Blik 1963/Þáttur nemenda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ctr


Fyrsta ástin mín

Ég varð yfir mig ástfangín í fyrsta skipti, sem ég sá hann. Það hófst með því að ég var að gera innkaup. Veðrið var slæmt, hvasst og hálka. Allt í einu kemur vindhviða, og ég veit ekki fyrr til, en að ég ligg marflöt á gangstéttinni. Ég skammaðist mín meir en ég hafði nokkru sinni áður gert, því að nú fannst mér ég ekki vera stelpa lengur, 15 ára gömul. —
Þá var það sem þessi strákur kom og spurði alvarlegur, hvort ég hefði meitt mig. En ég horfði bara á hann alveg eins og sauður, hissa á því, að hann skyldi ekki hlæja, því að sjálf sé ég ekkert kátbroslegra, en þegar fólk dettur, þó að það sé kvikindislegt af mér að vera svona gerð.
Hann var með kolsvart hár og dökk augu, — alveg eins og kvikmyndastjarna, fannst mér. Hann hjálpaði mér að tína saman dótið mitt, en ég gat ekki haft augun af honum á meðan. Þegar ég kom heim, skrifaði ég nákvæma lýsingu á honum í dagbókina mína.
Þegar fundum okkar bar saman næst, var það undir æði skringilegum kringumstæðum, sem ég óska að greina frá öðrum til viðvörunar.
Ég á heima í lágu húsi, svo að tök eru á að skríða þar inn um glugga af tunnu, kassa eða lágri tröppu. Í þetta skiptið hafði ég komið heldur seint heim og var læst úti. Ég gerði mér lítið fyrir og tók tunnu, sem lá þarna nærri og setti hana framan við gluggann. Svo klöngraðist ég upp á hana og opnaði gluggann, sem aðeins var lagður aftur. Það voru mín verk. En því miður var glugginn of þröngur og ég heldur í þrifnara lagi, svo að ég stóð föst í honum. Ég sparkaði og kom við tunnuna, svo að hún valt á hliðina. Þarna hékk ég á belgnum, hálf inni og hálf úti, og gat enga björg mér veitt.
Auðvitað mun ég eitthvað hafa látið til mín heyra. Þurfti þá ekki strákasninn, sem hjálpaði mér, þegar ég datt, að rekast þarna fram hjá? Hann kom nú aðvífandi og reisti upp tunnuna. En nú gat hann ekki stillt sig um að hlæja, þegar hann þekkti mig aftur. Ég varð öskuvond og gat ekkert séð fyndið við þessi vandræði mín. Einhvern veginn komst ég inn um gluggann með hans aðstoð og bauð honum góðar nætur.
Þegar ég svo tók að hugleiða atburðinn og þessa niðurlægingu mína, dofnaði hrifningin af þessum svarthærða náunga. Að lokum var hann í mínum augum hundleiðinlegasti strákurinn, sem ég hafði hitt um dagana.

B.J.

Stúlkan með grænu augun

Hann sat á móti henni í lestinni. Honum var starsýnt á hana, því að aldrei hafði hann séð jafn yndislega stúlku. Hún var með rauðbrúnt hár og græn augu, þau fallegustu augu, sem hann hafði nokkurn tíma séð. Og litli, dökkgræni hatturinn fór henni svo einstaklega vel. Græni liturinn var alltaf dásamlega fagur. Aldrei hafði hann séð það betur en nú.
Hún sat með prjóna og var að prjóna eitthvað grænt.
Á næstu stöð skrapp hann út til þess að fá sér ferskt loft, því að það var svo mollulegt inni í klefanum. Hann hlakkaði til að komast heim til vinar síns til þess að hjálpa honum til að flytja í nýju íbúðina. — Þegar hann kom aftur inn í klefann, var hún horfin. Hann varð óskaplega vonsvikinn. Í rauninni skildi hann það nú fyrst, að hann hafði orðið ástfanginn þarna í klefanum við fyrstu sýn. Eða var það bara ímyndun? Það gat hann ekki sætt sig við.
Hann settist við gluggann í þungum þönkum og tók ekki fyrst í stað eftir því, að hún kom inn í klefann og hafði setzt í sætið sitt. Undrandi hefði hún orðið, ef hún hefði tekið eftir svipbreytingunum á andliti hans. Hann, sem rétt áður var sorgin uppmáluð, ljómaði nú eins og tungl í fyllingu. Hún var farin að prjóna aftur. Svo leit hún eins og af tilviljun á hann. Þegar hún sá, hvað hann starði á hana, fipaðist henni, svo að hún missti annan prjóninn á gólfið. Hann flýtti sér að taka upp prjóninn og rétta henni hann. „Þakka fyrir,“ sagði hún stuttaralega.
Nú var komið á leiðarenda. Hann rölti á stað heim til vinar síns, sem átti heima þar skammt frá. Brátt tók hann eftir því sér til mikillar gleði, að hún gekk spöl á undan honum í sömu átt og hann. Hún krækti inn á eina götu af annarri og ávallt sömu leið og hann þurfti að fara. Hann tók eftir því og hægði á sér, því að hann vildi ekki hræða hana, láta hana halda, að hann legði hana í einelti. Við hvert götuhorn leit hún við reiðileg á svipinn. Þegar hann beygði fyrir síðasta götuhornið, var hún horfin honum. En hann var ánægður, því að þetta var einmitt gatan, sem vinur hans bjó við. Hann gekk inn í stórt fjölbýlishús og upp á 4. hœð. Hann rataði um allt húsið, því að hann hafði dvalizt þarna áður. Hann drap á dyr hjá vini sínum, því að hann kunni ekki við að æða beint inn. Í sömu andrá sem hann opnaði hurðina, stóð hún fyrir framan hann. Í sömu svipan sat hann flötum beinum ringlaður á gólfinu og sá ekkert nema grænar stjörnur. Dásamlegur var græni liturinn! Svo heyrði hann hurðinni skellt á nasir honum. Þetta var hurðin á íbúð vinar hans...
En hvernig átti hann líka að vita það, að vinur hans hafði flutt úr íbúðinni daginn áður, og hún keypt hana og flutt þá í hana?

