Blik 1969/Endurminningar III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969


MAGNÚS GUÐMUNDSSON'


Endurminningar
(3. hluti)


Fiskverð á Austfjörðum sumarið 1895


Bæði þessi ár (1895 og 1896) var verð á þurrfiski í Mjóafirði sem hér segir:

Þorskur kr. 32,00 hvert skippund
Smáfiskur kr. 28,00 hvert skippund
Ýsa kr. 24,00 hvert skippund

Smáfiskur þ.e. minna en 18 þm.(41,4 cm). Skippund er 320 pund eða 160 kg.
Síld var notuð í beitu, ýmist nýveidd eða frosin. Alltaf var þó notað eitthvað af ljósabeitu með, væri hún til, en svo hét steinbítur og karfi (t.d.), ef fiskurinn af þeim var notaður í beitu.
Við rérum alltaf með lóð að undanteknum þrem róðrum síðara sumarið.
Oftast sóttum við mjög langt, þegar veður leyfði, eða 2-2½ tíma róður til hafs frá utasta tanga fjarðarins, Steinsnesi. Innan frá Brekku var 1¼ tíma róður út að Steinsnesi.
Mikið var kappið í sjósókn við Mjóafjörð um þessar mundir, enda gengu þar þá um 60 bátar.
Eftir því sem okkur var tjáð, þá fiskuðum við mest við fjörðinn bæði þessi sumur. Var þá miðað við þyngd. Við lögðum líka hið mesta kapp á að fiska, og metnaður okkar var svo mikill, að okkur fannst að heiður Vestmannaeyja lægi við, ef Sunnlendingar aðrir og heimamenn fiskuðu betur en við.
Þeir sem réru á opnum bátum fyrir austan, sérstaklega frá Seyðisfirði og Mjóafirði og sóttu djarft, fengu vissulega að kynnast því, hve erfitt og hættulegt var að sækja sjó á Austfjörðum.
Þegar fór að líða á síðara sumarið, vorum við orðnir svo slæmir af handadofa, að við urðum að byrja á því að halda handleggjunum ofan í köldum sjónum, áður en við hófum róður á morgnana eða síðari hluta nætur. Það kom fyrir, að ég missti ár úr hendi mér sökum handadofans; ég réri með tveim árum.
Oft var lóðin mjög þung í drætti, bæði sökum straums og festu í botni. Þegar maður svo loks hafði lokið við að draga lóðina, kom það fyrir, að berja þurfti alla leið í land.


Þeir sigla á hval


Eitt sinn vorum við, að mig minnir, rúmar 7 klukkustundir að berja inn að fjarðarkjafti og þaðan 4 klst. inn að lendingu. En eftir að yztu nesjum var náð, gátum við hvílt okkur öðru hvoru.
Skrifa mætti langt mál um allt það erfiði, sem þessir 167 róðrar eða sjóferðir kostuðu okkur, og um ýmsar hættur, sem við lentum í. Ég greini hér aðeins frá tveim af þeim.
Eitt sinn vorum við nýbyrjaðir að sigla til lands í góðum byr. Þá rennir smáhveli sér þvert fyrir stafn bátsins og svo nærri honum, að báturinn rann á fiskinn miðjan. Svo virtist sem hvalurinn næmi staðar um leið og báturinn snerti hann. Um leið virtist hvalurinn sveigja sig um miðjuna, því að haus hvalsins kom upp úr yfirborðinu á annað borðið og sporðurinn á hitt. Báturinn lagðist á hliðina um leið og hann lenti á hvalnum og rann svo yfir hann. En um leið og báturinn rann af hvalnum, fór svo mikill sjór yfir hann aftanverðan, að litlu munaði, að hann sykki. Þá var það okkur til bjargar, hve báturinn var létthlaðinn. Þetta atvik sýnir, að margar eru hætturnar búnar þeim, sem um sjóinn fara, — sérstaklega á smáfleytum.


Geigur í garpi. Erfiðar draumfarir.
Gat búizt við lífsháska, enda rættist draumurinn.
„Það þykir mér verst, ef við drepum okkur,
að ég er ekki búinn að borða bitann minn!“


Jón Jónsson frá Brautarholti í Eyjum (Landagötu 3B). „Það þykir mér verst, ef við drepum okkur, að ég er ekki búinn að borða bitann minn.“

Síðara sumarið, sem við rérum úr Brekkuþorpi, fórum við eitt sinn á sjóinn kl. 1 að nóttu. Þá var liðið fram í september.
Þessa nótt rérum við langt á undan öðrum fjarðarmönnum, eins og við gerðum jafnan, þegar góð voru veður, því að okkur þótti það miklu fiskilegra að vera búnir að leggja lóðina á undan öðrum.
Þessa nótt var logn og heiður himinn og veður hið fegursta. Þó lagðist þessi róður mjög illa í mig. Mig dreymdi þannig, að ég gekk þess ekki dulinn, að ég mundi komast í lífsháska á sjó, áður langt liði. Ég hafði orð á þessu við félaga mína, Jón og Vigfús. Við fórum nú samt í lengstu fiskileitir, því að veðurútlitið var mjög gott. En slíkur geigur var í mér við draum minn, að ég lagði ekki nema 2/3 af línunni, enda þótt Vigfús léti undrun sína í ljós, þar sem stillilogn var og heiðríkja.
Þegar við höfðum lokið við að leggja það, sem lagt var, tók að birta í norðaustri. Þá birtist veðurbakki í þeirri átt. Hann hækkaði brátt.
Þegar lóðin hafði legið fjórðung stundar, skipaði ég að róa að endabóli og fara að draga. Jón mæltist til þess, að hann fengi að borða áður, en ég neitaði því. Um það bil sem stjórinn var innbyrtur, hvessti snögglega af austri-norðaustri.
Fiskur var nægur, og þegar við hófum drátt á síðara bjóðinu, var miðrúmið orðið hálft og skutur hálfur af fiski. Öllum fiskinum á lóðinni, sem þá var ódregin, fleygðum við, enda var nú komið hvassviðri með miklum sjó, því að harður straumur fór á móti storminum.
Við sigldum aðeins á þríhyrnunni einni heim, og þó hljóp báturinn oft og tíðum hættulega mikið.
Alla leiðina heim urðu þeir báðir Jón og Vigfús, að standa í austri og hvíla hvorn annan.
Seinna kom okkur saman um, að ekki sjaldnar en 20 sinnum hefði bátinn hálffyllt á siglingu þessari. Eitt sinn skall á okkur ólag, sem færði mig í kaf, þar sem ég sat undir stjórn. Hélt ég þá, að sjóferð þessari væri lokið. Þá flaug sú hugsun eins og leiftur í gegnum huga minn, að nú væri um enga björgun að ræða, og sorgbitin yrði hún móðir mín, er hún frétti látið mitt. Flest lauslegt í bátnum fór fyrir borð. Þar með var fiskurinn. Mig minnir, að 4 fiskar væru eftir í miðrúminu.
Eftir að ólagið var liðið hjá, fór báturinn að lyfta sér, enda dró Jón ekki af sér við austurinn. Þegar hann hafði þurrausið bátinn, bað hann Vigfús að hvíla sig og bætti þá við: „Það þykir mér verst, ef við drepum okkur, að ég er ekki búinn að borða bitann minn.“


IV. hluti


Til baka