Blik 1959/Kennaraþingið í Björgvin 1957

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



Kennaraþingið í Björgvin 1957
Vestlandske lærarstemna



Ég vona, að enginn lesandi Bliks telji mér það til fordildar, þó að ég á þessum tímamótum á lífsleiðinni biðji ritið að geyma fyrir mig nokkur orð eða stuttar minningar um einn glæsilegasta dag í lífi mínu, er ég var kvaddur til að kynna land mitt, sögu þess og menningu á fjölmennu kennaraþingi í Björgvin haustið 1957.
Þessi kennarasamtök, sem hér um ræðir, heita nú Vestlandske lærarstemna. Áður hétu þau Stiftslærermöte for Bergensstift. Samtökin eru raunar samband félaga barnaskóla- og framhaldsskólakennara á svæðinu norðan úr Fjörðum og suður á Rogaland með Björgvin að miðstöð og máttarstoð.
Þing kennarasambandsins, sem venjulega er haldið annað hvort ár, sitja að öllum jafnaði á 2. þúsund manns.
Sú venja hefir ríkt á flestum þingum sambandsins, að ráðinn hefir verið útlendingur til að flytja þar fyrirlestur um skólastarf í landi sínu. Flestir útlendu fyrirlesararnir hafa verið Danir eða Svíar vegna hinna nánu menningartengsla milli þessara þjóða og Norðmanna, sem skilja mál þeirra sem sitt eigið.
Árið 1955 var breytt til. Þá flutti Englendingur fyrirlestur á kennaraþinginu. Var þá notaður túlkur.
Árið 1957 var svo Íslendingur kvaddur til að kynna land sitt og sögu.
Þingið stóð tvo daga, og var fyrri dagur þess í rauninni helgaður heimilinu, samstarfi þess, skóla og kirkju. Hafði þessvegna mörgum foreldrafélögum verið boðið að hvetja foreldra til að sækja þingið.
Kennaraþingið hófst föstudaginn 27. sept. kl. 10 um morguninn með guðsþjónustu í Nykyrkja í Björgvin, hinu glæsilegasta guðshúsi. Ragnvald Indrebö, biskup í Björgvin, prédikaði.
Kl. 11,30 var svo þingið sett í Konsertpaleet í Björgvin, einum stærsta og glæsilegasta samkomusal bæjarins.
Rolv R. Skre, skólastjóri á Stend, sem verið hafði formaður kennarasambandsins undanfarin 10 ár, setti þingið.
Fyrst var minnzt Hákonar konungs VII., sem þá lá á líkbörunum. Síðan flutti formaður sambandsins, Rolv R. Skre, mjög athyglisvert ávarp. Hann ræddi þar m.a. um þann þátt starfsins í skólunum, sem til þessa hefir þokað fyrir ítroðslunni, þ.e. hið eiginlega uppeldis- og siðbótarstarf. Hinn reyndi og mæti skólamaður fullyrti, að hið svokallaða frjálsa uppeldi hefði verið í hávegum haft í Noregi eftir styrjöldina. Nú hefði norska þjóðin hlotið dýrkeypta reynslu af því. Börnin og unglingana yrði að aga. Æskulýðurinn skyldi leiddur traustri hendi og honum vísuð sú leiðin, sem liggur fram til hamingju og blessunar honum sjálfum og þjóðfélaginu. Þessa leiðsögn taldi formaður, að norskir skólar og norsk heimili hefðu vanrækt um of hin síðari árin og sæi þess glögg merki í norska þjóðfélaginu.
„Margt er líkt með skyldum,“ hugsaði Íslendingurinn. Mundu ekki þessi orð einnig vera orð í tíma töluð hér heima?
Nú flutti norsk menntakona, Dr. phil. Elisiv Steen, fyrirlestur, sem hún nefndi „Dikterne og hjemmet“ (Skáldin og heimilið). Frúin talaði af víðsýni, lærdómi og djúphyggni.
Að fyrirlestrinum loknum heimsótti þingheimur mjög fjölbreytta sýningu á skólavörum (bókum, áhöldum og vélum) í Börshöllinni í Björgvin. Að sýningu þessari stóðu margar skólavöruverzlanir og önnur fyrirtæki í borginni. Hún var í alla staði hin fróðlegasta og ánægjulegasta.
Um kvöldið efndi stjórn kennarasambandsins til veglegrar veizlu þinggestum og fleirum.
