Blik 1967/Einar Sigurfinnsson, æviágrip, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


EINAR SIGURFINNSSON


ÆVIÁGRIP


(Þegar ég fyrst kynntist öldungnum Einar Sigurfinnssyni, gáfuðum og skáldhneigðum og léttum í lund, vaknaði hjá mér hugur til að kynnast meginþáttum í ævi hans. Ég vissi frá fyrri tíð, að hann hafði um eitt skeið ævinnar tekið mikinn og farsælan þátt í félagslífi og verið í fararbroddi ýmissa mikilvægra félags- og velferðarmála samborgara sinna, svo sem bindindismálanna og ungmennafélagsstarfsins.
Brátt gekk ég úr skugga um, að ævi þessa manns er dálítill söguþáttur skaftfellskra bænda og búaliða um langt skeið austur þar. Þess vegna hefur mér fundizt svara tíma og starfi að skrá þetta æviágrip eftir fyrstu heimildum. Mörgu hefi ég sleppt, sérstaklega frásögnum um ferðalög og hrakninga söguhetjunnar sjálfrar, sem birzt hafa á prenti fyrr á árum.
Ég þakka svo Einari mínum Sigurfinnssyni fyrir allt og allt í samskiptum okkar.— Þ.Þ.V)


Einar Sigurfinnsson.
Ragnhildur Guðmundsdóttir, seinni kona Einars Sigurfinnssonar.

Á síðari hluta 19. aldar bjuggu í Háu-Kotey í Meðallandi hjónin Guðmundur Einarsson og Kristín Einarsdóttir.
Hjón þessi eignuðust mörg börn, sem komust til fullorðinsaldurs.
Meðal þeirra voru synir þeirra tveir Magnús Kristinn og Einar, er báðir drukknuðu í Eldvatninu í Skaftártungu á ferð sinni þar um sveit. Eitt barna þeirra hjóna hét Kristín. Þegar hér er komið sögu, er hún um tvítugt og heitbundin bústjóranum í austurbænum í Háu-Kotey, Sigurfinni Sigurðssyni, og fer hún ekki ein saman af hans völdum.
Hinn 14. september 1884 fæðir þessi heimasæta í Háu-Kotey sveinbarn, sem var brátt vatni ausið og skírt Magnús Kristinn Einar eftir móðurbræðrum sínum, er drukknuðu í Eldvatninu.
Á þessum árum voru tíðar ferðir Skaftfellinga til Austfjarða í atvinnuleit eða til búsetu, því að miklar sagnir gengu um mjög batnandi afkomu fólks á Austfjörðum eftir að Austfirðingar tóku að stunda línuveiðar frá vori til hausts og höfðu handfærið, sem áður var aðalveiðitækið, til ígripa og aukagetu, ef svo bæri undir á sjónum, að færafiskur gæfi sig til.
Sigurfinnur bústjóri á Háu-Kotey afréð að flytjast til Austfjarða sumarið 1884 til búsetu þar, og svo óðfús var hann, að hann fór frá vanfærri heitmeynni austur í Mjóafjörð um sumarið og stundaði þar m.a. smíðar, því að hann var smiður góður.
Gert var ráð fyrir, að Kristín heitmey hans flyttist austur til hans um haustið, er hún yrði léttari, og hæfist þar hjúskapur þeirra og búskapur. En þetta fór allt á annan veg. Meira en vík var orðin á milli vina og ástir þola stundum minna bil. Svo varð og hér. Ekkert varð úr flutningi Kristínar með litla son sinn til Austfjarða. Þannig atvikaðist það, að söguhetjan mín hér, Einar Sigurfinnsson, varð ekki Austfirðingur eins og ég, sem þetta skrifa.
Sigurfinnur Sigurðsson, faðir Einars, var fæddur 1857, sonur Sigurðar Jónssonar Sverrissonar á Kirkjubæjarklaustri.
Móðir Sigurfinns Sigurðssonar var Jórunn Einarsdóttir bónda á Hofi í Öræfum Pálssonar.
Vorið 1889 giftist Kristín Guðmundsdóttir, móðir Einars Sigurfinnssonar, Sigurði Sigurðssyni Sigvaldasonar, og reistu þau bú á nokkrum hluta jarðarinnar Háu-Kotey.

