Blik 1959/Þáttur nemenda, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



ctr
(Fyrri hluti)


Þegar ég bjargaði lambinu

Það var sumarið 1957, að ég dvaldi í sumarbústað rétt fyrir utan Reykjavík. Sumarbústaðurinn stendur rétt við veginn, sem liggur upp í Mosfellssveit. Hinum megin við veginn stendur stórbýlið Korpúlfsstaðir. Þaðan fær Reykjavíkurbær nokkuð af mjólk sinni.
Svo var það einn sólbjartan dag í júlímánuði, að ég var send upp að Úlfarsá til þess að kaupa egg. En Úlfarsá er bær töluvert langt frá sumarbústaðnum.
Ekkert markvert gerðist á leiðinni. En þegar ég kom að veginum, sem liggur heim að bænum, mætti ég tveim vinnumönnum af bænum og varð þeim samferða. Heimvegurinn er töluvert langur. Þegar við vorum um það bil komin hálfa leið, kom kind hlaupandi á móti okkur. Okkur fannst hún haga sér eitthvað einkennilega. Það var eins og hún væri að biðja okkur um hjálp. Við litum í kring um okkur, en sáum ekkert sérstakt. Allt í einu heyrðum við jarm rétt hjá okkur. Þó var það ekki kindin, er jarmaði. Þá tók kindin sprett og hljóp niður af veginum og fór að hamast eitthvað þar. Við fórum nú að athuga þetta. Fundum við þá ræsi, sem lá gegnum veginn. Inn í þetta ræsi hafði lítið lamb skriðið, en þar sem ræsið þrengdist í annan endann, komst lambið hvorki gegnum ræsið né gat snúið aftur til baka, því að ræsið var of þröngt til þess. Þarna var lambið og gat ekki hreyft sig. Ræsið var allt of þröngt til þess, að mennirnir gætu skriðið þangað inn og líka of þröngt til þess, að ég gæti skriðið þangað.
Eitthvað varð að gera, en enginn sá neina úrlausn svona í hasti. Allt í einu kom mér ráð í hug. Ég reyndi að mjaka mér á maganum inn í ræsið með hendurnar á undan mér. Ekki gekk það sem bezt. En þar sem þetta var eina ráðið til að bjarga lambinu, tóku mennirnir í fæturna á mér og ýttu mér inn í ræsið. Þetta var ekki þægilegt, þar sem mikið var af smásteinum í ræsinu. Hefði farið svolítið meira fyrir mér, hefði þetta ekki verið hægt, því að svo var ræsið þröngt, að ég rétt komst þar inn. Loksins náði ég taki á afturfótum lambsins og kallaði til þeirra. Þá drógu þeir mig út. Það gekk svo að segja slysalaust. Auðvitað fóru þeir mjög varlega. Lambið hamaðist þarna eins og það gat í þrengslunum, en ég missti ekki tak á því.
Loksins var ég komin út með lambið. Kindin hafði staðið þarna allan tímann og horft á okkur vonar og bænaraugum, en nú skein út úr þeim þakklæti, — svo mikið þakklæti, að ég varð steinhissa.
Ég hafði oft heyrt, að skepnurnar gætu túlkað mikið með augunum. En því hafði ég aldrei trúað, að það væri svona augljóst.
Ég fékk eggin og fór heim í góðu skapi og ánægð yfir því að hafa orðið til bjargar lambinu. Dagurinn endaði hjá mér með því að þvo fötin mín og gera við það, sem hægt var að gera við, því að þau rifnuðu líka.
Lengi á eftir stóðu augu kindarinnar mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, og ég mun ekki gleyma þeim. Enginn gat betur þakkað mér fyrir þetta litla hjálparstarf, sem ég hafði innt af hendi.

Edda Hermannsdóttir, 3. bekk.

Á hornsílaveiðum.

