Blik 1969/Hetjan fótalausa og eiginkonan, II. hluti
En hvað um Jón S. Sigurðsson, efnalega afkomu hans og framfærslu?
Engin voru þá sjúkrasamlög hér á landi, engar slysabætur, engir sjóðir til styrktar örkumla fólki.
Orðið „sveitarómagi“ var Jóni S. Sigurðssyni eitur í beinum. Hvernig gat hann hugsað sér að verða sveitarómagi, verða þurfalingur sveitar sinnar, ef til vill það sem hann átti eftir ólifað - ef til vill langa ævi, því að fílhraustur var hann líkamlega að öllu öðru leyti. Átakanlegt þótti fólki að sjá þennan hrausta mann, sem verið hafði karlmennið mikla, fara höktandi á hnjánum troðnar götur milli húsanna á Fjarðaröldunni, bröltandi á fjórum með skinnvafninga um hnén
þeim til hlífðar.
Fyrst framan af eftir að Jón S. Sigurðsson gréri sára sinna, vafði hann skinnrenningum um hnéskel og legg til þess að draga úr sársaukanum, er hann reyndi að hreyfa sig. Menn ræddu um það sín á milli, hvort ekki mundi kleift að smíða honum einskonar stígvél til að ganga á, svo að sárindin yrðu ekki eins tilfinnanleg.
Nokkur skóverkstæði voru þá á Austfjörðum, þar sem jöfnum höndum voru smíðaðir skór og gert við skó, og margir skósmiðir voru þar vel færir í grein sinni, en enginn þeirra gaf þess kost lengi vel að smíða „stígvél“ handa Jóni fótlausa, eins og hann var jafnan nefndur, eftir að hann missti fæturna. Einnig skráir
presturinn þannig nafnið hans í bækur kirkjunnar. Það viðurnefni dró vissulega ekki úr andlega sársaukanum.
Um eða eftir 1890 settist að í Vestdal í Seyðisfirði ungur Landeyingur,
Pétur Sigurðsson frá Kúhól í Landeyjum. Hann var lærður skósmiður og stundaði þá iðn þarna í fjölmenninu, sem þá var þar. Þessi sunnlenzki skósmiður gaf loks kost á því að smíða „skó“ handa Jóni S. Sigurðssyni. Það tókst svo vel, að undrun sætti. Hællinn var undir hnjánum, og leggstúfnum var smeygt aftur í
„leistinn“ á „stígvélinu“. Á slíkum stígvélum gekk Jón Sigurðsson síðan, það sem hann átti eftir ævinnar eða hart nær fjóra áratugi.
N. Nielsen „Factor“ í „Ytri-Höndlunarstaðnum“ í Eskifirði gat oft verið gamansamur náungi. Blótsamur var hann nokkuð á stundum, og íslenzkan hans var aldrei upp á marga fiska, þótt hann héldi sjálfur, að hann kynni hana lýtalaust.
Hann var sagður kvenhollur nokkuð, danski verzlunarstjórinn.
Við „Höndlunina“ vann Sigurður verkamaður Ólafsson. Hann og Sigurður skáld Breiðfjörð voru bræðrasynir, með því að Eiríkur Sigurðsson bóndi í Rifgirðingum, faðir skáldsins, og Ólafur Sigurðsson, faðir Sigurðar verkamanns, voru bræður.
Eitt sinn kom Nielsen verzlunarstjóri að máli við Sigurð Ólafsson, verkamann sinn við verzlunina, og hvatti hann til að læra beikisiðn til fullnustu, svo að hann gæti um langa framtíð haft þau störf á hendi við hina dönsku verzlun þarna í „Ytri-Höndlunarstaðnum“ í Eskifirði.
Sigurður Ólafsson fór að ráði verzlunarstjórans og fullnumaði sig í beykisiðninni úti í henni Kaupmannhöfn.
Þegar hann kom svo heim úr ferð þeirri vorið 1824, fannst honum sjálfum hann vera verulega fínn maður og mikill maður, sem ætti það vissulega skilið að bera ættarnafn eins og Danirnir við „Höndlunina“ og frændi hans í skáldastétt. Þarna
skorti hann vissa hluti til þess að öll tilvera hans bæri þessa merki,
áþreifanleg merki í daglega lífinu, að hann hefði fullkomlega tileinkað sér danska menningu, útlærður beykir, sigldur og forframaður.
