Blik 1960/Nýborgarheimilið, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Nýborgarheimilið


Hjónin Sigurður Sveinsson og
Þóranna Ingimundardóttir
(Lokakafli)


Konur í Eyjum, sem nutu á barnssæng hjálpar og umönnunar Þórönnu Ingimundardóttur, ljósmóður, hafa tjáð mér, að hún hafi verið sérstaklega nærgætin og hlýleg ljósmóðir, glaðvær og göfuglynd. Sængurkonum duldist ekki, að Þóranna var gáfuð kona og lesin, eftir því sem þá gerðist og tök voru á að veita sér af sjálfsdáðum.
Þóranna Ingimundardóttir bar með sér persónuleika, sem vakti sængurkonum traust og virðingu, hlýhug og kjark.
Það var á almenningsvitorði í Eyjum, að Sigurður Sveinsson virti konu sína mikils, elskaði hana og óttaðist samtímis.
Hjúin litu upp til húsmóður sinnar í Nýborg, virtu hana og unnu henni. Og ekki mun það minnst hafa verið henni að þakka, hversu þau hjón voru hjúasæl. Hlýhugur hennar og mannkærleikur tengdu hjúin heimilinu órjúfandi böndum, sem oft hrukku ekki fyrr en á aldurtilastund. Svo var það t.d. um Ólaf Magnússon og Herdísi Magnúsdóttur.
Herdís Magnúsdóttir hafði lengi á höndum bræðslu lifrar við Brydeverzlun og ávann Nýborgarhjónunum drjúgar tekjur árlega á þann hátt. Sjálf bar hún úr býtum föt og fæði, húsnæði og aðhlynningu, og öryggi átti hún hjá þeim mætu hjónum, ef heilsan brast. Þannig var því farið um vinnukjör hjúa í þann tíð.
Þegar Herdís Magnúsdóttir var 75 ára, það var árið 1912, sótti hún um styrk úr ellistyrktarsjóði Vestmannaeyjahrepps. Vottar þá Jón Ingimundarson í Mandal, að hún eigi engan að, sé skylt að framfæra sig sjálf, sé orðin ófær til allrar stritvinnu og sé öreigi. Sjálfsagt hefur hún sagt þetta að mestu leyti satt, gamla konan, en þó hefur hún vitað undir niðri, að Nýborgarheimilið var henni veraldleg ,,borg á bjargi traust,“ a.m.k. meðan Þórönnu entist aldur. Svo mikils mat hún tryggð Herdísar og langa og dygga þjónustu.
Hin mörgu hjú hjónanna í Nýborg öll hjúskaparárin þurftu oft og tíðum að inna mikið starf og erfitt af höndum. Þess á milli voru þau frjáls og óþvinguð, og það mátu þau mikils.
Áður er drepið á störf vinnumannanna árið um kring.
Störf vinnukvenna á vertíðum var að draga fisk úr Sandi, eins og það var kallað, draga hann með þar til gerðum fiskkrókum austan úr Læk eða Fúlu upp í krær, gera þar að honum og annast verkun hans að öðru leyti. Kró Sigurðar stóð skammt norður af Nýborgarhúsinu, þar sem síðar var byggður Söluturninn, er stóð við suðurbrún Strandvegar, áður en hann var breikkaður haustið 1958. Þá var Söluturninn brotinn niður og látinn hverfa. Upp í króna varð að bera sjó í fötum neðan frá sjó eða sjávarborði norður af krónni, þar sem Fiskiðjan stendur nú eða þar um bil.
Á sumrin lúðu vinnukonurnar í Nýborg hina stóru garða og unnu við það dögum og vikum saman. Þá reyttu þær einnig lunda og fýl á fuglveiðitímanum. Síðan tóku við hauststörf vinnuhjúanna við uppskeru garðávaxta, slátrun sauðfjár og sláturgerð. Síðan tóvinnan, þegar á haustið leið. Mikils þurfti við á svo mannmörgu heimili, bæði til fata og fæðis.