Margrél R. Jóhannesdóttir, 2. D.

Hnífurinn og Mosa

Á Eldleysu í Mjóafirði bjuggu um nokkuð mörg ár á fyrri hluta þessarar aldar, bræður þrír með systrum sínum. Tveir þeirra bræðra, Þorgrímur og Sveinbjörn, koma hér við sögu.
Eldleysa er fremur góð sauðjörð eftir því sem um er að ræða á strandbýlum Austfjarðanna. Nokkuð utar með firðinum er eyðibýlið Steinsnes. Höfðu bræðurnir full not af þeirri jörð, sem einnig var og er ágætis sauðjörð. Þar var vel ræktað tún, góð beit til dalsins og fjörubeit góð. Þar voru einnig stór og góð fjárhús og áfast við þau var ásamt heyhlöðunni, innréttuð íbúð, sem þeir bræðurnir notuðu í viðlegum í heyskapartíð og til dvalar á vetrum, þegar ótíð var, því að fremur langt var á milli bæjanna Eldleysu og Steinsness.
Það var einu sinni í góðviðristíð á einmánuði, þegar Þorgrímur hafði á hendi fjárgæzluna á Steinsnesi, að hann hleypti fénu út að morgni dags, svo sem venja var í góðri tíð, og rann það til sjávar, því lágsjávað var og fjörubeit góð. En svo þegar féð lagði leið sína frá sjónum upp til dalsins, tók Þorgrímur eftir því, að ein ærin, mórauð tvævetla, dróst aftur úr hópnum og lagðist niður á grasbala í túninu, skammt frá fjárhúsunum. Teygði Mosa frá sér alla skanka og brauzt um, eins og hún væri þá og þegar í dauðateygjunum. Þorgrímur hraðaði því för sinni til ærinnar, og þegar hann hafði skoðað hana, sá hann ekki betur en að hún væri dauð.
Tók hann því næst í hornin á Mosu og dró hana heim að fjárhúsdyrum, því að þar ætlaði hann að gera ána til, eins og sagt er.
Fór Þorgrímur því næst inn í íbúðina og sótti þangað skurðarhníf. Þegar hann kom aftur til Mosu varð enn töf við ærskurðinn, því að þá vantaði ílát undir innmatinn. Stakk hann þá skurðarhnífnum undir trélista yfir fjárhúsdyrunum, hélt svo aftur inn í íbúðina til að sækja ílátin. Að því búnu átti að taka til verka, en þá var hnífurinn horfinn. Þorgrímur fann ekki hnífinn, hvernig sem hann leitaði, og varð því að hætta við ærskurðinn, því um annan hníf var ekki að ræða á Steinsnesi til þeirra verka. Hann ákvað því að fara heim að Eldleysu og sækja annan hníf, því að hann var orðinn með öllu vonlaus um að finna hnífinn, sem horfinn var.
Þegar heim kom, sagði Þorgrímur þeim bræðrum frá afdrifum Mosu og þessu dularfulla hnífshvarfi. Sveinbjörn bróðir hans fór með honum út að Steinsnesi, til þess að flýta fyrir verkum, því að nú leið óðum á daginn. Þegar þeir bræður komu að fjárhúsinu á Steinsnesi, var Mosa horfin. Var þeim þá báðum litið yfir fjárhúsdyrnar, þar sem Þorgrímur hafði stungið hnífnum fyrr um daginn, og var hann þá þar á þeim sama stað. Varð því ekkert úr ærskurðinum í þetta sinn frekar en í hið fyrra. Þótti þeim bræðrum þetta býsna dularfullt fyrirbrigði.
Um kvöldið þegar þeir ráku féð heim, var Mosa með í hópnum og hin sprækasta. Varð hún síðan gömul ær og alla tíð hin mesta happakind.

Magnús Sigurðsson, 3. b. bóknáms.

Rottan og ...

Það var eitt sinn sem oftar, að ég var að vinna hjá Ísfélagi Vestmannaeyja. Þetta var einn af þessum sólbjörtu sumardögum, og átti unga fólkið erfitt með að haldast inni. En loksins kom kaffitíminn. Ég var vanur að fara þá heim, þar sem ég á heima skammt frá frystihúsinu, og gerði ég það einnig þennan dag. Oft reið á að vera fljótur að drekka og koma sér niður eftir aftur til þess að missa ekki af fjörinu, því að alltaf skeður eitthvað skemmtilegt í kaffitímum. Þegar ég kom úr kaffi, sá ég, hvar nokkrir strákar voru eitthvað að pukra framan við dyr frystihússins. Ég gekk þarna að og sá þá, að þeir eru með dauða rottu, og höfðu hugsað sér að hræða nokkrar stelpur, sem þarna sátu í sólbaði. En þegar til átti að taka, þorði enginn að snerta á rottunni. Ég greip þá í skott dýrsins, hóf það á loft, og sveiflaði því í kringum mig, og ætlaði að láta það vaða inn í stelpuhópinn. En það fór á annan veg. Beint andspænis frystihúsinu eru húströppur, og eru eldri konurnar, sem þarna vinna, mjög sólgnar í að sitja þar og drekka kaffið sitt. En hvað um það, þegar ég sveiflaði rottunni í kringum mig, þurfti skrokkurinn að slitna frá árans skottinu, og þaut nú út í loftið eins og gervihnöttur, og stefndi beint á tröppurnar, þar sem konurnar sátu og töluðu um landsins gagn og nauðsynjar, og hafnaði í kjöltu þeirrar er hæst talaði. Þær ráku upp ógurlegt hljóð, en hæst þó sú, er sendinguna fékk. Ég stóð alveg agndofa, og hálf stirðnaður af hræðslu og undrun yfir að frúin skyldi standast yfirlið. En hún reis nú á fætur og óð í stórum stökkum að dyrum frystihússins. Þá voru um 5 mínútur eftir af kaffitímanum. Ég rankaði við mér og skauzt upp á loft og inn í vinnusalinn og byrjaði að vinna. Þá kemur verkstjórinn labbandi til mín, klappar á öxlina á mér og segir rólega. „Kaffitíminn er ekki búinn, væni minn.“ „Ha — hva — ha — hvað, ó-ósköp er þetta langur kaffitími,“ stama ég. Hann lítur á mig og segir.
„Ertu eitthvað lasinn í höfðinu, væni minn, þú ert eitthvað svo fölur?“

Þ.V., 4. bóknáms.

