Blik 1967/Jónas skáld Þorsteinsson
Í íslenzkum húsgangi segir svo:
- Oft eru skáldin auðnusljó,
- um það ganga sögur.
Þessi húsgangshluti er ekki eldri en svo, að hagyrðingurinn, sem gerði vísuna, gat hafa haft í huga t.d. séra Jón á Bægisá, Bólu-Hjálmar, Jónas Hallgrímsson, Sigurð Breiðfjörð, séra Pál skálda Jónsson, Símon Dalaskáld o.s.frv. Ef til vill er höfundurinn einn af þessum skáldum, er ég nú nefndi. Það ber skáldfróðum mönnum ekki saman um, skilst mér.
Geir biskup skrifaði um séra Pál skálda: „Eðlisgáfur hans eru afbragðsgóðar, og jafnframt er hann einn okkar beztu skálda, þeirra, sem nú eru uppi, en eins og oft vill verða um skáldin, er hann enginn hörkufjárgæzlumaður og nokkuð reikull í ráði.“
Þegar við kynnum okkur af alúð líf og lyndi þessara andans manna, eins og við komumst stundum að orði um skáldin okkar, sem við eigum svo ómetanlega mikið að þakka, freistumst við þá ekki til að álykta sem svo, að skapanornirnar hafi æði oft horn í síðu skáldskapargáfunnar? Ef til vill er skáldskapargáfan svo rúmfrek í hugarhöfn og gáfnatúni, að hinir beztu eðliskostir skaphafnar rúmist þar ekki! Skyldi það geta verið orsök þess t.d., að alltof mörg skáld og önnur gáfnaljós reynast hörmulega ístöðulaus og andlega aflvana gegn ásókn og freistingum Bakkusar og annarra nautnalasta, sem því miður hafa oft lagt líf þeirra í rústir?
Vissulega eykur það skilning og vit, víðsýni og þroska ungu kynslóðarinnar í landinu að kynnast persónusögu okkar mætustu manna. Ekki síður er það þroskandi íhugunarefni að reyna að skilja hina fyrirferðarminni þjóðfélagsþegna, fátæklinga og umkomuleysingja, hina „minnstu“ af meðbræðrunum, kynna sér og öðlast t.d. skilning á orsök auðnu- og umkomuleysisins. Var hana að finna í skaphöfn einstaklingsins eða þjóðfélagsaðstæðum, eða þá hvorutveggja, sem oftast mun vera staðreyndin?
Já, persónusagan er mikilvægur og snar þáttur í þjóðarsögunni og ef til vill sá þátturinn, sem vænlegastur er til aukins skilnings á mannlegu lífi, - mannlífinu í heild, leyndum þess og lögmálum, duld þess og dulmögnun. Fátt mun fremur veita æskulýðnum aukinn þroska og andlegt víðsýni en ævisagan, ef hann fæst til þess að íhuga hana, gera sér þar grein fyrir orsökum og afleiðingum.
Þegar ég var unglingur, kynntist ég öldruðum gáfumanni, sem var skáld. Ef til vill var hann fleiri snilligáfum gæddur. En hann var auðnulítill og hafði verið það meiri hluta ævinnar, fátækur og lítils metinn.
Hann naut sín og gáfna sinna aldrei sem skyldi. Til þess lágu óviðráðanlegar orsakir, sem ég skildi ekki þá, en skil nú, - orsakir, sem áttu rætur að rekja til skaphafnar hans og manngerðar annars vegar og þjóðfélagsmeina hins vegar og náttúruhamfara, sem þjóðinni í heild var þá um megn að sigrast á eða verjast skaða af, svo að bættur yrði.
Þessi aldurhnigni gáfumaður var skilningsríkur og glöggur á kosti mannlegrar sálar og eins hitt, sem miður var í hugarlífi og fari manna og leiddi þrátt til óhamingju meðbræðranna. Allt þetta skil ég nú betur og íhuga af meiri gaumgæfni með árum og aldri. Hlutina sjáum við oft betur eftir á.
Ég minnist síðustu stundarinnar, er við ræddumst við. Það var vorið 1921. Hann talaði af langri lífsreynslu og beiskri, - athugull, víðsýnn og góðviljaður mér, þroskalitlum ungum manni, forsjállitlum en framsæknum.