Sigurður Ólafsson hafði kynnzt starfsmönnum í beykisiðn í Kaupmannahöfn, sem unnið höfðu með Sigurði skáldi Breiðfjörð, frænda hans, er hann nam þar beykisiðn á öðrum tug 19. aldarinnar. Þeir áttu skemmtilegar minningar um hann.
Var það annars ekki upplagt, að taka sér ættarnafnið Breiðfjörð hér á Austurlandi? hugsaði Sigurður beykir. Og svo gerði hann það: Sigurður Breiðfjörð Ólafsson beykir, mikið og fallegt nafn, sem hæfði sigldum beyki og fór vel í verzlunar- og kirkjubókum!
Og svo var það kvennaspursmálið. Vissulega þurfti hann að eignast einhverja fasta unnustu úr því sem komið var. Átti hann annars ekki að hlusta á tillögu „Factorsins“ í þeim efnum? Aðeins nokkrum dögum eftir að Sigurður Breiðfjörð Ólafsson kom heim frá náminu í Kaupmannahöfn, hafði verzlunarstjórinn ymprað á kvennamálunum við hann og nefnt hana Guðrúnu Ásmundsdóttur, vinnukonuna í „factorshúsinu“. Hún var - aðeins 17 ára, gerðarleg, myndarleg og kröftug. „Factorinn“ hafði látið að því liggja orð við Sigurð beyki, að verzlunin mundi hækka við hann kaup, ef hann staðfesti ráð sitt sem fyrst og ekki sízt, ef ástir tækjust með honum og henni Guðrúnu Ásmundsdóttur, vinnukonunni, hinum mikla kvenkosti.
Á þessa leið hafði factorinn komizt að orði við Sigurð beyki Ólafsson, er hann vildi sannfæra hann um hið fagurgerða og fullmótaða konuefni hans, sem aðeins beið þess að mega segja jáið, - játast ástum beykisins: „Fanden gale mig, tú tarf faa tag i ein kæraste, sem er kraftig og fínn í Töjet, han er född og voksen frem, einn fínaste stúlkur í heile Höndlunarstaden. Tað er Gudrun Asmundsdotter.“ Síðan bætti hann við þessum orðum eftir dálitla umhugsun: „Jeg mener det godt med dig“. Áður en Sigurður beykir hafði áttað sig, voru þau Guðrún og hann harðtrúlofuð. Dásamlegt var það og hún veitti honum allt, sem hún gat honum í té látið. Meginið af hinu fékk hann hjá verzlunarstjóranum, sem var í sjöunda himni, - enginn eins og hann - hvernig sem á því stóð.
Um haustið, í nóvember 1824, ól Guðrún unusta sínum fyrsta barnið, þá liðlega 17 ára. Sumir stungu saman nefjum um það, að meðgöngutími hennar væri svona í stytzta lagi miðað við komu beykisins heim í „Höndlunarstaðinn“. En hvaða tíma hafði sigldur beykir með hækkandi laun í öðrum vasanum og einlæga vináttu verzlunarstjórans í hinum til þess að gera sér grein fyrir náttúrulegum meðgöngutíma kvenna? Ekki gengu ærnar lengur með en 5 mánuði. Það vissi Sigurður Breiðfjörð Ólafsson með vissu frá því að hann var smali. Til ánna var hleypt um áramótin og bændurnir fengu fullþroskuð lömb úr þeim í maílokin eða þar um bil.
Sigurður Breiðfjörð Ólafsson kvæntist Guðrúnu barnsmóður sinni og unnustu 30. apríl 1826, enda var hún þá vanfær að öðru barninu, aðeins 19 ára gömul.
Þessi beykishjón í „Ytri-Höndlunarstaðnum“ á Eskifirði eignuðust saman 10 börn á fyrstu 20 árum samlífsins.
Þegar þriðja barnið var fætt, sagði Sigurður Breiðfjörð Ólafsson beykir börnin sín til sveitar. Taldi sig þá ekki lengur geta séð þeim farborða. Þó var hann ekki alls kostar ánægður með sjálfan sig í þessum viðskiptum við sveitarsjóðinn. Var ekki alveg viss um, nema einhver kynni að leggja honum þessi viðskipti út til lasts. Þess vegna skipti hann um „ættarnafn“. Og nú skyldi vera verulega danskur blær yfir því. Hann kallaði sig Hjörth. Herra Sigurður Hjörth Ólafsson beykir og frú Hjörth: Undursamlegt var það!