Söguleg sjóferð

Ég hef verið orðinn 12 ára gamall, þegar ég var búinn að sjá hvernig bæði, þorska- og reknet voru dregin, en ég hafði aldrei séð, hvernig lína er lögð eða dregin, því að þessir bátar, sem ég hafði farið með, notuðu ekki línu. Það var í páskavikunni, að ég fór til frænda míns, sem var skipstjóri, og bað hann um að lofa mér að koma með einn róður, því hann stundaði línuveiðar. Það var auðsótt mál, svo framarlega sem það yrði gott veður. Ég var því mættur niðri á bryggju klukkan eitt um nóttina. Nú fóru skipverjar að tínast um borð, þ.e.a.s. þeir sem sváfu í landi, en þeir eru mér sérstaklega minnisstæðir, því að það voru skrítnir fuglar. Annar þeirra hét Stefán, og kallaður Stebbi, en hinn hét Þorgeir, og kallaður Geiri, og voru þeir eins ólíkir og dagur og nótt. Stebbi var hár og grannur, og tók mikið í nefið, og því með afbrigðum nefstór eins og gefur að skilja. En Geiri var aftur á móti lágur og þrekinn, og þar sást nú bara ekkert nef í andlitinu. Nú er haldið af stað, og er komið er inn fyrir Faxa, tekur skipstjórinn beina stefnu í vestur, og keyrði í tvo tíma. Þá var farið að leggja línuna, og þegar það var búið, þá var legið yfir í þrjá tíma. Ég var hálfsjóveikur, svo að Geiri sagði mér að fara í koju og reyna að sofna. Ég gerði það en gat ómögulega sofnað. Geiri var eitthvað að fást við kaffikönnuna og spjalla við Stebba. Hinir af skipshöfninni sváfu. Um þessar mundir var mikið um getraunaþætti í útvarpinu. En sleppum því. „Heyrðu, Geiri,“ segir Stebbi „ég skal gefa þér þúsund krónur, ef þú getur gizkað á, hvað ég át áður en ég fór á sjóinn.“ Hann dregur því næst upp tvo fimmhundruð króna seðla úr veski sínu og leggur á borðið. Nú fór áhugi minn að vakna fyrir þessu spjalli þeirra. „Og má ég þá eiga báða seðlana, ef ég get rétt?“ spyr Geiri. „Já, þó það nú væri, maður, en þú getur aldrei getið þess,“ svarar Stebbi og kímir, „en þú verður að vera búinn áður en legutíminn er úti, því að annars verður þú af kaupunum, og gettu nú.“ Geiri klóraði sér í höfðinu, ranghvolfdi í sér augunum, og byrjaði að telja upp allar fisktegundir og alla fiskrétti, alla kjötrétti, sem sagt alla rétti, sem hann kunni að nefna. Hann hentist um lúkarinn og mændi tárvotum augum á seðlana, er lágu á borðinu, og skipsklukkuna, sem hékk á veggnum á móti. Síðan sezt hann á ruslafötuna, og segir ekki eitt einasta orð góða stund. Hinir skipsmennirnir eru nú flestir vaknaðir og horfðu spenntir á. Allt í einu segir Geiri. „Heyrðu, Stebbi minn, er þetta annars matur?“ „Ja, matur og matur ekki,“ svarar Stebbi spotzkur. „Matur og matur ekki, hvernig á ég að skilja það?“ „Það er eiginlega andlegt fóður Geiri minn,“ segir Stebbi grafalvarlegur. „Nei, nú er ég hættur, — andlegt fóður, — nei, nú gefst ég alveg upp,“ svarar Geiri og er undrunin ein uppmáluð. „Horfðu á þá brúnu á borðinu,“ segir Stebbi uppörvandi. „Ekki hefurðu étið tvo fimmhundruð kalla, er það, ekki er það andlegt fóður, ha?“ Nú er legutíminn alveg að verða búinn. „Ég sé það, Geiri minn, að þú ætlar ekki að hafa þetta,“ segir Stebbi um leið og hann stingur seðlunum í veskið sitt. „Nei, nei, Stebbi, við skulum halda áfram,“ hrópar Geiri. Þá kemur skipstjórinn í lúkarskappann og kallar. „Það er kominn legutími, drengir.“ Þá hlær Stebbi hátt og segir. „Það er bezt að segja þér þetta, Geiri minn, ég át oblátu.“ „Ha, hvað, oblátu, oblátu?“ „Já, oblátu, presturinn kom heim í nótt til þess að sakramennta hana ömmu, og hann skildi eftir oblátu á borðinu, og ég át hana, áður en ég fór að heiman,“ sagði Stebbi um leið og hann þaut upp lúkarsstigann.

Þ.V., 4. bóknáms.