Hann hafði aldrei framsækinn verið um dagana, framtakslítill og fátækur, andlega kraminn og kúgaður af langvarandi óblíðum örlögum og basli, sem vanþróað þjóðfélag og miskunnarlaus náttúruöfl áttu drýgstan þátt í.
Nú fannst honum það eitt eftir að miðla ungum manni af reynslu sinni, vekja hann til íhugunar um mál og mæti framtíðarinnar, sem leiða mætti til gæfu og gengis honum, sem hann gerði ráð fyrir að ætti langt líf framundan.
Þessi aldraði vinur minn hafði þá nýlega komið inn á heimili kunningja okkar beggja. Eftir þá heimsókn gat hann ekki orða bundizt og létti þarna á hjarta sínu hjá mér undir fjögur augu.
Hann tjáði mér, hvers hann hafði orðið áskynja um hátt og framkomu þessa kunningja okkar gagnvart eiginkonu sinni og börnum. Þangað rakti hann síðan fyrir mér alla ógæfuna og óhamingjuna, sem grúft hafði lengi yfir þessu heimili kunningja okkar. Honum var mikið niðri fyrir, og ég hlustaði með áfergju og íhygli, eftir því sem þroski minn og skilningur hrökk til. Og það er bezt ég segi það úr því sem komið er, að þessi samræðustund hefur orðið mér og heimili mínu ómetanleg blessun í löngu hjúskaparlífi. Svona getur það stundum verið. Enginn veit á hvaða stundu mælt er, og allt bíður síns tíma.
Nú spyrð þú eðlilega, lesari góður: Hver var mergurinn málsins í þessum umræðum hins aldraða vinur þíns? - Hann gerði ráð fyrir, að ég ætti langt líf framundan, - einnig hjúskaparlíf, og hollt mundi mér, unga manninum, að hugleiða hætturnar og agnúana, hnoðrana og hnökrana, sem stundum myndast smám saman á hjúskaparþráðinn, sambandið milli hjónanna, oft af einskæru skilnings- og samúðarleysi eiginmannsins gagnvart eiginkonu og ræktarleysi við heilbrigt og ástúðlegt tilfinningalíf. Stundum eiga þau bæði sök á þessum mistökum og
þeirri óhamingju, sem af þeim sprettur, sagði hann.
Hver sá, sem kynni að lesa þessi fátæklegu orð mín, er vissulega sér um sefa. Hver veit, nema ég mæli nú á þeirri óskastundu minni, að þessi orð mín falli í ,,myldan jarðveg“, þar sem þau ná að vekja til íhugunar og leiða lesanda minn til farsældar, þar sem áður skorti á, að veruleg hamingja ríkti í hjúskaparlífinu. Hver veit, á hvaða stundu mælt er?
---
Þessi vinur minn og velgjörðarmaður frá æskuárunum hét Jónas Þorsteinsson. Oft bar hann viðurnefndið skáld eða skáldi, þegar almenningur minntist á hann.
Hann var Austfirðingur í húð og hár, - var það í marga ættliði.
Jónas skáld Þorsteinsson var fæddur að Skuggahlíð í Norðfjarðarhreppi 4. apríl 1853. Foreldrar hans voru Þorsteinn bóndi Jensson í Skuggahlíð (f. 1813 og d. 1856) og kona hans Valgerður Jónsdóttir (f. 2. ágúst 1817). Áður en hjón þessi fluttu til Norðfjarðar, höfðu þau búið að Hrjóti í Hjaltastaðaþinghá.
Afi og amma Jónasar Þorsteinssonar voru bæði fædd í Vestdal í Seyðisfirði. Þau hjón hétu Jens Magnússon og Guðrún Hávarðsdóttir. Þau bjuggu um langt árabil í Norðfjarðarsveit, fyrst á Hó1um og síðan í Skuggahlíð í 23 ár.
Um Jens bónda Magnússon er svo sagt, að hann hafi verið maður hæglátur og vel að sér, en fátækur. Skáld gott var hann talinn og munu handrit af kvæðum hans geymd í fórum Landsbókasafnsins.
Ömmubróðir Jónasar Þorsteinssonar, bróðir Guðrúnar, var séra Jón Hávarðsson aðstoðarprestur og síðan sóknarprestur á Skorrastað í Norðfirði. Hann var kvæntur Solveigu Benediktsdóttur sóknarprests Þorsteinssonar að Skorrastað. Séra Benedikt bjó á Ormsstöðum en tengdasonur hans og dóttir á Skorrastað, kirkjustaðnum.
