Blik 1962/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


HUGVEKJA
flutt í Gagnfræðaskólanum í janúar 1962.



Það hefur dregizt úr hömlu fyrir mér lengur en vant er að efna til þessarar hugvekju að þessu sinni. Öðrum þræði hefur mér fundizt það gjarnan mega dragast fram að vertíð, ef verða mætti, að ég bæri gæfu til þess með þessum orðum mínum að orka einhverju til styrktar og heilla ykkur, áður en vertíð hefst og bærinn okkar steypir stökkum.
Þegar ég var drengur að alast upp á Austurlandi, tjáði Sunnlendingur okkur strákunum eitt sinn, að sjúklingarnir á Kleppi væru látnir bera sama sandinn meirihluta hvers dags, bera hann af neðsta gólfi á efsta gólf, sagði hann, og hella honum þar í einskonar trekt. Þaðan rynni sandurinn svo aftur niður á neðsta gólf í sömu hrúguna, sem hann var tekinn úr. Ef sjúklingurinn uppgötvaði, að hann væri alltaf að bera sama sandinn og vinna þannig fyrir gýg, þætti það öruggt batamerki.
Svo kynlegar og ævintýrakenndar þótti okkur strákunum þessar frásagnir, að ég og líklega við allir munum þær enn.
Mikill hefur sá andlegi vaxtarbroddur verið, þegar mannskepnan fyrir örófi alda uppgötvaði fyrst mismun góðs og ills. — En þá tók vandinn við, vandinn sá að velja og hafna.
Samvizkan, innri röddin, tók að segja til sín. Notkun skynseminnar og rödd tilfinningalífsins tók þá að ráða mestu um örlög einstaklingsins eða um framtíð hans. Svo er það enn í dag í miklu ríkari mæli, því að valið er margbreytilegra og vandasamara. Síðan hefur það verið þannig með okkur mennina, þó að við skiljum það oft og tíðum ekki sjálfir, að örlög okkar eru háð þessum vanda, — hugleiðum það ekki eða viljum ekki vita það. Þessi guðlegi eiginleiki okkar mannanna, að geta gert mun á góðu og illu, er aðall okkar, mesta guðsgjöfin okkur til handa, — eiginleikinn, sem skilur okkur hvað mest frá dýrunum.
Og lífið sjálft hefur ávallt fært okkur heim sanninn um það, að ekki er vandalaust að lifa mannlegu lífi, svo að sómi sé að. Það er ekki víst, að þið á ykkar aldri hafið hugleitt þetta, nemendur mínir, en tími er kominn til, að þið gerið það, því að þjóðlífið sjálft bíður eftir ykkur. Enginn skyldi fljóta sofandi að feigðarósi í þeim efnum. Okkur ber að vaka og vera á verði um það dýrmætasta, sem forsjónin hefur gefið okkur, því að við erum skynsemigæddar verur með ríku tilfinningalífi.
Félagsfræðin er ein sú grein, sem ég hefi alltaf haft mikla ánægju af að kenna hér í skólanum. Þar gefst mér m.a. svo sérstætt tækifæri til að sannreyna vissan þátt mannlegs þroska á æskuskeiðinu. Komi ég nemendum mínum t.d. að óvörum með spurningu um það, hverjar séu þær 5—6 helztu kröfur um almenn mannréttindi, sem við getum gert til þjóðfélagsins og gerum til þess, þá eru svörin jafnan á reiðum höndum. En spyrji ég svo og krefjist svars: Hverjar eru 5—6 helztu skyldur okkar við þetta sama þjóðfélag, þá vefst nemendum mínum tunga um tönn. Þá hluti hafa þeir síður hugleitt.
Ein fyrirferðarmesta krafa okkar til þjóðfélagsins er frelsi, næstum ótakmarkað frelsi á öllum sviðum. Það er jafnan fyrsta svarið, sem ég fæ. Einnig er það kunnara en frá þurfi að segja, að lýðskrumarar allra landa nota það orð sem slagorð, þegar ginna þarf lýðinn.