Og svo hélt frú Guðrún Ásmundsdóttir áfram að ala honum börnin, og þau voru svona hér um bil jafnharðan send til vandalausra eða venzlafólks til forsjár og framfærslu. Sum voru þannig alin upp niðursetningar á kostnað sveitarinnar, voru
gjörð að sveitarómögum. Önnur ól venzlafólk upp á sinn kostnað.
Seinustu árin sín hér í heimi lifði beykir þessi hálfgerður ef ekki algjör niðursetningur á Sómastöðum í Reyðarfirði. Þá hafði hann fyrir nokkrum árum hætt að láta skrifa sig Hjörth. Eitthvað hafði breytzt innra með honum með aldri og lífsreynslu. Hann hét þá bara Sigurður Ólafsson og flutti að lokum á einum eins og sjálfur verzlunarstjórinn og allir hinir, með fínu ættarnöfnin
dönsku, er hann hafði lokið dagsverki sínu hér í henni verzlun. Sú jafnaðarmennska við lokin var þó alltaf huggun gegn vonbrigðum og lítillækkun
tilverunnar hér í þessum heimi. Sigurður Ólafsson beykir var 61 árs, er hann hvarf til feðra sinna. Það var árið 1855. Þá hafði Guðrún kona hans dvalizt fjærri honum nokkur ár, hvernig svo sem á því stóð. Hún dvaldist norður á Sævarenda í Loðmundarfirði hjá dóttur sinni Sigríði, húsfreyju þar.
Tvær dætur þeirra hjóna, Sigurðar beykis Ólafssonar og Guðrúnar Ásmundsdóttur, koma hér við sögu mína: Sigríður, hin kunna húsfreyja á Sævarenda, og Eleonóra Sigurðardóttir, sem var 5 árum yngri.
Sigríður Sigurðardóttir giftist Einari Eiríkssyni frá Borg í Skriðdal. Þau hjón fengu fyrst til ábúðar jörðina Bárðarstaði í Loðmundarfirði árið 1862 eftir nokkra hrakninga milli jarða. Á Bárðarstöðum bjuggu þau í 9 ár. Þá fluttu þau að Sævarenda í sömu sveit. Þar bjuggu þau hjón um áratugi og gerðu garðinn þann frægan um Austfirði og Hérað fyrir manngæzku og hjálpsemi, góðvild og fórnarlund.
Á fyrsta tug 19. aldarinnar gerðist Richard Long verzlunarstjóri á Eskifirði. Hann var enskur að ætt og uppruna, fæddur í Englandi 1782, en ólst upp í Danmörku.
Árið 1807 ól Kristín nokkur Þórarinsdóttir verzlunarstjóranum son. Sá hlaut nafnið Kristján Long, - Kristján Long Richardsson, síðan skrifaður Kristján Longsson.
Árið 1810 gekk Richard verzlunarstjóri að eiga ekkjuna Þórunni Þorleifsdóttur, áður kona Runólfs Eiríkssonar frá Kleif í Fljótsdal. Sama árið og hann kvæntist henni, ól Kristín Þórarinsdóttir annan son, sem hún kenndi einnig
verzlunarstjóranum. Sá sveinn hlaut nafn móðurafa síns, var skírður Þórarinn, - Þórarinn Longsson, afi merkra Íslendinga og listamanna, bræðranna Richards Jónssonar, myndhöggvara, Finns Jónssonar, listmálara og bræðra þeirra, Karls læknis og Georgs bónda.
Þórarinn Longsson bjó að Núpi á Berufjarðarströnd og var kvæntur Lísbet Jónsdóttur frá Núpshjáleigu. Sonur þeirra hjóna var Jón faðir þeirra bræðranna, sem ég nefndi.
Eleonóra Sigurðardóttir beykis Ólafssonar giftist Kristjáni Longssyni, bróður Þórarins bónda á Núpi. Hjón þau bjuggu í húsmennsku að Bakkagerði í Reyðarfirði. Þau eignuðust þrjár dætur: Þórunni, Maríu og Guðrúnu, - Guðrúnu Kristjánsdóttir, sem í fyllingu tímans varð eiginkona Jóns fótalausa frá Gestshúsum í Bessastaðasókn. Þannig voru þau Guðrún og Jón Þórarinsson, faðir bræðranna, bræðrabörn.
Guðrún Kristjánsdóttir fæddist að Bakkagerði í Reyðarfirði 26. apríl 1866. Foreldrar hennar bjuggu þarna í húsmennsku, snautt fólk og umkomulítið. Mikið vantaði á, að fjölskylda þessi gæti talizt hafa til hnífs og skeiðar.