Séra Jón Hávarðsson varð aðstoðarprestur tengdaföður síns 1828 og síðan sóknarprestur eftir hans dag (1845) og hélt Skorrastað til ársins 1857, er hann fluttist að Heydölum, eða samtals í 29 ár.
Því get ég þessa nánasta venzlafólks Jónasar Þorsteinssonar hér, að prestleg áhrifaaðstaða ömmubróður hans, séra Jóns Hávarðssonar, mun hafa valdið mestu um það, að afi hans og amma fluttu ofan af Héraði til Norðfjarðar og fengu þar jarðnæði, og síðar fengu foreldrar hans, Þorsteinn og Valgerður, þar ábúðarjörð.
Tvær kostahneigðir höfðu jafnan verið áberandi hjá ættfólki Jónasar Þorsteinssonar: hneigðin til að lækna, létta eða bæta sjúkleika samborgaranna, og hneigðin til að hjálpa, hlaupa undir bagga með nauðstöddum og nauðleitandi. Til dæmis um hið síðara óska ég að greina frá því, að harða ári 1835-1836 urðu hjónin í Skuggahlíð, Jens og Guðrún, afi og amma Jónasar Þorsteinssonar, fyrir miklu búfjártjóni, svo að til búauðnar horfði. Flestallir bændur í sveitinni voru á nástrái og spyrntu gegn því eftir mætti, að ómagar bættust á framfærið. En það gerðu þau ekki, fátæku hjónin í Skuggahlíð, Guðrún og Jens. Þá tóku þau að sér til framfærslu 2 eða 3 munaðarlaus börn og nauðstödd og ólu þau upp sem sín eigin. Sérstaklega var Guðrún húsfreyja valinkunn kona, sem í merkum heimildum er sögð: „ráðvönd og góðsöm, frómlynd, vinnusöm og þrifin.“
Fleiri voru þó ættarfylgjur þessa fólks en mannúðarhneigðin og líknarlundin. Sinnisveiki hafði gert vart við sig hjá sumum í ættinni og lýsti sér sérstaklega í þunglyndi. Svo var t.d. um eina ættmóður Jónasar og svo Guðrúnu systur hans, konu Jóns Davíðssonar á Nesi, áður bónda í Grænanesi í Norðfirði, gegns manns og vel metins. Hún lá rúmföst árum saman í þunglyndi.
Þorsteinn bóndi Jensson, faðir Jónasar skálds, andaðist í apríl 1856. Þá var Jónas aðeins þriggja ára gamall.
Þegar svo var komið, fluttist Torfi Jónsson, móðurbróðir Jónasar, að Skuggahlíð og fékk til ábúðar þann helming jarðarinnar, sem hjónin Þorsteinn Jensson og Valgerður Jónsdóttir, foreldrar Jónasar, höfðu búið á.
Þorsteinn og Valgerður eignuðust 4 börn, Þau voru þessi:
- Snjólaug, f. 1842,
- Guðrún, f. 1844,
- Guðríður, f. 1849 og svo
- Jónas, f. 1853, eins og áður greinir.
Þegar faðirinn var fallinn frá, gerðist Valgerður, móðir Jónasar Þorsteinssonar, vinnukona hjá Torfa bróður sínum, bónda í Skuggahlíð, og hafði tvö yngstu börnin sín á framfæri sínu, þau Guðríði og Jónas. Guðrún dóttir hennar, þá 12 ára, gerðist „léttastúlka“ hjá ömmu sinni og afa, Jens og Guðrúnu, sem bjuggu á hinum helmingi Skuggahlíðarjarðarinnar.
Nokkur ár líða. Jónas litli Þorsteinsson þroskaðist bæði líkamlega og andlega. Hann lærir að lesa og hefur ánægju af bókum, en bókakostur var lítill. Kvæði og sálmar heilla drenginn mest. - Þess verður snemma vart, að hann reynir að koma saman vísu.
Sóknarpresturinn, séra Henrik Henriksson á Skorrastað, er kominn í heimsókn að Skuggahlíð. Hann er að vísitera. Þegar hann færir nafn Jónasar litla inn í kirkjubókina, stendur snáði við hné hans og horfir á prestinn skrifa. Gaman væri að vera skrifandi eins og presturinn!
