Blik 1963/Sundskálinn á Eiðinu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



STEINN SIGURÐSSON:


Sundskálinn á Eiðinu


Meðan Steinn Sigurðsson, skólastjóri, dvaldist í Vestmannaeyjum, starfaði hann mikið fyrir Ungmennafélag Vestmannaeyja, var lífið og sálin í þeim félagsskap og hafði þar rík áhrif til þroska og vaxtar heilbrigðu lífi meðal æskufólks í Eyjum. Eitt af því sem hann beitti sér fyrir, var bygging sundskála, þar sem Eyjabúum, sérstaklega yngri kynslóðunum, gæfist kostur á að klæða sig úr og í, er þeir iðkuðu sundíþróttina, og þyrftu þá ekki lengur að afklæða sig á bersvæði, eins og áður tíðkaðist þar í byggð.
Árið 1911 hóf Ungmennafélagið að safna fé til skálabyggingarinnar undir forustu Steins Sigurðssonar. Félagið hélt hlutaveltur, og því áskotnaðist fé á annan hátt. Einnig lét sýslunefndin fé af mörkum til þessa merka framtaks. Árið 1913 var skálinn fullgerður og tekinn til nota um sumarið. Við vígslu skálans flutti Steinn Sigurðsson frumort kvæði, sem hann kallaði Sundhvöt. Það er birt hér á eftir ásamt tveim kvæðum Steins skólastjóra.




Sundskálinn á Eiðinu, byggður 1913. Skáldið Örn Arnarson (Magnús Stefánsson) var sýsluskrifari í Vestm.eyjum á fyrstu árum sundskálans (hann dvaldist þar 1911-1918) og orti gamankvæði um sundskálahugsjónina. Þar er þessi kunna vísa:


Þeim vex nú ekki allt í augum, ungmennunum hér.
Þeir ætla að byggja sundlaug, þar sem Heimaklettur er.
Og leigja þar út sólskinið og selja hreinan sjó
á 60 aura pottinn hélt Steinn að vœri nóg.


Hér leyfir Blik sér að birta grein um hinn nýja sundskála, er Steinn Sigurðsson sendi Skinfaxa, tímariti ungmennafélaganna, árið 1914. Þegar Ungmennafélag Vestmannaeyja hóf að safna fé til skálabyggingarinnar, voru í því yfir 100 félagar. - Þ.Þ.V.).


Fyrir tveim árum kom til tals í U.M.F. Vestmannaeyja að reisa sundskála handa sundnemendum Eyjanna. Var safnað fé í því skyni með hlutaveltum og á annan hátt.
Styrks var og leitað hjá sýslunefndinni og varð hún svo vel við, að félagið sá sér loks fært að láta framkvæma verkið í vor, og kostar nú skálinn upp kominn nálægt 1.300 krónum. Aðalsmiðir voru félagsmenn, þeir Markús Sigurðsson og Guðjón Sæmundsson, en umsjón hafði stjórnin falið fyrrverandi formanni félagsins St. Sigurðssyni.
Milli Heimakletts að austan og Klifs að vestan liggur stórgrýttur malargrandi norðan að höfninni. Kallast hann Eiði. Sunnan á Eiðinu, austan undir klettinum stendur skálinn á afskekktum stað við sjávarmál. Þangað er 10—15 mínútna gangur úr kaupstaðnum, alveg hæfilegur spotti til að hlaupa, er menn koma af sundi. Að heiman sést skálinn frá vesturhluta kaupstaðarins, en ekki úr aðalbænum, því að bergraninn Kleifar, suðvestur úr Klettinum, skyggir á.
Stærð skálans er 30x7x8 fet (9,41 m x 2,2 m x 2,5 m) á tveggja feta grunni og skiptist í 10 klefa alþiljaða. Allar dyr vita móti sól, þá er hæst er dags og heitast. Fram af báðum endum skálans eru steyptir skjólgarðar 16 feta langir, og standa þeir í sjó með háflæði. Til þess að komast að skálanum um flóð eru dyr á öðrum skjólgarðinum, og tekur 4 feta breið stétt við innan við þær með framhlið skálans endilangri, steypt að framan en gólfið úr timbri. Af henni miðri eru tvær steyptar tröppur til að ganga ofan í fjöruna. Við tröppuhornin framanverð standa tvær súlur undir þverbita, sem ætlazt er til að festa gjarðir við til æfinga sundtaka á þurru landi. Uppi yfir rís bogi með skrautletruðu fangamarki félagsins, kjörorðum sambandsins og ártalinu.