Þegar Sigurður Sveinsson stundaði smíðanámið í Kaupmannahöfn, leit hann vel í kringum sig í verklegum efnum og var glöggur á að meta til nota heima ýmislegt, sem hann sá Danina búa til og notfæra sér. T.d. lærði Sigurður þar að hlaða bakarofna og nota þá til brauðbaksturs. Þessi kunnátta hans kom löndum hans fljótlega að gagni, er hann kom heim frá námi. Þá hlóð hann t.d. bakarofn í Þorlákshöfn, og var hann notaður þar til að baka í rúgbrauð á vertíðum.
Þegar Sigurður hafði búið nokkur ár í Nýborg, kom hann sér upp einskonar brauðgerðarhúsi. Hann hlóð upp kofa úr hraungrýti, þar sem íbúðarhúsið Sólheimar stendur nú, það er nokkrum metrum suðaustur af Nýborg. Í kofa þessum hlóð Sigurður upp bakarofn og stofnaði þar með til brauðgerðar í stærri stíl en þekkzt hafði áður í Eyjum. Þarna lét hann einnig baka brauð handa sínu eigin heimili. Þetta brauðgerðarstarf önnuðust vinnukonur hans og þeirra hjóna.
Árið 1907 fóru fram endurbætur á Nýborgarhúsinu. Það var þá orðið 31 árs. Klæðning var endurbætt og tróð endurnýjað. Kvistar voru teknir af húsinu og fleiri breytingar gjörðar. Milli stoða í grind lét Sigurður setja móhellur, bæði til einangrunar og svo til að þyngja húsið og gera það þar með traustara á grunni. Að öðru leyti var tróðið eða einangrunin þurr fjörusandur. Þær unnu að því mæðgurnar í Nýborg, Þóranna húsfreyja og Jónína dóttir þeirra hjóna, sem þá var 16 ára gömul, að bera sandinn neðan úr fjöru upp í veggi hússins. Þær báru sandinn framan á sér í þar til gerðum svuntum. Þetta hefur Jónína Sigurðardóttir sagt mér sjálf.
Rétt er að geta þess, að Nýborgarhjónin eignuðust dreng 1895. og var hann skírður Sigmundur. Hann dó mjög ungur.
Nýborgarhjónin héldu föstum íslenzkum heimilisvenjum, sem algengar voru á þeirra uppvaxtarárum. Húslestrar voru t.d. lesnir á heimilinu hvern helgidag allan ársins hring. Á föstu voru lesnar hugvekjur hvert virkt kvöld og sungnir Passíusálmar. Oftast las húsbóndinn sjálfur, en sönginn leiddi þar um nokkur ár fyrir aldamót Bjarni hálfbróðir Sigurðar Sveinssonar. Hann var um árabil til húsa í Nýborg, þar til hann drukknaði í sjóslysinu mikla við Klettsnef 16. maí 1901.
Á aðalhæð Nýborgarhússins var stór stofa sem tók þvert yfir húsið. Hún var kölluð baðstofa. Þar sváfu vinnukonurnar og heimasætur á uppvaxtarárum, svo sem dóttir og fósturdóttir, og þar sat kvenfólkið á rúmum sínum við tóskap og annað handverk eins og gerðist í sveitum um land allt um langan aldur. Kvennaliðið mataðist einnig á rúmum sínum í baðstofunni á þjóðlega vísu.
Vinnumenn, og vermenn, þegar þeir voru þar, sváfu á loftinu í Nýborg.
Ýmsar bækur áttu Nýborgarhjónin, bæði andlegar og veraldlegar, og höfðu hjúin þeirra not, ef þau óskuðu þess. Þar var Biblían í heiðri höfð og Jónspostilla, sem lesið var í á helgum dögum. Þar voru til rímur, og voru þær mikið kveðnar á haustin og fram á vetur, þar til vertíðarannir hófust. Fornaldarsögur Norðurlanda voru þar einnig til og lesnar, Árbækur Espolíns og fleiri prentaðar lindir fróðleiks og skemmtunar.
Í tómstundum spiluðu oft hjúin í Nýborg alkort. Stundum voru húsbændurnir með við spilaborðið.
Niðursetningum var oft komið fyrir hjá Nýborgarhjónunum. Þótti þeim þar mörgum gott að vera, ekki sízt vegna mannkærleika og mannlundar Þórönnu húsfreyju.

Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli segir í bók sinni Þorlákshöfn frá hrakningi opins skips, er hann var háseti á vetrarvertíðina 1883. Formaður var Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi. Skipshafnarmenn komust að lokum í franska skútu, sem skilaði þeim loks til Vestmannaeyja. Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson fór út í skútuna á juli, þegar skipstjóri gaf merki og óskaði að hafa samband við menn í landi. Þegar Sigurður hreppstjóri fékk að vita erindi skútunnar, reri hann aftur í land til þess að sækja stærri fleytu til að flytja á í land hina fjölmennu skipshöfn. Með því að ýmislegt í frásögn Sigurðar Þorsteinssonar felur í sér kynningu á Sigurði Sveinssyni í Nýborg og heimilinu þar, óska ég að taka hér upp stuttan kafla úr henni. Frásögn Sigurðar Þorsteinssonar gefur okkur einnig hugmynd um það, hvernig Eyjabúar reyndu eftir mætti að sigrast á einangruninni og samgönguleysinu með flöskuskeytunum algengu þá.
S.Þ. segir svo frá: „Þegar Sigurður Sigurfinnsson lenti með okkur við bryggju í Vestmannaeyjum**** var auðséð, að fregnin um væntanlega komu okkar hafði breiðzt fljótt út, því að þar var staddur fjöldi fólks, er tók okkur með fögnuði og vinahótum, og voru þá margir búnir að ákveða að taka til sín, sumir einn og sumir tvo af okkur félögunum, og á endanum varð úr því hálfgerð óánægja hjá þeim, sem engan gátu fengið til sín. Sigurður Sveinsson, trésmiður, bauð mér til sín ásamt öðrum til, og þess utan urðu allir félagarnir að koma til hans fyrst og þiggja góðgerðir. Morguninn eftir bauð Sigurður mér að koma með sér inn á Eiði og sjá, hvernig hann færi að því „að senda póstinn,“ en pósturinn var flaska með nokkrum bréfum í, ekki man ég hvað mörgum, og nokkrum aurum til finnandans. Frá tappanum var vel gengið og lakkað yfir stútinn. Bréfin voru flest til nafngreindra manna, en eitt var til finnanda flöskunnar og var á þessa leið: „Hér kom í gær frakknesk fiskiskúta með Þorkel frá Óseyrarnesi og alla skipshöfn hans heila á húfi, er hún hafði fundið á hafi úti og bjargað. Þetta er finnandinn vinsamlega beðinn að hlutast til um, að verði tafarlaust tilkynnt hlutaðeigendum“ ... Þessi flaska fannst daginn eftir á fjörum nálægt Skúmstöðum í Vestur-Landeyjum, og var Sigurður Magnússon, dbrm. og bóndi þar, forgöngumaður þess, að fregnin flaug í allar áttir með ótrúlegum hraða á þeim tíma, t.d. kom fregnin til foreldra minna á sunnudaginn 8. apríl eða daginn eftir að flaskan fannst, og höfðum við þá verið taldir dauðir í 10 daga.“
Þessi frásögn Sigurðar Þorsteinssonar er fyrir margra hluta sakir gagnleg og fróðleg, ekki sízt yngri kynslóðinni. Samúðin og hjálpsemin lifði þá og þróaðist með Eyjabúum sem enn í dag. Í þeim efnum var Sigurður í Nýborg enginn eftirbátur annarra nema síður væri, og ekki spillti því Þóranna húsfreyja, eftir að þau giftust. Þegar einhver þurfti mikillar hjálpar við, var ekki legið á liði sínu, ekkert sparað eða skorið við nögl. Þá kom í ljós höfðingslundin glædd samúð og skilningi. Þeim eigindum voru þau Nýborgarhjón gædd í ríkum mæli. Þessara eiginda þeirra nutu m.a. niðursetningar, sem þar voru árum saman, og börn, sem þangað var komið í fóstur.