Sálusorgarinn hefur ánægju af návist drengsins, sem hann veit af frásögn móðurinnar að getur gert vísu og ber það við. Blíðlega hefur prestur orð á því við drenginn, að mikla ánægju hefði hann af því, ef hann gæti nú gert eina vísu t.d. um erindi prestsins að Skuggahlíð að þessu sinni.
Og drengur yrkir vísuna eftir nokkra bið:
- Megnar enginn mig að skafa
- manntals út af örkinni.
- Ég vildi heldur verið hafa
- villidýr á mörkinni.
Jónas Þorsteinsson var fermdur í Skorrastaðarkirkju 2. júní 1867. Fékk hann þá dágóðan vitnisburð hjá prestinum: „Les sæmilega, kann sæmilega, skilur vel og er skikkanlegur.“ -
Enn liðu 2-3 ár. - Jónas hafði lifað ómagaárin og var nú orðinn vinnupiltur hjá Torfa frænda sínum í Skuggahlíð. Þar hafði hann alltaf notið umönnunar góðrar móður, sem á þessum árum er þar ýmist skráð vinnukona eða sjálfrar sín. Þarna leið þeim vel eftir atvikum, móðurinni og börnunum hennar. Lífið brosti við þeim, eftir því sem það þá gat gert gagnvart snauðu fólki og umkomulitlu á landi okkar.
Allt í einu dynur ógæfan yfir. Sinnisveikin heltekur smám saman sálarlíf einkasonarins, Jónasar Þorsteinssonar. Hann hættir að sinna daglegum störfum. Þunglyndið sækir á með svartsýni, vonleysi og sinnuleysi. Lífslöngunin þverr. Hann hættir að klæðast. Sólarhringum saman liggur hann undir sæng þögull og þumbaralegur. Stundum er hann önugur og hefur allt á hornum sér. Stundum grætur hann tímunum saman. Allt er svart og lífið er nánast óbærilegt.
Í þessum ömurleika gerir rímhneigðin endur og eins vart við sig. Hann yrkir:
- Forlaganorn í flegðugervi
- framan í mig grettist oft;
- tindum svipað tannakerfi
- tröllið hefur sér í hvoft.
- Einatt skelkur í mig flýgur,
- en ég herði geðið deigt
- og segi: „Þótt mig gleypi gýgur,
- gæs er henni það ei steikt.“
Og svo hefjast andvökunæturnar. Honum er varnað svefns. Myrkur og kvíði heltekur sálarlífið. Þá ber það við að hann yrkir eftir andvökunótt:
- Enn er gríma gengin hjá,
- grimm og ófríð sýnum.
- Skal hún verða oftar á
- örlagavegi mínum?
Já, margar ófrýnilegar grímur eiga eftir að verða á örlagavegi Jónasar Þorsteinssonar, svo að þær gefa honum tilefni til að yrkja heil kvæði.
Meðan sofendur njóta værðardúra, þjáist hann af hugarangri, og eitraðar örvæntingarpílur stinga hann og hrjá. Öll framtíðarsýn er myrkri hulin, brjóstið stynur, tárin renna.
- ANDVAKA
- Svei, andvakan arga, þér,
- öllum verri fjöndum,
- gengin út með grimman her
- griða ráns af höndum.
- Tíðum kingi stöfum með
- truflar ró og næði,
- þrælkar líkam, þvingar geð;
- þín eru mörg illræði.
- Og þitt níðings aga geð,
- öld, sem hryggðin þjáir,
- ógnar grimmri ofsókn með,
- allra sárast þjáir.
- Þannig fjöloft fengið þú
- færi á mér hefur,
- en þó fyrst ég æðrast nú,
- andann sorgin kefur.
- Brjóstið stynur böli lúð,
- blæða hryggðarsárin,
- og af hvörmum angri knúð
- eldheit boga tárin.
- Sofendanna sálir dúr
- seður værðaryndi,
- en ég meðan augun súr
- angurs slæst af vindi.
- Unaðs fokið er í skjól,
- óláns syrtir rökkur,
- fyrir gleði - svífur - sól
- svartur hryggðarmökkur.
- Hugurinn eygir hér og þar
- hörmunganna grýlur;
- andann stinga eitraðar
- örvæntingarpílur.
- Napur-kalt mig nístir él,
- nakinn máttarvana
- mun ég bráðum bíða hel;
- bölið leyst við hana.
Þunglyndið þjáir hugann og lífslöngunin þverr:
- Lund er þjáist líðandans
- lífs í áföllonum,
- vaknar þá í hjarta hans
- himinþrá að vonum.
