Blik 1971/Bréf til vinar míns og frænda, 2. kafli, kaupgjaldsmálin og fölsk stéttarkennd

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1971



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


2. kafli


Kaupgjaldsmálin og fölsk stéttarkennd


Þú spyrð, hvort ástæðurnar fyrir fylgispekt alls þorra útgerðarmanna á tímum konsúlavaldsins hér muni hafa verið skuldir við kaupmenn. Voru þeir hangandi á skuldaklafa kaupmannanna í byggðarlaginu?
Nei, ekki nema lítill hluti þeirra.
Ástæðurnar fyrir fylgispektinni vil ég reyna að skýra frá mínum bæjardyrum séð.
Vélbátaútvegurinn hófst hér af krafti 1907. Eftir að Þorsteinn í Laufási, útgerðarmaður og formaður, hafði gert v/b Unni út vertíðina 1906, flykktist fólk hingað í kauptúnið, svo að íbúatalan tvöfaldaðist á næstu 4 árum. Margt af þessu fólki, sem hingað fluttist þá, reyndist bezta fólk, duglegt, framtakssamt og heiðarlegt. En það var fáfrótt og þröngsýnt. Margir þeir heimilisfeður, sem hingað fluttu með fjölskyldur sínar, gerðu sitt ítrasta til að eignast hlut í vélbát þá svo að segja strax í upphafi vélbátaaldarinnar. Á vertíð 1907 höfðu Eyjamenn eignast 22 vélbáta frá Danmörku fyrir atbeina Gísla J. Johnsen og J.P.T. Bryde, hins danska kaupmanns í Danska-Garði. Ekki færri en 119 menn áttu þessa báta saman. Þarna myndaðist þegar hlutfallslega mjög fjölmenn útgerðarmannastétt í kauptúninu. Gróðinn á útgerðinni þessi ár var alveg ótrúlegur. Sumir áttu báta sína skuldlausa eftir fyrstu og aðra vertíð. Þá tóku menn til að byggja sér góð íbúðarhús á þátíðar vísu og allt lék í lyndi. Blásnauðir heimilisfeður, sem með nokkrum rétti mætti segja að hefðu flosnað upp, þar sem þeir áður bjuggu, þegar þeir fluttu til Eyja, gerðust brátt bjargálna menn og vel það. Þessi velgengni hafði óneitanlega áhrif á hugsunarhátt þeirra, sannfæringu og skoðanir. Ekki sízt á stjórnmálasviðinu. Þeir litu á sig býsna stórum augum. Þeir voru útgerðarmenn, eins og kaupmennirnir (konsúlarnir), fjáðir á eina vísu eins og kaupmennirnir, atvinnurekendur eins og kaupmennirnir og fleira fannst þeim þeir eiga sameiginlegt með þeim. Enda afréðu þeir sjálfir í skjóli atvinnureksturs síns kaup og kjör vinnuþiggjendanna, fólksins, er kom að leita sér atvinnu hjá þeim á vertíðum. Margir litu á sig fyrir bragðið allstórum augum, mátu sig stórlaxa. Þetta var ofur mannlegt og ekkert sérkennilegt, þar sem hér var yfirleitt um óupplýsta menn að ræða með þröngan sjóndeildarhring. Asklokið var himinninn og buddan hjartahólfið mikla. Það var mikið og voldugt, andlegt verksvið að finna sig eiga samleið með valdsmönnum og kaupmönnum. Titillinn sá hafði á sér sérlegan blæ frá tímum einokunarverzlunarinnar. Þannig sannaðist á þessu blessaða fólki hið forna orðtak, að margur verður af aurum api. Þessi staðreynd átti sér þá stað hér tvennum skilningi.
Þetta blessað fólk, sagði ég. Vissulega voru margir þessir heimilisfeður afbragðs menn og mér og öðrum vinveittir að vissu marki. Þó hlýt ég að segja sannfæringu mína um öll þessi mál og meta og vega, velja og hafna, bæði um orðaval og ályktanir.
Fyrstu 2-3 áratugi vélbátaaldarinnar í Eyjum réðu útgerðarmennirnir algjörlega öllu kaupgjaldi í samráði við kaupmennina, sem þá einnig voru útgerðarmenn í stórum stíl eftir ástæðum.
Ég hefi í fórum mínum Reglugerð um kaupgjald „Útvegsbændafélags Vestmannaeyja“ vetrarvertíðina 1927 þannig samþykkta á fundi félagsins 4. jan. 1927. Þessi reglugerð er sögulegt plagg út af fyrir sig og gefur nokkra innsýn varðandi ákvæði um kaup og kjör, sem atvinnurekendur réðu einvörðungu sjálfir og þjöppuðu þeim um leið saman í atvinnurekstrinum; og þá um leið á stjórnmálasviðinu, ef á sér bærði andi hagsmunabaráttu hinna minni máttar.


