Blik 1969/Úr sögu sjávarútvegsins, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Úr sögu sjávarútvegsins


IX. Hálsahöfn í Suðursveit og slysið mikla þar 1573


Þegar ég var drengur að alast upp austur á fjörðum, heyrði ég fólk ættað úr Austur-Skaftafellssýslu segja frá því og fullyrða, að Norðlendingar hefðu einhverntíma á öldum ferðast suður yfir Vatnajökul á vetrum til sjóróðra suður í Suðursveit. Ég gerði mér þá litla grein fyrir því, hversu sérlegt fyrirbrigði þetta var í atvinnusögu íslenzku þjóðarinnar. Voru þetta ekki munnmæli, sem enga stoð áttu í veruleikanum?
Svo liðu árin. Á 3. áratug þessarar aldar voru nokkrir íslenzkir annálar prentaðir og gefnir út til fróðleiks almenningi í landinu. Þá las ég við ártalið 1573 í Fitjaannál þessa frásögn: „Þá varð hið mikla manntjón undir Hálsum í Hornafirði á góuþrælinn (þ.e. 9. marz). Þar drukknuðu 53 menn. Þar voru eftir 15 ekkjur og munaðarlausar.“—
Varð þetta mikla slys og manntjón á útvegi Norðlendinga þarna í Austur-Skaftafellssýslu? Enginn gat frætt mig um það.
Og ár og dagar liðu. Hugurinn batzt öðru og annálarnir voru lagðir á hilluna.
Árið 1957 kom út ein af bókum Þórbergs Þórðarsonar. Hún heitir Um lönd og lýði og fjallar um fólk í Suðursveit og lendur þar. Svo sem kunnugt er, þá er rithöfundurinn Suðursveitungur og átthagarækinn í bezta lagi.

Sjávarströndin og nokkur örnefni í Suðursveit: 1. Hálsaós. — 2. Bjarnahraun á Bjarnahraunssandi. — 3. Styrmissker. — 4. Hestgerðissker. — 5. Hálssker. — 6. Hestgerðislón. — 7. Bærinn Borgarhöfn. — 8. Kálfafellsstaður. — 9. Kálfafell. — 10. Bærinn Breiðabólsstaður (Bærinn Hali í grennd). — 11. Steinafjall. — 12. Vagnsstaðir. — 13. Borgarhafnarheiði. — 14. Breiðamerkurjökull. — 15. Bœrinn Hestgerði. — 16. Kálfafellstindur. — 17. Steinavötn. — 18. Heinabergsvötn. — 19. Heinabergsjökull. — 20. Staðarfjall. — M. Mýrar.
Heimild: Herforingjaráðskortið, mælt 1903—1904, endurskoðað 1945.