- MÉR ER FLEST TIL MÆÐU LAGT
- Mér er flest til mæðu lagt,
- mín er von í brotum,
- stundum er, þó stórt sé sagt,
- stilling mín á þrotum.
- Margt hið góða mér var lagt,
- - máski þó í brotum -
- annars væri, sízt ofsagt,
- syndugt líf á þrotum.
Þetta mikla áfall, veikindi Jónasar Þorsteinssonar, átti sér stað 1875. Presturinn húsvitjar um haustið og næstu haust og skráir Jónas Þorsteinsson, fyrrverandi vinnumann í Skuggahlíð, ómaga móður sinnar og svo seinna „kararómaga“, þegar rúmlega hans lengdist svo að árum skipti.
Þannig líða 4 ömurleg ár í vá og vonleysi.
Við rennum huga til móðurinnar, ekkjunnar í Skuggahlíð, Valgerðar Jónsdóttur. Nær sextug hefur hún gerzt fyrirvinna uppkomins sonar síns, gáfaða „kararómagans“, þegar lífið og framtíðin virtist brosa sem blíðast við þeim báðum og öllum börnunum hennar eftir sár og söknuð, áhyggjur og erfiði í fátækt og öryggisleysi. Já, hún var þá nær sextugu, þegar þessi ósköp lögðust á herðar henni.
Þegar Jónas Þorsteinsson hafði þjáðst af sinnisveikinni nokkra mánuði, var honum komið undir hendi læknis. Boð gengu milli hreppstjóranna í Norðfjarðarhreppi og Reyðarfjarðarhreppi, því að næsti læknir sat á Eskifirði, og jafnan höfðu hreppstjórar eða oddvitar samband sín á milli um slíka sjúklinga og greiddu fram úr vandræðum eftir mætti. Hreppstjórinn í Reyðarfjarðarhreppi var Eyjólfur bóndi Þorsteinsson á Stuðlum. Þau hreppstjórahjónin tóku Jónas Þorsteinsson til sín heim að Stuðlum og dvaldist hann þar um tíma en gekk til hins danska héraðslæknis, sem bjó í kauptúninu Eskifirði og hét Fritz Zeuten.
Hjónin á Stuðlum, Eyjólfur og Guðrún Jónsdóttir, áttu þá fjögur börn. Elzt barna þeirra var stúlka, Kristrún að nafni, fædd 1857.
Líkindi eru til þess, að Jónas dveljist á Stuðlum undir læknishendi veturinn 1875. Þá var Kristrún Eyjólfsdóttir á 18. árinu. Af þessari bóndadóttur varð Jónas Þorsteinsson ástfanginn þann tíma, sem hann dvaldist á Stuðlum.
Tilfinningarnar gagntóku sálarlífið, og sinnisveikin þokaði um set. Skáldæðinni tekur að blæða.
Kristrún (Strúna) er söngelsk og fær börnin hin yngri til þess að syngja með sér í rökkri vetrarkvöldsins. Jónas heyrir óminn af söngnum og kveður:
- Sætari blíðum svanahljóm
- söng ég heyrði í bænum inni,
- og það meinti englaróm,
- er þar skemmtu Strúnu minni.
- Er það nokkuð eðli mót,
- að englar hyllist fagran svanna,
- því á himnum hefur rót
- hin helga ást í brjóstum manna.
Ekki virðist Jónas hafa verið ógeðfelldur heimasætunni á Stuðlum, Kristrúnu Eyjólfsdóttur. Miklu fremur hið gagnstæða. Ástarkenndir hans til hennar styttu veru hans á Stuðlum, því að þunglyndið dvínaði fyrr en búizt hafði verið við í fyrstu. Það var sem ástartilfinningarnar ferskar og fíknar rækju það út í yztu myrkur. Fritz Zeuten læknir gaf Jónasi Þorsteinssyni brátt heimfararleyfi. Þegar Jónas hvarf heim frá Stuðlum, orti hann:
- Framandi hingað fór ég maður,
- forsjónin guðs því réði víst,
- því hér er sá í heimi staður,
- sem hryggðin á mér vinnur sízt.
- Hér hefi ég fundið allskyns yndi
- við unaðs-gígju-strengjahreim;
- sofnaði bitur sorg í skyndi
- sælum stödd í töfraheim.
- En eins ég minnist öðru betra,
- þótt ekkert skorti á sældarhag,
- og um það mun ég ljóðin letra
- lengur en bara nú í dag.