Takmarkalaust lýðfrelsi hrópuðu Frakkar fyrstir þjóða og stofnuðu jafnframt til mikillar byltingar til þess að brjóta af sér einveldisfjötrana. Þegar ég las mannkynssögu, þótti mér vænt um Frakka fyrir það framtak og virði þjóðina enn fyrir það. Svo valt á ýmsu fyrir Frökkum um lýðfrelsið, eins og sagan greinir frá. Nú hefur það um margra ára skeið verið frönsku þjóðinni fjötur um fót, af því að hún misnotaði það. Af því hlaut hún hörmungar miklar og vandræði, svo að hún hefur neyðzt til að afsala sér því um stund og kjósa á sig fjötra í frelsisstað, einveldi. Nákvæmlega svona er því varið með einstaklinginn, sem fer óskynsamlega með frelsið sitt, notar ekki skynsemina, en hlýðir einvörðungu rödd tilfinningalífsins til að velja og hafna í lífinu, hann verður ófrjáls í einni eða annari mynd. Við einstaklingarnir erum í einu og öllu skuggi eða smækkuð mynd af þjóðfélaginu í heild. Við lútum nákvæmlega sömu lögum eða lögmálum, þó að við oft og tíðum gerum okkur ekki grein fyrir því.
Þannig er þessu vissulega oft varið um það, sem lífið réttir að okkur, illt eða gott, við verðum að kunna að velja eða hafna, hafa vit og manndáð til þess. Þetta gildir jafnt um hvern einstakling eins og þjóðfélagsheildina.
Englendingar höfðu um langt skeið næstum ótakmarkað frelsi til að stunda fiskveiðar uppi við íslenzka landssteina. Það sem þá skorti á fullkomið frelsi í þeim efnum, tóku þeir gjarnan með valdi. Svo kom að því, að við Íslendingar mótmæltum og gerðum kröfur um 12 mílna landhelgi, því að við töldum veiðifrelsi Englendinga hér við land og annarra útlendinga skerða lífsafkomu okkar og leiða til skorts og óhamingju allri íslenzku þjóðinni, þá fram líður. Öll þessi átök hinnar litlu þjóðar við stórveldið er okkur öllum í fersku minni, þó að aldur okkar flestra sé ekki hár.
Nú höfum við Íslendingar fengið skert frelsi útlendinga til þess að veiða fisk á næsta landgrunni, okkur sjálfum, að við teljum, til farsældar. Þessa frelsiskerðingu teljum við okkur lífsnauðsyn.
Margur hefur legið okkur bindindismönnum það á hálsi, að við viljum hefta frelsi manna til áfengisneyzlu, af því að sýnt er, að mönnum er mjög ábótavant um að velja og hafna í þeim efnum, og áfengisneyzlan leiðir af sér margskonar hörmungar, sálarlegt og efnalegt niðurdrep fjölda manna, rétt eins og landhelgisveiðar útlendinga hér við land hafa valdið þessari þjóð. Við viljum margir hverjir „taka flöskuna frá áfengisneytandanum“, til blessunar honum sjálfum, fjölskyldu hans og þjóðfélaginu, rétt eins og við viljum taka landgrunnið okkar frá erlendum „veiðiþjófum“, eins og við köllum þá stundum í gremju okkar, af því að fiskveiðar þeirra skaða okkur, valda okkur hörmungum. Því verður ekki mælt í mót með nokkuru viti, að áfengisneyzlan stórskaðar þjóðarheildina, bæði sálarlega og fjárhagslega, og skerðir virðingu hennar, bæði sjálfsvirðingu og virðingu annarra þjóða fyrir henni.
Íslendingar eru yfirleitt taldir vera skynsöm þjóð. Af heilbrigðri skynsemi og raunhyggju lögleiddu þeir á sínum tíma áfengisbann í landinu. En andbanningar íslenzkir fengu því kollvarpað í samráði við erlenda áfengissala, sem fengu ríkisstjórnir sínar til að hóta stöðvun á kaupum á íslenzkum saltfiski, ef ekki yrði aftur opnaður áfengismarkaður á Íslandi. Þessa leið reyndu Englendingar einnig að fara til þess að kúga okkur og sigra í landhelgismálinu. En þá létum við ekki bugast, heldur leituðum við annarra markaða fyrir afurðir okkar. Þá fannst heldur enginn Íslendingur, sem réðist aftan að sinni eigin þjóð.