Kristján Longsson, húsmaður í Bakkagerði, lézt 19. júní 1870. Þá fauk í flest skjól fyrir þessari fjölskyldu. Börnin voru tekin af móðurinni og þeim ráðstafað til vandalausra fram yfir tekt. Móðirin gerðist vinnukona hjá bóndahjónum þar í sveit.
Þegar faðirinn féll frá, var Þórunn, elzta dóttirin í Bakkagerði, 14 ára
ára og fermdist þá um vorið. Stuttur var því orðinn á henni ómagahálsinn. Tveim árum síðar er hún orðin vinnukona hjá kaupmannshjónum á Eskifirði, Karli Túliníusi og Guðrúnu Þórarinsdóttur, systur séra Þorsteins Þórarinssonar í Heydölum. Hér leið henni vel hjá gæðakonunni frú Guðrúnu.
Næstu 12 árin var Þórunn Kristjánsdóttir síðan vinnukona á ýmsum heimilum í Eskifjarðarkaupstað og þar í grennd, eða þar til hún fluttist 28 ára gömul frá Lambeyri í Eskifirði norður að Sævarenda í Loðmundarfirði, þar sem móðursystir hennar var húsfreyja og amma hennar, Guðrún Ásmundsdóttir, dvaldist í skjóli dóttur sinnar. Þar var þá einnig yngsta systir Þórunnar, Guðrún Kristjánsdóttir, 18 ára, fósturdóttir hjónanna Sigríðar húsfreyju og Einars bónda Eiríkssonar. - Þetta var árið 1884.
Hjónin á Sævarenda eignuðust tvo sonu, Sigurð og Finn. Finnur Einarsson bjó um árabil á Sævarenda á heimili foreldra sinna, stoð þeirra og stytta; kunnur merkismaður og drengur góður. Hann kvæntist ekki og lézt 6 árum fyrr en foreldrar hans eða 1914. Foreldrar hans létust með stuttu millibili árið 1920.
Sigurður Einarsson, eldri sonurinn á Sævarenda, og Þórunn Kristjánsdóttir, systrabörnin, fóru saman til Ameríku árið 1887. Ekki get ég sannað, hvernig á því samfloti stóð, þó að ég geri mér það í grun.
Ekki veit ég framtíð Þórunnar Kristjánsdóttur í Ameríku, en eftir 6 ár kom Sigurður Einarsson einn síns liðs heim aftur og kvæntist þá Arnbjörgu Stefánsdóttur frá Stakkahlíð í Loðmundarfirði, systur Ingibjargar Stefánsdóttur húsfreyju þar. Sigurður lézt tæplega miðaldra maður.
Þessa fólks get ég hér sökum tengsla þess við Guðrúnu Kristjánsdóttur á uppvaxtarárum hennar í Loðmundarfirði, og þeirrar velvildar og þess styrks, er hún naut jafnan hjá því, er lífið sjálft, tilveran, reyndi á hana til hins ýtrasta.
Þegar Kristján húsmaður féll frá, var miðdóttirin í Bakkagerði 11 ára. Hjónin á Kollaleirum í Reyðarfirði, Sigurður Oddsson og Eygerður Eiríksdóttir, tóku hana til fósturs, enda var Eygerður húsfreyja vildarvinkona Eleonóru móður Kristínar. Á Kollaleirum dvaldist Kristín Kristjánsdóttir síðan til sjálfsbjargar aldurs.
Við fráfall manns síns gerðist Eleonóra móðir systranna vinnukona á Seljateigi í Reyðarfirði. Þaðan fluttist hún síðar norður yfir Oddsskarð og gerðist vinnukona á Skorrastað í Norðfirði. Þá var bóndi í Neðri-Miðbæ þar í sveit Björn Jónsson, sem misst hafði Halldóru Sigurðardóttur konu sína fyrir nokkrum árum. Þau voru áður hjón á Sandvíkurseli. Árið 1877 réðst Eleonóra Sigurðardóttir ráðskona til Björns ekkils Jónssonar í Neðri-Miðbæ. Eftir tveggja ára „reynslutíma“ kvæntist Björn bóndi ráðskonu sinni. Brúðkaupið átti sér stað 22. maí 1879.
Eleonóra Sigurðardóttir húsfreyja í Neðri-Miðbæ lézt 11. jan. 1884.