- Það er fljóð, sem fegurð skreytir,
- og flestir að með sanni dást,
- Kristrún sprundið kæra heitir,
- kveð ég hana nú með ást.
Nokkru eftir að Jónas Þorsteinsson kom aftur heim í Skuggahlíð, sendi hann heimasætunni á Stuðlum ljóðabréf. Í því voru þessi erindi:
- Æ, sárt er að skilja vin sinn við;
- ég veit ei stærra böl;
- það sviftir manninn sálarfrið
- og særir negg með kvöl,
- þá gleðin fyrir hamrahlíð
- úr hugarrjóðri snýr,
- og verndarengill, vonin blíð,
- þá veikan manninn flýr.
- Ég hefi reynt það Kristrún kær,
- og kveð því sorgarljóð
- eg hef ei yndi honum fjær,
- mig hrekur táraflóð.
- Ég kýs að drukkna í djúpi því,
- en drottni fel ég önd,
- að svífa megi hún sorgarfrí
- á sólheið friðarlönd.
Ekki er mér ljóst, hvernig Kristrún heimasæta svaraði ljóðabréfi unga skáldsins. En víst er um það, að Jónas Þorsteinsson hafði enn von um ástir hennar, er fram á sumarið leið. Þá orti hann þetta hugljúfa lofnarkvæði, er hér fer á eftir.
Hugur skáldsins svífur suður yfir fjöllin, suður að Stuðlum til hennar, til hinnar óumræðilega fögru hringahlínar, séð með hinu innra auga hins ástfangna skálds, þetta fagra miðsumarkvöld heima í Skuggahlíð, er ungar rósir fella daggartár og sólin er gengin til viðar bak við Goðaborgina. Hugurinn saknar og þráir. Minningin um hana fyllir hugskotið. Og vonin um ástir hennar, varanlegar ástir, þokar til hliðar þunglyndinu og þjáningunum. Er þó ekki ástarröðull hans líka genginn til viðar að þessu sinni? Ef til vill fellir sál skáldsins saknaðartárin eins og rósirnar.
- Hugumprúða hringalindin bjarta,
- harmabót og vonargleði mín,
- fjarri sjón, en fólgin mínu hjarta,
- frá mér aldrei líður minning þín.
- Úti sit ég einn á sumarkveldi,
- ungar rósir fella daggartár;
- sakna þær að sælum dýrðareldi
- signir ekki röðull þeirra brár.
- Það er eins í þjáðu hjarta mínu,
- þrungin trega sérhver munarós.
- Ekki nema í armaskjóli þínu
- anda mínum hlýjar gleðiljós.
- Vindur þýtur, blómin höfuð beygja;
- bros í gegnum tárin líta má.
- Það er kveðja, þau sem fyrir hneigja;
- þínu brjósti hún er liðin frá.
- Æskan þolir enga skuggakælu,
- einatt þó af næðingsstormi hrist.
- Lífið gjörvallt leitar eftir sælu;
- lífsins eðli, það er ekki misst.
Svo barst honum hin lamandi vissa um það, að Kristrún heimasæta á Stuðlum var orðin honum gjörsamlega afhuga. Þá magnaðist þunglyndið á ný meir en nokkru sinni fyrr, svo að unga skáldið í Skuggahlíð reisti ekki höfuð frá kodda árum saman. Ekkert orð mælt tímum saman. - Andvaka um nætur, tregatár felld, óeðlilegar óskir og þrár bæra á sér. Lífið er nánast óbærilegt.
Við rúmstokkinn krýpur móðirin mædd og úrvinda í bæn og trúartrausti. Þetta er einkasonur hennar og augasteinn, traust hennar og hald í þessari bágu tilveru.
Næstu tvö árin þjáist skáldið unga af sinnisveikinni. Hann var þá ómagi móður sinnar og kvöl, og haustið 1877 skráir prestur hann „kararómaga“. En aldrei missti hún trúna og trúnaðartraustið á bata hans fyrir bænir sínar og áköll.
Loks tók að brá af Jónasi Þorsteinssyni. Sem falinn eldur glæðist, þá að er hlúð, þannig var sem umönnun hinnar þreyttu og þjáðu móður og heitar bænir hennar við rúmstokk sonarins græddu og glæddu lífið í brjósti hans á ný. - Þunglyndið og sálarmyrkrið þvarr smám saman, og ljósið og lífið tók að flökta um sálarkimana og lýsa upp hugskotið að nýju.