Súlurnar með boganum yfir mynda þannig eins konar skrauthlið, sem veitir skálanum tígulegri svip og hlýlegri. Við framhlið skálans fyrir miðjum vegg rís flaggstöng, yfir 30 feta há frá stétt. Frá toppi hennar á bláhvíti fáninn að liðast fyrir sunnanblænum yfir höfði sundnemanna.

Skálinn er allur gjörður úr góðum viðum og vandaður eftir föngum. Hann er mjög snotur í fjarsýn, málaður bláhvítum litum, aðlaðandi fyrir unglingana, létt yfir honum eins og þeim.
Vígsla sundskálans fór fram heima í kaupstaðnum undir berum himni sunnudaginn 22. júní (1913). Veður var óhentugt inni við skála. Ræður voru fluttar, lúðrar þeyttir og bumbur barðar undir bláhvítum veifum. Margmenni var saman komið. Formaður félagsins, Sigurður Jónsson, skýrði frá tildrögum skálabyggingarinnar og öðrum sögulegum gangi þess máls. St. (Steinn) Sigurðsson kennari talaði um sundíþróttina og nytsemi hennar, en sýslumaður, Karl Einarsson, lýsti skálann opinn til ókeypis afnota fyrir almenning og fól hann héraðsbúum á hendur, treystandi þeim til að umgangast hann með friði. Allir unnu eið að því með því að taka þátt í ferföldu húrrahrópi, og var vígslunni þar með lokið.
Skálinn er ágætt tæki til líkamsmenningar Eyjabúum, og ættu þeir að reyna að láta sér þykja vænt um hann og nota hann dyggilega. Það er þeim sjálfum mest í hag.
Ungmennafélög landsins geta tæplega komið upp þarfari stofnun en sundskýlum, eða beitt sér fyrir nytsamara málefni en sundinu, sem er ein hin ágætasta allra íþrótta. Vonum vér að heyra um meiri starfsemi í þeirri grein hér eftir.


Vestmannaeyjar.
Vér þekkjum háa hamraborg,
þar heyrist duna brimsins org
og skrölt við sker og flúð.
Í gegnum hafsins öflgan óð
má önnur heyra glaðleg hljóð, —
í sölum bjargsins sumarljóð,
er syngur fylking prúð.


Sú hamraborg í hafsins ál,
til himins risin elds við bál,
er fóstra fólksins míns. —
Hún elur fugl í fjallsins tó,
og fiskakyn í djúpum sjó,
en ber og grös og blómin frjó
á brjóstum hraunsins síns.


Vér elskum móðir, óðs þíns hljóm
í ölduslætti og fuglsins róm
og hörpu í björgum hám.
Vér elskum hvern þinn hnjúk og tind
og hvamm og tjörn og dals þíns lind,
já, — elskum þína mæru mynd
á mararfeldi blám.
St.S.


„Eyjar“ (brot).
Eyjar veit ég einar standa,
uppi gnæfa hátt við ský;
Eyjar fyrir sunnan sanda
svölum mararstraumum í.
Öldur hafa kaldar knúið,
kletta þessa ár og síð.
Þangað höfðu hefndir flúið
Hjörleifs banar fyrr á tíð.


Blasir röð við firna fjöllum,
flóðs við bylgjur reynir mátt,
Heimaklettur hærri öllum
hlífir byggð við norðanátt;
sunnan undir bergi bláu
bruna fley í lægi heim;
fyrrum vænir vellir lágu
vaxnir gróðri á slóðum þeim.


Helgafell til himins mænir,
Heimalandsins prýði mest;
neðra vaxa geirar grænir,
gígur forn hið efra sést;
undir rótum fellsins fríða
frjósöm blasa ræktartún,
lægst til dala og hæst til hlíða
hagar — fram á yztu brún.


Flest í Eyjum finnst til bjargar,
fáir kostir bregðast þar,
gefast holur matar margar
meiri og betri en víða hvar, —
vor og haust í Elliðaeyna
arðs að vitja sigla fley,
úrvals kostum á sér leyna
Álsey rík og Bjarnarey.


Orka og táp við eyjar þessar;
ávallt finnur gæði nóg,
geldur framtak, guð, og blessar
gjöfum með af landi og sjó.
Annast drottinn, eins og fyrri
öldugirtan fjallareit,
haltu þinni hendi kyrri
hárri yfir tignarsveit!
St.S.