Þegar Eleonóra réðst ráðskona til Björns bónda, fluttist Kristín María dóttir hennar norður að Miðbæ og gerðist vinnukona hjá Birni bónda. Þeirri vist hélt hún, þar til móðir hennar féll frá. Þá hvarf Kristín úr vinnukonuvistinni í Neðri-Miðbæ.
Þá kem ég að yngstu dótturinni frá Bakkagerði, henni Guðrúnu Kristjánsdóttur, sem forsjónin hafði ætlað það hlutskipti og hlutverk í lífinu að verða lífsförunautur Jóns fótalausa Sigurðssonar, stoð hans og stytta, hjúkrari og líkngjafi í þrautum og þjarki ofurharðrar lífsbaráttu um tugi ára.
Þegar faðir Guðrúnar, Kristján Longsson húsmaður í Bakkagerði, andaðist, var hún aðeins fjögurra ára. Þá urðu þær mæðgurnar að skiljast að. Hjónin á Stuðlum í Reyðarfirði, Eyjólfur hreppstjóri Þorsteinsson og Guðrún Jónsdóttir, foreldrar Kristrúnar, fyrstu ástmeyjar Jónasar skálds Þorsteinssonar, (Sjá Blik 1967) tóku þetta litla stúlkubarn frá Bakkagerði til sín og höfðu það í fóstri fyrsta árið eftir fráfall föðurins. Sveitin gaf með barninu, og hún var því „niðursetningur“ eða „sveitarómagi“.
Eftir ársdvöl á Stuðlum var litla stúlkan flutt alla leiðina norður að Sævarenda í Loðmundarfirði. Þangað hafði móðirin komið henni í fóstur til systur sinnar, Sigríðar húsfreyju. Hjá hinum mætu hjónum á Sævarenda, Sigríði og Einari, leið barninu vel. Og þarna var amma hennar, Guðrún Ásmundsdóttir, fyrir á heimilinu, eins og áður getur. Á Sævarenda dvaldist Guðrún Kristjánsdóttir síðan yfir 20 ár eða þar til hún í fyllingu tímans felldi ást og líknarhug til Jóns Sigurðssonar fótalausa.
Er Jón Sigurðsson hafði brölt eða skreiðzt á hnjám sínum milli húsa á Seyðisfjarðaröldu um tveggja ára bil eftir slysið mikla, leitaði hann norður til Loðmundarfjarðar í þeirri von að geta fengið aðstöðu þar til að stunda sjó og hafa þannig ofan af fyrir sér einhvernveginn. Þaðan var styttra að róa til fiskjar en innan frá Seyðisfjarðaröldu. Útræði Loðmfirðinga var frá Nesi,
næst yzta bæ norðan við fjörðinn. Þaðan seldu þeir fiskafla sinn til Seyðisfjarðar. Á Nesi settist Jón Sigurðsson að og stundaði þaðan sjó á
litlum árabáti um árabil, enda voru Loðmfirðingar honum hjálpsamir og veittu honum fyrirgreiðslu til sjálfsbjargar eftir því sem þeir höfðu aðstöðu til.
Á þessum árum kynntust þau Guðrún Kristjánsdóttir, fósturdóttir hjónanna á Sævarenda, og Jón Sigurðsson, sjómaður og útgerðarmaður á Nesi þar í byggð. Tæpast gat framtíð Guðrúnar heimasætu í hjónabandi með svo lömuðum manni og skertum starfsorku verið glæsileg. En konuhjartað spyr ekki alltaf um það, þegar ástarkenndin hjúpuð líknarlundinni, vorkunn- og miskunnseminni, glædd guðsloga og guðstrú, hrifsar völdin og blindar alla skynsemi. Og Jón Sigurðsson gat vissulega tekið sér orð skáldsins í munn, já, sungið hjartanlega:
- Á lífið gjörvallt ljóma ber
- af ljósinu ástar þinnar;
- dauðans breytir dimma sér
- í dagsbrún vonarinnar.
Vorið 1892 fluttust þau Jón og Guðrún frá Loðmundarfirði að Vestdal í Seyðisfirði og stofnuðu þar heimili, hófu búskap. Á Vestdalseyrinni var þá mikill atvinnurekstur, og fjöldi manna búsettur þar. Þau voru enn ógift, og gekk Guðrún með fyrsta barn þeirra, komin langt á leið. Barnið fæddi hún 27. maí um vorið, eða nokkru eftir flutninginn. Þetta var meybarn, sem séra Björn Þorláksson, sóknarprestur á Dvergasteini, skírði Sigríði Eleonóru, nöfnum
systranna, Sigríðar á Sævarenda og Eleonóru móður Guðrúnar.