Í bók þessari getur höfundur um útveg Norðlendinga í Suðursveit á 16. öldinni. Ég tek mér það bessaleyfi að láta hann tala hér: „Austan við Hestgerðiskambinn byrjaði austasta sveitin í Suðursveit. Hún hét Mörk ... Vestasti bærinn á Mörkinni hét Hestgerði ... Þar var orðið mjög stutt út að Lóninu ... Austan við Hestgerði var Lónið aftur orðið afarbreitt og gaman að horfa út yfir það og gizka á, hvað væri mikið af silungi í því og hvað væru margir faðmar út að fjörunni. Upp úr henni, suðaustur af Hestgerði, stóðu klettar, sem voru miklir um sig. Þeir hétu Hálsar eða Hálsaklettar. Þeir gengu út í sjóinn, og í sjónum fyrir utan þá var talsvert af boðum og skerjum, sem öldurnar brotnuðu á.
Skammt fyrir austan klettana féll ós gegnum fjöruna, sem hét víst Hálsaós, en fólkið sagði Hálsós. Þetta var nafnfrægur staður fyrr á öldum, því að þá var þaðan mikið útræði, úr svokallaðri Hálsahöfn.
En nú var svo komið, að enginn vissi, hvar í Hálsum eða við Hálsa Hálsahöfn hafði verið. Það hafði ekkert verið skrifað, ekkert mælt, ekkert sigtað út, og þó hefði það átt að vera á borð við nokkur mannvíg, að heil fiskihöfn leggst niður, jafnvel hverfur af yfirborði jarðarinnar. Nú urðu menn að styðja sig við hækjur getgátnanna, og þeir hugsuðu einhvern veginn svona: Hvað kom hér fyrir? —Ef ósinn var höfnin, sem róið var úr fyrr á öldum, hvers vegna var það þá ekki hægt síðar? Breytti hann farvegi? Ekki vita menn til þess. Það var ekki fyrr en nokkrum öldum seinna. Minnkaði í honum vatnsmagnið? Grynnkaði sjórinn úti fyrir honum, svo að þar gerðust brotsjóar og leiðin varð hættulegri?
Menn héldu, að það hefði verið annað, sem gerðist.
Austan í Hálsum er dálítil vík milli tveggja klettaálma, nú sandfyllt. Hún heitir enn í dag Gunnhildarvík. Landskerið fyrir Bjarnahraunssandi heitir líka Gunnhildarsker. Báðir staðirnir bera sennilega nafn af sömu Gunnhildi. En hvers vegna? Og hver var hún? — Formaður? Þetta vissi enginn. En Gunnhildarnafnið lifði langt fram eftir öldum í Austur-Skaftafellssýslu.
Gunnhildarvík lá frá austri til vesturs, og menn telja víst, að hún hafi verið skipgeng fyrr á öldum, og að klettaálman fyrir sunnan hana hafi varið hana fyrir brimi. En austan við klettaálmuna, sem lá með víkinni að norðan, féll Hálsaós gegnum fjöruna fram á síðustu öld, en þá kastaði hann sér nokkuð austar. Hann hefur þá runnið út rétt fyrir framan munnann á Gunnhildarvík.
Þessi vík halda menn að hafi verið Hálsahöfn, og að ósinn hafi fyllt hana smám saman upp með sandi þar til hún var ógeng skipum og síðan þurr fjara. Til þess bendir það og, að utan við víkina, örskammt frá landi, er sker, sem enn í dag heitir Hafnarsker. Og nokkurn spöl austar í fjörunni, fyrir austan ósinn, er annað sker, sem heitir Hafnargarður.
Það er sennilegast, að þessi vík hafi verið Hálsahöfn, sem kölluð var fyrr á öldum. Þarna hefur líklega um langan tíma verið lent með mikinn afla, sem satt hefur hungur margra manna hér og þar á Íslandi. Í þá tíð hafa verið ágæt fiskimið fyrir Suðursveitarsöndum, eins og þau voru síðan. Hvergi röðuðu frönsku duggurnar sér þéttar á vetrarvertíðinni, eftir að þær fóru að bráka fyrir fisk hér við land.
Þegar haldið var úr Hálsahöfn, hefur verið róið austur úr Gunnhildarvík, austur í ósmynnið, og þar beygt til suðurs eða suðausturs út á rúmsjó. Og þegar komið var að, hefur verið róið inn í ósmynnið og þar vikið til vesturs inn í víkina.“ Og höfundurinn heldur áfram að spyrja og setja fram hugmyndir sínar um útróðrana í Hálsahöfn. Og svo segir hann: „Sem sagt: Saga Íslands er týnd.“
Það eru sannarlega orð að sönnu, að saga Íslands sé týnd að mjög miklu leyti allar götur miðaldanna og fram á síðustu aldir. Aðeins eitt dæmið er saga Hálsahafnar og útvegsins þar um langt skeið. Enginn veit hve langt, ef til vill um aldaskeið. Allt er það myrkri hulið. Og svo er um útvegssögu þjóðarinnar í heild frá upphafi sjávarútvegstímabilsins í byrjun 15. aldar.
Svo heldur Þórbergur áfram: „Norðan við Hálsakletta var allstór grasatorfa. Hún var slegin langt fram á 19. öld, og um 1880 fengust af henni um 80 hestar. Síðan var hún höfð til fjárbeitar. Á henni sást glöggt móta fyrir ævagömlum garði, sem lá frá suðaustri til norðausturs. Ég skauzt til að stíga hann niður. Hann var nálægt 70 faðma langur (140 metrar), það sem eftir sást af honum. Torfan hefur eflaust verið miklu stærri fyrr meir, en hefur blásið upp smátt og smátt og nyrzti hluti garðsins étizt upp með henni. Garðurinn var kallaður Fiskigarður. Voru þeir fleiri þarna áður? Hann hefur vafalaust verið hafður til fiskbreiðslu, þegar útræði var í Hálsahöfn.
Svo sagði gömul saga í Suðursveit, að í Hálsum hefði verið skáli í fyrndinni, og gömlum sögnum skal maður aldrei ganga fram hjá að óreyndu.“ ... „ ... Það var fyrir löngu týnt úr sögu landsins, hvenær róðrar lögðust niður í Hálsahöfn. Enginn vissi heldur, hvenær þeir hófust né hvað víða þaðan var haldið úti skipum. Sennilega hefur verið róið þaðan úr öllum byggðarlögum í Suðursveit, austan Steinasands, og vel má vera, að Sunnlendingar hafi sótt þaðan sjó, að minnsta kosti annað veifið, þó að þangað væri rúmur þriggja tíma gangur frá Breiðabólstaðarbæjunum. Og vissa er fyrir því, að Norðlendingar höfðu þar útgerð. Þeir höfðu verbúðir á fögrum stað vestan undir Hestgerðiskambi, í svokölluðu Kambstúni, og sást þar enn til tófta í ungdæmi mínu. Þaðan var um 45 mínútna gangur út í Hálsahöfn, þegar hægt var að fara á haldi lónið, sem þar hét Hestgerðislón, en yfir það lá leiðin út í Hálsa.
Sú sögn hafði alltaf lifað í Suðursveit, að Norðlendingar hefðu komið í verið norðan yfir fjöll, niður svonefndan Staðardal og niður í byggð á milli þorpsins og Borgarhafnar ... Þarna uppi sást líka móta fyrir gamalli götu.
Enginn vissi, hvaðan úr Norðurlandi þessir vermenn voru. Það var kunnugt, að úr Hornshöfn röru Skagfirðingar forðum daga. Á Horni var lengi til ritaður samningur milli Hornsbónda og Skagfirðinga. Þar var svo ákveðið, að bóndinn átti mánaðarbeit fyrir svo og svo mörg hross í Blönduhlíð í Skagafirði á móti uppsátri, sem Skagfirðingar ættu í Naustavík við Hornshöfn. Þessum samningi var aflýst í tíð séra Þórarins Erlendssonar prófasts í Bjarnarnesi, en hann þjónaði þar 1826—1843. Svo sagði mér sumarið 1933 Sigurður Eyjólfsson, bóndi á Horni.
... Og í Suðursveit koma Norðlendingarnir um hávetur niður í byggð ofan af reginfjöllum, þar sem enginn galinn maður, hvað þá heldur með öllum mjalla, mundi láta sér til hugar koma að leggja leið sína norðan úr landi nú á tímum.

