Blik 1959/Ísaár í Eyjum
Til þess að auka okkur skilning á lífsbaráttu þjóðarinnar frá fyrstu tíð, er okkur brýn nauðsyn að skyggnast í sögu veðurfars og árferðis, þar sem íslenzka þjóðin hefur ávallt átt svo mjög afkomu sína undir „sól og regni“, afkoma og líðan hennar verið mjög háð veðurfarinu og öðrum öflum náttúrunnar hverju sinni.
Það leikur tæpast á tveim tungum, að veðurfar hefur á undanförnum áratugum farið hlýnandi hér á landi. Eyðing íslenzkra jökla er þar ef til vill gleggsta sönnun leikmanninum. Hafstraumar umhverfis landið hafa að öllum líkindum breytzt nokkuð íslenzku þjóðinni í vil. Þann grun sannar ef til vill bezt yfirlit um ísaárin frá öndverðu. Vegna legu Eyjanna var hafísinn jafnan sjaldgæfur við Vestmannaeyjar, þó að hann væri tíður vágestur við strendur annarra landshluta.
Einangrun Eyjanna og Eyjabúa olli því einnig, að annálaritararnir höfðu litlar og óglöggar sögusagnir af lífi fólksins þar úti í hafinu.
Frásagnir um ísrek við Eyjar byggjast næstum einvörðungu á því, sem sást frá landi. Hlytust hins vegar manntjón eða skiptapar af ís við Eyjar eða öðrum váöflum, þótti það í frásögur færandi, þó að seinna yrði.
Þegar svo áraði, að hafís hefti bjargræði Eyjabúa til sjávarins, og fylgifiskur hans, kuldinn, dró úr öllum gróanda eða hnekkti honum, sat hnípið fólk í Eyjum, matarlítið, klæðlítið og kalt, því að eldiviðarleysið svarf þar alltaf að, ekki sízt á ísaárum.
Hér birtum við til fróðleiks og glöggvunar lit yfir helztu ísaárin við Vestmannaeyjar eftir þeim heimildum, sem tök eru á að afla sér. Er þar mest stuðzt við bók Þorvaldar Thoroddsens, Árferði á Íslandi í þúsund ár, en höfundurinn hefur fært þar saman í eitt frásagnir í annálum og árbókum um árferði á Íslandi og ísarek við strendur landsins frá fyrstu tíð til upphafs 20. aldar.
Á 13. öld taka annálar að minnast á hafís við og við. Hans er 6 sinnum getið í annálum frá þeirri öld, 8 sinnum á 14. öldinni, aðeins tvívegis á 15. öldinni og 9 sinnum á 16. öld.
Eftir því sem annálarnir fara vaxandi og meira er ritað um hendingar og hagi þjóðar, er hafíss tíðar getið. Mest er hans og oftast getið í annálum og öðrum skrifum síðustu aldar, enda þá blaðaútgáfa hafin og með henni ný ritöld, sem verður upphaf þeirrar skriffinnskualdar, er við nú lifum á.
Þorvaldur Thoroddsen telur enga ástæðu til að ætla, að ísaár hér á landi hafi ekki verið jafn tíð fyrr á öldum eins og á 18. og 19. öld, þó að þeirra sé eigi getið eins jafnaðarlega í bókmenntum þjóðarinnar.
1320. Hafísar lágu umhverfis Ísland fram á mitt sumar. Skiptjón varð í ísnum fyrir Austfjörðum og komust allir menn á land heilir og lífs. Önnur tvö skip braut í ísnum, annað við Eyjar, hitt fyrir norðan Langanes.
1321. Þetta ár einnig lágu ísar kringum landið og má því ætla, að ísinn hafi þá nálgast Eyjar eða jafnvel umkringt þær.
1348. Þetta ár var frostavetur svo mikill á landi hér, að „freri sjóinn umhverfis landið, svo að ríða mátti af hverju annesi og um alla fjörðu og flóa.“ Er þá og sennilegt, að ís hafi legið við Eyjar.
1470. Þetta ár er ís sagður liggja umhverfis land allt fram á sumar.
1552. Séra Jón Egilsson greinir frá því í ritum sínum, að á öndverðum biskupsdögum Marteins Einarssonar í Skálholti hafi komið svo mikill hafís syðra, að hann lá út á sæ meira en viku sjávar og tók langt út fyrir Þorlákshafnarnes. Hann kom fyrir vertíðarlok um sumarmál.
