Blik 1963/Þáttur spaugs og spés
Gömul togaraminni
Þegar ævin færist yfir, verður sýnin til liðinna tíma skýrari og ljósari. Þá getum við ef til vill brosað að atburðum, sem okkur fannst áður fyrr vera hinir alvarlegustu, vera lífið sjálft með öllum þunga sínum.
Ég les ávallt Blik, síðan ég var háseti á öðrum Vestmannaeyjatogaranum. Þess vegna datt mér í hug að senda því núna nokkur orð, þar sem ég bregð upp dálítilli mynd af ástandi, sem var Eyjafólki svo alvarlegt, að það hefði auðvitað leitt til gjaldþrots bæjarfélagsins með tíð og tíma. Þetta sjáum við bezt nú eftir fengna reynslu annarra bæjarfélaga af togaraútgerð. En „prinsippet“ er harður húsbóndi og strangur, og ýmsum var það „prinsipp“ að halda dauðahaldi í togarana, hvað sem öllum fjárhag liði. Og hér kemur svo greinin mín, sem var einn í hópnum og ekki sá „lakasti“, en nú er langt síðan, finnst mér, og sjálfsagt að brosa að kátlegum fyrirbrigðum, þegar maður er orðinn upp úr því vaxinn að taka þátt í þeim lengur.
- ————
Forstjórinn arkar um Austurstræti, bústinn og brosandi. Vilpa liggur við landfestar við Ægisgarð. Þar vantar tvo háseta. Þá verður forstjórinn að klófesta með einhverjum ráðum. Útgerðin kostar Vestmannaeyjakaupstað 18 þúsund krónur á dag, og tvo daga hefur skipið orðið að bíða aðgerðarlaust eftir mannskap. Aðeins 5 róna hefur forstjórinn klófest á skipið þessa tvo daga með mikilli lagni og dugnaði. Dýrir verða slíkir dánumenn. Tæplega gat ég svarið mig af þeirri stétt manna í þá daga.
Fleiri menn var ekki að fá á togarann að sinni. Forstjórinn hafði leitað „sauðlaust“ í Hafnarstræti, enda margir í mannhraki.
En nú er laugardagskvöld í aðsigi og þá þefjar vel um Hafnarstræti. Því fer forstjórinn enn á kreik. Allt í einu nemur stór lögreglubifreið staðar fyrir utan lögreglustöðina. „Hvað er nú á seyði?“ hugsar forstjórinn, „fróðlegt er að líta á, skyggnast um og fylgjast með.“ — Hann nálgast bifreiðina. Hún reynist þá full af okkur úr Hafnarstræti. Allir skyldum við í „Kjallarann“. Þarna kannaðist forstjórinn við eitt andlitið, þarna við annað og það þriðja. Nú voru góð ráð dýr. Allt eða flest allt hásetar af Vilpu. Og þarna voru fimmmenningarnir líka, nýráðnir á skipið. Forstjórinn hafði sjálfur keypt handa þeim stakk og stígvél. „Kæru lögregluþjónar,“ ávarpaði forstjórinn, „látið ekki þessa menn í „Kjallarann“. Gerið það fyrir mig að aka þeim öllum ofan á Ægisgarð. Þar bíður þeirra það heimili, sem við Eyjaskeggjar höfum búið þeim með ærnum kostnaði. Það er togarinn Vilpa frá Vestmannaeyjum. Þetta eru allt mínir menn, hásetarnir mínir,“ sagði forstjórinn.
Það þarf naumast að taka það fram, að lögregluþjónarnir urðu himinlifandi, þegar þeir vissu það, að þeir hefðu orðið annan „kjallara“ til umráða, því að nóg mundi þörfin fyrir steinkjallarann, þegar á kvöldið liði.
Allir voru hásetarnir ýmist bornir um borð eða dregnir. Sumir okkar voru ofurölvi, aðrir hátt uppi.
Nú sá skipstjórinn það vænst að leysa landfestar og þoka „kjallara“ sínum út á ytri höfnina. Bíða þar síðan í von um tvo háseta í viðbót.
Um lágnættið kom forstjórinn svo með viðbótina, tvo lasaróna, sem við þekktum vel, ágæta félaga í kránum við Hafnarstræti.
Þá var hafið upp anker og stefnt á Halamið.
Þegar loks skyldi varpa vörpunni fyrir borð, vorum við „þunnir“ margir og máttfarnir til vinnu, svo að til vandræða horfði. Skipstjórinn greip þá til „afréttarans“, sem forstjórinn hafði víst afhent honum af mikilli fyrirhyggju. Fyrir öllu var séð þarna af hugkvæmni og hyggindum, enda mikil og víðtæk reynsla fengin á tiltölulega fáum árum.