Ég var vikadrengur í sveit. Það var heitt þennan dag. Okkur dauðleiddist, þar sem við sátum bak við hænsnakofann og sleiktum sólskinið. „En hvað það er drepleiðinlegt, þegar maður hefur ekkert að gera,“ sagði ég við félaga minn, hann Gvend. Hann samþykkti það letilega og lét fara eins vel um sig og hægt var. „Við megum hvorki veiða né elta hænurnar,“ sagði ég. „Eigum við samt ekki að fara að veiða?“ spurði ég. „Það þarf enginn að vita um það. Við verðum bara að vera nógu hyggnir.“ Svo afréðum við að fara á hornsílaveiðar.
En nú var það versta eftir: að fá einhversstaðar gott net.
Okkur kom saman um, að bezt mundi vera að nota nælonsokk til hornsílaveiðanna. Gvendur sagðist vita, að Stína vinnukona ætti marga marga nælonsokka og við gætum vel hnuplað einum frá henni. Nú reið á að fara nógu varlega, því að enginn mátti komast að þessu uppátæki okkar.
Herbergið hennar Stínu var alltaf opið á daginn, svo að þar var enginn vandi á ferðum. Gvendur stóð vörð, en ég opnaði hurðina á herberginu eins varlega og mér var unnt og smeygði mér inn fyrir. „Skárra er það nú draslið hjá henni Stínu,“ hugsaði ég og rótaði í því. Þarna voru púðurdósir, flestar tómar, varalitur, hárspennur, nælur, gerviblóm o.fl. o.fl. „Það er naumast hún Stína leggur mikið í sölurnar til þess að halda sér til fyrir honum Jóni fjósamanni,“ flaug mér í hug. Ég vissi ýmislegt. Ég skyggndist um eftir nælonsokkum. Í skáp einum fann ég hrúgu af þeim. Ég tók upp einn þeirra og skoðaði. Ég fleygði honum. Hann var götóttur. Annan fann ég rifinn. Í bréfpoka fann ég alveg nýja nælonsokka. Þetta voru víst sparisokkarnir hennar Stínu, en ég hugsaði með mér: „Þetta er allt í lagi. Við skilum honum í pokann aftur, þegar við höfum lokið veiðunum.“
Við læddumst nú út úr bænum og hröðuðum ferð okkar sem mest við máttum niður að læknum, þar sem við vissum sæg hornsíla.
Svo hófust veiðarnar. Við bundum þrjú bönd í sokkinn. Í tvö þeirra héldum við, en í hið þriðja bundum við dálítinn stein. Þannig hélzt sokkurinn opinn niðri í vatninu. Veiðarnar gengu ekki eins vel og ætla mætti, þar sem tveir þaulvanir hornsílaveiðarar voru hér að starfi, því að lengi vel fengum við ekki bröndu.
Loks grilltum við eitthvað í sokknum. Það reyndist vera brunnklukka, sem hafði álpazt inn í sokkinn í einhverju gáleysi.
Aftur lögðum við sokkinn í vatnið. — Skyndilega kom ég auga á lítinn silung. Hann hreyfði sporðinn ótt og títt, en hrærðist ekki úr stað sjálfur.
Ég benti Gvendi á silunginn. Við titruðum báðir af ákafa og spenningi. Nú varð silungurinn fyrir styggð og skauzt eins og elding, — hvert haldið þið? — Beint inn í sokkinn okkar. Um leið og við sáum það, kipptum við honum upp úr vatninu, en um leið sáum við, að stórt gat rifnaði á sparisokkinn hennar Stínu og silungurinn datt niður í hylinn aftur.
Mér varð svo mikið um þetta, að ég missti ráð og rænu og steyptist á hausinn í hylinn. Mér skaut upp nógu snemma til þess að heyra þetta: „Snáfið þið heim, ófétisstrákarnir ykkar. Þið ættuð að skammast ykkar! Skárra er það uppátækið!“ Þetta var hún Stína, sem talaði svona blíðlega til okkar. Hún hafði víst komizt að leyndarmálinu.
Stína togaði mig á hárinu og eyrunum upp úr vatninu, upp á lækjarbakkann, sneri mér þar við og gaf mér nokkur vel valin högg á hinn óæðri enda.
Við Gvendur biðum nú ekki boðanna en hlupum eins og fætur toguðu heim að bænum. Þegar þangað kom, var okkur skipað að hátta ofan í rúm og þar urðum við að dúsa það sem eftir var dagsins og svo auðvitað til næsta morguns. En annað kom verra: Við fengum ekki að fara í útreiðartúr næsta sunnudag. Og enn gat vont versnað: Við urðum að moka fjósið og reka kýrnar alla næstu viku.