1605. Ís lagðist að öllu Austurlandi, rak allt um kring að austan og sunnan „ofan fyrir Grindavík“ um vertíðarlok.
1610. Þá kom hafís fyrir sunnan, (líklega frá Austurlandi), og var mikill selfengur á; þá var björn unninn í Herdísarvík.
1615. Rak inn ís fyrir norðan land á Þorra og kringdi um allt land. Hann rak ofan fyrir Reykjanesröst og um Voga og fyrir öll Suðurnes; engir mundu ísrek skeð hafa sunnan fyrir röst. Var þá seladráp á ísi um Suðurnes. Hafís var svo mikill fyrir sunnan, að ekki varð róið fyrir sunnan skaga (Garðskaga?), og drukknuðu á honum tveir menn er fóru að seladrápi. Þá brotnuðu hafskip víða í ísi.
1639. Ís við land allan veturinn. Kom hann austan fyrir landið og svo fyrir Suðurnes. Stóðu af honum mikil harðindi.
1694. Hafísar miklir komu fyrir norðan og austan allt fyrir Eyrarbakka og Vestmannaeyjar. Stóð af ísnum óáran nyrðra, og þaðan fór ísinn ekki fyrr en eftir alþing.
1695. Óvanalega miklir hafísar. Ís rak um veturinn upp að Norðurlandi og lá hann fram um þing. Norðan veður ráku ísinn austurfyrir og svo suður. Var hann kominn fyrir Þorlákshöfn fyrir sumarmál. Sunnudaginn fyrstan í sumri (14. apríl) rak hann fyrir Reykjanes og Garð og inn á fiskileiðir Seltirninga og að lokum að Hvalseyjum og í Hvítárós. Fór hann inn á hverja vík. Hafði ís ei komið fyrir Suðurnes innan 80 ára*. Þótti því mörgum nýstárlegt og undrum gegna um komu hans. Þá mátti ganga á ísum af Akranesi í Hólmakaupstað (Reykjavík), og var ísinn á Faxaflóa fram um vertíðarlok rúmlega. Braut hann skip undan 6 mönnum fyrir Garði, en þeir gengu allir til lands. Litlu eftir vertíðarlok urðu frakkneskir hvalveiðimenn að ganga af skipi sínu í ísi fyrir Reykjanesi; 8 skozkum mönnum var bjargað af ísjaka í Vestmannaeyjum. Höfðu franskir víkingar rænt þá, flett þá klæðum og látið þá svo út á ísinn allslausa. Nyrðra sást eigi út yfir ísinn af hæstu fjöllum. Syðra sást út fyrir hann og kaupskipin fyrir utan, sem hvergi komust að landi, og eigi varð heldur komizt til þeirra. Komust menn í mikla þröng af siglingarleysinu, því að flest vantaði, er á þurfti að halda, kornvöru, járn, timbur og veiðarfæri.
*Hér virðist gleymast árið 1639. (Þ.Þ.V.)
1705. Mánudaginn á miðri góu rak inn hafís fyrir norðan land. Lá hann fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi allt fram að Jónsmessu. Ísinn rak austur fyrir land allt að Landeyjum og hrakti hann þá burt aftur. Hinn 7. maí var hann kominn fyrir Eyjafjöll.
1745. Hafís var þá fyrir öllu Norðurlandi og rak inn á hvern fjörð, og nálega komu ísar kring um allt land. Hafís rak þá einnig fyrir Suðurland.
1756. Þá rak inn hafís á einmánuði fyrir öllu Norðurlandi, inn á hvern fjörð, og fyrir allt Austurland og suður til Vestmannaeyja. Hann hindraði allar skipagöngur og fór eigi frá landi fyrr en 25. ágúst.
1759. Mikill ís við Norðurland og hafís rak niður með Suðurlandi undir Vestmannaeyjar.
1817. Þann vetur var mikill ís fyrir austan og vestan. Hafíshroða rak þá að austan út fyrir Eyjafjöll og Vestmannaeyjar.
1821. Mest allt sumarið var ísinn að hrekjast fyrir Austfjörðum, unz hann rak burt í norðanstormi 20. ágúst, rak suður á bóginn og sást frá Vestmannaeyjum.
