Blik 1959/Fjársöfn og réttir á Heimaey um og eftir síðustu aldamót

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1959EYJÓLFUR GÍSLASON frá Búastöðum:


Fjársöfn og réttir á Heimaey
um og eftir síðustu aldamótVenjulega var réttað hér í „Almenningnum“ (almenningsrétt) á Eiðinu sex sinnum á ári, þrisvar að vorinu og fyrri hluta sumars og þrisvar að haustinu. Voru þetta kölluð „lögsöfn“. Síðasta réttin á haustin hét „Skilarétt“. Þá var talið í haga, sem kallað var.
Hreppstjórarnir báðir og síðar, þ.e. 1918, Fjallskilanefnd, sem skipuð var 3 mönnum, komu að hverjum dilk og skrifuðu upp fénað manna jafnóðum og féð var látið út. Hver jörð, en þær voru 48 alls máttu hafa einn hest og 12 sauði (kindur) í sínum högum hér á Heimaey. Ef ekki var eitt hross í högum, mátti hafa þess í stað 12 sauði.
Í skilaréttinni voru allir ómerkingar og annað óskilafé selt þar á uppboði. Voru þá hreppstjórarnir uppboðshaldarar.
Hreppstjórarnir og síðar Fjallskilanefnd kölluðu alltaf í safn*. Var kallað í það um fótaferðartíma, þ.e. um kl. 7 til 8. Valdir voru góðviðrisdagar með brimléttum sjó, ef hægt var og ekki komið í ótíma, þareð fé var oft sett í Úteyjar úr réttum.
Ætla ég nú að segja frá, hvernig hagað var til með fjársöfnin, þar eð það fyrnist nú óðum yfir það eins og margt annað, sem heyrir fortíðinni til, en þannig mun fjársöfnuninni hafa verið hagað um aldaraðir hér í Eyjum.
Aldrei var látinn nema einn maður frá jörð í safn.
* Hér var alltaf kallað að safna fé og fara í safn, en ekki smala fé eða ganga, fara í göngur o.s.frv. eins og í flestum eða öllum öðrum sýslum landsins. Læt ég þessvegna það orðalag haldast hér.

