Blik 1969/Endurminningar IV. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969


MAGNÚS GUÐMUNDSSON'


Endurminningar
(4. hluti)


Borið við að veiða á línu — enginn árangur


Meðan formenn hér þekktu ekkert til þorskveiða á línu, töldu þeir víst, að helzt mundi á hana veiðast, þegar fiskur var hvað örastur á færi. En þá er fiskurinn uppi í sjó og eltir þar æti. Það skildu þeir ekki þá, hinir reyndu formenn. Sumir fengu þess vegna þá hugmynd, að fiskur hér væri þess eðlis, að hann veiddist aldrei á línu.
Sumir héldu línuna stórrhættulega fiskveiðum, nema þá skötulóðina. Í öllum veiðistöðvum landsins, sem nokkuð kvað að, var þorsklóðin orðin aðalveiðarfærið hjá landsmönnum seint á 19. öldinni, nema þar sem þorskanetin skipuðu öndvegissessinn, eins og sumstaðar á Suðurnesjum við Faxaflóa. Hér í Vestmannaeyjum var árið 1896 enn notað sama veiðarfærið eins og í fornöld eða þegar fiskveiðar hófust fyrst hér, það er að segja handfærið.
Vestmannaeyingar höfðu þó kynnzt lóð fyrir mörgum árum, sérstaklega á Austfjörðum, enda höfðu verið gjörðar lítilsháttar tilraunir hér með lóð fyrir 1896. Verzlunarstjóri við hina svo nefndu Miðbúð, J. Thomsen að nafni, sem var kominn hingað af Vesturlandi og hafði kynnzt lóðinni þar, hafði stundum, eftir að hann fluttist hingað, lagt lóð hér úti í Flóanum að sumarlagi, en engar sögur fara af afla hans. Hann mun hafa aflað lítið, enda tilraun þessi enga eftirtekt vakið til eftirbreytni.
Hannes Jónsson, hafnsögumaður, skýrði mér frá, að hann ásamt fleirum hefði náð sér í fjóra strengi af lóð frá Faxaflóa. Ekkert varð þó úr því, að þeir reyndu línuna fyrst um sinn.
Eitt sinn kom mikið fiskihlaup hér um Bershúsaklakkinn og inn í Flóann. Hlaup þetta var samfara síldargöngu, því að fiskur sá, er veiddist, var með fullan maga af síld og var mikið af henni ómelt.
Nú fannst Hannesi og þeim, sem áttu lóðina með honum, gefast gott tækifæri til að reyna hana, því að þeir höfðu heyrt það, að síld væri einhver allra bezta beitan á þorskalóð. — Þeir fengu nóg af góðri síld til þess að beita lóðina með. Þeir lögðu svo lóðina, þar sem bátarnir höfðu hlaðið á færin.
Vonbrigðin urðu mikil, því að þeir fengu einn smáfisk á lóðina.
Ég hafði líka heyrt þá sögu, sem var sönn, að Sigurður Sigurfinnsson, síðar hreppstjóri, hefði keypt sér þorskalóð til þess að reyna hana á vertíðarskipi hér. Eitt sinn á vertíðinni beitir hann lóðina með þorskhrognum og leggur hana síðan „undir Sandi“. Þann dag tvíhlóðu færaskipin þar, svona flest þeirra a.m.k.
Sigurður fékk hinsvegar lóðina seilaða af háf.
Eftir að þessi tilraun misheppnaðist hjá Sigurði, reyndi hann aldrei að leggja lóðina aftur; flestir munu hafa haft þá trú, að það væri alveg tilgangslaust, og jafnvel héldu sumir því fram, að það gæti verið stórhættulegt. Kem ég að því síðar.
Skötulóðin var eina línan, sem hafði skilað árangri. Nokkrir höfðu reynt hana hér á Innleirunni og aflað vel.
Skötulóðin var með fáum og stórum segulnaglaönglum íslenzkum af sömu gerð og hér voru notaðir á handfæri. Ás skötulóðarinnar var mjór kaðall.
Skötulóðin var látin liggja um sólarhring og stundum lengur, ef veður bagaði. Þessi lóð virtist engin áhrif hafa í þá átt að hvetja menn til þess að nota þorskalóð.