1826. Það ár var einkennilegt ísrek fyrir Suðurlandi. Hinn 26. maí sáust frá Vestmannaeyjum í hægu og heiðskíru veðri hafþök af ís, sem rak með 3-4 mílna ferð frá Dyrhólaey vestur með landi til Eyjanna. Þegar ísinn náði Elliðaey og Bjarnarey, stóðu nokkrir jakar grunn fyrir austan og suðaustan þær og stórir fjalljakar staðnæmdust fyrir sunnan Bjarnarey á 60 faðma dýpi. Ísinn þakti gjörsamlega sundið milli lands og eyja, en ekki var hægt að sjá út yfir þann ís, er rak fyrir sunnan Vestmannaeyjar, svo langt náði hann til hafs. Þetta ísrek var 4-5 klukkustundir að fara fram hjá eyjunum. Meðan á ísrekinu stóð, var svo kalt í Vestmannaeyjum, að varla var hægt að bræða hélu af gluggum, þó að lagt væri í ofna.
1835. Ísinn komst snemma austur fyrir og rak í maímánuði suður með landi allt út í Grindavík, og á fjórðu viku í sumri fyllti hann sundið milli Eyjafjalla og Vestmannaeyja, svo að þar sá hvergi í auðan sjó.
1840. Seint í janúar lá ís landfastur við Norðurland. Stöðugir vestanvindar voru allan marzmánuð og lónaði þá ísinn austur með landinu „og hafði viðlíka ferð eins og siglandi bátur í hægum byr,“ eins og skráð er í skrifum frá þeim tíma.
Um vorið kom ísinn upp að Suðurlandsundirlendi allt suður að Reykjanesi og lá þar rúman hálfan mánuð, en rak svo suðaustur í haf. Einstakir jakar sáust þá líka við Suðurland allt til Vestmannaeyja.
1859. Skip, sem sigla skyldi til Austfjarða um vorið, mætti hafís miðleiðis milli Færeyja og Íslands, og íshroða rak fram hjá Dyrhólaey og suður með Reykjanesi.
1881. Mikill ísavetur og hinn mesti frostavetur. Þá lagði ísa norðan að öllu landinu á svæðinu frá Látrabjargi, norður, austur og suður að Eyrarbakka. Hafísinn hafði komið upp undir Norðurland í lok nóvembermánaðar árinu áður, og varð hann um jólin landfastur við Vestfirði norðan til og við Strandir, rak þar inn á hvern fjörð og voru hafþök fyrir utan.
Þegar í miðjum janúar var ísinn kominn fyrir Múlasýslur og 17. jan. á Berufjörð.
Hafísinn rak líka fyrir Skaftafellssýslur og var kominn fyrir Hornafjörð 19. jan. Fyrir Meðalland rak fyrsta íshraflið um janúarlok, en síðan kom hella mikil, sem ekki sást út fyrir. Náði ísbreiða þessi út á 30-40 faðma dýpi fyrir Meðallandi og stóð þar við í viku.
Í góubyrjun var ísinn farinn frá Skaftafellssýslum, rekinn vestur með, fyllti um tíma flóann fyrir Eyrarbakka og rak í marz, vestur með Reykjanesi.
Lagnaðarísar voru miklir í kring um land allt. Um miðjan janúar var Faxaflói lagður út fyrir eyjar. Var þá gengið yfir Hvammsfjörð, af Akranesi til Reykjavíkur og á land úr Flatey á Breiðafirði.
1888. Hafíss varð þegar vart í janúarmánuði við útkjálka á Hornströndum, Grímsey og Melrakkasléttu. Við Raufarhöfn lá ísinn frá jólum til miðs júnímánaðar.
Í júníbyrjun sást ísinn frá Loftsstöðum í Árnessýslu og fyllti hann höfnina í Vestmannaeyjum, „svo að menn komust ekki til skipa nema yfir ís“. Þá lá hrannaís austur með ströndum og íshella við Dyrhólaey.
1902. Við Strandir, á Húnaflóa og Skagafirði var allt fullt af ís. Fram með öllu Austurlandi lá ísinn frá Langanesi suður á Papaós, svo að hvergi var hægt að komast inn á firði, og íshroði nokkur var þá á reki suður og vestur með landi allt til Vestmannaeyja.