1. kafli


Ráðningarkjör á 11 tonna báta og þar yfir
a) Vanir formenn, einn fimmtánda hluta af afla, en óvanir formenn einn átjánda hluta, kostnaðarlaus á bryggju.
b) Vélamannakaup kr. 600,00.
Af fyrstu 15 þúsund fiskum greiðist engin premía, en af næstu 15 þúsundunum greiðast 10 krónur af þúsundi, og af því sem fiskast þar fram yfir greiðast 15 kr. premía af þúsund hverri. Sé skipt í hluti, er vélamannahluturinn einn tuttugasti og fjórði (1/24) partur af afla, kostnaðarlaus á bryggju.
c) Hásetakaup 375 kr. Af fyrstu 15 þúsund fiskunum greiðist engin premía, en af næstu 15 þúsundunum greiðast 7,50 kr. af þúsund, og af því sem fiskast þar fram yfir 10 króna premía af þúsund hverri. Sé skipt í hluti, er hásetahluturinn einn þrítugasti og annar (1/32) partur af afla, kostnaðarlaus á bryggju.


2. kafli


Ráðningarkjör á 8-11 tonna báta
a) Vanir formenn einn þrettánda (1/13) hluta af afla, en óvanir formenn einn sextánda hluta (1/16) kostnaðarlaus á bryggju.
b) Vélamannakaup 600 kr. Af fyrstu 10 þúsund fiskunum greiðist engin premía, en af næstu 10 þúsundunum greiðast 15 af þúsund, og af því sem fiskast þar fram yfir greiðist 20 króna premía af þúsund hverri. Sé skipt í hluti, er vélamannahluturinn einn tuttugasti og fyrsti partur (1/21) af afla, kostnaðarlaus á bryggju.
c) Hásetakaup 375 krónur. Af fyrstu 10 þúsund fiskunum greiðist engin premía, en af næstu 10 þúsundunum greiðast 10 krónur af þúsund, og af því sem fiskast þar fram yfir 15 kr. premía af þúsund hverri. Sé skipt í hlut, er hásetahluturinn einn tuttugasti og áttundi partur (1/28) af afla, kostnaðarlaus á bryggju.


3. kafli


Ráðningarkjör á bátum
undir 8 tonnum
a) Vanir formenn einn ellefta hluta (1/11) hluta af afla, en óvanir formenn einn fjórtánda hluta (1/14) kosfnaðarlaus á bryggju.
b) Vélamannakaup 600 krónur. Af fyrstu 8 þúsund fiskunum greiðist engin premía, en af næstu 5 þúsundunum greiðast 20 krónur af þúsund, og af því sem fiskast þar fram yfir greiðist 25 króna premía af þúsund hverri. Sé skipt í hluti, er vélamannahluturinn einn sextándi partur (1/16) partur af afla, kostnaðarlaus á bryggju.
c) Hásetakaup 375 krónur. Af fyrstu 8 þúsund fiskunum greiðist engin premía, en af næstu 5 þúsundunum greiðast 15 krónur af þúsund, og af því sem fiskast þar fram yfir 20 króna premía af þúsund hverri. Sé skipt í hluti, er hásetahluturinn einn tuttugasti og annar (1/22) partur af afla, kostnaðarlaus á bryggju.


4. kafli


Kaup aðgerðarmanna og netamanna 300 krónur, en sé um duglega og vana menn að ræða, má hækka kaupið um 100-200 krónur.