Ég byrja á Kirkjubæjajörðum, sem voru 8 alls að „Túni“ meðtöldu. Tvær þeirra söfnuðu Heiðina norðan og austan Kirkjubæjatúngarða og suður að Urðum.
Áttu þessir tveir menn að ganga næst bjargbrúnum (Flugum) og austast á Haugunum og safna Lambaskorur með. Tvær Kirkjubæjajarðir söfnuðu suður frá Móhúsa- og Kirkjubæjatúngörðum að Axlarsteini, Kvíalág og Há-Haugana. Þeir urðu samferða hinum tveim og söfnuðu þessir fjórir menn, vestur að Litlu-Fellum suður að Selbrekkum, um Sæfjall að norðan og Sæfjallshálsa upp að Háubúrum og svo þaðan út í Kinn.
Tvær Kirkjubæjajarðir söfnuðu Sæfjall að neðan og sunnan og aðrar tvær Litlhöfða ásamt Kervíkurfjalli og Landsstakkstónum. Þessir menn voru óháðir hinum og fóru af stað að heiman nokkru á undan hinum og beinustu leið suðureftir. Þeir áttu svo að mætast með sín söfn í Lyngfellisdal og reka svo saman norður í Kinn. Var þá það fé, sem þeir höfðu, kallað einu nafni „Litlhöfðasafn“.
Ekki var það í föstum skorðum, hvaða Kirkjubæjajarðir önnuðust þessa söfnun, því að hún var erfið og ekki hættulaus. Það fór því eftir mannafla á bæjum og hvernig var lagt til í safn hvert sinn.
Næstir Kirkjubæjamönnum voru Prestshús, tvær jarðir og eystri Oddsstaðir. Söfnuðu þeir suður frá Oddsstaðatúngörðum að Búastaðalág, austur að Axlarsteini og Litlufell ásamt Helgafelli að austan og „upp á milli Fella“. Þaðan suður í Sæfjallskinn milli Selbrekkna og Djúpadals.
Vestri Oddsstaðir og Búastaðir, tvær jarðir, söfnuðu suður frá Búastaða- og Ólafshúsatúngörðum um Gerðis-Bússu og að Gerðistúngörðum, upp Gönguskörð að Prestasteini, Helgafell að vestan og Helgafellsdal, vestur að Dalagötu og túngörðum, um Hrafnakletta, suður Djúpadal, að Ömpustekkjum og út í Kinn.
Fólk frá öllum þessum jörðum, sem ég hefi nú upptalið að Litlhöfða og Sæfjallsmönnum frátöldum, fór oftast jafnt af stað og fylgdist svo að suður í Kinn. Það fé, sem það safnaði, var kallað Haugasafn.
Oft varð að bíða í Kinninni með Haugasafnið eftir Litlhöfða og Stórhöfðasöfnunum, því að þau voru ávallt rekin saman niðureftir og þá kölluð einu nafni Utansafn, eftir að allt féð kom saman. (Oftast var tekið þannig til orða hér áður fyrr að fara „út í Stórhöfða“, „út í Brimurð“ o.s.frv.).
Stórhöfða söfnuðu 5 Elliðaeyjarjarðir, þ.e. jarðir, sem áttu nytjar í Elliðaey. Fyrir ofan hraun voru það Norðurgarður, tvær jarðir, Þórlaugargerði, 2 jarðir, og Steinsstaðir. Áttu þeir menn einnig að safna því fé, er var í fjöru, þ.e. í Klauf, Brimurð og Vík. Þessir 5 menn héldu sem leið liggur suður Klaufargötu, sem er sjávargata frá Ofanbyggjarabæjum, suður í Klauf, en þar var útræði Ofanbyggjaramanna um aldir, sumar, vor og haust, stugguðu þeir því fé til beggja handa, er á leið þeirra varð út að Breiðabakka, en þar skiptu þeir sér, gengu sumir hann suður en hinir með sjónum.
Dalir, tvær jarðir, söfnuðu Dalaheiðina vestur að Ofanleitistúngörðum, þaðan suður og að Ömpustekkjum og út í Kinn.
Stóra-Gerði, ein jörð, safnaði suður og vestur frá sínum túngörðum, vestur og ofan við Sængurkonustein, vestur Strembu og Agðahraunið, niður með Ofanbyggjaravegi að austan, niður að kirkju og þaðan vestur að Brimhólum í Sandskörð. Þar var beðið eftir Utan- eða Innansafninu.
Bjarnareyjarjarðir, 8 að tölu, en þær eru Ofanleiti með 4 jarðir, Gvendarhús, Svaðkot (heitir nú Suðurgarður), Draumbær og Brekkuhús**.

** Stundum voru þessi býli kölluð Kotin. Munu þær fjórar jarðir fyrr hafa verið hjáleigur frá prestssetrinu Ofanleiti og nafngiftin þar frá komin.

Þessir átta menn söfnuðu Hraunið eins og það var kallað í einu orði. Fóru þeir suður vestan Klaufargötu, út að Töglum, vestur Hafursdal og söfnuðu með jöfnu millibili niður Ofanleitishamarsbrúnina og austur að Ofanbyggjaravegi, niður hjá Hvíld og Illugaskipi, vestan Brimhóla og áttu að bíða eftir Dalfjallssafninu á Torfmýri.
Allar Vilborgarstaðajarðir, átta að tölu, söfnuðu Dalfjallið ásamt Hæltónum, Tíkartónum, Ufsabergi og Herjólfsdal.
Ólafshús, Nýibær og Stakkagerði, sem er tvær jarðir, söfnuðu Eggjarnar, Vatnshella, Hána og Köldukinn. Alltaf var beðið með að reka féð niður af Hánni, þar til Fjallsafnið kom að innan, og þá rekið með því inn á Eiði.
Vesturhús (vestri) safnaði vestur frá sínum túngörðum og Nýjabæjar, Vesturhúsa- og Nýjabæjarheiði, Hvítinga sunnan Stakkagerðis, upp að kirkju og þaðan vestur með Herjólfsdalsgötu að neðan og inn í Sandskörð. Eystri Vesturhús söfnuðu heiðina norðan Vilborgarstaðatúngarða, Akurinn austan Gjábakkatúngarða, þaðan vestur heiðina Mangalönd, sunnan við tómthúsin Lönd***, um Kokkhúslág, sunnan Batavíu og suður fyrir Boston, sem nú heitir Dalbær, norðan Stakkagerðistúngarða og upp Uppsalaheiði, inn í Sandskörð, og skyldi biðið þar ásamt Gerðis- og Vesturhúsamanni eftir Utansafninu.

