Blik 1965/Stökur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



Stökur


Nokkur eintök af Bliki hafa verið seld í Vík í Mýrdal á ári hverju. Það hefur hinn kunni Eyverji gert, Þórarinn Einarsson frá Berjanesi.
Sumarið 1963 fékk ritstjóri Bliks þessa vísu senda austan úr Skaftafellssýslu:

„Fyrir Blik ég þakka þér;
það var indæll lestur;
Ekki' hefur komið austur hér
öllu betri gestur.“
Ferðafélagi.

Gizkað er á, að höfundurinn hafi verið með í Bændaförinni 1938, en þar var Þ.Þ.V. ferðalangur.


Þegar öskufallið frá Surti spillti drykkjarvatni Eyjabúa haustið 1963, er suðvestanvindar geisuðu, gerði Brynjólfur Einarsson, hagyrðingur hér, þessa vísu:

Breyti' hann um átt, þá veit ég þú sérð,
í vatnsmálum okkar hvað skeður:
hér verður allsherjar gosdrykkjagerð,
gangi' hann í útsunnan veður.


STAKA
(Sami, B.E.)
Þó menn striti þetta jafnt,
þurrki út dags- og næturskil,
verður alltaf eitthvað samt
ógert, sem mann langar til.

Árið 1950 kom út bókin Formannsævi í Eyjum, eftir Þorstein Jónsson, skipstjóra í Laufási.
Þegar Magnús Þorláksson, hagyrðingur í Reykjavík, hafði lesið bókina, kvað hann:

Forðum menn í bættri brók
beittu djarfir fleyjum.
Þakka þér fyrir þína bók,
Þorsteinn minn í Eyjum.
---

Ort til Magnúsar Magnússonar, netagerðarmeistara, á 60 ára afmæli hans, fyrir hönd vinar hans:

Ævidagsins aftansól
örmum vefji drenginn,
upp á sextugs sjónarhól
sem í dag er genginn.


Fyrir gott sem gerðir mér,
góðra beztur vina,
hjartanlega þakka ég þér
þar með samfylgdina.
Á.Á.