Eitt allra mesta sjóslys við Eyjar, sem sögur fara af, átti sér stað 16. maí 1901, þegar Fjallaskipið Björgólfur fórst við Klettsnef, og 27 manns drukknuðu, 19 karlmenn og 8 konur.*****
Þórunn, dóttir þeirra Nýborgarhjóna, hafði farið til landsins um vorið með kauptíðarskipum til þess að heimsækja frændfólk og vini undir Eyjafjöllum. Hún var þá 16 ára gömul. Hún tók sér aftur far til Eyja með Björgólfi. Það sást frá Kirkjubæ, er skipið færðist í kaf og því hvolfdi. Þotið var til í dauðans ofboði. Hálfri stundu síðar var komið á slysstaðinn á tveim skipum. Átta manns náðust þegar upp í skipin, þrír karlmenn og fimm konur. Meðal þeirra var heimasætan frá Nýborg, Þórunn Sigurðardóttir. Allt þetta fólk var meðvitundarlaust og virtist í rauninni dáið, nema einn maður, sem var bjargað af kili skipsins. Róið var með fólkið í land í skyndi til þess að reyna á því lífgunartilraunir. Sigurður bóndi Sveinsson tók við dóttur sinni á Stokkhellu og bar hana í fanginu, — ekki heim að Nýborg, þó að stutt væri leiðin, — heldur heim til Eiríks kennara HjálmarssonarVegamótum og konu hans. Sigurður vildi ekki koma heim að Nýborg með líkið af Þórunni dóttur sinni öllum að óvörum. Þorsteinn héraðslæknir mun hafa gert einhverjar lífgunartilraunir með Þórunni eins og allt hitt fólkið, en árangurslaust. Þórunn Anna var dáin. Skuggi sorgar og harma hvíldi yfir Nýborgarheimilinu.
**** Hér mun átt við Austurbúðarbryggjuna.
***** Sjá frásögn um slys þetta í 3. hefti Íslenzkra þjóðsagna eftir Einar Guðmundsson.

Nokkra peninga lagði Sigurður Sveinsson og þau hjón í jarðakaup á landi. Vitað er, að þau áttu um skeið Fagurhól í Landeyjum og Kvíhólmann og Efri-Holt í V.-Eyjafjallahr. og Miðbælisbakka (leiðr.) og Seljanda í Austur-Eyjafjallahreppi.
Verzlunarreikningar Sigurðar Sveinssonar við Brydeverzlun bera það með sér, að hann hefur verið æði ölkær um langan tíma úr ævinni og e.t.v. neytt áfengis daglega á vissum tímum árs og ævi. En um sjötugt mun hann að mestu hafa lagt af allan drykkjuskap. Ýmislegt bendir til þess, að Sigurður Sveinsson hafi þá tekið að hugsa meir um eilífðarmálin svo kölluðu en oft áður og viljað helga hugsun sína og breytni þeim málum þau ár, sem hann kynni að eiga eftir á jarðreisu sinni.
Síðustu ár ævinnar lét Sigurður Sveinsson þessa áminningu standa skýru letri á spjaldi fyrir ofan rekkju sína: „Varizt að blóta!“ Þessa stuttu og gagnlegu áminningu mun hann ekki síður hafa stílað sjálfum sér en öðrum.
Einhvern veginn barst það til eyrna trúboða eða trúarleiðtoga í Vestmannaeyjum, að hinn aldraði bóndi í Nýborg, þá um áttrætt, hefði nú opnað hjarta sitt svo um munaði fyrir kristilegum siðgæðispredikunum trúheitra manna og nú síður jarðbundinn en fyrr.
Trúboði þessi hugðist þess vegna nota tækifærið og auka gleði á himnum yfir einum syndugum enn, sem bætti ráð sitt og endurfæddist fyrir guðleg orð og innfjálgar predikanir. Hann arkaði því á tveim niður í Nýborg virkan dag um nónbil. Nú skyldi hann sá hinu góða og þroskaða sæði trúflokks síns í hinn frjóa jarðveg hins iðrandi hjarta atorku-, búhyggju- og fjárgróðamannsins Sigurðar Sveinssonar bónda í Nýborg.
Bóndinn hefur nýlega lokið miðdegisblundi sínum, er trúboðinn fær að stíga innfyrir þröskuldinn og inn að rúmstokki hins aldraða, er þar liggur í rúmi sínu, beygður nokkuð af átökum við Elli kerlingu og mæddur af mörgu.
Sumt af heimilisfólkinu í Nýborg tók nú að gerast forvitið. Hurðin stóð í hálfa gátt og eyru voru lögð við.