5. kafli


a) Þegar um hlutamenn er að ræða, sjá þeir sér sjálfir fyrir fæði, þjónustu og húsnæði, útgerðinni að kostnaðarlausu. Kaupamenn hafa þetta frítt hjá útvegsbónda.
b) Ef fæðispeningar eru greiddir, skulu þeir vera 2,75 krónur á dag, Þar í innifalin þjónusta og húsnæði.

Þá á ég einnig í fórum mínum kaupsamningseyðublað. Það er ætlað t.d. aðkomnum vertíðarmönnum, sem ætla sér að stunda aðgerð og vinna þurfa oft nætur sem daga, þegar mikið aflast. Þar er að minnsta kosti vís eftirvinna mikil og helgidagavinna og mjög oft vinna til lágnættis. Á eyðublaði þessu stendur skýrum stöfum: „Aukavinnu, eftirvinnu og helgidagavinnu er vinnu þiggjandi skyldur að inna af hendi án sérstakrar þóknunar eftir því sem þörf krefur.“ Hér er gengið út frá kaupgjaldi samkv. 4. kafla í framanskráðri reglugerð og svo 5. kafla um greiðslu fyrir fæði og þjónustu.
Og svo:
,,Samningur þessi löggildist hér með.

Vestmannaeyjum 192..
F.h. Útvegsbændafélags
Vestmannaeyja.“

Þessi reglugjörð og svo samningsákvæðin veita glöggum lesanda, eins og ég tel þig vera, nokkra sýn, nokkra hugmynd um valdið og húsbóndaréttinn varðandi kaupgjald og alla afkomu hins vinnandi lýðs í heild á sjó og í landi. Þessu réðu forustumennirnir í atvinnulífinu, atvinnurekstrinum frá ári til árs. Það voru kaupmenn, sem jafnframt voru stærstu útvegsmennirnir, og svo óbreyttir útvegsbændur sjálfir í samvinnu við þá og að nokkru leyti í skjóli þeirra. Sterkustu aðilarnir við hlið kaupmannavaldsins voru félagssamtök útvegsbænda, tvö kaupfélög, sem þeir kölluðu svo, K/f Bjarmi og K/f Fram, sem að mestu leyti voru „lokuð“ eiginhagsmunasamtök nokkurra útvegsmanna, og þó merk og mikilvæg hagsmunasamtök að ýmsu leyti. Þau vernduðu t.d. félagsmenn sína, útvegsbændurna, fyrir arðráni „vinanna“ á hinu leitinu!
Allt þetta er veigamikill þáttur í sögu atvinnulífsins hér í bæ.
Ég skírskota svo til kaflans hér á eftir um skortinn á vinnuhagræðingunni, en skortinn á henni fékk atvinnurekandinn að nokkru leyti bættan upp með hinu lága kaupgjaldi, þar til kreppan dundi yfir og afurðirnar urðu lítils virði.
Í kaflanum um skortinn á vinnuhagræðingunni greini ég frá því, að ég bar úr býtum kr. 12,50 á sólarhring hverjum, er ég var verkstjóri hér við fiskaðgerð á vertíð 1929 og vann eins og allir hinir nótt með degi og alla helgidaga líka, ef þess var talin þörf til að bjarga afla frá skemmdum. Þessi kaupgreiðsla var í fullu samræmi við vinnusamninga þá, er fylltir voru út á framangreint eyðublað og atvinnurekendur sjálfir höfðu einir samið og afráðið. - Guð hjálpi nú vinnandi lýð á Íslandi, ef engin hefðu verkalýðssamtökin sprottið fram og eflzt honum til hjálpar og lífs.
Og það er þá bezt að ég segi þér það hér með, sem ég hefi hvergi getið á prenti fyrr, að ofsóknirnar á mig persónulega og skólastarf mitt hófust og efldust ár frá ári þá fyrst, þegar kaupmannavaldið í bænum uppgötvaði, að ég var hlynntur verkalýðssamtökunum og gekk í Verkamannafélagið Drífanda til þess að leggja þar mitt litla til í baráttu þeirra, sem höllustum stóðu fæti í lífsbaráttunni. Þá var teningunum kastað beggja vegna. Ég vil gjarnan tjá þér, hvenær ég tók þá ákvörðun.
Þegar vertíð lauk 1929, hófst fiskverkunin, þvottur á fiski og svo þurrkun á stakkstæðum, eins og öllu því verki var sniðinn stakkur þá.