Nýjar vonir vakna. Ný áform og nýjar ætlanir gera vart við sig í hugarfylgsnum hins unga manns, sem nú er orðinn 26 ára gamall.
Og Jónas Þorsteinsson trúði því innilega, að hann hefði að lyktum hlotið lækningu fyrir bænastað móður sinnar. Sú trú efldi guðstrú hans.
- Mikli, mildi faðir
- minnumst vér þess glaðir,
- að þín náð oss aldrei brást;
- þótt hrynji hnattafjöldinn
- og himna rofni tjöldin,
- varir þín um eilífð ást.
- Himinninn grætur yfir oss,
- ekkavindar stynja.
- Margan tæran tárafoss
- títt vér sjáum hrynja.
- Til vor streymi ofan að
- unaðsdöggin hreina,
- lífs og sálar líknarbað,
- lækning allra meina.
Á árunum 1868-1878 bjuggu á Krossi í Mjóafirði hjónin Jóhann Jónsson og Sigríður Magnúsdóttir. Þau giftust 1864 og hófu þá búskap á Hofi í sömu sveit. Var þá Sigríður Magnúsdóttir 22 ára (f. 4. febr. 1842) og Jóhann Jónsson hafði bóndaárið yfir hana (f. 1841).
Þegar hér er komið sögu, höfðu þessi hjón eignazt 10 börn og misst 6 af þeim, og verið gift í 14 ár.
Árið 1878, 28. okt., lézt Jóhann bóndi, maður Sigríðar, úr lungnabólgu, eftir því sem bezt er vitað.
Jóhann bóndi Jónsson var mesti efnismaður, hraustmenni mikið og drengur góður í hvívetna. Hann bar því almenningsorð, svo sem drepið er á í kvæði hér á eftir.
Ekkjan Sigríður Magnúsdóttir var frændkona fjölskyldu Jónasar Þorsteinssonar í Skuggahlíð, og hlýlegt samband var jafnan milli fjölskyldnanna á bæjum þessum.
Nú skorti ekkjuna á Krossi tilfinnanlega „fyrirvinnu“, því að fjögur börn hafði hún á framfæri, þegar maður hennar féll frá. Það réðst svo, að Jónas Þorsteinsson skyldi verða kaupamaður hjá Sigríði ekkju á Krossi sumarið 1879, eftir að hann reis upp úr þunglyndinu og þegjandaskapnum þá um vorið eða veturinn.
Þegar Jónas fluttist að Krossi á afliðnu vori 1879, voru á framfæri Sigríðar Magnúsdóttur börn hennar og Jóhanns sálaða: Svanhildur, fædd 1870, Jón, fæddur 5. marz 1873 og Sigurður, fæddur 1874. Yngsta barnið hennar, Jóhann, (fæddur 28. apríl 1876) höfðu hin mætu hjón á Brekku í Mjóafirði, Vilhjálmur Hjálmarsson, síðar kunnur hreppstjóri þar og bóndi, og Svanborg Pálsdóttir, tekið í fóstur til þess að létta á framfæri ekkjunnar. Jóhann Jóhannsson ólst síðan upp á Brekku og dvaldist þar til manndómsára. Hans minnist ég enn sökum þess, hve ég unglingurinn dáði krafta hans og hreysti. „Hann sver sig vissulega í föðurkynið,“ sagði fólkið.
Jóhann Jóhannsson fórst með Rigmor, fiskflutningaskipi Konráðs kaupmannas Hjálmarssonar, bróður Vilhjálms hreppstjóra, á stríðsárunum fyrri. Skipið var þá á leið til Spánar með fiskfarm.
Þegar Jóhann bóndi Jónsson lézt haustið 1878, kom hálfbróðir Sigríðar ekkju, Jónas Valgerðarson, henni til hjálpar og dvaldist hjá henni veturinn 1878-1879 við fjárhirðingu og önnur útiverk. En þegar svo Jónas frá Skuggahlíð gerðist kaupamaður hjá henni vorið 1879, flutti Jónas Valgerðarson aftur frá Krossi.
Vel fór á með þeim Jónasi Þorsteinssyni og Sigríði húsfreyju, húsmóður hans. Og ekki hafði hann lengi dvalist þar, er hann tók að gera hosur sínar grænar fyrir henni. Hvað mundi mest og bezt orka á tilfinningalíf ekkjunnar, sem enn saknaði hins göfuga maka síns fyrir margra hluta sakir? Yrkja, yrkja, - reynandi væri að yrkja fagurt kvæði um hinn látna eiginmann!