Þetta var í 18. viku sumars, og fýlungaveiðar stóðu sem hæst. Dyngja af fýl liggur óreytt úti í skemmu bóndans. Kartöflur hafði hann látið taka upp um morguninn til þess að þær nytu þurrks dagsins.
Trúboðinn hóf ræðu sína og ræddi um þyngsli elliáranna. Eftir drykklanga stund hafði hann talað sig heitan. Innfjálg orðin streymdu af vörum hans, hjartnæm og eggjandi, staðsett og staðfest með látlausum tilvitnunum í heilagt guðsorð. Allir, sem heyra máttu og eyru höfðu í Nýborg, hlustuðu. Þegar trúboðinn tók að skilgreina þá, sem himnaríki erfa, og hina, sem hann taldi að ættu þangað vonlausa tilkomu, svo sem drykkjumenn og hórkarla, þótti bónda nóg um. Þá gat hann ekki á sér setið að flytja trúboðanum nokkur orð sjálfs meistara Jóns. Með nokkrum hita i röddinni mælti Sigurður bóndi: „Meistari Jón segir, og hans orð hafa aldrei verið véfengd á Íslandi fremur en spekiorð Njáls á Bergþórshvoli: „Aldrei steypir drottinn nokkrum þeim, sem hinn allra minnsta trúarneista geymir í hjarta sínu, svo djúpt niður í afgrunn hörmunganna, að þeir aldeilis örvænti sér náðar hans, jafnvel þótt þeir séu á stundum langt leiddir.““ Það slumaði í trúboðanum. Hann varð sem hugsi um stund. Það var eins og hann hugleiddi, hvort rætt væri nema um einn meistara í heilögu guðs orði! Allur er varinn góður, hugsaði trúboðinn, og engu skyldi mótmæla í hinum helgu skriftum, en mörg eru þar nöfnin og mörg er þar spekiholan.
Trúboðinn segir: „Esaja spámaður segir, að það hjarta, sem Guð taki sér bústað í, skuli vera angrað og sundurkramið.“
Bóndinn: „Vídalin segir: „Dyggðir og mannkostir eru mest verðir af öllum þeim hlutum, sem finnast hjá dauðlegum mönnum. Lítillætið er fegurst skart dyggðanna. Án þess verður framsýnin að undirferli, réttlætið að harðýðgi og hugprýðin að ofdirfsku.““
Trúboðinn: ,,Ég kannast ekki við neinn Vídalín, sem sé sannur lærisveinn Krists, en við okkur, sem erum það og frelsaðir erum í honum hefur Kristur sagt: „Yður er gefið að þekkja leyndardóma himnaríkis, en hinum er það ekki gefið.““
Bóndinn: „Meistari Jón spyr: „Ef flísin í náungans auga er þér ávallt fyrir sjónum, er það ekki svartnætti eiginþóttans?““
Aftur slumaði í trúboðanum. Hvar stóðu þessi orð í Heilagri ritningu? Spurning gat leitt af sér vantrú hins synduga á mátt og þekkingu hins frelsaða lærisveins.
Meðan þessu fór fram, átti tvennt sér stað í Nýborg: Húsbóndinn skimaði til lofts út um gluggann, og Gudda gamla þokaðist æ lengra inn í gættina á svefnherberginu og teygði álkuna inn. Forvitnin var ómótstæðileg. Húsbóndinn sá þar nef og kinnar, hár og höku. Þá kom það: „Gudda, þessi skratti dugar ekki, þú verður að fara að reyta fýlinn. Og kartöflurnar verður að láta strax inn, því að nú dregur í loftið, svo að hann kemur á innan stundar.“
Eftir andartak stóð trúboðinn úti á Nýborgarhlaði. Sár voru vonbrigðin og neisti sigurgleðinnar fjaraði burt úr hjartanu. Enn var þá húsbóndinn í Nýborg svona jarðbundinn!

Þóranna ljósmóðir dó 14. marz 1929 á sjötugasta aldursári.
Sigurður Sveinsson dó tveim mánuðum síðar eða 11. maí 1929 á áttugasta og áttunda aldursári.
Þórunn Jónsdóttir ljósmóðir hjúkraði báðum hjónunum, þegar þau lágu banaleguna.
Hún minnist þeirra með virðingu og hlýhug.

Til baka