Bið

Það var haustkvöld. Himinninn var alsettur stjörnum svo vítt sem augun eygðu. Máninn gægðist með nefið upp fyrir Stóra-Klif, eins og hann væri að forvitnast um, hvað væri að gerast í kaupstaðnum austan við það þetta fagra kvöld. Efalaust hefur hann séð ýmislegt.
Fyrir sunnan kaupstaðinn sat hún og beið. — Eftir hverju var hún eiginlega að bíða? Jú, hún var að bíða eftir því, að hún sæi ljós fyrir norðan Eiði.
Hún starði og starði, en sá ekkert ljós. Síðan tók hún að hugleiða, hvers vegna hún væri ekki heima hjá sér, heldur en að sitja þarna ein í náttmyrkrinu. — Hún vildi vera ein í kvöld, af því að hún vissi, að hann var að koma, — vera ein og geta grátið í friði. Ekki gat hún látið fólk sjá sig gráta af engu. En það var ekki af engu, sem hún grét. Nú var hún búin að missa hann til annarrar. Ef til vill var hún elskuverðari, af því að hún var úr borginni, en ekki alin upp í þessum afskekkta kaupstað, eins og hún sjálf?
Hvað átti hún að láta sér detta í hug? Ef til vill hafði hann gleymt því, að hann var sjálfur alinn upp í þessum afskekkta kaupstað. Þau höfðu kynnzt að ráði fyrir rúmu ári. Hann var tveim árum eldri en hún. Fyrst eftir að hann hóf iðnnámið í borginni, hafði hann skrifað henni bréf, sem hún las oftar en einu sinni, — já, — hafði lesið oft. Hún kunni þau utanbókar. Hún svaraði auðvitað bréfum hans og sagðist hlakka mikið til, er hann kæmi heim. Þá gætu þau aftur haldizt í hendur, gengið um göturnar og utan við bæinn og talað um framtíðina, eins og þau höfðu gert, áður en hann fór.
Þegar frá leið, urðu bréfin frá honum sífellt styttri og styttri, og það leið lengra og lengra milli þeirra. Loks kom svo bréf. Þar stóð skrifað, að allt yrði að vera búið milli þeirra, því að hann hefði kynnzt annarri stúlku í borginni, og þau ætluðu að opinbera trúlofun sína, áður en hann kæmi heim næst til að kveðja að fullu og öllu. —
Í kvöld var von á honum heim með skipinu. Hún starði norður yfir Eiðið. Loks eygði hún skipsljós. Henni var orðið hrollkalt að sitja þarna grafkyrr í náttmyrkrinu og gráta. Hún tók vasaklút upp úr veskinu sínu og þurrkaði sér um augun. Stóð síðan upp og dustaði af kápunni sinni nokkur sinustrá. Hún vildi vera komin heim, áður en skipið legðist að bryggju, því að hún óttaðist, að hún myndi óafvitandi hlaupa í fang hans og faðma hann að sér, ef hún mætti honum. Það mátti hún ekki gera, því að nú átti hún hann ekki lengur, heldur önnur úr borginni. Hún gekk hægt heim á leið, fór upp í herbergið sitt, fleygði sér ofan í rúmið sitt og grét, — grét, þar til svefninn loks sigraði hana.

Stúlka í gagnfræðadeild.

Hlöðuball á tunglinu

Það var í þann tíð að okkur nemendunum í 2. D þótti daufleg vistin á hnettinum okkar, þessum, sem við köllum jörð. Við skutum því á ráðstefnu, þar sem Þyri hin málsnjalla var auðvitað í formannssæti. Þarna komu fram margar snjallar hugmyndir um tilbreytingu í tilverunni, dægrastyttingu og þá sérstaklega ferðalög til annarra hnatta í krafti nýrrar tækni, nýrra uppfyndinga. En sökum takmarkaðs tíma, varð niðurstaðan sú að fara ekki lengra að sinni en til tunglsins og halda þar hlöðuball. Afráðið var að sækja um leyfi úr skóla handa Valla og Ella, svo að þeir gætu í skyndi sett saman geimfar til fararinnar.
Leyfið fékkst hjá skólastjóra með því að fullkomnu hlutleysi yrði beitt, þannig að annar helmingur geimfarsins yrði gerður að bandrískri fyrirmynd en hinn að rússneskri. Svo var afráðið, að Ásbjörn skyldi fullnægja orkuþörfinni. Allir farþegar skyldu vera í loftþéttum búningum. Ásdís tók að sér að sauma þá úr efni, sem Magnús kaupmannssonur festi kaup á hjá pabba sínum. Allt gekk þetta eftir áætlun. Stelpurnar voru allar í loftþéttum sokkabuxum og svellþæfðum lopapeysum og strákarnir í nankinsbuxum klauflausum og olíustökkum frá Finni. Allt var þetta unga fólk með súrefnisgrímur og öryggisventla á nefinu. — Allir tilbúnir og svo var lagt af stað.
Eftir 3 mínútur og 3 sekúndur lentum við á tunglinu. Eva hafði þó ekki misst forvitnina. Hún gægðist niður á jörðina og sá m.a. hvar hann fór með heiðgula klútinn um hálsinn, og þá uppgötvuðum við, að hann var af sama lit og kýrnar á tunglinu. Þarna vöppuðu bláar hænur, og vildi Ella Thor strax bæta þeim við í safnið sitt.
Svo var slegið upp dansleik í næturklúbb staðarins. Allir voru óvenjulega léttir á sér, þrátt fyrir mikinn klæðnað, því að aðdráttaraflið var lítið, eins og milli Jóns og Rutar. Þyri og Valli svifu þarna um allt eins og fiðrildi. Var nú twistað af miklu fjöri daglangt og náttlangt í hálfan mánuð eða þar til Óli Jóns uppgötvaði, að tunglið væri alltaf að minnka og væri orðið minna en hálfmáni. Þá urðum við hrædd og flýttum okkur í dauðans ofboði að komast heim til jarðar aftur. Heimferðin gekk vel og við lentum á Stakkagerðistúninu heilu og höldnu. Nú buðu strákarnir okkur ekki að fylgja okkur heim, enda vorum við allar með grímurnar fyrir andlitinu og súrefnisventilinn á nefinu. Þorsteinn hafði engan tíma til að bjóða okkur velkomin, því að hann var að fara í sparisjóðinn, en hvíld varð honum að dvöl okkar þennan hálfa mánuð á tunglinu.

Elín S. í 2. D.