Björn Í. Karlsson, Landsprófsdeild.

Hún er víst vansköpuð

Þegar ég var lítil, átti ég vinkonu, sem hét B... Eitt sinn heyrði mamma á tal okkar. Við vorum að þrátta um það, hvaðan litlu börnin kæmu. Mér hafði alltaf verið sagt eins og var. En hún B. var á öðru máli. Nokkrum dögum seinna segi ég við matborðið: „Mamma, veiztu það, að hún B. er víst vansköpuð.“ Allir horfðu á mig undrandi og spurðu, að hvaða leyti. Ekki gætu þau séð annað, en að hún væri eins og önnur börn. „Hún er víst vansköpuð, því að hún segir, að ljósmóðirin hafi komið með sig í tösku til hennar mömmu sinnar.

J., 3. bekk.

Minnisstæður atburður

Það var sólríkan sumardag, þegar ég var í sveit árið 1956, að ég ásamt öðrum dreng átti að fara í hrossaleit. Við röltum í hægðum okkar meðfram fjörunni með beizlin á bakinu.
Þegar við höfðum gengið góða stund, sáum við nokkra kópa liggja á skerjunum skammt frá landi. Við skemmtum okkur um stund við að kasta steinum út til þeirra, þangað til þeir steyptu sér allir í sjóinn. — Við héldum áfram. Það var sunnudagur, og við þurftum ekkert að flýta okkur.
Eftir skamma stund sýndist okkur eitthvað kvikt vera þarna nokkuð langt fyrir framan okkur. Við sáum það ekki greinilega. — Þegar við komum nær, sáum við, að þetta var tófa. Drengurinn, sem með mér var, fékk mér beizlið sitt, en hljóp sjálfur á eftir tófunni. Ekki leið á löngu, þar til ég lagði beizlin frá mér og tók til að elta líka tófuna. Allt í einu hvarf tófan bak við stóran stein. Þar töpuðum við af henni.
Við höfðum hund með okkur. Hann hljóp á eftir tófunni og við eltum hann. Hann nam loks staðar við dálítið op, sem var að mestu hulið stráum. Megnan óþef lagði upp úr holunni. Við gátum víðkað út opið með stórum hníf, sem ég bar við belti mitt. Þarna urðum við varir við tófuna inni í holunni. Hún hörfaði lengra inn í hana, er við tókum að grafa. — Allt í einu tók ég eftir nokkrum yrðlingum, sem voru að leika sér í fjörunni skammt frá okkur. Einn þeirra var að elta tjald, sem flögraði stein af steini og kom nú í áttina til okkar. Við földum okkur í skyndi bak við stein. Brátt kom yrðlingurinn alveg að steininum.
Við siguðum nú hundinum á yrðlinginn. Hann hljóp til sævar og á sund. Nú nutum við þess, að hundurinn var sundhundur. Hann tók þegar að synda á eftir yrðlingnum og náði honum brátt, beit í hnakkann á honum og kom með hann til lands. Þar tókum við hann og hlupum með hann heim. Hrossaleitin fór auðvitað öll út um þúfur, en nokkru síðar var grenið unnið að fullu.

Ingimar Pálsson, 1. C.