Svo hélt búskapur þeirra áfram af engri ósæld, þó að fátt væri stundum til fanga og flestar nauðþurftir skornar við nögl. Jón Sigurðsson átti, frá því hann missti fæturna, oft mjög erfitt með að stunda dagleg störf, hvort heldur var til lands eða sjávar sökum þjáninga í hnjám og leggjum. Þær leiddu til svefnleysis og annarra vandræða.
Vorið 1895, 3. maí, fæddi Guðrún Kristjánsdóttir unnusta sínum annað barn. Það var líka meybarn og hlaut nafn föðurmóður sinnar, var skírð Gróa Ragnheiður.
Þótt séra Björn Þorláksson þætti harður í horn að taka, ágengur, harðger og fylginn sér við stórbokka og stertimenni, fann hann til með fátækum og öllum þeim, sem áttu um sárt að binda eða stóðu á ýmsan hátt höllum fæti í lífsbaráttunni. Svo var um Jón og Guðrúnu. Prestskonan að Dvergasteini, frú Björg Einarsdóttir frá Stakkahlíð í Loðmundarfirði var nákunnug Guðrúnu Kristjánsdóttur. Þær voru sveitungar og vinkonur svo að segja frá blautu barnsbeini, aldar upp saman í Loðmundarfirði, Guðrún aðeins 6 árum eldri en prestsfrúin.
Fyrir atbeina prestsfrúarinnar fluttust þau Jón og Guðrún að Dvergasteini, fengu inni þar með bæði börnin og aðstöðu til athafna og bjargræðis. Jafnframt létu prestshjónin það ekki með öllu afskiptalaust, að þau kostuðu kapps um að „uppfylla jörðina“ ógift.
Séra Björn gaf þau saman í heilagt hjónaband 28. maí 1895. Vissulega má þannig að orði komast, að verulega tæki að halla undan fæti fyrir nýgiftu hjónunum strax eftir hjónavígsluna, þó að athöfnin ylli þar auðvitað engu um.
Ömurlegt er að hugleiða þá tíma, er nú fóru í hönd fyrir þessum hjónum og kynnast lífsbaráttu þeirra. Heimili þeirra leystist nú upp sökum fátæktar og bjargarskorts. Við finnum yngra barnið niðursetning hjá vandalausu fólki á Seyðisfjarðaröldu. Guðrún, eiginkonan, hvarf frá manni sínum með eldri dótturina í annað sveitarfélag til þess að vinna þar fyrir þeim báðum, forða þeim frá sveit. Einn og yfirgefinn eigrar hinn fótalausi eiginmaður milli húsa á Seyðisfjarðaröldu, bónbjargarmaður á sárum hnjám, þjáður á sál og líkama. -
Oft og tíðum er jarðlífið ekki síður ömurlegt mannskepnunni en málleysingjunum.
Þessi einveru- og þjáningarár Jóns fótalausa urðu fimm að þessu sinni. Að þeim liðnum herti hann loks upp hugann og breytti til.
Vorið 1901 fluttist Jón fótalausi frá Seyðisfirði að Nesi í Norðfirði. Þar vildi hann reyna að hefjast handa á ný til sjálfsbjargar.
Fyrsta árið á Nesi gerðist hann vinnumaður hjá hjónunum Pálma útgerðarmanni Pálmasyni og Ólöfu Stefánsdóttur. Í þeirri vist leið honum vel eftir ástæðum. Þau hjón höfðu bæði samúð með honum og hlynntu að honum eftir föngum.
Í vinnumannsvist þessari var Jón eitt ár eða til haustsins 1902. Þá varð hann sjálfra sín, varð „lausamaður“, eins og það var kallað, og hugðist gera út sjálfur, róa og fiska fyrir eigin reikning á litlum árabáti. Haustið 1902 og svo vorið 1903 fiskaði Jón vel og efldist að álnum. Hann fylltist nú brátt nýjum framtíðarvonum.
Á Nesi var mikill smábátaútvegur um og eftir aldamótin, stutt að róa og mið fiskisæl. Í þessu litla þorpi fann Jón fótalausi til þess áþreifanlega, hversu allir voru jafnir, allir eitt í samhug og sjálfsbjagarviðleitninni og báru hag hins smæsta fyrir brjóstinu meir en hann átti að venjast áður. Hér var engin gróðastétt ríkjandi. Afkoma fólksins var jöfn og heillavænleg. Eymd og volæði óþekkt fyrirbrigði.