Einar Sigurfinnsson og faðir hans Sigurfinnur Sigurðsson.
Árið 1884 fluttist Sigurfinnur austur í Mjóafjörð og vann þar hjá ungum og upprennandi atvinnurekanda Konráði Hjálmarssyni, líklega helzt við bátasmíðar. Í Mjóafirði mun hann hafa dvalizt nær 10 ár. Þá fluttist hann suður aftur. Þá var það sem þeir feðgar fundust fyrsta sinni. Þá létu þeir taka af sér þessa mynd. Einar stóð á tvítugu. Mynd þessa áttu Mjófirðingar og gáfu mér hana sumarið 1965, er ég var á ferðalagi þar austur í fjörðunum.


Einar litli Sigurfinnsson í Háu-Kotey var snemma snaggaralegur snáði, sem skyggndist snemma í bækur, t.d. Vídalínspostillu, þegar afi hans las húslestrana á hana hvern helgan dag allt árið. Einnig gluggaði hann í hugvekjur og sálmabækur. En galli var á: Hann kunni ekki að lesa. Þá var að hefja námið. Móðir hans kenndi honum að þekkja stafina að fullu, og svo tók hann að kveða að. Það gekk erfiðlega, enda var bókin, sem notuð var við lestrarkennsluna, engin kennslubók í lestri. Þetta var skáldsagan Aðalsteinn.
Þá skyldi reyna að nota handa honum stafrófskver. Um síðir tókst að útvega sér það og þá skipti um. Hér var bók við barnahæfi og lesturinn lærðist furðu fljótt.
Þegar Einar var kominn yfir erfiðasta hjallann í lestrarnáminu, gerði hann sér það að leik að standa aftan við afa sinn, þegar hann las húslestrana eða hugvekjurnar og fylgjast með hverju orði, sem gamli maðurinn las. Þetta uppátæki drengsins flýtti fyrir lestrarnáminu.
Um eða upp úr 1890 hófst farkennsla í Meðallandi. Kennt var á ýmsum stöðum í sveitinni, þar sem húsrúm var viðunandi og börn gátu gengið að heiman og heim í bærilegu veðri.
Einar Sigurfinnsson naut svo sem 5 vikna farkennslu á vetri hverjum þrjá síðustu veturna fyrir fermingu. Kennari var Guðmundur Halldórsson, „realstudent“ frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Námsgreinar voru þessar: Lestur, skrift, reikningur, kver, biblíusögur, landafræði og fáein sönglög. Kennslustundir voru 4-5 á dag og daglega gefin einkunn fyrir getu og kunnáttu (eink. 1-6) og raðað síðan í bekkinn vikulega eftir einkunnunum.
Séra Gísli Jónsson, - fyrst prestur á Syðri-Steinsmýri og síðan í Langholti, - fermdi Einar Sigurfinnsson í Háu-Kotey, eftir að hafa spurt börnin drjúgan hluta úr tveim vetrum, þegar þau voru á 13. og 14. aldursári, fyrst á hverjum sunnudegi frá byrjun 9 viknaföstu og síðan tvisvar í viku, er á vorið leið, alveg fram að fermingu, sem fram fór, er Einar var fermdur (1898), 1. sunnudag eftir trinitatis eða þrenningar hátíð. Fermingarbörnin voru 9.
Þegar Einar Sigurfinnsson var fermdur, hafði móðir hans alið manni sínum, Sigurði Sigurðssyni stjúpa Einars, hvorki meira né minna en 7 börn. Þetta hafði henni tekizt fyrstu 9 ár hjónabandsins. Heimilishagur þeirra hjóna var þröngur, efnahagur naumur, og margt skorti hið þunga heimili, eins og gefur að skilja á þeim tímum. Þá unnu hjónin sleitulaust og drógu hvergi af sér við framfærsluna. Strax og börnin gátu nokkurt gagn gert til léttis í heimilinu, var þeim kennt að taka til hendinni, eða þá látin taka til fótanna í kringum fé og kýr.