Þegar meðvitundin tók að mjakast aftur inn fyrir heilaskelina á okkur hásetunum, vöknuðu sumir við heldur leiðinlegan draum. Komnir vestur á Halamið! Fari það grábölvað! Einn okkar hafði verið sendur niður í bæ til þess að kaupa eina bóndós. Þarna var hann kominn í þeirri ferð. En lítið var um bónið eða gólfgljáann þarna vestur á Halamiðunum. Annar hafði verið á leiðinni heim með hálsmen handa frúnni til þess að milda lund hennar undir lágnættið. Þó hafði hann endilega, fannst honum, mátt til með að koma við á Hafnarknæpunni, sem margir kölluðu svo, en hét okkar á milli „Mellan“. Ástæðuna fyrir þeirri nafngift segi ég ykkur ekki.
„Melluförin hefur sem sé leitt mig vestur á Halamið,“ sagði veslings hásetinn hugsi og drap fingri á ennið til þess svo sem að fá betur heilafrumurnar til að starfa. Og hvað skyldi hún Júlla mín svo hugsa, þegar ég finnst hvergi í borginni. Hún heldur auðvitað, að ég sé dauður, hafi fallið út af hafnarbakkanum. Bölvuð ekkisen vandræði eru þetta!
Með herkju, sem einhvers staðar fannst á skipinu, náðist varpan aftur inn fyrir borðstokkinn, með því að hver Eyjamaður um borð gerðist nú tvíefldur, er þeir sáu, hversu aumir við vorum hinir og aflvana til átaka. Allt gekk þó seint og silalega og var sem dragbítur væri á dáð allri.
Skipstjóri og stýrimenn tóku á allri þeirri stillingu, sem þeir áttu til.
Aflinn í heild reyndist rýr, því að afköstin á þilfari voru lítil, sáralítil. Loks afréð skipstjóri að hætta veiðunum að því sinni, enda þótt við hefðum ekki nema hálffermi, og halda til hafnar í Eyjum. Sú för gekk eins og í sögu. Þá var áfengisútsala í kaupstaðnum og við vorum bornir um borð, þegar tekzt hafði að losa skipið. Þegar svo veiðiförin var til reiknings færð að fullu, þóttí ýmsum Eyjabúar sleppa vel fjárhagslega frá kostnaðinum. Þeirra hlutskipti hafði aðeins orðið það, að greiða einar 10 þúsuudir á dag, á hvern útgerðardag, með fyrirtækinu þá daga, sem það var á veiðum. Það verð ég að segja, að Eyjaskeggjar fengu góða uppbót á þær greiðslur, því að við settum svip okkar á bæinn, og hann fastmótaðan, er við stigum á land og höfðum látið ríkinu í té sinn drjúga hlut af hlutnum okkar.
Þó heyrði ég minnzt á einn mann, sem græddi verulega á eymd okkar, — og svo annan, sem ekki náði upp í nefið á sér yfir öllum þeim töpum, sem togaraútgerðin olli bæjarfélaginu og vildi ólmur selja togarana. En yfirleitt var sá hinn sami talinn skynskiptingur í fjármálum, heyrðist mér á þeim verkamönnum, sem unnu við að losa skipið, og hyggjulítill í bæjarpólitík kaupstaðarins þá. Ekki man ég orðið, hvað hann hét, en illa var um hann talað.
- Reykjavík, 30. nóv. 1961.
- E.
- Reykjavík, 30. nóv. 1961.
- ★
Þorsteinn heitinn Þorsteinsson, sem var lengi sýslumaður í Dalasýslu, var sem kunnugt er, einhver mesti bókasafnari hér á landi. Þegar lát hans fréttist, orti borgfirzkur bóndi þessa vísu:
- Fallega Þorsteinn flugið tók.
- Fór um himna kliður.
- Lykla-Pétur lífsins bók
- læsti í skyndi niður.
- Fallega Þorsteinn flugið tók.
- ★
Einn af starfsmönnum kaupfél. S.-Þing. var kunnur að því á Húsavík, að lasta sýknt og heilagt fyrirtækið, sem hann vann hjá. Rógur þessa manns stafaði af því, að hann taldi sig af öðru stjórnmálalegu sauðahúsi en máttarstoðir kaupfélagsins.
Um þessa afstöðu starfsmannsins til atvinnurekandans kvað Egill Jónasson:
- Fyrir eðli ótugtar
- engin gæði metur,
- yfir fóðri Framsóknar
- fýlir grön og étur.