Eftir verzlunarmannahelgina svokölluðu á s.l. sumri, virtust opnast augu manna fyrir því, hversu mjög áróðursmönnum áfengisneyzlunnar í landinu hefur orðið vel ágengt á undanförnum árum. Um þessa helgi fóru hópar unglinga til að skemmta sér, eins og það er kallað, út á landsbyggðina. Frásagnir blaðanna af samkomum þessum voru vægast sagt óhugnanlegar. Þar gaf að lesa þessar fyrirsagnir t.d.: „Nýtt met í villimennsku,“ „Æpandi ungmenni æddu um skóginn og þömbuðu brennivín,“ „Skrílsæði,“ „Hrikaleg hópdrykkja,“ „Hvers vegna allt þetta ógurlega svall?“ Og svo lýsingarnar í blöðunum: „Á sunnudagsmorguninn lágu samkomugestir eins og hráviði hingað og þangað um skóginn, og hófst drykkjan að nýju, þegar þeir vöknuðu.“ „Meiri hluti unglinganna 14—17 ára. Mikið um áflog, veltingar og máttlaust tusk, org og hávaða og spýjur á almannafæri.“ „Hundruð manna voru þannig á sig komin.“ Þetta sögðu blöðin. Og eitt blaðanna virðist finna til með þjóðarheildinni. Það segir: „Slík framkoma fjölda fólks setur ómenningarstimpil á þjóðina í heild. Sá hópur er raunalega stór, sem ekki getur skemmt sér án þess að nálgast stig skynlausrar skepnu.“ Takið eftir síðustu orðum þessa blaðamanns: „Nálgast stig skynlausrar skepnu.“ Hér er sagt óbeint, að skynlaus skepna geti verið ennþá verri í háttum sínum en þessi drykkjuskríll. Hvaða leyfi höfum við mennirnir til þess að bera slíkan óhróður á skynlausar skepnur? Hvenær sýna skynlausar skepnur af sér slík ósköp sem þetta fólk, er blöðin greindu frá eftir verzlunarmannahelgina? — Út af fyrir sig eru það skelfileg mannorðsspjöll við verzlunarmannastéttina íslenzku, jafn mætt fólk, að vera kennt við alla þessa ómenningu og skrílsæði, sem er neðar öllu villidýrsæði. Mér verður sérstaklega hugsað til þessa ágæta fólks, þegar óskapafréttir þessar eru lesnar á erlendum vettvangi, og ef til vill endursagðar þar. Hvað haldið þið þá, nemendur mínir, að erlendir blaðalesendur hugsi um íslenzka menningu?
Vissir menn í landinu hafa um árabil haldið uppi látlausum áróðri fyrir neyzlu áfengra drykkja. Því miður er nokkur hópur íslenzkra blaðamanna einnig með þessu marki brenndur. Sá áróður er fyllilega í samræmi við þann vanþroska og ábyrgðarleysi, sem kynóra-blaðsíður sumra dagblaðanna í landinu gefa til kynna um hnignandi blaðamannastétt, þrátt fyrir marga afburðamenn innan hennar, — menn, sem skilja fyllilega hið ábyrgðarmikla hlutverk sitt í ríkri áhrifastöðu um hugsun, gjörðir og alla menningu þjóðarheildarinnar.
Eftir þessa umræddu verzlunarmannahelgi spurðu ýmsir blöðin, hvað hægt væri að gera til bóta á allri þessari skrílmennsku. Svar eins blaðamannsins er mér í minni sérstaklega. Hann taldi fyrstu úrbæturnar þær, ,,að minnka áhrif þeirra manna og þess félagsskapar, sem einn þykist búa yfir patentlausn á málinu,“ eins og blaðamaðurinn orðar það á sína þjóðlegu vísu. Hvaða menn og hvaða félagsskap er hér átt við? Þeir, sem lesið hafa áður skrif þessa sama blaðamanns um áfengismálið, þeim dylst það ekki, að hér á hann við okkur bindindismenn og bindindisfélagsskapinn í landinu.
Það er beint fram hryllilegt að hugleiða annað eins hatur og ofstæki, eins og þessi orð blaðamannsins sanna, og því fremur sem þessi blaðamaður skrifar í víðlesið dagblað, sem tekið er mikið tillit til og hefur rnarga kaupendur. Þessir áróðursmenn mega vissulega sigri hrósa yfir okkur bindindismönnum og málstað okkar, þegar ávextirnir af skrifum þeirra koma svo berlega í ljós eins og um verzlunarmannahelgina á hverju ári.
Nei, ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni lesið önnur eins ofstækisskrif sem þessi og kynnzt öðru eins hatri á bindindisstarfinu í landinu. Af því sprettur svo óbilgirnin, sem á sér engin takmörk.
