hér á landi.
2. Haraldur Axel, bóndi að Vallnatúni undir Eyjafjöllum.
3. Jón Hörður, vélsmiður í Reykjavík, kvæntur Guðrúnu Ingimundardóttur.
Hinir synir þeirra hjóna hafa ekki kvænzt.
Þegar Ólafur Ólafsson flutti til Vestmannaeyja, keypti hann sér verzlunarleyfi og tók að reka verzlun í bænum. Þá verzlun sína rak hann til dauðadags.
Fyrst rak hann verzlun sína í húsinu Reyni við Bárugötu, en lengst af í Sólheimum við Njarðarstíg, íbúðarhúsinu, sem hann keypti árið 1931 og bjó í til aldurtilastundar. Honum farnaðist vel.
Árið 1923 eignaðist Ólafur Ólafsson dóttur með Jóhönnu Sigurðardóttur frá Hlíð undir Eyjafjöllum. Það er frú Sigurbjörg Ólafsdóttir kaupkona hér í bæ, gift Magnúsi Kristjánssyni, verzlunarstjóra og kaupmanni við Bárustíg. Hann er Dalamaður að ætt og uppruna.
Barnsmóðir Ólafs Ólafssonar fluttist hingað til hans árið 1928 og varð lífsförunautur hans síðan til hinztu stundar.
Hver sá, sem kynntist að ráði Ólafi kaupmanni Ólafssyni, fékk miklar mætur á honum. Hann var prúður maður í framkomu, stilltur vel og orðvar og velviljaður. Í einkalifi sínu var hann trúrækinn, og trú sína sýndi hann iðulega í verkum sínum og daglegri önn og samskiptum sínum við samborgarana.
Þessi mikli trúaráhugi hans leiddi til þess, að hann árið 1945 gerðist trúbróðir hér í söfnuði Hvítasunnufólksins og rækti þann trúarlega félagsskap hér af kostgæfni síðustu 11 árin sín í þessu lífi.
Ólafur heitinn var bókhneigður maður og lesinn. Meðfætt hyggjuvit hans og hin óbrigðula dómgreind jók manngildi hans og manndóm. Hann var jafnframt skapfestumaður, sem trúði á iðrun og endurbót í mannlegu lífi og fyrirgefningu synda, þar sem leitað var eftir þeim hlutum í sannleika, trú og dyggð. Því var það eitt sinn, að hann þaggaði niður í hvæsandi og hvissandi sálum við Eyvindarhólakirkju á meðhjálparaárum sínum þar. Gamall syndaselur, fjárplógsmaður og yfirgangsseggur, fann allt í einu hvöt hjá sér til þess að ganga til altaris í Eyvindarhólakirkju og leita þar guðs náðar. Safnaðarfólkið hneykslaðist og taldi þetta hámark hræsni og yfirdrepsskapar. Þá var það, sem Ólafur meðhjálpari tók svo myndarlega og af manndómi svari hins iðrandi syndasels, að safnaðarfólkið þagnaði. Meðhjálparinn færði m.a. biblíuleg rök að því, að aldrei væri það ofseint syndaranum að iðrast og þessi eiginleiki væri meðfæddur hverjum manni, væri guðsgjöf, ef hinir breysku bæru aðeins þroska og gæfu til að nýta hann eins og fleiri náðargjafir guðs. Safnaðarfólkið við Eyvindarhólakirkju lét sannfærast fyrir orð meðhjálparans.
Ég minnist Ólafs Ólafssonar kaupmanns með miklum hlýhug og virðingu.
Ég minnist velvildar hans og einlægra heillaóska í minn garð og starfs míns, skólastarfsins, meðan kaldast blés um það og barizt var hvað fastast gegn eyðingaröflunum af öllum mætti hér í kaupstaðnum.
- „Nafni“ í fjörunni
- Það heillar mig að finna fjöruna anga
- og feta hljótt í garði dökkra hleina.
- Á útfirinu auðvelt er að fanga
- æfintýri þar á milli steina.
- Það heillar mig að finna fjöruna anga
- Á göngunni ég mæti mávum prúðum,
- er mæna og spyrja, hvert ég sé að fara.
- Sjávarlöður leikur sér á flúðum
- og litlar skeljar fela sig í þara.
- Á göngunni ég mæti mávum prúðum,
- Hér gráir steinar gefa efni í bögu
- og gullnar öldur blítt við sandinn hjala.
- Lítill drangur er að segja sögu.
- Ég sezt og ætla að hlusta á hann tala.
- Hér gráir steinar gefa efni í bögu
- Mín efaðist á langri ævi lundin,
- þótt leynist stundum hjá mér bitur andi.
- Oft er kalt að kúra hér við sundin,
- kaffærður í þangi, brimi og sandi.
- Mín efaðist á langri ævi lundin,
- Að væla og kveina það er sízt minn siður,
- og sæmir ekki hörðu fjörugrjóti.
- Drottinn sjálfur setti mig hér niður
- og sagði mér að búa í ölduróti.
- Að væla og kveina það er sízt minn siður,