- Fyrir eðli ótugtar
- ★
Gamli Sighvatur Borgfírðingur bjó með ráðskonum, eftir að hann varð ekkjumaður. En þær vildu tolla illa í vistinni. Þegar ein þeirra rauk í burt, þá kvað hann:
- Gæfan rík í horni hauk
- hjá mér átti — í viku.
- Auðnan slík sem örskot fauk.
- Ólafsvíkur-meyjan strauk.
- Gæfan rík í horni hauk
- ★
Tveir feðgar í Eyjum voru á bát sínum við síldveiðar fyrir Norðurlandi. Faðirinn var skipstjóri á bátnum.
Dag nokkurn lágu þeir undir björgum Grímseyjar í blíðskaparveðri. Sjórinn var spegilsléttur. — Allt í einu kallar sonurinn í veiðihug: „Pabbi, pabbi, selur, selur.“ Faðirinn skyggndist um eftir bendingum sonarins. Jú, vissulega sá hann selinn. „Settu kænuna á flot, væni minn, meðan ég næ í byssuna,“ sagði faðirinn. Síðan reru þeir feðgar í átt að selnum.
Brátt uppgötvaði „selurinn“ að bátur fór að honum og maður var þar með byssu. Þá teygði hann upp handlegg og hrópaði. „Nú, þetta er maður að baða sig,“ sagði faðirinn. „Hann lýgur því, skjóttu bara, pabbi, skjóttu bara,“ sagði sonurinn i óbreyttum veiðihug.
- ★
Ungur, nýríkur Sunnlendingur hafði kvænzt norðlenzkri heimasætu. Fyrstu hjúskaparárin gaf hann sér ekki tíma til að heimsækja tengdaforeldra sína, sem bjuggu á afskekktu heiðarkoti langt frá kaupstað.
Þegar hinn ungi og sjálfumglaði kaupstaðarbúi þóttist hafa tíma til, tók hann sér loks tómstundir til að heimsækja tengdaforeldra sína. Þá hafði hann m.a. lokið við að byggja sér þriggja hæða hús í bænum. Tengdaföðurnum var mikil forvitni á að kynnast atvinnurekstri tengdasonarins og var mikið upp með sér af dugnaði hans og framtaki. „Hvað er nú þessi mikla bygging þín há, tengdasonur sæll?“ spurði gamli maðurinn, sem aldrei hafði gjört víðreist um dagana. „Látum okkur nú sjá,“ sagði tengdasonurinn drýldinn. „Við norðlenzku fjöllin get ég ekki líkt byggingunni. En samt kemur mér í hug dæmi um hæð hennar. Af efstu hæð þóttist ég einu sinni sjá 10-eyring liggjandi á baklóð hennar. Ég flýtti mér niður, því að ég er einn af þeim, sem hirði bæði krónuna og eyrinn. Þegar ég leit út um glugga á næstu hæð, sá ég að peningurinn var 25-eyringur. Af neðstu hæð sá ég ekki betur en að þetta væri gömul silfurkróna. En þegar út kom, þá reyndist þetta vera sorptunnuhlemmurinn nýbronsaður.“ — „Já, há hlýtur þessi bygging að vera,“ hugsaði tengdafaðirinn með tvær grímur, sem runnið höfðu á hann.
- ★
Háseta í Eyjum varð það á að kalla útgerðarmann þar þorsk. Útgerðarmaðurinn stefndi hásetanum og fékk hann dæmdan í þessar kunnu 1.000 króna sektir fyrir orðið.
„Dýr varð hann þér, þessi þorskur þinn,“ sagði útgerðarmaðurinn við hásetann daginn eftir að dómurinn var birtur honum. „Ojá,“ sagði hásetinn, „golþorskar eru dýrir nú til dags, enda er þessi mjög stór og stórar í honum kvarnirnar.“
- ★
Fyrir mörgum árum kom sóknarprestur inn í fiskbúð til þess að kaupa sér í soðið. Ef til vill var þetta í Vestmannaeyjum. Prestur talaði mikið. M.a. ræddi hann um verðið á soðfiskinum, hversu miklu hann væri ódýrari á bryggju en í fiskbúðinni. „Þessu veldur milliliðurinn,“ sagði prestur. Þá sagði fisksalinn ofur rólega og ísmeygilega: „Sama má víst segja um guðsorðið, það mundi ódýrara, ef það fengist milliliðalaust.“
- ★
Fyrir svo sem einum tugi ára tók kunnur Eyjabúi til máls á aðalfundi bátaábyrgðarfélagsins. Honum var mikið niðri fyrir. Hann hóf ræðu sína á þessa lund: „Áður en ég tek til að fletta ofan af stjórn Bátaábyrgðarfélagsins í heild, óska ég alveg sérstaklega að skamma einn mann. Og áður en ég nefni skálkinn þann, vil ég fyrst nefna tvo aðra ennþá verri. En áður en ég byrja að húðstrýkja þá, hef ég verið beðinn að tilkynna að halda skal aðalfund í öðru miklu merkara tryggingarfélagi í bænum, nefnilega nautgripaábyrgðarfélaginu, næstkomandi fimmtudag.“ — Þá hló allur „þingheimur“ nema sá, sem undir reri, svo að ræðumaður varð miður sín og settist.