Vissulega vöknuðu hér hinum farlama manni vonir og vissa um batnandi hag og bjargálnalíf. Nú þráði hann mest að fá Guðrúnu konu sína til sín.
Kunningi hans, sem kunni að halda á penna, skrifaði henni fyrir hann langt og ástúðlegt bréf. Þar var fast að henni lagt að koma til Norðfjarðar, flytja að Nesi, þar sem þau gætu hafið nýtt hjúskaparlíf, myndað sér heimili á ný.
Eiginkonunni, Guðrúnu Kristjánsdóttur, var vandi á höndum. Annars vegar var eiginmaðurinn bundinn henni ástar- og hjúskaparböndum, einmana og ósjálfbjarga á ýmsa lund, lamaður, líknarþurfi.
En börnin þeirra tvö, litlu stúlkurnar þeirra, - hvað um þær?
Guðrún, móðir og eiginkona, leiddi vandamál sín hug og hugsun. Já, annars vega ástríkur lífsförunautur, þegar svo bar undir, trúnarðarvinur, faðir barnanna hennar. Hins vegar dætur hennar tvær sem nú dvöldust í fóstri hjá góðu fólki. Átti hún að taka þær með sér, aðra eða báðar? - Og svo skyldu engin tök á að sjá þeim farborða, hafa til hnífs og skeiðar handa þeim öllum, fjögurra manna
fjölskyldu, og ef til vill stærri, þegar fram leið, því að hún var ekki enn
nema 37 ára.
Stúlkurnar hennar voru vissulega hlutar af henni sjálfri, hamingja hennar að hálfu leyti eða vel það, - að öllu leyti. Nei, ekki að öllu leyti. Henni var það svölun og hamingja að geta hjálpað honum, stutt hann, líknað honum. Það var hugsjón hennar frá upphafi kynna og ástar. Hann sat því á hinni vogarskálinni. - Hún vó og mat.
Þau höfðu ekki búið saman síðustu 8 árin. Hún afréð að fórna sjálfri sér, en vildi ekkert eiga á hættu um framtíð barnanna. Öryggi þeirra var henni fyrir öllu, móðurinni og eiginkonunni Guðrúnu Kristjánsdóttur. Hún kaus að hafa stúlkurnar sínar framvegis undir handleiðslu góðs og göfugs fólks.
Svo fluttist Guðrún Kristjánsdóttir suður í Norðfjörð síðla sumars 1903, ein sín liðs, til þess að stofna eiginmanni sínum heimili á ný. Héðan af skyldi hún standa við hlið hans í lífsbaráttunni, fórna honum öllu, er hún gat honum í té látið.
Hjónin tóku á leigu litla íbúð í timburhúsi þarna á Stekkjarnesinu. Það hús hét Sjólyst og stóð utan við Ytri-Hólslækinn niður við Strandveginn. Þarna hófu þau búskap á ný.
Svo leið tíminn í sátt og samlyndi. Hinn 1. ágúst 1904 fæddi Guðrún eiginmanni sínum stúlkubarn. Séra Jón Guðmundsson á Nesi skírði barnið Sigfríði. Lífssólin skein við foreldrunum, og þó sérstaklega móðurinni - henni, sem hafði fórnað samvistum við báðar stúlkurnar sínar, ljósin sín, hamingjudísirnar sínar. Nú
hafði góður guð gefið henni þriðju stúlkuna, sem hún hafði nú efni á og aðstöðu til að annast sjálf og ala upp. Hamingja foreldranna var innileg, svo að liðnir sárindatímar gleymdust furðu fljótt.
En svo syrti að á ný: Hinn 18. nóvember 1907 dó litla Sigfríður Jónsdóttir í Sjólyst. Þá var hún rúmlega þriggja ára. Sorg foreldranna verður ekki með orðum lýst, og þá alveg sérstaklega sorg og þjáningum móðurinnar. Hún varð aldrei söm eftir það áfall. Beiskjan og sárindin ýfðu geð og velktu sál. Það hugarástand bitnaði fyrst og fremst á heimilislífinu. Ein óhamingjan bauð þannig annarri
heim eins og gengur. Og sumt samferðafólkið dæmdi, áfelldi og fordæmdi í skilningsleysi sínu, samúðarleysi og af vanþekkingu.
