Blik 1972/Málfríður Guðlaug Ingibergsdóttir, kennari

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



Málfríður Guðlaug Ingibergsdóttir
kennari, frá Fögruvöllum í Eyjum


Málfríður Guðlaug Ingibergsdóttir, kennari.

Hér birtir Blik mynd af ungri kennslukonu, sem hóf hér starf á seinustu starfsárum Páls skólastjóra Bjarnasonar. Hún hét Málfríður Guðlaug Ingibergsdóttir, fósturdóttir hjónanna á Fögruvöllum við Miðstræti, frú Málfríðar Árnadóttur og Guðlaugs verkamanns Hanssonar.
Sár minni vakna í hugskotinu. Ég þekkti vel æskuheimili þessarar ungu kennslukonu. Hún féll frá aðeins 25 ára gömul. Þá bárust hinum öldruðu hjónum á Fögruvöllum margar hlýjar samúðarkveðjur frá Eyjabúum. Ekkert barn höfðu þau átt sjálf, öldruðu hjónin. Guðlaug, en það nafn bar hún daglega, var þannig einkabarn þeirra og augasteinn, indæl stúlka, hrein sál og hvers manns hugljúfi.
Málfríður Guðlaug Ingibergsdóttir fæddist að Melhól í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu 31. jan. 1907. Foreldrar hennar voru Ingibergur bóndi Þorsteinsson á Melhól og kona hans, Guðríður Árnadóttir, systir Málfríðar húsfreyju á Fögruvöllum í Eyjum.
Ekki er mér ljóst, hve gömul hún var, þegar hún fluttist hingað, en hún var á barnsaldri og gekk hér í barnaskólann og síðan í Unglingaskólann.
Hún bar nöfn beggja hjónanna á Fögruvöllum, og þau tóku strax miklu ástfóstri við hana.
Guðlaug Ingibergsdóttir var sérlega vel gefin og námsmaður góður. Snemma hneigðist hugur hennar til bóklegs náms. Jafnframt var hún trúhneigð og fórnaði hér miklu starfi á æskuskeiði sínu fyrir K.F.U.M. og K, félagsskap, sem hún unni.
Hún gekk tvo vetur í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi vorið 1931. Einnig lauk hún þá kennaraprófi í orgelspili og söngkennslu.
Haustið 1931 réðst hún kennari við barnaskóla Vestmannaeyja, og valdi Páll skólastjóri hana til að kenna yngstu börnunum. Hið ljúfa skaplyndi hennar, góðlyndi og næmur skilningur á kenndum barnssálarinnar olli því, að skólastjóri valdi hana til þessa vandasama kennslustarfs. Hún hafði líka árum saman umgengizt börn í samtökum K.F.U.M. og K. á kristilegan hátt með hlýleik og einlægum velvildarhug.
Eftir áramótin 1931/1932 veiktist Guðlaug heitin hastarlega af skarlatssótt og andaðist 1. febrúar 1932. Hafði hún þá verið kennari hér í heimabyggð sinni aðeins fjóra mánuði. „Alúðin og skylduræknin við starfið var hin sama og við allt annað, og það má óhætt segja, að hún ynni sér elsku og virðingu allra, sem með henni störfuðu, hvort heldur voru börn eða fullorðnir.“ Þessi orð skrifaði Páll skólastjóri um hana að henni látinni.

Þ.Þ.V.