Magnús Guðmundsson býr sig undir brautryðjandastarfið


Hann dregur að sér efni í línuna. Ekki skorti hrakspárnar. Ólafur útgerðarmaður í London hvetur Magnús til dáða: „Gefðu þig aldrei, Magnús. Það verður sjaldan mikið úr ungum mönnum, sem hætta við áform sín.“

Þrátt fyrir þetta, sem nú hefur verið minnzt á, fór mér að detta í hug að gera tilraun með þorskalóð. Jafnframt var mér það ljóst, að það mundi mæta andúð og óvíst, hvort ég kæmi því í framkvæmd.
Síðara sumarið, sem ég var á Austfjörðum, útvegaði ég mér heimilisfang þeirra útlenzku verksmiðja, sem þeir í Mjóafirði fengu veiðarfæri frá. Þar var notuð tveggja punda lína í ás og fjögurra punda lína í bólfæri. Í tauma var notuð eins punds lína, sem var rakin sundur á sérstakan hátt. Önglarnir voru frá Mustad og Sön.
Fyrsti maðurinn, sem ég talaði við um þetta áform mitt var Ólafur Magnússon, eigandi skips þess, er ég var formaður með á vetrarvertíðum, Ólafur í London.
Mér þótti miklu máli skipta, hvernig Ólafur tæki í þetta mál, þar sem hann fékk um 1/4 aflans í sinn hlut, — bátshluti fjóra og tvo hásetahluti. Ég tjáði honum hugmynd mína að reyna lóðina hér úti í leirnum, þegar liði fram á aprílmánuð, því að þar hefði lóð aldrei verið lögð. Ólafur tók vel í þetta mál og hvatti mig til að koma því í framkvæmd. Hann kvað ekki skyldi standa á sér að leggja sitt til þess, að þessi tilraun mætti takast.
Einnig orðaði ég þessa hugmynd við nokkra yngri háseta mína, — helzt þó þá, sem kynnzt höfðu lóðinni á Austfjörðum. Hvöttu þeir mig eindregið allir til þess að reyna þetta, en þeir unnu allir á vegum feðra sinna eða annarra húsbænda og höfðu þvi engin fjárráð.
Næst þessu fór ég til Gísla Stefánssonar kaupmanns. Hann sigldi um árabil út til Englands til þess að gera vöruinnkaup og þekkti sig því þar. Hann vildi aðstoða mig við að ná í öngla og strengi frá Englandi, en greiðsla yrði að fylgja pöntun, sagði hann.
Ég gerði ráð fyrir að hefja línuveiðarnar með 1600 önglum. Annað eins þurfti ég að eiga til vara, ef illa tækist til, svo sem ef yfirgefa yrði lóðina vegna veðurs. Einnig gat svo illa til tekizt, að lagt yrði á hraun og lóðin tapaðist þar. Þá gat einnig hákarlinn klippt lóðina sundur, eins og oft kom fyrir á Austfjörðum. Við öllum þessum óhöppum vildi ég vera búinn. Línuveiðarnar skyldu reyndar til þrautar. Næst þessu tók ég að biðja um framlag af hverjum hlut, — kr. 7,50 afréð ég. Ýmist fékk ég ekkert loforð um styrkinn eða óákveðið — loðið og lítið á að byggja. Nokkrir tóku illa málaleitan minni: töldu það hina mestu dirfsku að ætla sér að nota þorskalóð við Eyjar, — hér úti í hafi. Menn vissu mýmörg dæmi þess, að svo snögglega hefði hvesst á þessum slóðum, að menn hefðu flýtt sér að hafa upp færin og seglbúa, — komast sem allra fyrst í land. Svo hefði það líka sýnt sig, sögðu menn, að hér veiddist ekki á lóð, enda væri það bezt, því að menn mundu drepa sig hér unnvörpum, ef farið yrði almennt að nota það veiðarfæri.
Ég gekk nú á fund Ólafs skipseiganda og tjáði honum undirtektirnar og álit ýmissa á framtaki þessu. Það var haustið 1896.
Meðan ég lét dæluna ganga, gekk Ólafur um gólf og sagði við og við: „Já, ójá; já, já.“
Ég hafði lokið máli mínu, og enn gekkk Ólafur Magnússon um gólf, hugsandi.
Mér flaug ýmislegt í hug. Var honum nú snúinn hugur, þegar hann heyrði, hve margir voru á móti mér?
Allt í einu kemur hann fast að mér og segir með mikilli áherzlu á hverju orði: „Gefðu þig aldrei, Magnús: það verður sjaldan mikið úr ungum mönnum, sem hætta við áform sín.“
Ég kvaðst vera honum þakklátur fyrir orðin, og væri ég ekki í þeim hug, að hætta við þetta. Hinsvegar hlyti að koma annað hljóð í strokkinn minn, ef ég fengi hvergi peninga til lóðakaupanna.
Þá sagði Ólafur: „Þú getur fengið peningana hjá mér. Misheppnist þetta, getum við haft það grafið og gleymt. Takist áformið hinsvegar, lukkist það, sem ég treysti, þá verða karlarnir fúsir til þess að borga þetta eftir á.“