Daginn eftir, 28. sept., var svo „Íslandsdagurinn í Björgvin“, eins og kunningi minn orðaði það. Þingfundur hófst um morguninn kl. 9 í Konsertpaleet með aðalfundarstörfum. Þá var stjórn kennarasambandsins kosin. Síðan flutti ég fyrirlestur minn og talaði norskt landsmál. Efni hans var fræðslumál þjóðarinnar og menning að fornu og nýju. Hann tók á annan klukkutíma. Fyrst flutti ég þinginu kveðjur og árnaðaróskir frá menntamálaráðherra, Dr. Gylfa Þ. Gíslasyni, og fræðslumálastjóra, Helga Elíassyni. Þeim var tekið með miklum fögnuði og innileik.
Að fyrirlestrinum loknum dreifðist þingheimur í ýmsar vistarverur hinnar miklu skólabyggingar, Nygårdsskule. Þar fóru fram hinir svo kölluðu „grubbetímar“, sem eru í því fólgnir, að ýmsir skólamenn, sem til þess eru ráðnir, veita þar margvíslega fræðslu um kennsluaðferðir og skólamál. Einnig svara þeir spurningum, sem gestir beina til þeirra um þessi mál.
Þarna hafði ég til umráða eina stofu og svaraði mörgum spurningum um land mitt og þjóð. Ég hafði með mér stórt kort af landinu og gerði mínum „grubbe“-gestum grein fyrir landslagi, byggð, atvinnuvegum og landsgæðum. Flestar spurningarnar lutu að notkun hverahitans, eldgosum og sögustöðum.
Miðdegisverðar var neytt í boði fræðslumálastjórnar Björgvinjar.
Kl. 16 hófst síðan sýning á Heklukvikmynd, sem fræðslumálastjórinn hafði lánað mér. Hana sýndi ég tvívegis vegna geysimikillar aðsóknar. Í bæði skiptin voru ekki aðeins öll sæti setin í sýningarsalnum, heldur stóð þar einnig svo margt fólk, sem frekast rúmaðist.
Ég skýrði myndina eftir mætti, því að texta hennar þýddi ekki að nota af gildum ástæðum.
„Ein svært dramatisk film“ var viðkvæðið.
Hrifning eða skelfing, undrun eða aðdáun, — ýmsar slíkar blikur bærðust um andlit sýningargestanna eftir skaplyndi hvers og eins.
Í tilefni þingsins gaf stjórn kennarasambandsins út dálitla bók (Program). Þar er m.a. fróðleg grein um Ísland, land, sögu og fólk. Heitir hún Ísland og Íslendingar. Höfundur er Besse Bönes, skólastjóri við Söreid-barnaskóla í Fanahéraði, kunnur Íslandsvinur. — Í þingskrá þessari er þjóðsöngurinn okkar, ,,Ó, Guð vors lands“, prentaður með nótum. Þar eru einnig prentuð tvö erindi úr hinu fagra kvæði Hovdens til Íslands: „ „Å, ven er lidi“ han Gunnar kvad“.
Báðir þessir söngvar voru sungnir á þinginu.
Það er ekki auðvelt okkur hjónum, sem saman nutum hinnar miklu gestrisni og vinsemdar Norðmanna haustið 1957, að tjá það með orðum, svo sem það allt var. Við nutum þar í ríkum mæli þess hlýleika og þeirrar góðvildar, sem ég hefi ávallt fundið hjá Norðmönnum til íslenzku þjóðarinnar. Og hjartanlega hefi ég ávallt, sem dvalizt hefi langdvölum í Noregi, getað tekið undir það, sem svo margur Íslendingur hefur sagt, er þar hefir dvalizt: „Það er gott að vera Íslendingur í Noregi.“
Eftir að heim kom, sendi stjórn kennarasambandsins okkur hjónunum gjöf, listaverk, sem er vaxið því að vera táknrænn minjagripur um þessar ógleymanlegu samveru- og samstarfsstundir, og það löngu eftir að dagar okkar eru taldir.

Þ.Þ.V.



ctr


Þjóðlegir telpubúningar


Mjög vœri það þjóðlegt og ánœgjulegt, ef foreldrar hér vildu láta dœtur sínar á vissu aldursskeiði ganga í íslenzkum þjóðbúningi. Kostnaðurinn er viðráðanlegur. Íslenzki upphluturinn er fagur búningur og fer vel hverri stúlku. Á seinni árum hefur því miður íslenzki þjóðbúningurinn orðið að þoka fyrir klœðum með erlendu sniði. Mundi ekki ráð að gefa smástúlkunum okkar þennan búning í þeirri von, að þœr lœrðu að meta hann og nota, þegar þœr hafa vaxið úr grasi og þroskazt. — Fötin skapa manninn, segir orðtœkið. Fegurst verður íslenzka stúlkan í sínum eigin þjóðbúningi.