- ★
Gamall maður fór til Reykjavíkur og leitaði læknis. Læknirinn rannsakaði hann gaumgæfilega og sagði síðan: „Það er slæmt, að sumt fólk leitar ekki læknis fyrr en það er hálfdautt.“ „Til mín kemur það aldrei, fyrr en það er steindautt,“ sagði gamli maðurinn. „Nú, hver eruð þér?“ spurði læknirinn. „Ég er grafari við Landakirkju í Vestmannaeyjum.“
- ★
Eitt sinn á jarðræktaröldinni í Eyjum sendi Búnaðarfélagið danskan fyrirlesara til þess að flytja þar fyrirlestur um tilbúinn áburð.
Búnaðarfélag Vestmannaeyja boðaði til fundar í K.F.U.M.-húsinu. Tvær aldraðar konur sáu auglýsinguna og gátu lesið stafi hússins. Þær skunduðu á fundinn eins og svo oft áður án þess að athuga, hvers eðlis hann var.
Meðan á fyrirlestrinum stóð, tóku þær að tárast og snippa. Grennsluðust þá sessunautar þeirra eftir ástæðunum fyrir því og spurðu, hvað hryggði þær.
„Heyrið þið ekki eins og við, hve guðsorð þessa manns er hjartnæmt og hrífandi?“ spurðu gömlu konurnar.
- ★
Fyrir svo sem 40 árum bar stúlka í Eyjum barn sitt til skírnar. Þurfti hún þá að greina presti frá því, hver væri faðir barnsins. „Hann Pétur Jónsson, sem átti heima á H...,“ sagði stúlkan. „Hvernig má það vera?“ spurði prestur, „hann, sem fór til Ameríku fyrir tveim árum.“ ,,Já, en hann sendir mér alltal bréf öðru hvoru,“ sagði stúlkan, „og þau eru heit.“
- ★
Ekki eru margar aldir síðan að í Eyjum starfaði prestur, sem þótti hafa krafta í kögglum umfram flest sóknarbörn sín. Þá var annar bóndinn á Vesturhúsum kunnur að bráðlyndi og óstjórn í skapi, sérstaklega, ef hann bragðaði vín. Lét hann þá jafnan hendur skipta og hnefa semja sátt, eins og þar stendur.
Eitt sinn varð þeim sundurorða, presti og bónda. Gaf þá bóndi presti löðrung á hægri kinn. Þá vildi prestur góma bóndastaulann. „Stendur það ekki í heilögu guðsorði, að þér beri að snúa vinstri kinn að, ef þú færð högg á þá hægri?“ spurði bóndi. Þá sneri prestur að honum vinstri kinn. Bóndi gaf honum einnig kinnhest á hana.
„Nú stendur ekki meira um þetta í guðsorði, maður minn,“ sagði prestur og hirti bónda eftirminnilega.
- ★
Í fyrra kom kona í Eyjum að bónda sínum, þar sem hann var að þvo sér um andlitið og var með húfuna á höfðinu. ,,Ósköp er að sjá þig þvo þér með húfuna á höfðinu,“ sagði konan. Þá sagði bóndi hennar vandræðalegur: ,,Þar sem ég er nú svona nauðasköllóttur, get ég ekki vitað takmörk andlits og skalla nema ég hafi húfuna á höfðinu, meðan ég þvæ mér.“
- ★
Mikill og voldugur útgerðarmaður í Eyjum reykti vindla sýknt og heilagt. Eina línuvertíðina réði hann Færeyinga til að beita. En þeir voru of fáir og kvörtuðu undan því við útgerðarmanninn, sem hét þeim jafnan að ráða þeim til aðstoðar „akkorðsmann“ við beitninguna. Svo liðu dagar og vikur, og ekki bólaði á aðstoðarmanninum, sem hafði verið ætlaður staður innst við stafn í beituskúrnum.