Ýmsar sagnir voru enn á gangi í Suðursveit um lífið í Kambstúni. Þeir norðlenzku höfðu verið léttúðugir og brúkað óskikk og óguðlegan munnsöfnuð. Tveir þeirra höfðu eitt sinn veðjað um það, hvor yrði fljótari að hlaupa á nærfötunum í hríðarveðri uppí til tveggja bændadætra, annarrar inni í Borgarhöfn, hinnar austur á Mörk. Ekki man ég, hvernig það veðmál heppnaðist. En þetta þótti óþarfatal í Suðursveit. Og orðskviður var þar enn á lífi, sem var hér um bil svona: „Kom þú í Kambstún, ef þér finnst kvöldin löng.“
Loks tók guð í taumana.
Ingjaldur hét einn af vermönnunum. Hann ástundaði betra skikk en félagar hans og vildi sem minnst hafa saman við þá að sælda. Hann bjó í skála einn sér. Eina nótt á vertíðinni heyrði hann gengið að skáladyrunum og þessa vísu kveðna fyrir utan:

Ingjaldur hér inni sefur
einn í luktum skála.
Nú er sá kominn, er köppum gefur
kóngsins harðan mála.

Daginn eftir fór Ingjaldur ekki á sjó. Þá röru öll skip úr Hálsahöfn, 18 að sögn, og fórust 17 þeirra þennan dag, en eitt komst af. Segir sagan, að formaðurinn á því skipi hafi heitað Bjarni. Sagt er, að presturinn á Kálfafellsstað hafi verið á skipi með honum. Enginn vissi, hvað hann hét, og það finnst hvergi skrifað. En þeir, sem fórust, áttu að hafa verið 90.“ (Sumar heimildir segja að 53 menn hafi drukknað og nefna ártalið 1553.)
Og Þórbergur Þórðarson heldur áfram: „Tvær sögur gengu um orsök slyssins. Önnur sagði, að brostið hefði á stórviðri. Enginn vissi, af hvaða átt, hvort það var aflandsveður og skipin rekið til hafs og farizt í hafi, eða álandsstormur með hafróti og skipin týnzt í lendingu eða á leið til lands. Enginn vissi heldur hvort skipin hefðu öll verið Norðlendinga eða bæði Norðlendinga og Suðursveitunga, enginn, hvað mennirnir hefðu heitið á þeim eða frá hvaða bæjum þeir hefðu verið, enginn, hvort nokkur skip hefðu rekið eða nokkuð úr þeim, — enginn hvernig fólkið í Suðursveit hefði snúizt við þessu mikla áfalli. Svo sljó var saga landsins.“