Árið 1916 eða þar um bil byggðu hjónin Jón og Guðrún sér lítið íbúðarhús utast á svokallaðri Strönd í Norðfirði. Það hús stendur enn, nr. 17 við Urðarveg, stækkað nú og endurbætt.
Íbúðarhús þetta kölluðu hjónin Hlíðarhús.
Áður en þau eignuðust það og eftir að þau fluttu úr Sjólyst, sem var rifin, höfðust þau við í eilitlum kofa inni á Ströndinni. Þak hans var gamall bátur, sem hvolfdi yfir fjórum veggjum með agnarlitlum gluggaborum á. Þau húsakynni hafa eflaust verið í flokki hinna allra fátæklegustu og ömurlegustu í þessu landi, og er þá nokkuð sagt.
Í Hlíðarhúsum lézt Jón S. Sigurðsson 2. janúar 1931 hálfáttræður að aldri.
Ég, sem þetta skrifa, réri á árabáti með Jóni fótalausa á unglingsárum mínum, var annar hásetinn hans á þriggja manna fari færeysku. Fáir voru hans jafnokar að dugnaði og harðfengi við sjósóknina. Mér vitanlega réri hann ógjarnan nema á árabátum. Í þeim var röng eða band um mitt rúm. Framan við röngina lét Jón
tréslá um þveran bátinn og spyrnti þar við með hnjánum, er hann réri árum sínum. Um bátinn endilangan gekk hann á fjórum fótum eftir þóftunum og var býsna fljótur í ferðum, því að hugurinn bar hann hálfa leið, harkan, dugnaðurinn og sæknin. Hann aflaði jafnan vel, og afkoman var oftast bærileg.
Á ýmsa lund var ungum og óreyndum með honum að róa til lærdóms og nytja, því að hann var góður sjómaður, kunni vel til allra þeirra verka á árabátum, og þekkti hverja fiskibleiðu út í æsar bæði á grunnu og dýpra vatni. En vega þurfti hinn
ungi maður og óreyndi með sjálfum sér og meta orð og gjörðir formannsins, þegar til dæmis línur annarra seilaðar fiski komu upp að rúllu við línudrátt, því að þá gátu fingur gamla mannsins orðið helzt til langir stundum og lítt um það hirt, á hvorum klakknum „auðæfi hafsins“ héngu eða hvoru megin hryggjar þau höfðu krækt sig. Mundi hann einn um þá hluti?
Það bar við, að Guðrún í Sjólyst leit inn á æskuheimilið mitt á Hóli, sem var þarna í nánasta nágrenninu á Stekkjarnesinu. Það leyndi sér ekki, að þessi blessuð kona var beisk og sár út í allt og alla, líðandi sál, sem þoldi og bar, - hafði liðið, líknað og fórnað, en hvar var svo umbunin? Aldrei heyrði ég Guðrúnu Kristjánsdóttur minnast á eða ræða um sárustu atburðina í lífi sínu, aldrei. Stundum reyndi fóstra mín að fá hana til að létta á sálu sinni, tjá og
segja frá, ef sú tjáning mætti breyta viðhorfum, létta á og lyfta undir. Nei, þá var hún eins og lokuð bók.
Ég minnist þess, að eitt sinn lét fóstra mín falla orð í þá átt, að Jón,
eiginmaðurinn, mundi vera kaldlyndur nokkuð og tilfinningasvalur í hjúskaparlífinu. Enn minnist ég svarsins, sem Guðrún gaf fóstru minni og var lengi minnzt á æsku heimili mínu: „Þú heldur kannski hann Jón minn sé gjörður úr stáli, sé tilfinningalaus. Ónei, ónei, hver hefur liðið meira en hann?“ Talið
féll niður, og þær snéru sér einhuga að kaffisopanum og svo viðburðum hins daglega lífs í litla þorpinu, gömlu konurnar.
Síðustu æivárin, eftir að Jón féll frá, hafði Guðrún Kristjánsdóttir framfærslu sína hjá sveitarsjóði. Þau ár bjó hún ein í litlu húsi ofan við verzlunarhús Kaupfélagsins Fram. Það hús stendur enn þar í kaupstaðnum, Neskaupstað. Þar lézt hún 24. júní 1938 rúmlega 72 ára.
Matthías Jochumsson kveður:
- „Hvað er Hel -?
- Hvíld, er stillir storm og él,
- endurnæring þungaþjáðum,
- þreyttum, píndum, hrelldum, smáðum,
- eilíf bót, þeim breytti vel,
- heitir Hel.“