Dag nokkurn, er útgerðarmaðurinn kom í skúrinn, glaður og reifur, hávær og hamingjusamur í öllum sínum gróða, sér hann skötu hanga á veggnum, þar sem beitumanninum hafði verið ætlað rými. Færeyingarnir höfðu stungið rjúkandi vindli í kjaft skötunnar. „Hvað er nú þetta?“ spurði útgerðarmaðurinn. „Oh, blessagur lúsakroppurinn, tað er nyje bætningamaðurinn tin.“
- ★
Eyjólfur á Reynivöllum í Suðursveit var greindur og glúrinn karl. Hann fékkst talsvert við dýralækningar. Á efri árum varð hann blindur.
Maður, sem átti leið um hjá Reynivöllum, varð fyrir því óhappi að reiðhestur hans heltist. Fór hann því heim að hitta Eyjólf gamla og spyrja hann ráða við þessu.
Þá spyr Eyjólfur:
,,Á hvaða fæti er hesturinn haltur?“
Maðurinn svarar:
„Á vinstra afturfæti.“
Þá svarar Eyjólfur:
„Æ! Fari það í sjóðheitt. — Það er eina löppin, sem ég ekki hef meðal við.“
- ★
Á ÞJÓÐHÁTÍÐ VESTMANNAEYJA.
Hann var hátt uppi. Tjaldið í tœtlum og öskrandi austan rigning.
„Blessaðir, góðu hálsar, verið ekki að standu úti í rigningunni. Komið inn í tjaldskjólið mitt. Hér er hlýtt og notalegt.“
Hefurðu verið í duftinu?
Já, það held ég nú,- hálfan mánuð. En þú?
Já, þrjár vikur, en Klaufin þeirra Eyjaskeggja tekur öllu fram.
- ★
Hinn góðkunni borgari hér, Gísli Jónsson á Arnarhóli, varð áttræður á s.l. vetri. Eins og allir bæjarbúar vita, þá er hann fullvinnandi enn, hreinsar sorp frá húsum Eyjabúa og lætur ekki sinn hlut eftir liggja. Einn er sá ungi maður hér í bæ, sem hefur augastað á hreinsunarstarfi Gísla, er hann hættir.
Á áttræðisafmælinu gerði Brynjólfur Einarsson, hagyrðingur, þessa vísu fyrir orð hins unga manns og sendi Gísla Jónssyni:
- Þín helgasta skylda er að halda í
- þá heilsu, sem drottinn þér gaf.
- Þess vegna ætturðu að fá þér frí.
- Ég ér fús til að leysa þig af.
- Sig. Reimarsson.
- Þín helgasta skylda er að halda í
- ★
Þegar Austfirðingar hér í Eyjum héldu þorrablót sitt á sl. vetri, var Brynjólfur Einarsson, skipasmiður, Boðaslóð 4, að vinna í Lifrarsamlagi Vestmannaeyja. Þá sendi hann átveizlugestum þessa vísu símleiðis:
- Maturinn fyrir öllu er,
- eins og þið hljótið flest að vita.
- Sanngjarnt væri þið senduð mér
- súrsaðan pung og hákarlsbita.
- Maturinn fyrir öllu er,
Vissa er fyrir því, að Austfirðingar gerðu út „leiðangur“ til hagyrðingsins með alls kyns góðgæti, sem sæmir að borða í þorrablótsveizlu.
- ★
Frú ein í milljónahverfinu á Heimaey var að undirbúa kaffiboð. Þá segir hún við heimilishjálpina sína: „Skrepptu fyrir mig vestur í Silfurbúð og kauptu fyrir mig eina sykurklípu. Hafðu hana úr skíru silfri. Mér finnst alltaf andstyggilegt að sjá þessa karlmenn taka sykurinn úr karinu með berum fingrunum, eftir að þeir ...“
Stúlkan gerði eins og hún var beðin um.
Svo bárust gestir að garði.
„Hvar léztu sykurklípuna, sem þú keyptir?“ spurði frúin stúlkuna í hálfum hljóðum.
„Ég lagði hana á setuna í salerninu,“ sagði stúlkan.
Starf mitt
Eftir birtingu bréfsins góða og þær deilur, sem spunnust út af lífeyrissjóðsréttindum mínum á sl. vetri, sendi einn af „tígulkóngum“ ritsins mér þetta erindi:
- Allt þitt starf er einskis metið,
- enda hvorki selt né étið,
- og engu þar af floti fleytt.
- Sem ýsa og þorskur ekki vegið,
- ekki mælt sem fóðurheyið,
- er þess vegna ekki neitt.
- Allt þitt starf er einskis metið,
Ég þakka þessum vini mínum huggunarorðin.