Guð þjóðar í nauðum


„Hin sagan var á þann veg, að skipin hefðu legið í fiski nálægt hvert öðru. Allt í einu hefði bandóður rauðkembingur rennt sér inn í flotann og fært í kaf á stuttri stundu hvert skipið eftir annað, þar til ekkert var eftir nema skip Bjarna, en það hefði verið nokkuð frá hinum. Þegar það sá aðfarir rauðkembingsins, brá það við og röri til lands allt hvað af tók, en rauðkembingurinn tók strikið á eftir því, undir eins og hann hafði lokið við að bana hinum skipunum, og var ferðin á honum svo mikil, að hann var rétt búinn að ná skipinu. Þá var á leið þess sker, sem heitir Styrmissker, ekki langt frá landi, og átti skip að geta flotið yfir það á flóði. Þá var nálægt háflæði og slapp skipið yfir skerið, en hvalurinn fylgdi fast á eftir og renndi á skerið, stóð þar grunn og sprakk á því. Skip Bjarna náði landi heilu og höldnu í námunda við Bjarnarhraun, og var sagt, að það hefði tekið nafn af honum.
Það var almennt talað í Suðursveit, að þessi mannskaði hefði verið refsing frá Guði fyrir óskikk norðanmanna.“
Þetta var þá frásögn Þórbergs rithöfundar um Hálsahöfn, útveginn þar og þær sagnir, sem bærðust um hann á tungu sveitunga hans, þegar hann ólst þar upp.
Frásögn Þórbergs Þórðarsonar um Hálsahöfn og útveginn þar er hin markverðasta. Kynslóðir fæðast, lifa og hverfa í þögn og kyrrð, og með þeim hverfur vissa og vitneskja, sögn og saga útvegshafnar og athafnasvæðis. Allt hylst það myrkri löngu liðins tíma. „Saga Íslands er týnd“ frá fyrstu öldum sjávarútvegstímabilsins, svona að mestu leyti að minnsta kosti, — tímabils hins háa skreiðarverðs og skefjalausu samkeppni útlendra fésýslumanna um íslenzku skreiðina og verzlunaraðstöðuna yfirleitt við sjávarsíðuna, í sjóþorpunum, — samkeppni, sem stundum varð blóðug, — skreiðarverð, sem rak Norðlendinga suður yfir fjöll og jökla um hávetur til fiskveiða frá hafnlausum verstöðvum á Suðausturlandinu. Og heimildir og sannar sagnir um þetta mikla framtak voru aldrei skráðar og hurfu þannig í djúp gleymskunnar. Slíkt og þvílíkt hefði tæpast getað gerzt á ritöld eða öðru gróskutímabili þjóðarinnar. Á skreiðaröldinni var allt fallið í gleymsku og dá eða féll í gleymsku og dá nema hindurvitni og óskynsamleg eða fráleit guðstrú. Því öllu olli ófrelsið, undirokunin, angrið og eymdin. Síðustu kynslóðir verða því að styðjast við „hækjur getgátnanna“, eins og Þ.Þ. kemst að orði.
Og svo er lopinn spunninn og voðin ofin með ívafi þjóðsagnanna, þjóðtrúar og guðstrúar, sem brýtur í bága við heilbrigða skynsemi.
Norðlenzku strákarnir temja sér óguðlegan munnsöfnuð og „óskikk“ í framkomu. Ekki mæli ég því bót. Fjarri fer því. Hins vegar er það með ólíkindum að ráðsettir, norðlenzkir bændur, sem voru þarna í Kambstúni með strákunum og fyrir þeim, hafi einnig tamið sér óguðlegan munnsöfnuð. Ætla mætti, að þeir hafi verið guðhræddir og orðvarir siðgæðismenn, — bæði ráðsettir og réttsýnir. Og hvað var svo að fást um það og hneykslast á því, þó að strákagreyin tækju stundum gróft til orða í kynórum sínum og kvenmannsleysinu þarna í skálanum á Kambstúni? Tók því að taka af þeim lífið fyrir það?
„Rétttrúnaður“ skreiðartímabilsins lætur hinn „algóða guð og miskunnsama föður“ taka þennan leiða munnsöfnuð norðlenzku strákanna óstinnt upp og hefna rækilega fyrir siðlaust tal og gróft framferði. Hann sendir á þá rauðkembing, hvaltegund þjóðtrúarinnar, til að granda þeim. Minna mátti það ekki kosta!
Undirokuð þjóð, fólk í eymd og volæði, vonleysi og basli, gerir sér hugmyndir um grimman guð, hefnigjarnan, heiftþrunginn og tillitslausan, þegar svo ber undir.
Og rauðkembingurinn grandar líka þeim saklausu. Öllum er drekkt. Þar líða saklausir fyrir seka. Mundu það talin manngæði í mannheimi? Og meiri og átakanlegri er hefndin: Saklausar konur og varnarlaus börn líða, þjást og líða við fráfall maka og föður og fyrirvinnu. Hefndin ristir djúpt. Og ef til vill enn dýpra: Það er ósannað, hvort ekki fórust þarna fyrir atbeina rauðkembingsins nokkur skip þeirra Suðursveitunga, hinna siðprúðu, orðvöru sæmdarmanna, sem hneykslazt höfðu með fólki sínu á munnsöfnuði norðlenzku strákanna kvensömu!
