Blik 1959/Góðan gest ber að garði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



Góðan gest ber að garði




S.l. ár, 15. des., bar óvenjulegan gest að garði Gagnfræðaskólans.
Norskur blaðamaður og Íslandsvinur lagði þann dag leið sína „yfir sundið“ til þess að heimsækja gamla vini sína í Eyjum, undirritaðan og konu hans. Ludvig Jerdal heitir hann og er blaðamaður við dagblaðið „Dagen“ í Björgvin. Við kynntumst þessum ágæta vini íslenzku þjóðarinnar veturinn 1951—1952, er ég starfaði fyrir Norden í Osló, sem er samband norrænu fél. í Noregi. Þann vetur var Ludvig Jerdal formaður Vestmannalaget í Björgvin. Markmið þess félags er m.a. að auka kynni Norðmanna og Íslendinga og efla andlegt samband þessara nánu frændþjóða. Okkur hjónum er það minnisstæðast, hve við þann vetur hittum marga einlæga og trygga vini íslenzku þjóðarinnar með Norðmönnum, dáendur íslenzks móðurmáls, sögu og fornbókmennta, aðdáendur ómengaðrar íslenzkrar menningar. Einn þessara Norðmanna er Ludvig Jerdal. Koma hans hingað var okkur þess vegna mikið ánægjuefni, ekki sízt er við sannfréttum, að Alþingi hefði veitt honum persónulega nokkra fjárupphæð til Íslandsferðar án þess að hann hefði um það sótt. Jafnframt heiðraði Flugfélag Íslands þennan Norðmann með því að flytja hann ókeypis yfir Atlantsálana til Íslands. Það mun ekki í fyrsta sinn, sem flugfélögin íslenzku neyta aðstöðu sinnar í þágu íslenzkrar menningar og þakka þannig með höfðingslund og gestrisni góðum erlendum velgerðarmönnum íslenzku þjóðarinnar.
Þetta var í þriðja sinn, er Ludvig Jerdal heimsótti Ísland. Hann hefur verið einn af forustumönnum þeirra samtaka í Noregi, sem beita sér fyrir aukinni skógrækt á landi okkar og fórna því starfi bæði fé, tíma og starfskröftum.
Að þessu sinni dvaldist Ludvig Jerdal hér á landi hálfan mánuð. Hann átti tal við ýmsa forustumenn þjóðarinnar í stjórnmálum, félagsmálum og öðrum menningarmálum. Hann kynnti sér rækilega landhelgisdeiluna við Breta, hið íslenzka sjónarmið, og tók sér einn dag far með flugvél strandgæzlunnar á eftirlitsferð. Þá var heiðskír dagur og skammdegissólin merlaði hafflötinn og gyllti snæviþakkta fjallatindana og ströndina. „Slík undrafegurð verður maður að sjá með eigin augum til þess að trúa,“ sagði Jerdal vinum sínum í Noregi.
Ludvig Jerdal hefur stundað blaðamennsku í 25 ár, lengst af í Björgvin, en einnig í Kristjánssandi, Harðangri og Ósló. Hann er einlægur og heitur þjóðernismaður og talar næsta óvenjulega hreina og fágaða norsku (landsmál). Hann skilur íslenzku mæta vel.
Íslendingum er mun auðveldara að læra norskt landsmál en dönsku. Þess vegna er það sannfæring mín, að við Íslendingar eigum að taka upp norsku í framhaldsskólunum okkar, en láta dönskuna eiga sig. Með því ynnist þetta m.a.: Íslenzki unglingurinn næði fyrr og betur valdi á einu Norðurlandamáli með því að leggja stund á norskunám en dönsku, og á mun styttri tíma. Með sæmilega góðri kunnáttu í norsku er íslenzka unglingnum opin leið að andlegum samskiptum í mæltu máli og bókmenntum við 10-11 milljónir Norðurlandabúa, með því að Svíar telja sig skilja betur norskt landsmál en dönsku. Þetta hefi ég sjálfur reynt og þetta hafa Svíar fullyrt í mín eyru. Þetta vinabragð við Norðmenn að kenna mál þeirra í íslenzkum framhaldsskólum mundi efla með þeim almenna trú á það, að takast megi að endurreisa norskt mál í öllum byggðum og borgum Noregs og hnekkja þar dönskum menningaráhrifum. Þannig yrðum við Íslendingar Norðmönnum máttarstoð í þjóðernismálunum. Sú sæmd yrði okkur mikilsverð.
Góð kunnátta íslenzka unglingsins í norsku lokar hann á engan hátt úti frá dönskum bókmenntum, en mundi geta orðið honum hvatning til þess að nema danskt mál af sjálfsdáðum.
Engin þjóð hefur á seinni árum auðsýnt okkur Íslendingum einlægari og fórnfúsari vinarhug en Norðmenn. Við höfum vissulega ekki efni á að mæta þeim kenndum, sem þar búa að baki, með íslenzku tómlæti. Þess vegna gladdi það mig mjög, þegar ég frétti atbeina Alþingis um tilkomu Ludvigs Jerdals hingað til lands á s.l. vetri.

Þ.Þ.V.