Með sama rétti ætti að mega halda því fram, að ég með persónulegu bindindi mínu og beinu og óbeinu bindindisstarfi með æskulýð þessa bæjar, síðan ég fluttist hingað, leiddi unglingana til áfengisnautnar. Þá ætti það að vera mín sök m.a. öll sú óhamingja, sem Eyjabúum mörgum hverjum stafar af áfengisnautn í dag. Mig ætti þá m.a. að saka um það, að Eyjabúar eiga nú í uppvexti ekki færri en 5—8 rónaefni, ungmenni, sem ekki er annað sjáanlegt en að verði þjóðfélaginu til byrði og vanvirðu, þá aldur færist yfir þau. Ennþá eru það aðeins heimilin og bæjarfélagið, sem líða fyrir öll þau mistök. Eftir því ættum við bindindismenn að vera valdir að allri þeirri ógæfu, sem steðjar að sumum heimilum í bænum sökum áfengisnautnar: ófriði, skorti, hjónaskilnaði og fyrirsjáanlegri ógæfu sumra barna, sem alast þar upp.

Ég lýsi yfir samúð með öllu þessu óhamingjusama fólki. Það hefir notið frelsis til að velja og hafna í lífinu. Sumt af þessu fólki segist vera trúað fólk og trúa á handleiðslu forsjónarinnar. Ekkert skal ég um það segja. En auðsjáanlega hafnar það henni, þegar velja skal. Það ber sínar sandbyrðar látlaust og hlýtur að uppgötva fyrr eða síðar, hvert hann rennur. Ég óttast aðeins, að þá verði það um seinan.
Það er annars raunalegt að hugsa til þess, hvernig mikill fjöldi manna fer út úr viðskiptum sínum við Bakkus, oft bezta fólk, sem lætur glepjast í vali sínu, og tapar svo öllu að lokum. Upphaf ógæfunnar er oftast það, að áróður áfengisneytendanna, hvort sem þeir eru spilltir unglingar eða eldri, megnar að tæta sundur viljalífið og dómgreindina hjá hinum, svo að varanleg ógæfa hlýzt af.
Já, áróðursmenn vínsins og aðrir þjónar Bakkusar í landinu mega sannarlega sigri hrósa yfir okkur bindindismönnum, enda er allt niðurrif auðveldara en hitt. Ávextirnir af sigrunum eru áþreifanlegir.
Ekki eru mörg ár síðan ég hlustaði á einn af hinum sárafáu drykkjumönnum eða rónum í kennarastéttinni íslenzku fá aðstöðu til að flytja allri þjóðinni fagnaðarboðskap Bakkusar á öldum ljósvakans. Annar háskólaborgari greiddi götu hans. Í þeirri ræðu eða samtali var drykkjuskapur lofaður hástöfum og áhrifin dásömuð. Nokkrum dögum síðar henti ungan mann á Akranesi sú ógæfa, að bana stúlku í ölæði. Í hugskoti mínu gat ég lengi vel ekki slitið hugsunina um þennan voðaatburð frá minninu um áróðurssamtal háskólaborgaranna, sem ég hlustaði á í útvarpinu. Atburðurinn varð fyrir mínum innri sjónum eins konar mene tekel á vegginn, aðvörun forsjónarinnar til íslenzku þjóðarinnar i þjónslund hennar við Bakkus, þar sem spillingin kemur fyrst og fremst að ofan, Háskólinn argastur í röð skólanna, eftir því sem verðandi háskólaborgarar, bindindissamir og hugdjarfir, lýsa honum sjálfir í eyru alþjóðar og er það raunar á vitorði margra, sem vinna að uppeldismálum. Og mestu valdamenn þjóðarinnar koma þessari óþurft til hjálpar.
Það er ómælanlega áhrifaríkt Bakkusi í vil, og þó segjast þessir valdamenn elska þjóð sína og unna henni alls hins bezta.
Ég harma, og undrast forustumenn Háskólans, jafn mæta menn og góða Íslendinga, að þeir skuli ekki í bindindismálunum vilja veita þjóðinni þá blessun, sem af því hlytist, ef Háskólinn beitti áhrifum sínum gegn Bakkusi og dýrkendum hans.