Kaupgjald verkamannsins var þá kr. 1,20 á tímann, en verkakonan bar úr býtum milli 40 og 50 aura á tímann. Margar konurnar, sem unnu á stakkstæðunum undir minni stjórn, afköstuðu sízt minna verki en margur verkamaðurinn. Þær báru fisk á börum á móti þeim og þær breiddu fiskinn og voru handkvikkari og snöfurlegri við það starf en verkamennirnir yfirleitt. Þó báru þær ekki úr býtum meir en rúman þriðjung kaups á við karlmennina. Samúðin með þessum kúgaða lýð rak mig inn í samtökin, sem þá voru alltof máttlaus, svo að ekki sé of mikið sagt. Sjálfur var ég hlunnfarinn, - féflettur og kúgaður í kaupgreiðslum við skólastarfið, eins og fundargerðarbók skólanefndar Vestmannaeyja vottar. Þar eru skráðar samanburðartölur frá öðrum kaupstöðum landsins, þar sem gagnfræðaskólar voru starfræktir þá.
Þegar hreyft var málaleitan um lagfæringu á öllum þessum órétti kaupgjaldsmálunum í bænum, litu ráðandi menn og valdhafar á þá imprun eins og vísi að glæpastarfsemi í bænum. Þannig urðu til fyrstu „glæpirnir“ mínir í lífi mínu og starfi hér í bæ.
Og fyrst ég er byrjaður að ræða þessar staðreyndir, er bezt að segja þér frómt frá, að þeir uppgötvuðu fyrst, hversu mikill skaðsemdargripur ég gæti orðið þeim, fyrst ég lagðist á sveif með hinum undirokuðu í hugsun, tali og verki. Þannig hófst aldarfjórðungsstyrjöldin hér við mig og starf mitt.
Og þá langar mig til að segja þér í léttum dúr frá sérkennilegu fyrirbrigði. Þegar þetta er skrifað, stjórnar Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum maður, sem hefur til þessa verið yfirlýstur Alþýðubandalagsmaður (Kommúnisti?) og er fulltrúi hins róttæka arms íslenzkra stjórnmálahreyfingar. Þó hefi ég ekki rekizt á eitt einasta orð í blaði íhaldsaflanna hér eða málgagni atvinnurekandanna gagnvart þessum manni. Eru þetta ekki framfarir svo að um munar og eftirtekt mega vekja? Skyldi þetta ekki teljast þroskamerki, enda er nú hin gamla vestmanneyíska konsúlamenning hér liðin undir lok og flætt að fullu yfir undirpallamenninguna. Ekki af því, að arftakarnir eigi ekki og ali vísinn ennþá innra með sér, en þeir voga ekki að birta almenningi sinn innri mann, af því að hann er vaxinn frá þeim. Sú opinberun innra mannsins yrði engum til fylgisauka eða álits. Þess vegna liggur hún í láginni. Þess vegna er þolað og þraukað, jafnvel það þolað orðalaust, að hinn róttækasti kommúnisti með meira sé stjórnari hinnar æðri menntastofnunar í bænum. Mundi það synd að kalla hann arftaka hins vonda manns? - Ég get ekki stillt mig um að tjá þér, að ég kími breitt að þessu og hugsa sem svo: Öðruvísi mér áður brá. Lífið tekur stundum engum vettlingatökum á böðlum þjóðfélagsins og neyðir þá stundum til að virða lög og rétt meðbróðurins. Þetta hefur að ýmsu leyti gerzt hér Eyjum á tveim síðustu áratugunum.
Og svo kem ég enn að eilítilli skrítlu úr bæjarlífinu.
Ég impraði á þeirri skoðun minni, að allir útgerðarmenn og aðrir smáir atvinnurekendur hér hafi fylgt kaupmönnunum og konsúlunum að máli í stjórnmálum og bæjarstjórnarráðum af því að þeim fannst gróði þeirra á útgerðinni hefði gert þá að stórlöxum, sem ætti enga samleið með vinnuþiggjendum og hinum kúgaða lýð. Skrítlan mín á m.a. að gefa til kynna, að þessi skoðun mín sé rétt.