Afturgangan í hlöðunni

Það var liðið fram í september. Sláttur var að enda og við kaupakonurnar gátum búizt við kaupakonudansleiknum og skilnaðarstundunum í sveitinni á hverri stundu, þó tæplega nema um helgi. — Þá allt í einu tók gamli maðurinn karlægi upp á því að deyja. Hann hafði sofið í næsta herbergi við okkur, kaupakonurnar. Þess vegna hafði þetta fráfall meiri áhrif á sumar okkar en ella. Sumum hryllir alltaf við dauðanum og óttast hann.
Jarðarfarardagurinn rann upp. Annríki á bænum var mjög mikið, ekki sízt sökum þess, að von var á mörgu fólki til jarðarfararinnar, sem gista skyldi á bænum um nóttina, en jarðarförin fór fram heima, því að jarðað var í heimagrafreit í túninu.
Um kvöldið kl. 8 fóru sveitungarnir að tínast heim til sín. Þá var tekið til að koma fyrir næturgestunum. Við kaupakonurnar urðum að ganga úr rúmum okkar og sofa úti í hlöðu. Eitt amaði mér meir en nokkuð annað. Það var hugsunin um legubekkinn minn. Í honum átti að sofa um nóttina óskaplega feit kona, líklega á annað hundrað kíló á þyngd. Auðvitað mundi hún leggja saman flesta gormana í legubekknum mínum, svo að ég yrði að sofa sem á fjölum væri þann tíma, sem ég átti eftir í sveitinni.
Um tíu-leytið örkuðum við þrjár saman út í fjárhúshlöðu til að sofa þar. Fjárhúsið var um 10 mínútna gang frá bænum. Með okkur höfðum við margs konar góðgæti svo sem kaffibrauð, salat, hangikjöt o.fl. Í mér var einhvers konar fítungur og gáski. Ég hafði hugsað mér að hræða vinkonur mínar dálítið um kvöldið, þegar við værum lagstar fyrir, en til þess að verða minna óttaslegin sjálf hafði ég með mér tvær taugastillandi pillur, sem ég komst yfir hjá feitu konunni.
Þegar við vorum lagstar fyrir og teknar að gæða okkur á öllu góðgætinu, fór ég að íhuga brellur þær, sem ég vildi gera þeim. Ekki voru færri en fimmtán vasaljós logandi í kringum okkur í hlöðunni. Í skugganum af öllum þessum ljósum kom ég fyrir dálitlum léreftsklút á bakstafni hlöðunnar. Undir klútnum kom ég fyrir gamalli grímu, sem ég tók með mér frá bænum. Síðan batt ég seglgarn í neðri brún á klútnum og brá því yfir bita í hlöðunni. Þegar ég tók í seglarnið, kipptist klúturinn upp og gríman kom í ljós, birtist í öllum ferleik sínum. Vasaljós hafði ég fest á hana innanverða milli augnanna. Þegar ég kom aftur til þeirra, spurðu þær, hvað ég hefði verið að gera. Ég kvaðst hafa verið að athuga hitann í heyinu þarna við stafninn. Þær virtust trúa því. Svo leið tíminn við góðgætisát og skraf um kaupakonudansleik og skot og skúmaskot. Minnin frá sumrinu tóku hugann föstum tökum.
Allt í einu sagði ég alvarlega: „Það mætti segja mér, að það yrði draugagangur hér í nótt.“ „Af hverju heldurðu það?“ spurðu stúlkurnar og tóku þegar að ókyrrast, af því að ég var svo alvarleg. „Ég óska að segja ykkur leyndarmál,“ sagði ég, „en þið verðið að lofa því að segja það engum.“ Þær lofuðu því hátíðlega. Svo sagði ég þeim, að Grímur, en svo hét gamli maðurinn, sem jarðsettur var, hefði beðið mig að hella einum bolla af víni á leiðið sitt, þegar erfið yrði drukkið eftir hann, og að ég hefði játað því en svikizt síðan um það, af því að mér væri svo illa við allt áfengi. „Vegna þess arna er geigur í mér,“ sagði ég og var sem óttaslegin. Ég fann, að stúlkurnar tóku að titra af hræðslu, og ég hló með sjálfri mér, ókindin. Svo liðu nokkrar mínútur í þögn og kyrrð. Þá tók ég í spottann minn. Og sjá! Ferlegt andlit birtist okkur uppi á hlöðustafninum. Þær æptu og tóku síðan til fótanna út úr hlöðunni. Ég á eftir auðvitað. Við hlupum sem fætur toguðu heim á bæinn. En hræddastar voru þær, þegar þær hlupu fram hjá grafreitnum í túninu.
Fólkið var ekki sofnað á bænum, þegar við komum heim. Þess vegna var hann opinn. Annars held ég, að þær hefðu tryllzt við bæjardyrnar. Hér lék ég vissulega púkann á kirkjubitanum.
Til íslenzkukennarans: Þú krafðist þess, að ég semdi sögu. Þarna færðu hana, svo falleg sem hún er.

Helga í 3. bóknáms.

Skemmtilegur dagur

Í fyrrasumar fór ég ásamt fleira fólki í berjamó. Það var lagt af stað snemma að morgni úr Þykkvabænum og var ferðinni heitið í Þjórsárdalinn. Við komum við á bæ, sem heitir Skriðufell. Það er innsti bær í Þjórsárdal. Þar tókum við benzín á bílinn og húsmóðirin vísaði okkur leiðina inn eftir, þar sem berjalandið var mest. Þetta var mjög sólheitur dagur. Það var alveg dásamlega fallegt þarna. Þegar komið var á leiðarenda, var farið að borða. Svo þegar því var lokið, var farið að tína og við tíndum alveg fram til kl. 6 e.h. Meira hefðum við getað tínt, því að nóg var af berjum, en við vorum það mörg, að það komst ekki meira fyrir í bílnum, og við þurftum að binda tvo poka utan á bílinn, því að ekki komst allt fyrir inni. Svo var lagt af stað heim á leið, því að við ætluðum að skoða bæinn Stöng. Bærinn Stöng er gamlar rústir af bæ Gauks Trandilssonar, sem nú er búið að byggja yfir. Þar var margt merkilegt að sjá frá gamla tímanum t.d. fjósið. Það var ekki eins fínt þá og fjós eru núna, og hann hefur ekki átt mjaltavélar, hann Gaukur. Svo var þarna herðablað úr hesti eða kú og það var notað til að moka flórinn með. Þarna var líka smiðjan hans. Í henni var steðji úr steini eða réttara sagt: Það var stór steinn, en ég ímyndaði mér að þetta væri steðji. Á bænum var stór skáli. Í honum miðjum var kyntur „langeldur“, og svo var mér sagt, að þar alls staðar í kring hefðu vinnumennirnir og vinnukonurnar sofið á moldargólfi auðvitað. Svo var þarna hjónaherbergi og stórt búr og svo eldhús. Ég man nú ekki nákvæmlega, hvort þarna voru hlóðir, en það hefur sjálfsagt verið eldað á hlóðum. Þarna var mjög falleg gestabók, sem allir áttu að skrifa í. Svo lögðum við af stað ánægð með berjatínsluna, og fannst mér þetta mjög skemmtilegur dagur.