Línurúlla, goggar, bjóð og kálfsbelgir eins og í Mjóafirði


ctr


Á þessari mynd til hægri eru þrír ílar til vinstri og kálfsbelgur til hægri.
Hvað voru ílar?
Íll var poki, ýmist úr skinni gjörður eða boldangi. Í poka þessum var geymt lýsi, sem haft var í opnum skipum.
Þegar sjógangur var mikill, svo að hætta gat stafað af, var íllinn dreginn á eftir skipinu, t.d. á siglingu og íldi lýsið í sjóinn út um göt á sponsi ílsins. Lýsið sló á sjávargang eins og olía gerir nú. Nú heitir íllinn bárufleygur og ílir úr sér smurolíu blandaðri dísilolíu, eftir því sem gamall og margreyndur skipstjóri tjáir mér.
Fyrstu áratugina eftir að íslenzkir fiskimenn tóku að veiða fisk á línu, þekktust naumast önnur línuból en kálfsbelgir. Væru þeir milliból var bólfærið undið upp á þá.
(Myndin tekin í Byggðarsafni Vestmannaeyja.)

Eftir að lóðarefnið var komið, unnum við nokkrir að því að setja lóðina upp. Sumir þeirra höfðu aldrei séð lóð áður. Líka voru ýmis áhöld smíðuð til línuveiðanna, svo sem línurúlla, goggar, bjóð. Þá voru drepnir og flegnir kálfar til þess að hafa belgina í ból, — línuból. Allt var útbúið, eins og það ætti að notast austur á Mjóafirði. Þegar línan og öll hennar fylgitæki voru tilbúin, voru veiðitæki þessi öll geymd þar til síðari hluta næstu vertíðar (1897). Þá var ætlunin að nota þau. Mér kom það þá ekki til hugar, að vertíð hæfist hér nokkru sinni með línu. Við vildum vanda sem bezt allan undirbúning veiðanna með lóð og bíða svo, þar til veður færu að stillast eða fram í aprílmánuð.


Veiðarnar hefjast


Línan ryður sér til rúms. Sultarvofan flýr loks frá dyrum Eyjabúa. Laugardagurinn 10. apríl 1897 er einn allra merkasti dagur í sögu Vestmannaeyja. Fiskur á öðrum hverjum krók til jafnaðar.

ctr


Þegar notkun línunnar hófst í Vestmannaeyjum, voru þessir þrír hlutir á myndinni hinir algengustu.
Línan var beitt í bjóð, áður en stamparnir komu til sögunnar, og lögð í sjóinn með berum höndum. Þegar að landi var komið með aflann, var hann seilaður og dreginn á seilinni upp á klöpp eða upp í fjöru, þar sem honum var skipt.
Seilin var gjörð af þrem hlutum: Seilunálinni, sem venjulegast var gjörð úr hvalbeini, seilartauginni (eða seilarólinni, væri hún skorin úr nautshúð) og svo seilarbotninum, sem oft var tígullaga spýta með gati í miðju. Þar var endi seilartaugarinnar festur. Að seilarbotninum rann fiskurinn eftir tauginni.
Áður en bryggjur urðu til í Eyjum og handvagnar komu til sögunnar til þess að aka aflanum upp að aðgerðarkrónum, var hann dreginn „úr Sandi“ með svokölluðum fiskdráttarkrókum, tveir fiskar í hvorri hendi. Þeir krókar voru oft haglega gerðir, eins og sést á myndinni.
Þessum tækjum öllum á lesari minn góðan kost á að kynnast í Byggðarsafni Vestmannaeyja.