*** Sú heiði var afgirt, sléttuð öll og gerð að túni um og eftir síðustu aldamót af Vilborgarstaðabændum, er bættu með því túneign sína. Þessi viðbótartún voru kölluð útsetur og helzt það orð enn hjá sumu fólki. Allar jarðabætur voru unnar hér með handverkfærum þ.e. sléttuspaða og skóflu, þar til vélarnar tóku við, fyrir svo sem 30 árum.

Niðurgirðingin, eins og það var kallað, en það eru 4 jarðir, og lágu tún þeirra saman innan eins túngarðs: Gjábakki, tvær jarðir, Miðhús og Kornhóll (Garður). Þessar jarðir söfnuðu Stóraklif ásamt Mánaðarskoru, sem er austan í því miðju, og sótti fé oft þar niður. Einnig söfnuðu þær Hlíðarbrekkur og Skansabrekkur (vestur með Skönsum, sem kallað var). Þá bar þeim og að safna fjörurnar vestur og skilja það fé eftir á Póstflötunum. Fjörurnar voru: Hafnareyri, Bratti, Sjóbúðarklappir, Básaskerseyri og Skildingafjara.
Þegar komið var með fjársöfnin inn á Eiði, var féð rekið upp í brekkuna vestan og neðan við Neðrikleifar, þar sem uppgangan byrjar á Heimaklett. Þarna var fénu haldið meðan þeir, sem söfnuðu, köstuðu mæðinni og drukku kaffið. Frá því að ég man eftir, var því fólki, sem safnaði, fært kaffi á blikkbrúsum, sem munu hafa tekið nær hálfan lítra, og bita með en ekki veit ég, hvað þessi siður var gamall.
Ávallt vakti það mikla tilhlökkun hjá börnum og unglingum og jafnvel fullorðnu fólki líka, þegar það fréttist að safna ætti, því að oftast fréttist eitthvað um það áður en kallað var.
Fram til ársins 1910, að fólki fór að fjölga hér að verulegu leyti, mátti segja, að flest allir Eyjabúar færu í réttirnar. Mörgum börnunum urðu fyrstu réttarferðir þeirra ógleymanlegar.
Margar Úteyjasameignirnar áttu sér báta til fjárflutninga og rúningsferða t.d. Elliðaeyjarsameignin skipið „Svan“, Bjarnareyjarskipið „Þökk“ og Álseyjar-„Marbjörgu“, en það skip var alltaf kallað „Álseyjar-Björg“.
Margir eldri Vestmannaeyingar fóru sína fyrstu sjóferð á þessum bátum yfir Botninn, þ.e. innri höfnina, með mæðrum sínum, sem fegnar urðu að fá far til að stytta sér leið í réttirnar og létta þeim barnabyrðina. En ekki reyndist stór karlinn þeirra allra, er hann þarna í fyrsta sinni sat á sævartrjám enda aldurinn ekki alltaf hár, þótt seinna yrðu þeir fræknir sjógarpar. Einn af þeim snáðum var Stefán Guðlaugsson í Gerði, þá um fjögra ára gamall. Móðir hans fékk far með hann yfir Botninn með Bjarnareyjarbátnum. Meðal manna á bátnum var séra Oddgeir Guðmundsen. Þegar Stefán orgaði sem hæst, varð presti að orði: „Þú ætlar ekki að verða annar eins sjómaður og hann afi þinn“ (þ.e. Jón í Prestshúsum). En ekki var prestur sannspár, því að Stefán átti eftir að stunda hér sjóinn af miklu kappi og forsjá í rúma hálfa öld við mikinn og góðan orðstír, svo sem allir Eyjabúar vita.
Í réttunum voru samankomnar flestar jarðabændakonur Eyjanna. Heilsuðust þær margar innilega að gömlum sið og venju með kossum og fyrirbænum. Enn er mér í minni, hve margar þessar konur voru vel og snyrtilega klæddar. Læt ég lýsingu af klæðnaði þeirra fylgja hér með, eftir því sem ég man hann bezt. Flestar voru þær líkt klæddar.