Þannig hneigðist þjóðin til trúar á heiftrækin og hefnigjörn máttarvöld, eftir því sem lífsbaráttan harðnaði og kúgunaröflin færðust í aukana og þjörmuðu að þjóðarheildinni. Þannig smækkaði hún andlega, þjóðarsálin minnkaði og guðstrú hennar fjarlægðist smám saman gæzku og fegurð, rökrétta hugsun og sennilegar staðreyndir. Eymd þjóðarinnar og varnarleysi fór vaxandi að sama skapi sem tök hennar á töglum og högldum gagnvart erlendum spákaupmönnum og konungsvaldi fór þverrandi.
En svo er önnur hlið á þessu máli, heiftarárás rauðkembingsins í þjónustu hins hefnigjarna himnaföður. Vart mundu sakir norðlenzku strákanna hafa nægt þeim til þess að hljóta vist í „verri staðnum“ eftir dauðann samkvæmt predikunum kennifeðranna og vítiskenningum hinnar heilögu kirkju miðaldanna. Var þeim þá ekki opin leið inn í sæluna eilífu, sjálft himnaríki? Var nokkur dvalarstaður þar á milli? Í hverju var þá hefndin fólgin, fyrst dauði þeirra flýtti fyrir þeim inn í sjálfa dýrðina? — Svo langt var ekki hugsað um þessa hluti.
Gamla Leirgerður hans Magnúsar Stephensens var ef til vill sannur fulltrúi alls þessa hugsunargrauts. Hvað sagði ekki hinn merki klerkur um hana? Þar rak hvað eina sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn, sagði hann um sálmabókina þá.
Eymdin, fátæktin og baslið sljóvgar hug og hyggju, svo að öll rökrétt hugsun verður á hillu lögð.
Auðvitað náði Bjarni formaður landi, af því að presturinn á Kálfafellsstað, guðsmaðurinn sá, flaut á fjölum hans. Ef til vill hefur líka rauðkembingssagan orðið til á Kálfafellsstað, runnið undan væng „rétttrúnaðarins“ á prestssetrinu?
Eitt er það orð í frásögu Þ.Þ. sem vekur sérstaklega athygli Vestmannaeyings, sem ber eilítið skyn á sögu byggðarlagsins. Það er orðið fiskigarður. Þar kemur hann með sama orðið og hér var landlægt á grjótgörðum þeim hér á Heimaey, sem notaðir voru til herzlu á skreið, enda þótt þeir væru með öðrum hætti sniðnir og lagaðir, mótaðir og hlaðnir en annars staðar mun tíðkazt hafa á landinu. Síðustu leifar fiskigarðanna hér sáust um miðbik Heimaeyjar allt fram að 1880.
Hvað hafa svo Norðlendingarnir gert við skreiðina, sem þeir framleiddu og verkuðu með svo áhættusamri og átakamikilli fyrirhöfn, vetrarferðum suður yfir fjöll og jökla og sjóferðum frá hafnlausri sandströndinni? Fluttu þeir hana heim til sín á baki „þarfasta þjónsins?“ Eða nutu þeir hins háa heimsmarkaðsverðs í kauptúnunum eða sjávarbyggðum Suður- eða Suðvesturlandsins? Og hvar þá og hvernig þá? „Saga ÍsIands er týnd“. Við hvörflum huga til orða Þorbergs rithöfundar um það, hvaða leið eða leiðir Norðlendingarnir fóru yfir Vatnajökul suður í Suðursveit á 16. öldinni, er þeir stunduðu sjósókn á vetrarvertíðum frá Hálsahöfn í Suðursveit. Fáar eru heimildir um götur þær.
Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur skrifaði Jöklarit sitt á seinasta tug 18. aldarinnar. Þar getur hann leiðar yfir Vatnajökul suður í Suðursveit með þessum orðum: „Ein leiðin enn á að hafa legið yfir jökulinn sjálfan, úr Fljótsdal norður, fram hjá Snæfelli og suðvestur yfir lágjökulinn að Hálsatindi, sem er hátt fjall sunnan í jöklinum, upp af prestssetrinu Kálfafelli í Hornafirði. Þessi leið kvað hafa verið notuð fram á síðustu öld (þ.e. 17. öld), bæði úr Fljótsdal til fiskiróðra í Suðursveit og úr Suðursveit til grastekju norður hjá Snæfelli.“ Á öðrum stað í Jöklaritinu getur höfundur leiðar yfir Vatnajökul milli Skaftafells og Möðrudals, „því að svo segir í gömlum munnmælum, að smalinn frá Möðrudal eigi frítt legurúm í Skaftafellsskála og smalinn frá Skaftafellsskála sömuleiðis í Möðrudalsskála. Eigi alls fyrir löngu hafa og fundizt leifar af vegi eða einstigi, þakið grasrót, yfir brattan klettafláa í Miðfelli, og ennfremur skeifa og tveir hestburðir af feysknu birkihrísi allskammt þaðan.“
Þannig hafa munnmælin um leiðir þessar lifað á vörum fólks fram um 1800, og það sagt náttúruskoðaranum frá þeim, er hann rannsakaði fjöll og jökla Austur-Skaftafellssýslu á síðasta tug 18. aldarinnar.