Vertíðina 1897 hófum við róðra 4. marz. Janúar og febrúar voru þá með fádæmum stormasamir.
Þessa vertíð notuðum við handfæri til 10. apríl, og alltaf hékk lóðin ónotuð inni í húsi.
Dagana 7. og 8. apríl leituðum við víða fisks, en fengum aðeins einn í hlut. — Ördeyða. Við fengum þá ekki svo mikið sem beitu á lóðina.
Þann 9. apríl réri smáfleyta inn á Flúðir og hlóð þar, — aðallega af þorski. Ég keypti öll hrognin úr aflanum, en þau nægðu ekki á helming lóðarinnar, svo að ég fékk mér keilu og smáfisk í viðbót. Þannig tókst okkur að egna þessa 1600 króka, sem við vildum róa með.
Árla morguns hinn 10. apríl byrjuðum við að beita línuna. Kl. 10 f.h. sama dag lögðum við frá landi í fyrsta línuróðurinn.
Blíðuveður var um láð og lög, og við byrjuðum að leggja nokkuð langt austur af Réttarklakk. Þar lögðum við alla lóðina beint í austur.
Þegar við höfðum lokið við að leggja, tók að vinda af austri. Svo að við héldum okkur við ytra endabólið og fórum ekki á milli, eins og það var kallað á Austfjörðum.
Þegar línan hafði legið í einn tíma, fórum við að draga.
Endafærið eða stjórinn virtist fast í hrauni, og svo illa, að við slitum bólfærið eftir lítinn tíma. Við rérum nú í næsta ból. Á milli bóla voru tvö bjóð eða 400 önglar. Það bólfæri reyndist einnig fast í hrauni. Þá leið mér ekki vel, — og var mér satt að segja ekki farið að lítast á blikuna. Byrjunin var ekki sigurvænleg.
Allt í einu losnaði færið. Auðfundið var, að stjórinn var með. Þegar stjórinn kom upp að borðinu, reyndust aðeins fyrir þrír krókar af austurálmu línunnar við stjórann. Þar með var 1/4 af lóðinni tapaður. En vesturhluti lóðarinnar var heill, og við grilltum 10 úti þegar stjórinn kom upp, ekki háfa, heldur stóra og fallega þorska. Þegar við höfðum innbyrt þá, sáust enn margir. Við drógum nú línuna viðstöðulaust til enda.
Á þessa 1200 öngla fengum við 21 þorsk í hlut og 2 ýsur. Skipt var í 24 hluti. Með 400 krókana, sem við misstum, höfðum við lent austur í hið stórgerða hraun, sem er norður af Dýpri-Mannklakknum.
Það var kominn austan stormur, þegar við vorum búnir að draga. Vel lá á strákunum, þegar við höfðum seglbúið og Ingólfur öslaði heim á leið með þennan góða afla. Byrjunin spáði góðu og strákarnir sungu og gerðu að gamni sínu.
Nú fengum við nóg af hrognum í næsta róður. En austanáttin, sem hófst með þessum degi, hamlaði róðrum til 17. s.m. Þann dag rérum við í annað sinn með lóðina, 1600 öngla. Beitan var orðin mjög úldin, enda engir frystiklefar þá til þess að geyma beitta línu í. Samt fiskuðum við vel; fengum 24 þorska í hlut og 4 ýsur. Í þessum róðri misstum við ekkert af lóðinni.
Við hættum að róa 6. maí. Höfðum þá farið 11 róðra með línuna og tapað samtals 800 önglum. En aflinn þennan stutta tíma nam samtals 5596 þorskum og 1416 ýsum. Auk þess fengum við talsvert af lúðu og skötu.
Frá því að við drógum út og til 10. apríl, að við hófum veiðarnar með línuna, vorum við búnir að fá 218 í hlut. Gera má ráð fyrir, að lítið hefði við það bætzt, eftir því sem aflinn reyndist hjá hinum, sem stunduðu eingöngu færi til vertíðarloka.


V. hluti

Til baka