Blik 1973/Á síldveiðum fyrir 35 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



JÓNAS SIGURÐSSON FRÁ SKULD:


Á síldveiðum fyrir 35 árum


Jónas Sigurðsson frá Skuld.

Nú má svo að orði komast, að liðin sé rúm öld, síðan Norðmenn hófu síldveiðar sínar á Austfjörðum, svo að athygli vakti um land allt. Til þeirra veiða notuðu þeir ýmist svokallaða síldarlása, fyrirdráttarnætur eða herpinætur.
Herpinótaveiðar lærðum við svo Íslendingar af frændum okkar Norðmönnum, eins og ýmsa aðra veiðitækni.
Herpinótaveiðarnar hafa tekið miklum breytingum og tæknilegum framförum frá fyrstu tíð að Norðmenn hófu þær hér við land. Þó má með sanni segja, að um tugi ára hafi þær litlum breytingum tekið, ef nótin ein er höfð í huga.
Um langt árabil höfðu síldveiðiskipin tvo svokallaða nótabáta í togi. Í þeim var nótin höfð, meðan verið var að veiðum, og úr þeim var nótinni kastað kringum síldartorfurnar. Lengst af voru nótabátarnir knúðir fram með árum og handaflinu einu, þegar nótinni var kastað. Síðar voru settar vélar í nótabátana til að knýja þá áfram.
Stærðir herpinóta um 1937:
Togaranætur voru almennt 28—32 faðma djúpar og 160—180 faðma langar. Þær voru riðnar úr gildu garni, sem sjá má á því, að tvo vörubíla þurfti til að flytja nótina á milli staða. Svo fyrirferðarmikil var hún. Þó er rétt að minna á, að flutningabifreiðar þá voru minni en almennl gerist nú.
Báta- og smærri skipa nætur voru hlutfallslega minni. —
Þá voru engar vélar í nótabátum hér á landi, en erlendis munu síldveiðimenn þá hafa tekið til að nota þær. Mjög bráðlega voru þær þá einnig teknar í notkun hér heima.
Nú er öll þessi veiðitækni gjörbreytt orðin, svo sem öllum er kunnugt, sem komnir eru til vits og ára.
Þær myndir, sem Blik birtir hér frá síldveiðum eldri tímans, voru teknar árið 1937. Það sumar var ég á síldveiðum fyrir Norðurlandi og hef síðan átt þessar myndir.

Á togaranum Hilmi sumarið 1937. Nótabátunum „slakað“ í sjó.
Síldarnótin róin út.

ctr

Nótinni kastað. Síldartorfan í miðri nót.

ctr

Sumarið 1936 höfðu tveir vélbátar frá Vestmannaeyjum samstöðu og samvinnu á síldveiðunum fyrir Norðurlandi, voru tveir um sömu nótina. Í daglegu tali voru slíkir bátar kallaður tvílembingur. —
Hér birtir Blik mynd frá þessum tvílembingasíldveiðum. Annar vélbáturinn var Gulltoppur VE 321. Skipstjórí á honum var Jónas Sigurðsson frá Skuld í Eyjum. Hinn báturinn var Ófeigur (hinn eldri). Skipstjórí á honum var Guðfinnur Guðmundsson frá Brekkhúsi í Eyjum. Guðfinnur skipstjórí var einnig síldarbassi á veiðum þessum. — Myndin var tekin, þegar verið var að háfa úr nótinni og fylla Gulltopp.


Þó að misjafnlega vel gengi þá að veiða mikla síld, voru ástæðurnar ekki þær, að lítið væri um hana. Heldur réðu þar miklu um straumar, ætisgöngur, útsjónarsemi nótabassans og dugmikil skipshöfn. — Oft var erfitt að kasta síldarnótinni úr bátunum. — erfitt að róa hana út í kvikuslætti og mótvindi, straumi og slampanda. Vissulega kom það starf mörgum svitadropanum út á sjómönnunum. því að engar vélar voru þá í nótabátunum.
Betra var að láta hendur standa fram úr ermum, þegar torfan sást vaða inni í nótinni og bátarnir nálguðust hvorn annan. — Þegar bátarnir skullu saman, þurfti í skyndi að koma vírstroffunni yfir davíðuna í stafni nótabátsins og snurpulínunni í blökkina, svo að snurpað yrði í skyndi, nótin herpt saman undir torfunni, áður en síldin tæki upp á þeim ósóma að stinga sér niður úr nótinni. - Ekki skorti þá eggjunarorðin og kappið í mannskapnum. Keppzt var við að ná til sín segulnaglanum á miðri snurpulínunni. Þá var aflinn örugglega í hendi manns.
Fyrst í stað var snurpulínan dregin inn í bátinn með handafli, þar til dráttur tók að þyngjast. Þá var línan sett á handspilið og hafður einfaldur kraftur á því fyrst í stað. Síðan var hann tvöfaldaður, þegar drátturinn tók að þyngjast.
Þá áttu engar vélar sér stað við snurpinguna, hvorki til að knýja bát né vindur (spil).
Myndir þær, sem þessum orðum mínum fylgja, voru teknar inni á Húnaflóa.
Á þessum árum voru allir togararnir kolakynntir. Þar af leiðandi þurfti að birgja þá upp af kolum annað slagið. Sóðaleg þótti sú vinna að kola skipin, eins og það var kallað. Sérstaklega þótti sóðalegt að lempa kolin til í kola „boxunum“.
Stundum voru kolin tekin í skipið strax, þegar lagzt var að bryggju, áður en aflanum var landað, t.d. ef bíða þurfti eftir löndun. Annars var skipið kolað strax að löndun lokinni.
Kolavinnuna urðum við hásetarnir að inna af hendi samkvæmt vinnusamningi. Greitt var aukreitis fyrir þá vinnu. Skipshöfnin var með samningi skylduð til að kola skipin sjálf sökum þess, hve erfitt var að fá menn til að inna þetta verk af hendi. Skipstjórinn kaus líka heldur að geta notað mannskapinn til verksins en einhverja aðra, því að verkið gekk svo miklu betur, þegar þessir harðduglegu „togarajaxlar“ framkvæmdu það.


ctr


Íbúðarhúsið Skuld, nr. 40 við Vestmannabraut. Hér bjuggu um tugi ára tveir af kunnustu útgerðarmönnum Eyja með fjölskyldum sínum, Sigurður skipstjóri Oddsson, í austurenda, og Stefán Björnsson, í vesturenda hússins. Húsið byggðu þeir árið 1908. Það var rifið 18. nóvember 1972 í því skyni að lengja Skólaveginn norður að höfninni, en húsið Skuld stóð í vegarstæðinu.