Blik 1965/Gideon (Hannes Jónsson)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



ctr


Hannes lóðs.


(Einn kunnasti formaður hér á síðari hluta 19. aldar, var Hannes Jónsson frá Miðhúsum, — um tugi ára hafnsögumaður hér. Blik hefur áður minnzt Hannesar en þó ekki svo sem efni standa til.
Hannes hóf að stunda sjó á sumrum 11 ára gamall og byrjaði formennsku á áttæringnum Gideon 17 ára. Þeir urðu frægir saman, hvor af öðrum. Gideon var smíðaður að Kirkjulandi í Landeyjum. Aðalsmiðurinn var Hjörleifur Kortsson frá Miðgrund undir Eyjafjöllum.
Hér birtum við fróðlega grein eftir Hannes Jónsson um stóru áraskipin, vetrarútgerð þeirra, aflahluti o.fl.
Mig minnir að ég hafi einhvers staðar séð þess getið, að Jóhann Þ. Jósefsson hafi átt upptökin að því, að Hannes skrifaði þessa grein. Ef til vill hefur hún birzt áður einhvers staðar (en er þess verð að geymast í Bliki, sem mörg önnur söguleg heimild).





Gideon var talinn með stærstu áttæringum um sína daga, hálfrar þrettándu álnar langur á kjöl, en hálf sextánda alin milli stafna; sjö og hálfrar álnar breiður og hálf önnur alin á dýpt undir hástokka; árar voru langar, fullar níu álnir og þriggja þumlunga breið blöðin.
Bátur þessi var smíðaður í Landeyjum, og þegar hann var tilbúinn, færðu Landeyingar hann til Eyja. Gekk þeim vel „út“, en miður til lands aftur, því að gæftir voru svo stirðar, að þeir urðu að bíða byrjar í 13 vikur. Mundi slíkt þykja ekki liðlegar samgöngur nú, en við þetta urðum við að búa, sem nú erum orðnir gamlir, og munum þó varla hafa verið miklu óánægðari og vanþakklátari við Guð og menn, en nú gerist meðal þeirra, sem yngri eru og betra eiga að venjast bæði um þetta og annað. Sigling á áttæringnum var að öllum jafnaði hin svokallaða „lokortusigling“, og svo var um „Gideon“. Voru siglur tvær, hin fremri hálf níunda alin á hæð, en hin aftari ellefu álnir. Í framsegl og klýfir þurfti 44 álnir af álnarbreiðum dúk, en í afturseglið 60 álnir.


ctr


Áttæringurinn Gideon.


ctr


Áttæringurinn Farsæll. - „Lokortusigling“.


ctr


Áttæringurinn Olga. (Sjá Blik 1963). Færeyiskt lag. Fróðlegt er að bera saman myndirnar af „Gideon“ og „Farsæl“ annars vegar og af „Olgu“ hins vegar.