X. Bjarnahraunssandur og slysið þar 1920


Nokkru eftir slysið mikla og mannskaðann 9. marz 1573 virðist útgerð leggjast með öllu niður frá Hálsahöfn. Talið er víst, að útvegur Norðlendinga hafi með öllu lagzt þá niður í Suðursveit.
En byggðamenn, Suðursveitungar, héldu áfram að sækja sjóinn og afla matfanga á vetrarvertíðum, þegar fiskur gekk svo að segja upp í landsteinana þar austur með ströndinni. Þó virðist svo, að þeir hafi hætt að nota Hálsahöfn um þessar mundir og tekið að lenda nokkru vestar við sandinn, þar sem heitir Bjarnahraunssandur. Kippkorn austan við lendinguna er grjótholt, sem heitir Bjarnahraun, líklega kennt við Bjarna formann, sem bjargaðist undan rauðkembingnum 9. marz 1573. Bjarnahraunssandur er sem næst í hásuður frá Kálfafellsstað.
Við Bjarnahraunssand mun hafa reynzt minna útgrynni en við Hálsaósinn. Vissa er fyrir því, að Suðursveitungar stunduðu sjó frá Bjarnahraunssandi alla tíma frá síðari hluta 16. aldar fram undir miðbik þessarar aldar eða til ársins 1940, eða um 370 ára bil. Þar hafði oft borizt mikill afli á land eftir aðstæðum og oft tví- og þríróið, þegar fiskur var nægur og veður og sjór hömluðu ekki útræði. Aflinn var þorskur næstum einvörðungu, og var hann ýmist saltaður á seinni tímum eða hertur, þegar aðgerð lauk heima á bæjunum, en aflinn var allur fluttur heim á baki „þarfasta þjónsins“. Það mun um langt skeið hafa verið venja, að einn maður var hafður í landi til þess að gæta hesta allra hinna, svo að þeir væru vísir, er skipshafnirnar lentu. Væri aflinn meiri en svo, að hann yrði fluttur heim á þeim hestum, sem tiltækilegir voru þar við lendinguna, var umframaflinn sóttur í vör daginn eftir. Víst er um það, að útræði Suðursveitunga frá Bjarnahraunssandi var þeim mikil búbót og hélt oft sultarvofunni frá bæjardyrum þeirra, — nauðsynlegur búhnykkur hvert ár. Ella er vafasamt, að byggð hefði haldizt þar um slóðir. Svo gildur þáttur var útvegur þeirra í lífi og starfi sökum matfangabirgðanna, sem þeim safnaðist á vertíðum, og hindraði sult í búi þeirra, þegar á vetur leið.
Oftast hófst vertíð Suðursveitunga með góu, og var svo haldið út fram á vormánuði eftir því sem fiskur gekk og veður og sjólag leyfði.
Ekki varð það heiglum hent að stunda sjóinn frá Bjarnahraunssandi fremur en öðrum hafnlausum sandvörum Suðurstrandarinnar. Ætti það að takast slysalaust, þurfti glöggsýna formenn á veður og sjó. Á svipstundu gat hleypt upp sjó, svo að ólendandi yrði við Sandinn eða lífsháski að reyna það. Hvert varð þá flúið? Hvar var lífhöfnin þeirra Suðursveitunganna? Hvergi. Hér var engin höfn í nánd, sem flúið varð til, ef á brysti, eins og t.d. Vestmannaeyjahöfn Landeyingum og Fjallamönnum.