Jón í Koti

Í gamla, hrörlega húsinu við hliðina á búð Jóhannesar kaupmanns átti Jón gamli heima. Kot hét kofinn hans. Kötturinn Branda var það einasta, sem hann hafði lifandi hjá sér; ef til vill nokkrar kvikar lýs að auki.
Þegar Jón gamli reikaði um göturnar á daginn, var hann alltaf tötralega klæddur. Yfirleitt virtist gamli maðurinn ekki óska þess, að skipta geði við nágrannana í þorpinu. Krakkarnir gerðu gys að honum, þegar hann gekk um göturnar. „Sjá ykkur, óhræsin ykkar,“ hvæsti hann út úr sér af mikilli gremju.
Dag nokkurn gekk Jón til Jóhannesar kaupmanns og bað hann að gefa sér ögn af súkkulaði, „því að kisa mín á afmæli í dag, og mig langar til að gefa henni eitthvað fallegt í afmælisgjöf,“ sagði hann.
Þennan sama dag hafði Jóhannes kaupmaður átt í erjum við verzlunarfólkið sitt, og var því ekki í ákjósanlegu skapi, þegar Jón gamli í Kotinu kom. Kaupmaðurinn snerist snúðugt á hæli og hreytti út úr sér: „Þú átt að blygðast þín fyrir það að vera að sníkja gjafir; þú getur greitt sem aðrir, þar sem vitað er, að þú átt nóga peninga.“
Nokkra stund starði Jón gamli framan í kaupmanninn og sagði síðan í mikilli geðshræringu: „Ég borgað, — ég fátæklingurinn, sem ekki á eyri.“
Síðan sneri hann sér til dyra og gekk snúðugt út. Kaupmaðurinn horfði á eftir honum og sagði ekki orð.
Um kvöldið sat Jóhannes kaupmaður í hægindastól sínum og reykti pípu, en kona hans sat í stól á móti honum með sauma sína. „Mikið ertu eitthvað daufur í dálkinn í kvöld,“ mælti konan. „Mér líður hálf illa og býst ekki við að geta sofið mikið í nótt,“ sagði kaupmaður. ,,Hafðu ekki svona miklar áhyggjur af búðarfólkinu. Þú hlýtur að geta fengið annað starfsfólk, ef ekki semst.“
„Það er ekki það, sem veldur mér ama,“ sagði kaupmaður; ,,ég var vondur við hann Jón gamla í Kotinu í dag, svo að hann fór frá mér hryggur og reiður. Mig langar til að bæta fyrir þetta og gefa honum eitthvað.“
„Hann gleðst vissulega við það,“ sagði kaupmannskonan.
Eftir dálitla stund gekk Jóhannes kaupmaður út úr húsi sínu með böggul undir hendinni, og var á hann skrifað: „Til Jóns Jónssonar í Koti og Bröndu hans.“
Þegar kaupmaður nálgaðist húsvegginn hjá Jóni, sá hann, að gamli maðurinn sat við borðið sitt og var að tauta eitthvað fyrir munni sér. Svo sá hann gamla manninn steyta hnefana, eins og hann væri að heita einhverju. Kaupmaður varð forvitinn, gekk að glugganum og hlustaði: „Ég skal, ég skal, og þú Branda mín líka. Við skulum ganga aftur, þegar við hrökkvum upp af, og klóra Jóhannes kaupmann heldur óþyrmilega. Þá skulum við kvelja hann.“
Kaupmaður varð undrandi, er hann varð áskynja allrar þessarar heiftar. „Kvelja hann; ganga aftur; það munar ekki um það,“ hugleiddi kaupmaður. „Er þorandi að ganga inn? Ræðst hann ekki á mig með hníf í hendi?“ hugsaði kaupmaður.
Hann afréð að ganga inn til Jóns, hvað sem það kostaði. Hann opnaði útidyrnar. Þar tók við dimmur gangur. Næstu dyr voru að herberginu, þar sem Jón gamli sat og ræddi við kisu. Þegar Jón sá, hver opnaði dyrnar, rauk hann upp af stólnum, greip spýtu, sem þar var tiltæk, og bjó sig til að berja kaupmanninn. Um leið og Jón gamli reiddi spýtuna til höggs, rak hann hana í stóra mynd af Napoleon mikla, sem þar hékk á veggnum. Myndin féll niður af naglanum. Að baki hennar hafði Jón geymt dálítinn tréstokk, sem féll á gólfið. Við fallið hrökk lokið á kassanum upp og bunki af 100 kr. seðlum valt fram úr kassanum, þar sem hann lá á hliðinni.
„Hjálpi mér hamingjan, nú fór illa,“ sagði Jón gamli og greip peningana upp af gólfinu. Varð hann nú auðmjúkur og niður beygður eins og þjófur, sem staðinn er að verknaði. Jón bað nú kaupmanninn að vægja sér, kæra sig ekki fyrir skattsvik og segja engum annars frá peningaeign sinni.
Jóhannes kaupmaður lofaði því; kímdi þó innra með sér og vorkenndi gamla manninum vesalmennskuna. Afhenti nú kaupmaður Jóni gamla gjöfina og gladdist hann innilega. Það hefir kisa hans sjálfsagt líka gert.