Margrét Sigurðardóttir, 3. bóknáms.

Bolli afbrýðisami og hin fagra mær

Hann hét Bolli, var hár vexti en fremur mjór. Hann var myndarlegur maður og skapaður til að slást, fannst honum. En þegar hann kynntist stúlku, sem hann varð hrifinn af, hætti hann alveg að slást og hugsaði ekki um annað en hina dökkhærðu, fallegu ljúfu sína. Bolli bauð henni stundum með sér í kvikmyndahús og á dansleik. Þá fylgdi hann henni alltaf heim.
Það átti sér stað seint um kvöld í desembermánuði. Bolli og hin fagra mær höfðu afráðið stefnumót kl. 11 fyrir framan Útvegsbankann. Bolli mætti á tilteknum tíma en sú dökkhærða var enn ekki tilkippileg. Hún lét sig vanta. „Jæja, blessunin, hún hefur ekki mátt vera að því að koma, svo að ég sting mér inn í Hressingarskálann og fæ mér að eta.“ Síðan gekk hann þangað inn og settist við borð úti í horni. Þjónustustúlkan kom til hans og spurði, hvað hann vildi. Hann bað um kaffi. Svo fór hann að litast um í Skálanum. Sér til mikillar undrunar sér hann þá, hvar „bölvuð bikkjan“ sat þar við borð hjá einhverjum karlmanni, sem hann þekkti ekkert. „Nei, þetta get ég ekki þolað,“ sagði hann við sjálfan sig. Hann stóð upp, æddi að borðinu og hellti yfir þau ókvæðisorðum. Maðurinn, sem var með stúlkunni, sagði ekki orð, sökum þess að hann var svo hræddur við þennan stóra slána. Hinni fögru mey varð líka orðfall, því að hún hélt að andmæli hennar yllu því, að sláninn ljóstraði þarna upp ýmsu, sem maðurinn, sem með henni var, mátti ekki vita. En er Bolli bjó sig til að slá manninn, var hann gripinn af tveim lögregluþjónum. Síðan var honum ekið á lögreglustöðina og þar fékk hann að gista um nóttina.
Daginn eftir átti Bolli leið um tröppurnar frægu á Stakkagerðistúninu. Þá sat hin fagra mær þar á bekk. Hann lézt ekki sjá hana. Hún hljóp þá til hans og spurði, hvort hún mætti segja eitt orð við hann. Hann sagði „nei“ og hélt síðan áfram tröppugangi sínum. Þá kallaði hún á eftir honum: „Það var hann pabbi, sem ég var með inni á Hressingarskála í gærkvöldi.“ Þegar Bolli heyrði þetta, sneri hann við og hljóp til hennar. Þarna féllust þau í faðma og Stefán horfði á út um glugga lögreglunnar og sagði engum frá!

R.Ó.

Grímudansleikur eða...?