Seinni hluta vetrar bar æði oft á sulti í búi. Á þeim tíma árs rak oft fisk á fjörur Meðallendinga. Sá reki var alltaf hirtur og nýttur til matar, eftir því sem kostur var. Þegar leið á þorra, var fjaran gengin að staðaldri í þessu skyni, til að hirða upp það sem þar rak matarkyns.
Koteyjarfjara er að lengd „tólf hundruð faðmar tólfræðir“, þ.e. rúmlega 2,7 km. Fjöruna eiga fjórar jarðir. Þær eru þessar: Háa-Kotey, Lága-Kotey, Nýibær og Fjósakot.
„Farið var á fjöru“ hvern dag, þegar rekavon var, og skiptust menn á að ganga fjöruna daglega frá þessum bæjum. Rekanum var skipt strax, ef hægt var. Annars biðu skiptin næsta dags, ef eitthvað kynni þá að bætast við.
Langoftast hafði selurinn gert sér gott af einhverjum hluta af rekafiskinum, en hann var jafnan margur þarna úti fyrir. Stundum rak aðeins þorskhausinn með ræksni af hrygg eða roði viðloðandi. Oftast var þó stirtlan sæmilega heilleg. Öll þau matföng, sem fengin voru á fjörunni, voru reidd heim, hreinsuð eftir föngum, matreidd og etin með beztu lyst, þó að stundum marraði sandur undir tönnum, þá tuggið var.
Dag og dag slæddust upp í fjöruna heilir fiskar og stundum margir, svo að þeir skiptu jafnvel tugum. Það var kallað „landhlaup“ og þótti mikið happ. Stundum rak mikið af loðnu á fjörurnar, já, meira en fjörueigendur gátu sjálfir hirt. Þá þótti sjálfsagt að veita öðrum hlut í happi þessu. Ýmsir nágrannar fengu þá að taka þátt í tínslunni. Happið saddi hungraða eða ekki ofsatt fólk á næstu bæjum.
Loðnan var ýmist etin ný eða söltuð. Stundum var hún hert. Einkum var það gert, er komið var undir vor og loðnan orðin gotin og mögur.
Á þessum árum var almenn fátækt ríkjandi í Meðallandi, enda slæmt árferði um árabil og landkostir rýrir. Þess vegna varð fólk öllu fegið, er saddi svanga maga.
Þessar fjörugöngur voru tímafrekar bændum og búaliði og mikill ábætir ofan á öll önnur tímafrek heimastörf, þegar vinnuléttinn og þægindin skorti á öllum sviðum.
Suður á Koteyjarfjörur er 7-8 km leið, sem liggur að mestu um slétta sanda. Leiðin liggur að öðrum enda fjörunnar. Þess vegna varð að ganga fjöruna tvívegis, samtals á sjötta kílómetra. Á veturna var oft kaffenni frá bæjunum suður að fjöru. Stundum var broti á síkjum og mýrum, stundum mikil vatnsleysa í rigningartíð.
Leiðin suður að sjónum var vörðuð stikum, sem settar voru niður með nokkru millibili.
Með sólarupprás flykktist „fuglinn“ að ætinu í fjörunni í stórhópum og gerði sér gott að krásinni. Þess vegna var nauðsynlegt að fara snemma á fætur á morgnana og hafa gengið fjöruna, áður en ófögnuðurinn, keppendurnir um ætið, flykktist að og æti þar upp allt matarkyns.