Óskar Björgvinsson, 4. bekk.

VERÐLAUNAVEITING.
Á skólaárinu 1957—1958 efndi Bindindisfélag íslenzkra barnakennara til ritgerðarkeppni meðal netnenda 3. bekkjardeilda í mið-, héraðs- og gagnfræðaskólum landsins. Ritgerðarefnið var ÆSKAN OG ÁFENGIÐ. Þátttaka skólanna í keppni þessari var ekki mikil. Þó tóku 8 skólar þátt í henni. Sjö verðlaun voru veitt. Af þeim hlutu nemendur Gagnfræðaskólans hér fern af verðlaununum. Hér birtum við mynd af verðlaunahöfunum.
Frá vinstri: Valur Oddsson, 3. verðl. kr. 200,00; Hermann Einarsson, 2. verðl., kr. 300,00; Þorbjörg Jónsdóttir, 3. verðl., kr. 200,00; Sigurjón Jónsson, 2. verðl., kr. 300.


Dýr, sem ég unni

Þegar ég var 11 ára, bjuggum við í Borgarnesi. Við systurnar áttum þá 2 litla kanarífugla, sem pabbi hafði gefið okkur. Það var kvenfugl og karlfugl. Þau voru bæði gul á lit, en það mátti þekkja þau í sundur á því, að hann hafði brúnan blett á hnakkanum og dálítið niður á bakið. Einu sinni, þegar föðuramma mín dvaldi hjá okkur, sýndum við henni fuglana og báðum hana að gefa þeim nöfn. Hún kallaði þá Hans og Grétu, og eftir það kölluðum við þá það alltaf.
Fyrst í stað var áhuginn svo mikill að gefa þeim að borða og hreinsa búrið, að við rifumst um það. En smátt og smátt fór áhuginn að dvína og þetta var ekki eins gaman og fyrst. Það fóru að koma tilsvör í þessum dúr: „Æ, getur þú ekki gert það í dag, ég skal gera það á morgun.“ „Nei, þú átt að gera það núna.“
Já, svona gekk þetta, en stundum, þegar ég stóð við búrið þeirra, þá fór ég að hugsa um það, hvernig við gætum verið svona vondar og kærulausar um þessi litlu fallegu dýr. Það var svo gaman að sjá þau fljúga um og heyra þau syngja. Og svo skemmtilegt að horfa á þau. Sjá, hvað hún var mikið hreinlegri en hann, alltaf að snurfusa sig og þvo sér, en hann reigði sig og teygði á prikinu sínu og lézt vera meiri en hún, og hátt yfir hana hafinn. Hún tók þessu öllu með ró og hélt bara áfram að þvo sér.
Svo var það dag einn, er ég var frammi í eldhúsi eitthvað að hjálpa til, að ég heyrði mikið garg og óhljóð innan úr herberginu, þar sem fuglarnir voru. Ég flýtti mér inn, en snarstanzaði og starði steini lostin á búrið. Þarna lá Gréta (kvenfuglinn), með stórt sár á hálsinum og blóðið lagaði úr henni. Hún var dáin. Hans (karlfuglinn) hafði bitið hana til bana. Ég stóð þarna dálitla stund, og það var eins og eitthvað hefði slitnað eða brostið innra með mér. Mig langaði mest til að gráta. Ég fór svo fram aftur og sagði mömmu þetta.