Formenn á opnum bátum slíkum sem „Gideon“ höfðu jafnan hlut við háseta og 40 krónur að auki, en hásetar fengu 3—4 króna þóknun, er kölluð var „skipsáróður“, og greiddi bátseigandi hvort tveggja. Síðar var sú venja upp tekin, að bátseigendur buðu skipverjum til sín nokkrum (2—4) sinnum á vertíð og veittu þeim sætt kaffi og með því, og enda stundum vín í kaffið. Þá var og haldin eins konar veizla, er bátur var settur í hróf, og veitt brauð, tóbak og vín, og ekki nóg með það, heldur var hverjum þeim, sem vann að því að koma skipinu í hrófið, gefin þriggja pela flaska af brennivíni í nestið.
Meðan fiskað var á handfæri, var 19—20 manna skipshöfn á hverjum áttæring, og að auki einn eða tveir drengir upp á hálfdrætti. Eftir áttæring voru teknir 4 hlutir og kallaðir „dauðir hlutir“, og var aflanum skipt í 23—24 staði. En þegar farið var að nota lóðir (í Vestmannaeyjum um 1897), breyttist þetta nokkuð og þó ekki til muna fyrr en eftir 1900.
Hver háseti var skyldugur til að gegna „kalli“ formanns síns á kyndilmessu, nema lögleg forföll kæmu til, en um þau var varla að tala hjá öðrum en þeim, sem voru af landi ofan, því að þeir urðu auðvitað að sæta leiði af landi, og gat þá oltið á ýmsu um komu þeirra í verið. En hlut fékk háseti, þótt veikur væri og óverkfær alla vertíðina.
Vertíð var talin frá Kyndilmessu til loka, en oftast var þó vertíðarróðrum hætt um sumarmál og reyndar stundum fyrr, og fór um það eftir gæftum og aflabrögðum.
Gideon var talinn allmikið skip, en fremur valtur, væri hann tómur, en því betri í sjó að leggja sem meira var í honum, og bar hann í sæmilegu veðri og sjó 40 fiska hlut af fullorðnum þorski.
Oft var um þessar mundir farið í hákarlalegur, og þóttu það svaðilfarir ekki alllitlar, því að oft var langt róið og legið úti. Þótti það sæmilegur afli að fá 32 tn. lifrar í legu, enda báru áttæringar ekki meira, svo að tryggt þætti, því að lifur er illur farmur, og var þá haft meira borð fyrir báru en ella.
Áttæringar með „lokortusiglingu“ voru taldir allgóð hlaupaskip undir seglum, og eru dæmi þess, að þeir gengu nær 13 mílur danskar (á vöku) í liðugum vindi. Svo var þetta t.d. eitt sinn, er ég var staddur á „Gideon“ „undir Sandi“, milli Kross og Bryggna (á 15 faðma dýpi). Skall þá á norðan fárviðri svo mikið, að við gátum ekki haldizt þar við og urðum að hleypa til Eyja. Við vorum 30 mín. á leiðinni með hálffermi af fiski og öll segl tvírifuð.
Öðru sinni var ég í hákarlalegu í útsuður af Pétursey og ekki alllangt frá landi. Gerði þá hroðastorm á vestan um kl. 9 árdegis og hélzt allt til kvölds. Við settum þá upp segl, því að ekki þótti rætt, og krusuðum til Eyja; lentum við kl. 7 og þótti hafa gengið vel.
Þótt bátar þessir mundu nú þykja lítil skip og ekki á sjó farandi, voru þeir eða þóttu áður fyrr furðu góð í sjó að leggja. Og víst er um það, að margar sögur mætti segja, og sumar harla ótrúlegar, um það, hve vel þeir reyndust í vondu, enda oft mikið boðið, eins og nærri má geta, í slíkri verstöð sem Eyjar eru, þar sem sækja verður oftast æði langt á hafið út, og aldrei í annað hús að venda um höfn en Eyjarnar sjálfar, en sjór jafnan stundaður kappsamlega. Voru þá oft kröggur í ferðum, því að auk annars eru margar rastir í kringum Eyjar, allar háskasamlegar opnum fleytum, en ekki um annað að tala en taka höfn heima eða týnast ella. En þó urðu sjaldan slys á þessum bátum, og miklu færri en nú gerast á móturbátunum.
Lítið var um vistaskipti á skipum þessum, svo að oft var maður í sama skiprúminu, meðan hann reri út. Höfðu menn svo miklar mætur á fleytunni, er þeir sóttu á björg sína í sjóinn, að þeir vildu ekki við hana skilja, unz þeir hættu sjómennsku með öllu. Ég get þess til dæmis, að ég var 43 vertíðir á „Gideon“ og einn hásetinn 38 vertíðir.
„Gideon“ gekk til fiskjar í 72 ár, en þó voru þrír formenn með hann alls: Fyrst Loftur Jónsson bóndi í Þórlaugargerði, er fluttist til Ameríku (Utah). Annar var Árni Diðriksson bóndi í Stakkagerði, og loks Hannes Jónsson, hafnsögumaður að Miðhúsum, er sett hefur saman þetta greinarkorn.


ctr


Hannes Jónsson stundaði bjargveiðar hér í átthögum sínum mörg sumur á yngri árum. Hér sést hann með tveim vinum sínum.


ctr


Miðhús, þar sem Hannes Jónsson bjó.




ctr


Konan til vinstri á myndinni er Jóhanna Jónsdóttir, systir Hannesar lóðs á Miðhúsum. Hún fór á sínum tíma til Ameríku, eins og fleiri úr Eyjum á síðustu öld. Hún var áður gift hér og eignaðist 7 börn, sem hún missti að undanteknu einu, dóttur, sem hún fór með vestur um haf. Þar lézt dóttirin nokkru síðar. Þá giftist Jóhanna þessum manni, sem með henni er á myndinni. Hann var mormóni og ekkjumaður, sem átti 7 börn. Þeim gekk Jóhanna Jónsdóttir í móðurstað. Fyrri maður Jóhönnu var Guðm. Guðmundsson, tómthúsmaður á Fögruvöllum. Síðari maður hennar var Pétur Valgarðsson að Tabor í Alberta í Kanada. (Heimild: Jórunn Hannesdóttir á Vesturhúsum, bróðurdóttir Jóhönnu).