Það er þá fyrst að telja: Hvítbryddaðir sauðskinnsskór, grænir að lit af blásteinsvatninu, sem skinnin voru lituð úr, svartir smábandssokkar, svart og skósítt pils (stakkpils), stórköflótt mittissvunta, aðskorin treyja með þröngum ermum, einhneppt og þétthneppt að framan upp í hálsmál. Efnið í þessum treyjum var útlent sirs oftast smádropótt eða teinótt. Þær voru kallaðar dagtreyjur og klæddu konur mjög vel.
Treyjur þessar voru dagleg ígangsflík hjá konum hér, þar til hversdagskjólar voru upp teknir um og eftir 1910.
Í réttunum voru flestar konur með fallegar þríhyrnur, þ.e. herðahyrnur, sem hnýttar voru með einum hnút á mjóbakinu. Þær voru ýmist úr ullarbandi eða útlendu ullargarni, ýmist prjónaðar eða heklaðar, með kögri og fallegum bekkjum og röndum. Þessar hyrnur notuðu konur hér yzt fata, þar til svokallaðar „golftreyjur“, er flestar konur nota nú til dags, komu í tízku um eða eftir 1920.
Á höfðinu báru konur oftast fallega dökka eða svarta, þunna ullarklúta, er þær hnýttu lauslega og létu þá vera aftantil á höfðinu. Margar konur notuðu einnig skotthúfur, þó að þær hefðu klútana. Oftast höfðu þær með sér strigasvuntu, sokka og verri skó, og báru þær þetta á milli í handarkrikanum, svo að lítið bar á, en fóru í þegar þær hjálpuðu í dilkunum við rúning o.fl. Sumar eldri konur höfðu þann sið að ganga báðar leiðir prjónandi, er þær fóru í réttirnar. Man ég eftir föðurömmu minni, Jórunni Skúladóttur á Kirkjubæ, Kristínu Gísladóttur á Búastöðum og Katrínu Eyjólfsdóttur á Vesturhúsum, svo að einhverjar séu nefndar af mörgum, sem höfðu þennan sið.
Áður en hægt var að reka féð inn í réttina, þurftu margir að lagfæra dilka sína, hlaða þá upp, ef hrunið höfðu, eða moka burtu sandi, er safnazt hafði fyrir í þeim í hvassviðrum. Þegar menn höfðu lokið því, sem sjaldnast tók langan tíma, kölluðu ráðamenn safnsins upp og báðu menn að sækja féð og sem flesta að koma „í Vænginn“. Að vera „í Vængnum“ var það kallað að standa sem þéttast saman út frá syðri réttardyrakampinum og niður að sjó. Var þarna oftast þétt staðið af fólki, ungu og fullorðnu, því að þar sótti féð mest á að sleppa, þegar það var rekið inn í réttina.
Að norðanverðu hélt stórgrýtið að fénu, þegar rekið var inn í réttina, og þurfti þar því fáa til varnar. Þar var kallað, að þeir „stæðu fyrir“ en ekki, að þeir færu „í Væng“.
Ávallt var féð það margt, að tvisvar varð að reka inn í réttina. Að haustinu, áður en lömb voru tekin heim eða sett á útigang í Úteyjar, varð að skipta safninu sem allra jafnast til helminga, svo að það kæmist inn.
Réttin, þ.e. Almenningurinn án dilka, mun hafa tekið 450 til 500 fjár og var þá troðfull.
Margir tómthúsmenn áttu fé hér og nokkrir þeirra jafnvel fleira en einstaka bændur sum árin. Leigðu tómthúsmenn haga af þeim á Heimalandinu og í Úteyjum gegn ákveðnu gjaldi. Einnig nutu þeir velvildar vina og vandamanna meðal bænda, til að fá að draga fé sitt úr safninu í dilka þeirra í réttinni.

E.G.