Hún tók fuglinn og lét utan um hann og við telpurnar jörðuðum hann úti í garði. Mér fannst eins og Hans væri mikið daprari eftir þetta. Áður hafði maður vaknað við söng þeirra, en nú var eins og hann gæti ekki komið upp nokkru hljóði. Svo var það einn morgun, að yngsta systir mín, sem var þá 2—3 ára, kom upp í rúmið til okkar og fór að segja okkur, að litli fuglinn væri sofandi, og ætlaði að fá sængina mína til að breiða ofan á hann. Við hlógum bara að henni, en hún fór fram úr rúminu og sagði okkur að koma og sjá. Við fórum fram úr. Hans lá á botni búrsins eins og sofandi, en hann var dáinn.
Við urðum allar þöglar og horfðum á litla fuglinn okkar, sem lá þarna lífvana. Við tókum svo fuglinn og jörðuðum hann við hliðina á sinni heittelskuðu.
Ég veit ekki úr hverju Hans dó, en mér er næst að halda, að hann hafi dáið úr hjartasorg, (ástarsorg).

Brynja Hlíðar, 3. bekk.






Lúðrasveit Gagnfræðaskólans leikur fyrir skrúðgöngu barna til Landakirkju, 1. sumardag 1958. Stjórnandi er Oddgeir Kristjánsson, söngkennari barnaskólans og stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja.





Veiðiför og iðrun

Þegar ég var tólf ára, fiktaði ég við að búa mér til teygjubyssu, sem ég ætlaði mér ekki neitt sérstakt með. Einn dag kom mér þó í hug, að gaman væri að reyna að skjóta lunda uppi í Heimakletti. Ég fékk vin minn með mér, og lögðum við svo af stað kl. 1 e.h. Þegar upp í „Klett“ kom, sáum við marga lunda „í færi“ og komumst í vígahug. Við hófum nú skothríð af miklum móði. Eftir dálítinn tíma hitti ég lunda í vænginn. Hann varð ófleygur, því að vængurinn brotnaði. Við hlupum glaðir og kappsamir að fuglinum. En þegar við sáum fuglinn liggja þarna hjálparvana og særðan í blóði sínu, rann af okkur vígamóðurinn. Við iðruðumst nú sáran þess, sem við höfðum gert, og tárin komu fram í augun. Okkur lá við gráti. Við tókum fuglinn milli handa og hlupum með hann heim í bæ. Fyrsta mann, sem við hittum þar, spurðum við, hvað væri til ráða. „Ekkert annað en deyða fuglinn,“ sagði maðurinn. Það gerði hann þegar eftir beiðni okkar.
Þannig fór þá um þessa veiðiför okkar. Teygjubyssunni hentum við í höfnina og liggur hún þar. Við vorum sárir eftir þessa veiðiför bæði af iðrun og blygðunartilfinningu. Við hétum því saman að gera þetta aldrei aftur. Ég er viss um, að við efnum það heit báðir.

Atli Einarsson, 3. b.

Sannleikurinn er sagna beztur

Þessar stúlkur reyndust hlutskarpastar og seldu mest af riti skólans í fyrra.
Guðmunda Ingibergsdóttir, Sandfelli t.v. og Þórey Guðjónsdóttir, Svanhól.