Samfara ástinni, sem lifnað hefur og glæðzt í brjósti Jónasar Þorsteinssonar til húsmóður hans, er sem skáldgetan og skáldhneigðin eflist með honum, svo að hann tekur til að yrkja nú meir en fyrr. Til þessa hafði hann ekki gert meira að því en svo, að einungis hinir nánustu vissu það, að hann gat gert vísu eða kvæði. En nú efldist sú ósk í brjósti Jónasar, að mega hlýja húsmóður sinni um hjartarætur með því að yrkja erfiljóð eftir manninn hennar sálaða og sýna henni og sanna um leið, hvers hann var megnugur á skeiði Braga.
Í sláttarlokin haustið 1879 hafði hann lokið við að yrkja erfiljóðið eftir Jóhann bónda Jónsson og gefið það Sigríði húsmóður sinni.
Ljóðið er þannig:
- Hví er svo brugðið of byggð hér að líta?
- Beisklega gráta mér virðist hvert strá,
- og himintyppt fjöllin með haustfaldinn hvíta
- horfa með söknuði láglendið á.
- Hnípinn er skógur og hans fölur blómi,
- en hneigja sig eins og með lotningu þó.
- Lækirnir beljandi líksöngs með ómi
- líða frá tindum að gnauðandi sjó.
- Þarf ekki orsakar þessa að leita,
- það er oss kunnugt, að haustið sem leið
- dauðinn gekk hingað með helgeirinn beitta
- og hugkæran þjóðinni upprætti meið
- blómtíðar miðsumars blíðum á degi
- blómgaðan prýði með fegursta skraut.
- Svíður því öllu nú saknaðartregi
- samvistar indælu hans, sem að naut.
- Jóhanni sálaða Jónssyni kæra
- ég hefi samlíkt við blómgaðan meið.
- Rækti hann skyldur með röggsemd frábæra,
- ráðsnjall og árvakur, hógvær um leið.
- Atgjörvi bar hann af flestum í flestu,
- með fágætu hugrekki mannraunum tók.
- Yfirvann þrautir með atorku mestu.
- Ástsæld og traust manna honum það jók.
- Hvívetna glaður, en hófs jafnan gætti,
- hamlaði styggðum en elskaði frið.
- Þurfendum veitti af þó veikum mætti,
- og þá alúðlegast, er helzt þurfti við.
- Ástríki vinum hann auðsýndi bezta,
- ektafljóð, börnin og fleira, sem ann, -
- vildi og gat ekki vitað neitt bresta,
- vellíðan þeirra, sem eflandi fann.
- Andvarpar sáran í eldraunum harma
- ekkjan, og föðurlaus börnin sín ung
- veika en ástríka vefur um arma
- vonar og biður, að kjör létti þung.
- Faðirinn allra, sem föður sig tjáir
- föðurleysingja og volaðra skjól,
- og hefur þann vininn, er hún syrgja náir
- hafið frá jörðinni lambsins að stól.
Nú fannst Jónasi Þorsteinssyni allt líf sitt og öll tilveran hafa gjörbreytzt til batnaðar fyrir honum. Ástin magnaðist í brjósti hans og trúnaðartraustið og trúarhitinn jókst að sama skapi.
Vissulega bar honum að þakka forsjóninni alla þessa hamingju, sem nú skein við honum, og hann lofsöng drottinn allsherjar:
- Látum drottni lofgjörð hljóma,
- líknar vatt hann oss í skaut.
- Ungur bjarmi í árdagsljóma
- upp á hnatta svífur braut.
- Þín ógleymin náð að nýju
- nú vor minnist, faðir kær.
- Lífsins önnum ljósi hlýju
- lýsir morgunsólin skær.
- Þörf er frek í þínu nafni
- þungan taka plóg í hönd.
- Gef að þrek og gæfa dafni;
- gjörvöll slakna þrautabönd.
- Orðið þitt, sem eitt má varna,
- að vér snúum dyggðum frá,
- lampi sé og leiðarstjarna
- lífsins ferli vorum á.
- Þegar ævi lýkur leiðum
- og linnir sorg og raunaþrá,
- á þinnar náðar himni heiðum
- hýr oss skíni morgunbrá,