Þegar Einar Sigurfinnsson minnist móður sinnar frá þessum æskuárum, segir hann:

„Ég skildi ekki þá hina miklu erfiðleika, sem mamma átti við að stríða þessi ár og ekki heldur, hvaðan sá styrkur kom, sem hélt heimilinu í sæmilegu horfi. Síðan ég eltist og fór að kynnast lífinu og skilja hlutina betur, undrast ég það sálarþrek hennar, sem var næstum ótrúlega mikið. Aldrei heyrðist æðruorð. Aldrei gætti óánægju í orðum hennar eða látbragði, hvað sem á bjátaði og hversu þröngur, sem efnahagurinn var. Alltaf var mamma hin sama, glöð, hlýorð og bætandi allt, svo sem unnt var. Hún var innilega trúuð og bænin hennar „indæl iðja“. Þar þykist ég hafa hlotið skýringuna á hinu næsta yfirnáttúrlega sálarþreki og -styrk, sem hún hafði yfir að ráða.
Með börnin á handleggnum gekk hún að vinnu í eldhúsi og fjósi og stundum úti við. Með þau í keltunni eða við brjóstið spann hún og prjónaði. Þá gerðist það stundum, að hún sagði sögur okkur hinum eldri á meðan hún innti hin störfin af hendi. Þá sátum við eða stóðum í kringum hana. Stundum kenndi hún okkur vísur, þulur, bænir eða sálmavers og bjó okkur þannig veganesti, sem bezt hefur enzt og reynzt.“

Á æskuskeiði vaknaði löngun Einars Sigurfinnssonar til þess að læra eitthvað, sem gæti létt honum lífsbaráttuna síðar á ævinni. Ekkert varð úr því námi þó. Ekki leyfði efnahagur móður hans og stjúpa það, að vinnuafl hans hyrfi heimilinu, - hans, sem var elztur barnanna.
Þegar hann svo varð þess áskynja, að móður hans varð það tilfinningamál, ef hann færi frá henni, kom það ekki til mála meir. Öllu skyldi fyrir hana fórnað.
Eftir að Einar varð sæmilega læs, notaði hann flestar tómstundir til lesturs. Öll vetrarkvöld las hann upphátt sögur og annað, sem til féllst. Og hann fékk lánaðar bækur hjá nágrönnunum. Eitt sinn á þessum árum gaf stjúpi Einars honum biblíuna, Lundúnaútgáfuna 1866. Þá var Einar 12 ára gamall.

Árið 1899 var Skeiðvallarkirkja í smíðum. Efni í kirkju þessa var flutt til landsins með gufuskipi, sem hét Ísafold og var eign J. P. T. Bryde, hins kunna danska selstöðukaupmanns, sem verzlaði í Eyjum, Vík í Mýrdal og í Reykjavík.
Ísafold lagðist á Dyrhólahöfn, þ.e. vestan við Dyrhólaey, og þar var kirkjuviðnum skipað í land.
Á þilfari skipsins var timbrinu staflað saman og bundið í knippi, sem síðan var rennt í sjóinn.
Bátar drógu síðan flekana inn undir landbáruna. Þar lá fastból. Úr því lá kaðall í land. Timburknippunum var knýtt í kaðalinn og þau svo dregin með honum upp í fjöru. Þar voru knippin síðan leyst upp og viðurinn borinn upp á malarkambinn og hlaðið þar upp.
Þarna vann Einar Sigurfinnsson við timburburð. Hann mun þá hafa verið á 16. ári og var vinnupiltur hjá Jónatan Jónssyni í Garðakoti, sem síðar varð vitavörður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þetta var í fyrsta sinn, sem Einar fór að heiman til vinnu annars staðar.
Þegar smíði Skeiðflatarkirkju var lokið, voru kirkjurnar á Dyrhólum og Sólheimum lagðar niður og sóknir þessar sameinaðar í eitt, Skeiðflatarsókn.