Allur þessi áfengisáróður í orði og æði hefur gjörspillt almenningsálitinu í landinu gagnvart áfengisnautn. Sú spilling er æskulýðnum hættulegust. Við kennarar megum gjarnan ennþá óáreittir og án áfellis vísa „ungmenninu þann veg, sem það á að ganga“, af því að þau boð standa skrifuð á þeim stað, sem við látumst bera virðingu fyrir. En svo illt er ástandið orðið, að fjöldi manna hneykslast á því, ef kennari sýnir ungmenninu þann veg, sem það á ekki að ganga um nautn áfengra drykkja og það er gert á athyglisverðan hátt, svo að umtal veki. Í þessum efnum er reynslan ólygnust sem í öllum öðrum.
Tímarit birti í hitteðfyrra mynd af kunnum drykkjumanni. Hann sat sjálfviljugur fyrir og vissi, að myndin af honum átti að birtast almenningi. Á myndinni var hann verulega rónalegur, reifur af áfengisnautn, skitinn, rifinn og tættur, með húfuna á höfðinu í samræmi við ástandið að öllu leyti, vindlinginn í munninum, og kynóradraumarnir táknaðir með sérstakri mynd að baki manninum. Síðan var gefið í skyn í ritinu, að vel lægi á drykkjumanninum og þar væri allt með felldu. Ekki bar á öðru, en að mörgum lesendum ritsins félli myndin vel í geð. A.m.k. virtust þeir ekkert hafa við hana að athuga.
Næsta ár birti síðan sama rit mynd af sama manni, sem hann lét taka af sér fyrir ritið. En nú venti ritið kvæði sínu í kross. Það mæltist til þess, að ungmennin, sem kynnu að lesa ritið eða sjá það, hugleiddu örlög drykkjumannsins, og hvaða framtíð gæti beðið þeirra, ef þau veldu þann veginn, þó að í smáu væri fyrst í stað. Nú var sem allt umhverfi ritsins ætlaði af göflunum að ganga. Menn hneyksluðust óskaplega, og mest þeir auðvitað, sem fundu til síns andlega skyldleika með drykkjumanninum og vissu sig ganga með sama sjúkleikann. Hér var það sem sé hneykslanlegt, að sýna ungmenninu fram á þann veg, sem það mátti ekki ganga. Sá áróður snerti of marga, sem feta veginn nauðugir viljugir og sjá sitt óvænna í vanmætti sínum. Með mestri háværð hneykslaðíst þó maðurinn, sem oftast mun hafa keypt atkvæði drykkjumannsins á kosningadag við glasi af áfengi. Þetta er ein myndin af okkur mannskepnunum.
Ég vissi það fyrir löngu, sem drykkjumannskona sagði við mig á s.l. sumri. Hún sagði: ,,Ég veit það, Þorsteinn, að áfengisástríðan er sálsýki.“
Aldrei stóð það ljósar fyrir mér en þá, hvað hún hefur þurft að líða í löngu hjónabandi og allt fyrir sjálfskaparvíti, sem hófst í léttúð og löngun til „að vera með“ aðeins að vera með og „löngun til að sýnast maður með mönnum,“ eða á ykkar máli, nemendur mínir: „vera ekki pelabörn lengur“. Þessi óheilbrigða tilfinning fyrir sjálfum sér, sem oft leiðir ungmennið að „fyrsta glasinu“, verður að ævilangri áþján, sandburði á Kleppi mannlífsins, sem fjölda margir, konur og börn sérstaklega, verða að líða fyrir langa ævi.
Allt þetta skiljið þið, nemendur mínir, og hafið skrifað um á skynsamlegan hátt í ritgerðum ykkar í vetur. Fyrir það er ég ykkur þakklátur eins og svo margt annað í samstarfinu í skólanum.
Aðeins þetta að lokum: Við komumst stundum svo að orði, að ógæfan elti menn. Þetta er ekki allskostar rétt til orða tekið. Í mannlífinu eru það allt of margir, sem elta sjálfir ógæfuna og verða af þeim sökum óhamingjusamir. Það er þeirra eigið sjálfskaparvíti. Ég finn ávallt til með þessu fólki. Það á vissulega bágt, þó að erfitt sé að hjálpa því.
Í hreinskilni sagt eruð þið svo efnilegur og mannvænlegur æskulýðshópur, að ekkert ykkar má verða óþurftaröflum þjóðfélagsins að bráð. Látið aldrei ginnast. Valið er í ykkar hendi. Þið hafið bæði nóg vit til brunns að bera og nóg manngæði hafið þið hlotið í vöggugjöf til þess að verða gott fólk og gagnlegt þjóðfélaginu okkar. Manndómurinn segir til sín, þegar á hólminn kemur.

Þ.Þ.V.