Ingólfur Guðmundsson, fœddur að Skálafelli í Suðursveit 15. okt. 1896. Foreldrar: Guðmundur Sigurðsson frá Borg á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu og Sigríður Árnadóttir frá Reynivöllum í Suðursveit, systir hins kunna skipasmiðs þar í byggð, Þorsteins Árnasonar.
Kona lngólfs Guðmundssonar er Lússía Jónsdóttir frá Borgarhöfn í Suðursveit dóttir hjóna þar, Jóns Guðmundssonar og Guðrúnar Bergsdóttur.
Ingólfur Guðmundsson stundaði sjó frá Höfn í Hornafirði um árabil. En um nokkur ár hefur hann unnið við fiskiðnað á Höfn, þar sem hjónin eiga heima. Ingólfur Guðmundsson réri frá Bjarnahraunssandi samtals 24 vertíðir.



Suðursveitungar notuðu sex- og áttæringa við fiskveiðarnar. Á þeim réru 10—12 menn. Hvert byggðahverfi gerði út eitt skip hvert. Þannig voru að jafnaði gerð út 4 skip frá Bjarnahraunssandi árlega. Oftast voru engin segl tekin með í sjóferðirnar, því að örstutt var róið út frá ströndinni og alltaf treyst á lendingu.
Árið 1920 gekk nýlegur áttæringur frá Bjarnahraunssandi. Formaður á honum var Bjarni Runólfsson, bóndi á Kálfafelli. Hann var þá á sextugsaldri.
Einn af hásetum Bjarna formanns Runólfssonar var Ingólfur Guðmundsson, vinnumaður séra Péturs Péturssonar, sóknarprests á Kálfafellsstað , og er hann heimildarmaður minn að frásögn þessari.
Ingólfur Guðmundsson réri frá Bjarnahraunssandi samtals 24 vertíðir eða úthaldstímabil þar.
Morguninn 4. maí 1920 var logn og sléttur sjór. Þá var kallað til róðurs. Veðurútlitið þótti ekki neitt tortryggilegt, og sjórinn skyldi athugaður gaumgæfilega, — ölduföll og sog, — áður en ýtt yrði úr vör.
Aldagömul reynsla var fyrir því í Suðursveit, að breytingu sjávar til hins verra, mátti ráða af öldufallinu við sandinn.
Á háflóðinu um morguninn voru lögin löng og glögg. Það spáði góðu um kyrrð sjávarins fram eftir deginum. Þó var skuggi á: Endur og eins komu langar og lágar öldufyllingar, sem flæddu langt upp á sandinn. Þau einkenni boðuðu jafnan brim, þegar á daginn leið.
Formaðurinn á áttæringnum Von, skipi þeirra Breiðabólstaða- og Reynivallabæja, Þorsteinn Arason, bóndi og skipasmiður á Reynivöllum, réri ekki þennan morgun. Þótti honum veðurútlitið ótraust og fall öldunnar við sandinn spá til beggja vona. Þorsteinn bóndi var maður með afbrigðum glöggur á veður og sjó.
Annað skip þeirra Kálffellinga hét Svanur. Formaður þess var Þórður Jónsson bóndi á Kálfafelli (d. 1930).
Svanur var áttæringur, smíðaður heima í Suðursveit eins og flest eða öll skip þeirra Suðursveitunga. Skipshöfnin var 12 menn og var aflanum skipt í 16 staði. Skipið sjálft fékk 4 hluti, dauðu hlutina svokölluðu.
Þegar komið var að landi, var fiskurinn alltaf seilaður svo sem 80 metra frá ströndinni. Þó að engin væru rif í sjónum innan við lendinguna, voru þar eyrar undir yfirborði sjávarins. Ekki voru fleiri en 16—20 fiskar þræddir á hverja seil.
Seilar Suðursveitunga voru býsna frábrugðnar seilum Eyjabúa og Landeyinga t.d., sem notuðu tóg í seilartaugina. Seilarólin þeirra Suðursveitunga var rist úr hálsskækli á nautshúð, og seilarbotninn var högld. Þegar fyrsta fiskinum hafði verið rennt að högldinni, var seilarnálinni brugðið gegnum hana, svo að fyrsti fiskurinn myndaði að sínu leyti seilarbotninn.
Skipsmenn komu oftast ríðandi í sandinn til sjóróðranna. Þó bar svo við 4. maí 1920, að vinnumennirnir á Kálfafellsstað fóru gangandi í Bjarnahraunssand til róðursins þann morgun. Vinnumaðurinn Ingólfur Guðmundsson, heimildarmaður minn, hafði flutzt að Kálfafellsstað í nýju vistina daginn áður. Hann virtist eitthvað utan við sig, ekki rétt með sjálfum sér, þegar hann bjó sig til róðurs um morguninn. Þetta kom berlega í ljós á leiðinni til skips. Þá uppgötvaði hann, að hann hafði gleymt handfærinu sínu heima á Kálfafellsstað. Hann hljóp því heim til þess að sækja færið sitt. Og það stóðst á endum, að skipsfélagar hans voru að koma í Sandinn, þegar hann kom til skips með færið sitt. Ég skal taka það strax fram, að dagurinn þessi markaði Ingólfi Guðmundssyni þau örlög, að þetta urðu síðustu hlaupin hans í þessu lífi, þó að hann hafi lifað hart nær 50 ár, síðan sá atburður gerðist, er nú verður greint frá.
Áður en annað var aðhafzt, gengu allir skipverjar fram að sjávarmálinu til að álykta um sjóinn. Hann var talinn „góður“. Þá gengu þeir að skipinu, sem hvolfdi upp á sjávarkambinum. Þeir hvolfdu því upp í skyndi og leiddu það eða „teymdu“ fram að sjávarmálinu. Þá skinnklæddust þeir, og gekk svo hver og einn að sínum keip. Orðrétt segir heimildarmaður minn:
„Skipið, sem ég réri á, var áttæringur og hét Sæbjörg, var nú rétt við og sett fram nær öldufallinu. Þar biðum við hásetarnir þess, að formaðurinn Bjarni Runólfsson skipaði fyrir. Brátt kom það snöggt og skipandi: „Lagið, takið á í Jesúnafni.“ Svo var gert og vel gekk að komast á flot. Þá var klukkan 9 um morguninn, er allar árar voru á borðum og kippt var frá landi.
Fiskur reyndist tregur. Aðeins slitinn upp einn og einn. Aflatregðan féll okkur þyngra sökum þess, að þetta var fyrsti róðurinn á vertíðinni; engin tök á að komast fyrr á sjó vegna ókyrrar veðráttu og ekki of ríkuleg matarbjörg á heimilunum.
Þegar leið að hádegi, höfðu sumir hásetarnir orð á því, að sjórinn væri farinn að „taka ölduköst“, eins og það var kallað. Allt sat þó við hið sama um sinn. Eftir nokkra stund veitum við því eftirtekt, að óreglulegar öldur koma að ýmist úr suðri eða suðaustri. Þá segir formaðurinn, að bezt sé að „hanka upp“ og halda til lands. Það var gert, og svo var róið til lands undir 8 árum.“