Þrátt fyrir einangrun og fátækt átti fólkið í Meðallandi ríkar hneigðir til félagsstarfs og menningar. Ýmsir mætir bændur fóru þar í fararbroddi og höfðu með sér nokkra unga menn og upprennandi.
Þann 15. janúar 1905 var stofnað bindindisfélag í Meðallandi. Stofnfundurinn var haldinn að Rofabæ, enda var helzti hvatamaður að stofnun félagsins bóndinn þar Stefán Ingimundarson. Félagið hlaut nafnið Sigurvon. Stofnendur voru 20 talsins, flest æskufólk, piltar og stúlkur.
Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Stefán bóndi í Rofabæ, gjaldkeri Pétur Hansson í Sandaseli og ritari Einar Sigurfinnsson í Háu-Kotey. Félögum fjölgaði ört og fundir vel sóttir. Líf og fjör í félagsskapnum.
Árið eftir sameinaðist Sigurvon öðru bindindisfélagi, sem stofnað var þá í Meðallandi. Það var bindindisfélagið Sygin, goodtemplarastúka þar. Sú sameining átti sér stað 22. júlí 1906. Síðan hefur Einar Sigurfinnsson verið goodtemplari og telur það spor, sem hann steig þá, eitt sitt mesta gæfuspor í lífinu. Sá sem þetta skrifar, getur vissulega tekið undir það, því að hann hefur sömu reynslu að tjá í þeim efnum. Þannig hefur Einar Sigurfinnsson, þegar hér er komið sögu, verið bindindismaður í 61 ár. Þá var um þessar mundir stofnað lestrar- og bókafélag í Meðallandi. Flest heimili byggðarinnar gerðust þegar félagsstoðir þar, þó að bókakostur væri lítill. Vegna almennrar fátæktar lestrarfélagsmanna urðu félagsgjöld að vera lág. Það olli svo því, að lítil tök urðu á að kaupa bækur handa félaginu til útlána. Þess vegna lognaðist félagið útaf bráðlega. Síðar stofnaði bindindisfélagið (stúkan) Sygin lestrarfélag og eignaðist töluvert bókasafn. Það framtak varð að miklu liði og bókasafnið langlíft í byggðinni.

Alltaf brann innra með Einari Sigurfinnssyni þráin sú, að mega starfa fyrir æskulýðinn, koma að sem mestu liði á þroskaskeiðinu, ná að móta hann og manna. Í því skyni fékk hann nokkra drengi í lið með sér haustið 1907. Þeir stofnuðu með sér sérstakt æskulýðsfélag, sem þeir nefndu „Æskuna“.
Markmið félags þessa var tvíþætt: Það skyldi „leitast við að draga úr tóbaks- og áfengisnautn og svo hvetja unglinga til þess að hugsa um sóma sinn og velferð og heiður og hag ættjarðarinnar“. Í félagi þessu voru drengir um og innan við fermingu. Leiðtoginn þeirra, Einar Sigurfinnsson, var elztur, eins og vel fór á, kominn yfir tvítugt. - Á félagsfundum var lesið upp, sungið, sagðar sögur o.s.frv. Allir þessir félagsdrengir Einars gengu síðar í ungmennafélag byggðarinnar og urðu þar flestir leiðandi starfskraftar. Það ungmennafélag var stofnað í Meðallandi 1908. Á þeim árum ruddi ungmennafélagshreyfingin sér braut í landinu til áhrifa og blessunar á marga lund æskulýð og heimilum. Hún hefur bæði fyrr og síðar bjargað barnaláni fjölmargra foreldra og þannig unnið þjóðfélaginu íslenzka ómetanlegt gagn. Þrír ungir menn aðallega beittu sér fyrir stofnun ungmennafélagsins í Meðallandi. Þar skal fyrstan telja söguhetju okkar Einar Sigurfinnsson. Með honum unnu helzt að stofnuninni Eiríkur trésmiður Jónsson frá Auðnum og kennarinn í byggðinni Eyjólfur Eyjólfsson. Til fullnustu var gengið frá stofnun félagsins 8. nóv. 1908. Það var stofndagur Ungmennafélags Meðallendinga, skammst. U.M.F.M.
Félagið dafnaði vel. Það gaf út blað, sem hét „Félagsandinn“ og var lesið upp á fundum. Að sjálfsögðu var það skrifað.