Þetta gerðist sumarið 1960, þegar ég var 13 ára. Þá varð ég fyrir því láni að fá að skoða mig dálítið um úti í heimi. Förinni var heitið alla leið til Tékkóslóvakíu. Við vorum 12 í hóp, 11 krakkar og fararstjóri, kona að nafni Vilborg. Förin út gekk að óskum og var hin ánægjulegasta.
Í Tékkóslóvakíu áttum við að dveljast í hálfan mánuð í sumarbúðum „píoníra“, en það er félagsskapur unglinga og barna þar í landi. Til þessa lands er árlega boðið hópum unglinga frá öllum löndum heims til ókeypis sumardvalar í ákveðinn tíma. Þar sem við dvöldumst, voru einnig hópar unglinga frá Belgíu, Frakklandi, Austurríki og Tékkóslóvakíu sjálfri. Sumarbúðirnar voru í nánd við bæ, sem heitir Krisjanov og er á Mæri.
Auðvitað skildum við ekki orð hvert hjá öðru, en við fundum ekki svo mikið til þess. Við töluðum mest með höndunum og lékum það, sem við áttum við.
Aðallega höfðum við íþróttir fyrir stafni, dönsuðum þjóðdansa og gripum í handavinnu.
Jæja, svo segir ekki af því meira fyrr en okkur er einn daginn tilkynnt, að við eigum öll að taka þátt í grímudansleik innan skamms tíma. Flestir urðu alveg yfir sig hrifnir af þessu tiltæki. Öðru máli gegndi um mig. Mér hefur alla tíð verið meinilla við grímudansleiki, taka þátt í þeim sjálf. Hins vegar hef ég mikla ánægju af að horfa á þá.
Vilborg fararstjóri hafði óskaplegar áhyggjur af búningunum. Hún hugsaði og braut heilann um, hvað hún gæti helzt látið okkur tákna á leiknum, hvað búningur hvers og eins skyldi tjá fólkinu. Loks afréð hún, að við íslenzku gestirnir yrðum öll „snjókorn“. Með það í huga hóf hún framkvæmdir sínar. Hún sneið, málaði og saumaði öllum stundum.
En ég hafði líka mínar áhyggjur. Ég varð einhvern veginn að sleppa frá því að taka þátt í þessum bannsetta grímudansleik. Ég braut því heilann engu síður en hún og komst að þeirri niðurstöðu, að ég yrði að notast við þetta sígilda frumlega ráð að látast vera veik. — Ekki hef ég hina minnstu hugmynd um, hvers vegna mér er svona meinilla við að taka þátt í grímudansleikjum. Þetta er nú bara einu sinni svona, og þar við situr.
Ég trúði vinstúlkum mínum tveimur, Úllu og Stínu, fyrir áforminu. Þeim leizt ekki á það, því að á staðnum var læknir, sem hafði það með höndum að skoða alla, sem veiktust, svo að þetta gat verið hættulegur leikur. En ég sat fast við minn keip. Þótt skömm sé frá að segja, þá hugsaði ég ekki um annað en það, hvernig ég ætti að sleppa við þátttökuna. — Þær létu mig ráða og hétu algjörri þagmælsku. En mér hefndist sannarlega fyrir flónskuna.
Næstu nótt vaknaði ég við það, að ég hafði óþolandi kvalir í kviðarholinu. Mér fannst það vera mér mátulegt fyrir sérvizkuna. Ég lá í einu svitabaði til morguns, en klæddi mig þá og fór út öll hölt og skökk, því að ég gat alls ekki rétt úr mér fyrir sársauka. Ég sagði stelpunum eins og var og spurði þær álits, hvort ég ætti að fara til læknisins. Þær réðu mér eindregið frá því. Sjálfar höfðu þær báðar fengið vespubit og orðið að liggja í rúminu í sjúkrastofu læknisins aleinar nokkra daga. Enginn hafði mátt heimsækja þær. Þær lágu þar úti í gluggum og horfðu á hina liggja og láta sig fljóta á vindsængum úti á vatni. Þær bjuggust við, að ég yrði að dúsa þar alein, hver veit hvað lengi. Ég dró það því í lengstu lög að vitja læknisins og kvartaði við engan. Lítið svaf ég næstu nótt, en mér leið þó ekki eins illa og áður. Ég hélt mig því á batavegi og varð öllu rólegri.
Daginn eftir versnaði mér aftur við morgunleikfimina. Ég gat ekkert borðað og eftir nokkurn tíma fékk ég uppköst. Um kvöldmatarleytið var ég orðinn svo illa haldin, að ég sá mér ekki annan kost vænni en leita læknisins, hvaða afleiðingar sem það kynni að hafa. — Hann skoðaði mig í krók og kring og komst að þeirri niðurstöðu, að þetta hlyti að vera botnlangabólga. Ég var því flutt í sjúkrahús. Mér fannst sá flutningur taka heila eilífð. Þegar við komum þangað, var komin hánótt. Enn var ég rannsökuð, og síðan látin skrifa nafn mitt í heljarstóra bók. Það varð ég að gera sjálf, því að engum þarna gat ég komið í skilning um, hvernig það væri stafað.
Síðan var ég skorin upp þarna um nóttina.
Daginn eftir var mér sama um alla hluti. Annan daginn í sjúkrahúsinu leiddist mér alveg hræðilega. Ekki gat ég talað við neinn, alein innan um eintóma útlendinga, sem ekki skildu orð af því, sem ég sagði. Ég skildi heldur ekkert orð í máli þeirra. En þriðja daginn komu þær Úlla og Stína í heimsókn og færðu mér lestrarefni og sátu hjá mér nokkra stund. Eftir það fannst mér yndislegt að liggja þarna í sjúkrahúsinu, þó að undarlegt megi virðast, og mega eiga von á vinstúlkum mínum til mín á hverjum degi. Þá fékk ég að þreifa á þeirri fullyrðingu forfeðranna, að maður er manns gaman.
Í sjúkrahúsinu dvaldist ég síðan í 6 daga. Ég reikaði þar utan húss, þegar ég gat og skoðaði umhverfið. Í kringum sjúkrahúsin, en þau eru mörg, margar deildir, voru grasfletir og trjágöng, Þar voru undurfögur blómabeð og gosbrunnar. Í trjánum höfðust við litlir, fallegir íkornar, og var mergð af þeim.
Þegar ég kom til Krisjanov aftur, var grímudansleikurinn fyrir löngu haldinn. Þannig var ég löglega forfölluð að taka þátt í honum.

Harpa Karlsdóttir, landsprófsdeild.

Andlit barnanna

Bifreiðin brunaði eftir götunni. Losaralegar festarnar slógust taktfast upp í aurbrettin.
Gerða sat í aftursætinu og reyndi að eyða hugsun sinni með því að telja slögin, en fyrr en varði var hún aftur farin að hugsa um barnsandlitin. Þessi barnsandlit höfðu ekki vikið úr huga hennar frá því að hún sá mynd af þeim í Alþýðublaðinu. Mögur og teygð andlit með stór augu, spyrjandi og biðjandi um mat. Spurningin varð henni ljósari, gleggri, eftir því sem hún horfði lengur á myndina. „Vilt þú gefa mér að borða?“
Gerða var hálf gröm við sjálfa sig og tilveruna, sem hún lifði í, veröldina í heild. Þetta var ekki í fyrsta skipti, sem hún sá slíka mynd á prenti. Ekki átti hún sök á því, hvernig komið var fyrir þessum börnum. Ekki var það heldur á hennar valdi að hjálpa öllum þeim milljónum barna, sem líkt var ástatt fyrir. „Hvers vegna er fólkið að eiga öll þessi börn, ef það getur ekki séð sómasamlega fyrir þeim?“ hugsaði hún. „Það gat sjálfu sér um kennt.“ Með þessum hugsunum reyndi Gerða að friða samvizku sína, en það ætlaði að ganga erfiðlega. Daginn áður hafði hún reynt að losna við þessa mynd úr huga sér með því að gefa nokkrar krónur í Alsírsöfnunina. Það fannst henni hafa tekizt, en aðeins um stundarsakir. Strax í morgun, þegar börnin hennar sátu hraust og sælleg við morgunverðarborðið, skaut myndinni upp aftur í huga hennar. Ef Gerða var ekki því uppteknari við það, sem hún var að gera hverju sinni, tróð myndin sér fram og fyllti hugskotið
Nú hægðu þau á sér, slögin, og bifreiðin nam staðar fyrir framan verzlunina. Gerða var orðin í seinna lagi með kaup sín á jólagjöfum. Og nú ætlaði hún að kaupa sem mest á einum stað. Hugurinn var upptekinn og nú hurfu allar hugsanir um myndina af mögru barnsandlitunum.
Gerða var búin að vera drykklanga stund inni í verzluninni. Bögglarnir hlóðust upp fyrir framan hana á búðarborðinu. Þá fannst henni allt í einu eins og horft væri á sig. Hún þóttist finna augnaráð einhvers hvíla á sér, þungt og ákveðið. Í fyrstu hikaði hún við að líta aftur fyrir sig. En loks stóðst hún ekki lengur mátið. Hún leit aftur fyrir sig. Í sömu andrá greip hún í borðbrúnina sér til stuðnings. Þarna blöstu við henni augu myndarinnar, galopin og spyrjandi innan um krapið á gluggarúðunum. Í fyrstu fannst henni hún ætlaði að líða út af en hún jafnaði sig brátt. Hún tók snögga ákvörðun. Fleiri jólagjafir skyldi hún ekki kaupa, heldur skyldi hún friða samvizkuna með því að gefa meira fé í Alsírsöfnunina. Hvað gat hún annað gert börnunum svöngu til hjálpar? Það var ekki á hennar valdi að seðja þau á annan hátt.