Þegar Sæbjörg var komin hálfa leið til lands, veittu skipverjar því athygli, að skip kom frá landi og stefndi að þeim. Brátt mættust skipin. Spurðist þá Bjarni formaður á Sæbjörgu fyrir um öldufallið við Sandinn. Hinir töldu það „brúklegt“. Féll svo samtal niður og hélt hvort skip sína leið.
En nú sýndist sitt hverjum á Sæbjörgu, þar til formaðurinn tók af skarið og taldi óhætt að snúa við og renna enn færum um stund. Var svo gert og kippt út á dýpri sjó. Heimildarmaður minn, sem hér lifði sinn örlagaríkasta dag ævinnar, hafði orð á því, að engan fisk mundu þeir hinir draga frá þeim á Sæbjörgu og skynsamlegast mundi að halda til lands. Ekki minntist hann þess, að hann hafi fyrr eða síðar þær 24 vertíðir, er hann stundaði sjó þar, latt formann sinn, nema í þetta eina sinn. Á það var ekki hlustað að sinni. Svo var færum rennt og skekið um stund. Ekki leið þó á löngu, þar til skipverjar veittu því eftirtekt, að sjór var tekinn að ganga mjög upp með brim. Var þá haft uppi og róið til lands af kappi miklu.
Hitt skipið, er úti var, hét Vongóður. Formaður á því var Sigurður Magnússon. Það hélt nú einnig til lands.
Þegar Sæbjörg nálgaðist lendinguna, varð skipverjum það ljóst, að brim var við sandinn og brugðizt gat til beggja vona um það, að lending tækist giftusamlega. Sjóar voru stórir en lögin strjál og stutt. Samt varð að taka land, hvað sem það kynni að kosta. Lífhöfn var engin. Auðséð var, að brimróðurinn hlaut að verða langur, þar sem ekki varð legið nærri vörinni vegna brimfallanna.
Loks var brimróðurinn tekinn upp á líf og dauða, þegar lag þótti líklegt. En lagið entist ekki, og fyrsti sjórinn í ólaginu hvolfdi Sæbjörgu með þeim afleiðingum, að 10 menn byltust um í brimgarðinum bjargarlausir fyrst í stað.
Þegar hér er komið frásögn þessari, er rétt að geta þess, að ein skipshöfn þeirra Suðursveitunga ætlaði sér á flot upp úr hádegi þennan dag, en hætti við róðurinn, þegar til sjávar kom. Það var skipshöfnin á Svan.
Í stað þess að hverfa heim strax aftur beið hún skipanna, sem róið höfðu, til þess að geta aðstoðað þau við lendinguna. Það varð mörgum mannslífum til bjargar í þetta sinn.
Skipshöfninni á Vongóð tókst að lenda heilu og höldnu með aðstoð og hjálp Svansmanna.
Þegar svo skipverjar á Sæbjörgu tóku brimróðurinn, höfðu Svansmenn vaðbundið tvo röskustu og traustustu menn sína til þess að vera við öllu búnir. Vaðbundnir óðu þeir út í brimgarðinn og drógu á land hvern skipverjann af öðrum af Sæbjörgu, nema tvo, sem drukknuðu. Annað líkið rak þegar upp í fjöru, en hitt fannst aldrei. Það var ungur og röskur maður, vinnumaður á Kálfafellsstað hjá séra Pétri Péturssyni og konu hans, frú Helgu Skúladóttur. Hann kom vinnumaður að Kálfafellsstað daginn áður eins og heimildarmaður minn, Ingólfur Guðmundsson.
Um leið og Sæbjörgu hvolfdi, varð Ingólfur Guðmundsson undir hástokk hennar með þeim afleiðingum að hann lærbrotnaði. Þannig limlestur velktist hann og hraktist í brimgarðinum, þar til honum var bjargað á síðustu stundu. Var hann þá meðvitundarlaus, limlestur eins og hann var og kominn að drukknun. Honum var síðast bjargað af þeim, sem komust lífs af.
Þegar björgunarstarfinu loks lauk, var eftir að koma mönnunum til bæja, svo að þeir hlytu hjúkrun eða aðhlynningu. Erfiðast var auðvitað að flytja hinn slasaða mann til bæjar, koma honum heim að Kálfafellsstað.
Á leiðinni þangað heim gekk veðrið í norðaustrið með snjóbyl. Nú þurfti að leita hinum slasaða manni læknishjálpar. Læknir sat þá í Höfn í Hornafirði. Engar voru þá bifreiðarnar, svo að fara varð á hestum austur til Hafnar. Það var löng leið, en þó sérstaklega torsótt yfir stórvötn og sanda. Allt tókst þó þetta með harðfylgi, dugnaði og atorku. En þó var ekki allt fengið. Hinn slasaði maður var mjög illa kominn. Of langur tími liðinn frá því að slysið átti sér stað og þar til læknirinn tók til við læknisaðgerðirnar. Enda mistókst læknisaðgerðin herfilega. Sjúklingurinn var síðan sendur suður á Landakotsspítala til nafnkunns læknis þar. Eftir miklar þrautir og þjáningar var sjúklingurinn sendur heim aftur. Var þá talið, að ekki yrði hægt meira fyrir hann að gera. Fóturinn var honum ónýtur.
Þá átti sér stað hin undarlega tilviljun, eins og sumir orða það. Steingrímur Matthíasson yfirlæknir á Akureyri ferðast landveg austur frá Reykjavík um Skaftafellssýslur. Hann kemur við á Kálfafellsstað til þess að heilsa upp á hin gagnmerku og kunnu prestshjón þar. Auðvitað fengu prestshjónin lækninn til þess að líta á sjúklinginn sinn, vinnumanninn fótarvana.
Meðan læknirinn skoðar fótinn í stofunni á Kálfafellsstað, vaknar með sjúklingnum sterk von um hjálp og bót, — hann verður gagntekinn af trausti á þennan lækni. Eitthvað hefur hann við sig, sem vekur það.
Steingrímur læknir segir sjúklingnum að koma til sín norður, svo fljótt sem hann megi því við koma, — eitthvað skuli hann reyna að gera fyrir hann.
Um haustið fór svo Ingólfur Guðmundsson norður á Akureyri og leggst þar inn á sjúkrahúsið. Þar dvelst hann síðan mestan hluta vetrarins undir aðgerðum og læknishendi Steingríms Matthíassonar.
Þegar Ingólfur fór heim til sín um vorið, gekk hann á tveim alheilum fótum, segir hann. Hann gekk nú að allri vinnu og hóf meira að segja aftur róðra frá Bjarnahraunssandi í Suðursveit. Hann var orðinn 24 ára, þegar hér var komið ævi hans. Síðan hefur þessi maður gengið til allrar vinnu, þó að bæklun hafi ágerzt á fæti hans með aldrinum.
Steingrímur læknir Matthíasson var þessum sjúklingi sínum æ síðan sem bezti faðir. „Hann gaf mér fótinn aftur,“ segir Ingólfur Guðmundsson.
Síðan eru liðin hart nær 50 ár.


ctr



Til baka