Að Fjósakoti í Meðallandi bjuggu hjónin Sigurbergur Einarsson og Árný Eiríksdóttir. Þau áttu mörg börn. - Ein dóttir þeirra hét Gíslrún, fædd 1887.
Fljótt eftir fermingu fór Gíslrún Sigurbergsdóttir að heiman, fyrst að Gröf í Skaftártungu og svo að Mýrum í Álftaveri. En vorið 1907 kom Gíslrún aftur heim til foreldra sinna í Fjósakot. Þá gekk hún strax í stúkuna Sygin og varð þar fljótt starfsamur félagi, enda hafði hún áður starfað í stúkunni Foldinni í Álftaveri. Gíslrún var sérstaklega félagslynd stúlka og varð einn að stofnendum Ungmennafélagsins. Þar var hún einnig góður liðsmaður. Henni var margt vel gefið og ýmislegt til listar lagt. Hún var t.d. söngvin og hafði fagra söngrödd.
Ekki höfðu þau Einar Sigurfinnsson og Gíslrún Sigurbergsdóttir starfað lengi í félagsskapnum, er þau felldu hugi saman. Þau bundust hjúskaparheitum í jan. 1909. Síðan var hugsað til jarðnæðis og búskapar.
Vorið 1910 fengu þessi hjónaefni byggingu fyrir hálfri Syðri- Steinsmýrarjörðinni og hófu þar búskap sinn í maí-mánuði það vor.
Á Syðri-Steinsmýri voru fyrrum engjar grasgefnar og þess vegna mikill heyskapur. Þó voru Steinsmýrarjarðirnar nú aðeins svipur af því, sem þær áður höfðu verið, því að sandurinn hafði herjað á land þeirra árum saman og lagt hverja spilduna af annarri í auðn. Áður höfðu búið þar a.m.k. 4 ábúendur. Nú bjuggu á Syðri-Steinsmýrarjörðunum aðeins tveir ábúendur og höfðu lítil bú.
Lítill var bústofn Einars og Gíslrúnar, er þau hófu búskapinn á Syðri-Steinsmýri, en þau voru hraust, ólu með sér bjartar vonir og svo öllu meira: þau elskuðust heitt og innilega og voru óumræðilega hamingjusöm. Og þá þarf vissulega ekki stóran bústofn til þess að framfæra tvo munna; hamingjan er hálft lífið!
Snemma kom þó fyrsta óhappið í búskapnum. Sumarbæran, sem þau höfðu keypt um vorið, fékk júgurmein eftir burð á slætti, svo að þau urðu að lóga henni. Heimilið var þessvegna mjólkurlaust fram undir jól, en þá bar hin kýrin, kvíga að fyrsta kálfi. Tíu ær höfðu þau í kvíum um sumarið. Kaupakonu höfðu þau mánaðartíma á slætti þetta fyrsta búskaparsumar sitt og snúningadreng 9 ára.
Sunnudaginn 14. ágúst 1910 gengu þau Gíslrún og Einar í hjónaband. Hjónavígsluna framdi séra Bjarni Einarsson á Mýrum, sem nú var einnig orðinn prestur Langholtssóknar. Hjónavígslan fór fram í Langholtskirkju, og var þar þá margt fólk við messugjörð eins og jafnan á þeim árum í Meðallandi.
Um haustið 1910 vildu hjónin á Syðri-Steinsmýri auka bústofn sinn. Þá voru góð ráð dýr. Ekkert bankalán var að fá nokkurs staðar. Hvað var þá til ráða?
Í Vík í Mýrdal verzlaði kaupmaður að nafni Halldór Jónsson. Mörgum var hann að góðu kunnur fyrir hjálpsemi við fátæka bændur og búaliða.
Til hans lagði nú Einar bóndi Sigurfinnsson leið sína. Hann fór þess á leit við kaupmanninn, að hann lánaði þeim hjónum úttekt að minnsta kosti um árs bil, svo að þau þyrftu ekki að lóga lömbum sínum um haustið, heldur gætu þau sett þau á og aukið þannig bústofninn. Þetta var auðsótt mál við drengskaparmanninn Halldór kaupmann. Aðeins ullin af þessum fáu kindum þeirra var einasta innleggið inn á úttektarreikninginn næsta vor. Það lét kaupmaðurinn sér nægja.
Ekki liðu mörg ár, þar til ungu hjónin á Syðri-Steinsmýri höfðu greitt allar verzlunarskuldir sínar og gátu verzlað skuldlaust. Nægjusemin, nýtnin, sparsemin og búhyggnin áttu hér drýgstan þátt í velgengninni eins og alltaf áður. Og ungu hjónunum leið vel í kotinu sínu lága.
Og eins dauði er annars brauð, stendur þar. Veturinn 1910-1911 strönduðu þrjú útlend skip á Meðallandsfjörum. Þau óhöpp færðu Einari bónda á Syðri-Steinsmýri þó nokkrar tekjur.