Ingibjörg Sverrisdóttir, landsprólsdeild.

Ég er ástfanginn

Ég heiti Snjólfur og er 14 ára gamall, langur og mjór, svo að ég hef sára raun af. Ég stunda nám í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Nám lætur mér vel. En í vetur er sem ég geti ekki lært. Ég býst við, að ég viti ástæðuna fyrir því. Ég er nefnilega ástfanginn. Áhrif ástar á aðra þekki ég ekki. En á mig verkar hún þannig, að ég hef enga ró í mínum beinum og get ekki fest hugann við neitt. Stundum er ég svo utan við mig, að ég veit hvorki í þennan heim né annan.
Jæja, nú er bezt að hætta að tala um áhrif ástarinnar og segja heldur frá því, hvernig það atvikaðist, að ég varð ástfanginn.
Við vorum nokkrir strákar úti að lalla. Þetta var seinni hluta sl. sumars, nánar til tekið um miðjan ágúst. Veðrið var milt og gott. Við vorum á rölti um miðbæinn, og okkur strákunum fannst lífið bæði tilbreytingarlaust og leiðinlegt. Þá fréttum við, að inni á Hóteli væri eitthvað um að vera. Upp til handa og fóta rukum við og flýttum okkur heim til þess að hafa fataskipti. Síðan hlupum við vestur í Hótel. Þar var margt af krökkum og unglingum. Hljómsveitarmenn og söngvarar hömuðust bullsveittir við að spila og syngja enska og ameríska „slagara“, sem kallast „twist“, því að twistdella mikil er nú ríkjandi meðal unga fólksins, eins og allir vita. Við fórum strax að hrista okkur og skaka á ameríska vísu framan í stelpurnar, eins og vera ber, því að veika kynið virðist vera mjög hrifið af strákum, sem láta eins og asnar, og hvaða strákur vill ekki ganga í augun á því?
Ég held, að klukkan hafi verið farin að nálgast 11, þegar mér varð litið fram til dyra. Ég bókstaflega stirðnaði upp, því að í dyrunum stóð stúlka, fremur lítil, grönn, vel vaxin og heillandi. Hún var með dökkt hár og stór, blá augu, beint og stutt nef. Guð minn góður, það var sá lang-kyssilegasti munnur, sem ég hafði séð þann stutta tíma, sem liðinn er af ævi minni. Stúlkan var mjög vel klædd og sómdi sér prýðilega í alla staði.
Jæja, þarna stóð ég alveg hugfanginn á miðju gólfi og starði höggdofa eins og apaköttur eða asni. Ekki rankaði ég við mér fyrr en ónefnt danspar rakst á mig heldur harkalega, svo að ég var næstnm dottinn. Einhvern tíma hefði maður viljað hefna fyrir sig og greitt líku líkt. En nú var því ekki til að dreifa. Ég gleymdi öllu, því að stúlkan stóð þarna í dyrunum og horfði á mig með glettnislegu augnaráði. Það var engu líkara en að hún sæi, hvað mér leið. Allt í einu rankaði ég við mér og rölti til hennar. „Viltu dansa við mig?“ spurði ég. „Já,“ svaraði hún samstundis. Svo fórum við að dansa. Ég held ég hafi aldrei á ævi minni dansað eins illa eins og í þetta skiptið, enda var hugurinn bundinn m.a. við höndina og mittið á henni. Mér fannst ég brenna mig á hendinni. Þá var fótamenntin mín ekki á háu stigi, þó að ég hafi gengið í dansskóla Heiðars í tvö skipti, sem hann hefur verið hér við danskennslu. Ég komst nú að því í dansinum, að stúlkan hét Þórdís og var kölluð Dísa. Hún var úr Hafnarfirði. Við dönsuðum saman allt kvöldið, og ég var svo ástfanginn, að mér fannst tíminn fljúga áfram. Mér fannst ég vera að byrja að dansa, þegar öskrað var í hljóðnemann: „Síðasta lagið í kvöld.“ Við vönguðum saman þennan dans, gáfum hvort öðru volg svið, þó að lagið væri alveg tryllt rokklag. Ég skildi síðar ekkert í, hvernig við fórum að því.
Að loknum dansinum bauðst ég til að fylgja Dísu heim. Það þáði hún með ánægju. Hún átti heima lengst vestur og upp í bæ. Fyrir utan dyrnar hjá henni kysstumst við lengi og innilega. Hún virtist leikin í þeirri list, enda ekki á bók að læra, eins og það væri setningafræði hjá Þorsteini.
Þegar ég kvaddi hana, komum við okkur um að hittast aftur. Hvert kvöld þann tíma, sem Dísa átti eftir að dveljast hér í Eyjum, vorum við saman lengri eða skemmri tíma. En nú er Dísa farin og stundar nám í gagnfræðaskóla í vetur. Kvöldið, sem Dísa fór, er eitthvert dapurlegasta kvöld, sem ég hef lifað. Og ég ætla ekki að reyna að lýsa skilnaðarstundinni, því að hún var hræðileg.
Við Dísa skrifumst á, og hún segist sakna mín mjög mikið. En ég er hræðilega afbrýðisamur. Ég óttast alltaf, að hún sé með einhverjum strákum, þar sem hún dvelst, mér fannst hún einhvern veginn svo djörf og leikin í list ástarinnar. Ég vona samt, að afbrýði mín sé ástæðulaus. — En sem sé: Nú er Dísa farin og lífið er aftur tilbreytingarlaust og leiðinlegt og námshugur minn enginn.

Ó.