Við vorum margir saman í knattspyrnu þennan laugardag. Til að breyta til svona einu sinni fórum við út á tún ekki alllangt frá vellinum. Svo hófst leikurinn, og var hann afar fjörugur. Þegar „fjörið“ stóð sem hæst, ætlaði ég heldur en ekki að skora mark, en sparkaði þá knettinum langt fram hjá markinu. Og ekki aðeins það, heldur fór knötturinn beina leið í rúðu á húsi, sem stóð þarna skammt frá. Rúðan mölbrotnaði. — Knötturinn var sóttur í flýti, og svo tók allur herskarinn til fótanna og hljóp í hvarf. Ég einnig, sökudólgurinn.
Maðurinn, sem bjó í húsinu, var alræmdur fyrir skapvonzku sína, og þess vegna var mér það ríkast í huga fyrst í stað, að komast undan sökinni. Burt komumst við, án þess að nokkur veitti okkur eftirtekt. Þóttumst við þá hafa sloppið vel. Ég hafði þannig sloppið við illsku „karlsins“, en samt ól ég ama í brjósti. Þegar ég tók að hugleiða atburðinn, sá ég, að ég hafði farið þveröfugt að við það, sem skátalögin mæla fyrir um og ég lofað að efna og halda. Ég afréð því, „að taka mig saman í andlitinu“ og arka til mannsins og biðja hann afsökunar og bjóðast til að greiða skaðann.
Þegar ég svo dróst upp tröppurnar á húsinu með brotnu rúðuna, hefir hjartað sjálfsagt verið komið niður fyrir beltisstað. Eftir að ég hafði drepið á dyr, fannst mér það slá alveg niður í skónum.
Eftir andartak kom sjálfur húsráðandinn til dyra. Ég skalf nú eins og hrísla og hugsaði: „Hann rassskellir mig, ef ég segi honum það.“
„Geturðu sagt mér hvað — hvað klukkan er?“ stundi ég upp.
„Hvað?“ drundi í karlinum, „ætlar þú að segja mér, að þú hafir aðeins komið hingað til þess að spyrja um klukkuna?“
„Ne—nei,“ sagði ég. „Það var ég, sem gerði það.“
„Hvað?“
„Ég braut rúðuna hjá þér í dag.“
Nú hló maðurinn. Hann skellihló. Svo sagði hann: „Komdu hérna inn.“ Nú tók hjartað mitt sér stöðu fremst í stórutá. „Nú fæ ég fyrir ferðina,“ hugsaði ég. Átti ég að voga? —
Maðurinn reyndist hinn bezti og fyrirgaf mér af heilum hug.
Þegar ég gekk niður tröppurnar aftur, fann ég, að hjartað sló á sínum gamla góða stað.
Skáti á að vera drengilegur í allri háttsemi og skal hiklaust kannast við yfirsjónir sínar eða misgerðir. Það getur verið erfitt. En með því móti hreinsast samvizkan, og vel leið mér fyrir brjóstinu, er ég arkaði niður tröppurnar frá húseigandanum.

A.



ctr

11. des. 1958 bauð Rotaryklúbbur Vestmannaeyja 4. bekkjarsögn Gagnfrœðaskólans með skólastjóra til kaffidrykkju í Akogeshúsinu. Myndin er tekin, meðan setið var undir borðum.
Frá vinstri: Valtýr Snœbjörnsson, smiður; Jónas Jónsson, fulltrúi; Sveinn Guðmundsson, bæjarfulltrúi; Ólafur St. Ólafsson, forstjóri; Haraldur Guðnason, bókavörður; Sigurður Finnsson, skólastjóri barnaskólans, forseti Rotaryklúbbsins, Þorsteinn Þ. Víglundsson; Sigurður Ólason, forstjóri; Friðþjófur Johnsen, héraðsdómslögmaður; Stefán Árnason, yfirlögregluþjónn (lengst til hægri).


Síðari hluti