Smáútgerðarmaður í Eyjum hefur grætt vel á bátshlutnum sínum. Hann byggir sér nýtt hús og hefur efni á því að búa það ýmsum þægindum, sem hann vissi að sumir yfirstéttarmenn bæjarins höfðu þá þegar veitt sér. Ég og annar maður til, sem var gestur í bænum, þurftum dag nokkurn að finna þennan smáútgerðarmann að máli. Við gerðum boð á undan okkur með símtali. Ég vil taka það fram, að mér var vel um það kunnugt, að þessi útgerðarmaður var naumast skrifandi. Ég segi ekki frá því honum til ásökunar. Síður en svo. Við vitum, hversu börnum og unglingum var það erfitt, ekki sízt í sveit, að afla sér bóklegrar fræðslu og jafnvel skriftarkennslu á seinni hluta síðustu aldar hér á landi.
Við komum heim til hjónanna og fengum hinar beztu viðtökur, enda voru þetta valinkunn ágætishjón. - Þegar inn í gang hússins kom, veittum við því athygli, að allar hurðir stóðu upp á gátt, - einnig hurð salernisins með öllum nýtízku gögnum þar, postulínskerfi til affermunar, baðkeri af dýrustu gerð, skápum og spegli eða speglum.
Við litum svo á, að húsmóðirin hefði ekki viljað láta það fara framhjá okkur, hversu vel hún byggi, - einnig þar, - og yfirstéttarlega, því að þannig bjuggu þá aðeins hinir nýríkustu í kaupstaðnum.
Þegar við svo gengum í stofu, stóð þar stórt og fagurt skrifborð af sömu gerð og ég hafði séð í skrifstofu eins ríkasta manns Eyjanna. Til hvers var svo þetta fallega skrifborð notað á heimili hins næsta óskrifandi heimilisföður? Það var allt þakið „dúllum“, hekluðum smádúkum, sem á stóðu blóm og postulínshundar og glerjaðir fuglar. Þannig var þetta víðar þá á vestmanneyískum heimilum.
Ekki aðeins hugsunin og daglegir hættir í starfi og striti drógu dám af hinum meiri máttar, heldur varð líka heimilið að bera blæ hins ríkmannlega heimilis, ef nýríku hjónin ættu að geta fundið sjálf sig í hinni réttu og eiginlegu þjóðfélagsstétt að þeirra eigin dómi og sannfæringu.
Þessi góðkunningi minn, sem við heimsóttum, átti 1/3 í vélbát, sem hann var formaður á og aflaði vel. Og þessum kunningja mínum varð vissulega mikið úr tekjum sínum og fé, því að hann bjó yfir hyggjuviti og hagsýni.
Þessi góðu hjón voru mér vinsamleg. Þau ræddu oft við mig ofsóknir hins alls ráðandi konsúla- og kaupmannavalds í bænum á hendur mér og skólastarfi mínu og voru hneyksluð á stundum, eða svo fannst mér. En þeim kom aldrei til hugar að leggja lóð sitt á metaskálarnar gegn þessu valdi, þegar á kjörstaðinn kom, t.d. við bæjarstjórnarkosningar. Það fannst þeim óheyrileg svik við „stéttina“, sem útgerðargróði þeirra hafði skipað þeim í. Margir aðrir létu sér þó hitt skiljast og sigurinn vannst smám saman. Ný kynslóð í bænum kom fram til atorku og áhrifa. Þá fengu staðreyndirnar mat sitt í nýju ljósi, því að nýju kynslóðirnar sáu og skildu, hvert stefndi fyrir þessu bæjarfélagi í menningarlegum efnum. Ef til vill átti gagnfræðaskólastarfið og nemendur mínir sinn þátt í því, þá stundir liðu. - Og nú þykist ég mega fullyrða, að við Vestmannaeyingar þurfum ekki lengur að bera kinnroða fyrir bæjarfélagið okkar, hvorki á athafna- eða menningarsviðinu. - Okkar helgasta skylda gagnvart komandi kynslóðum er að halda fram sem stefnir á báðum þessum vettvöngum án þess að hvika.

3. kafli