Frá Syðri-Steinsmýri fluttu þau hjón að Efri-Steinsmýri af sérstökum ástæðum. Þann 30. júní 1911 fæddist þeim hjónum fyrsta barnið. Það var sveinbarn, sem hlaut skírn 15. s.m. og skírt Sigurbjörn. Allt lék í lyndi fyrir ungu hjónunum.
Steinsmýrarbæirnir eru afskekktir, og skilur Eldvatnið þá frá aðalbyggð. Fólkið á bæjum þessum átti því ekki hægt um hönd með að sækja félagsfundi í aðalsveit eða vera virkir félagsliðar þar. Þess vegna stofnaði það á þessum árum nýtt félag fyrir Steinsmýrarbæina. Það félag kölluðu þeir Skjaldborg. Stofnendur voru 12, og hélt það fundi mánaðarlega. Það kom upp bókasafni til ánægju og gagns fólkinu. Fátt sannar betur félagslyndi þessa fólks og menningarþrá en stofnun þessa félags, eins og aðstæður allar til félagslífs voru þarna erfiðar í fólksfæðinni og fásinninu.
Ekki hafði Skjaldborg haldið marga fundi, er Einar Sigurfinnsson flutti félagsmönnum þetta hvatningarljóð:

Heyrið kallið, hetjur snjallar.
Heyrið menn og fljóð.
Heyrið rödd, er hátt nú kallar:
Hleypið fjöri' í blóð.
Heyrið óm frá eldhraunsseyðum,
æstum brimsins gný.
Víst er þörf á verkum greiðum,
vanans hrekja ský, -
víst er þörf á verkum greiðum,
vanans hrekja burtu ský.
Áfram því í einum anda,
upp með framtaks þor.
Iðjulaus má hér engin standa
ævi sinnar vor.
Allir upp til stríðs og starfa,
starfið fjörgar blóð.
Höfum æ þá hugsjón þarfa
að helga lífið þjóð, -
höfum æ þá hugsjón þarfa
að helga lífið vorri þjóð.
Allir upp í einu verki,
eflum lýðsins heill.
Drögum hátt vort helga merki,
hugur sé ei veill.
Skulum þétt í skjaldborg standa,
skjöldur vor sé hreinn.
Beitum afli anda og handa,
undan flýi ei neinn, -
beitum afli anda og handa,
undan merki flýi ei neinn.
Skýl þú öllu, Skjaldborg unga,
skjóls er þarfnast mest.
Hrek á burtu dapran drunga
og deyfðarmerki flest.
Stjórni Drottinn starfi handa,
styrki hverja mund,
komi með sinn kærleiksanda,
er krýni sérhvern fund, -
komi með sinn kærleiksanda,
er krýni sérhvern okkar fund.

Meðan Gíslrún Sigurbergsdóttir húsfreyja á Steinsmýri gengur með annað barn þeirra hjóna, langar mig til þess að biðja bónda hennar, Einar söguhetju mína Sigurfinnsson, að segja okkur frá tveim skipsströndum á Meðallandsfjörum. Þær frásagnir hans fela í sér sögulegt gildi, með því að björgunarstörf Meðallendinga eins og allra annarra, er búa þarna austur með strandlínunni hættulegu sjófarendum, er þáttur í mikilvægu mannúðarstarfi með íslenzku þjóðinni.