Blik 1958/Síðasta seglskipið

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 19581958, bls. 96.jpg

JÓN Í SIGURÐSSON, hafnsögumaður:


Síðasta seglskipið


Þann 27. desember 1930 kom hingað til Vestmannaeyja síðasta farmseglskipið. Skip þetta hét „San“ og flutti timburfarm til verzlunar Gísla J. Johnsen, hinn síðasta til hennar.
Við skip þetta eru mér tengdar sérstakar endurminningar. Ég er einn á lífi af þeim mönnum, sem sóttu skipið norður fyrir Eiði og færðu það til hafnar með leiðsögn Hannesar Jónssonar lóðs. Á „San“ var fimm manna áhöfn.
Þennan dag var vindur austan suðaustan 6—7 stig framan af degi og allmikill austan sjór. Klukkan 9 um morguninn fórum við inn fyrir Eiði á v/b Heimaey, VE 7, sem var stór vélbátur á þess tíma mælikvarða eða rúmar 29 lestir, og með Tuxhamvél. Þessi bátur hafði talstöð, sem var algjör nýjung hér þá; hann var fyrsti bátur hér í Eyjum með þá tækni innan borðs. Bátinn átti Gísli J. Johnsen kaupmaður.
Þegar við komum um borð í „San“, þar sem skipið lá fyrir akkeri fyrir innan Eiði, var hafizt handa um að létta legugögnum. Ætlunin var, að „Heimaey“ drægi skipið austur fyrir Klettsnef og inn á höfn. All erfiðlega gekk að létta akkerinu, enda voru tækin ekki góð til slíkra hluta. Akkerisvindan var stór trésívalningur með tannhjólagrópum um miðjuna. En í sambandi við tannhjólið, sem greip í grópin, var komið fyrir tveim vogarörmum, sem lágu þvert á öxul vinduássins. Með því að vega þessa vogararma upp og niður með handafli, féllu hömlur frá voginni í gróp tannhjólsins, og orkaði þannig á vinduásinn, að hann snerist og vatt um leið upp á sig akkerisfestina. Þrjú vöf af festinni voru höfð um vinduásinn. Þegar þurfti að gefa út festina eða láta akkerið falla, varð að draga festina yfirum af vinduásnum með handafli. Jafnframt þurfti að draga hana upp úr festarkassanum. Þetta allt var erfitt verk og tímafrekt, enda gekk það oft fremur seint að varpa akkeri miðað við það, sem nú er á flestum skipum.
Eins og áður er sagt, byrjuðum við að draga upp akkerið, en það gekk skrikkjótt. Tvívegis átti það sér stað, þegar komið var að beinni niðurstöðu, að allt stóð fast. Þá var ályktað, að festin eða akkerið væri fast í botni. Var þá festin gefin út aftur og skipið látið reka og taka í festina. Allt án árangurs. Þegar festin hafði verið dregin inn að niðurstöðu í þriðja sinn, tók stýrimaðurinn eftir því, að festarlás stóð fastur í festarsmáttinni (kluss). Eftir að hann hafði verið losaður, gekk vel að ná akkerinu upp. Höfðum við þá verið í 3 1/2 klukkustund að létta. Allan þann tíma beið „Heimaey“ hjá okkur reiðubúin til að draga „San“ í höfn.
Var þá dráttartaug fest á milli skips og báts og haldið af stað.
Eins og áður er á drepið, var allmikill austan sjór. Þegar við vorum komnir austur í Faxasund, fór að ganga hægt. Að lokum slitnaði dráttartaugin. Þá sló „San“ yfir til bakborða og rak nú fyrir straumi og vindi í áttina að Faxaskeri. Skipið valt gífurlega, þar sem það lá flatt fyrir öldunni, og tók sjó á bæði borð yfir öldustokka. Sigluráin sleit sig lausa úr klofa sínum og slóst milli borða. Er hér var komið, stóðu stýrimaður og háseti frammi á skipinu, en við hinir aftur á með skipstjóra, lóðs og háseta. Nú skipaði Hannes lóðs að draga upp fokkuna og festa skautið stjórnborðsmegin. Hið fyrra gerði stýrimaðurinn umsvifalaust en festi skautið bakborðsmegin gegn skipan Hannesar. Þar sem þessi óhlýðni stýrimanns gat haft alvarlegar afleiðingar og okkur lífsnauðsyn að ná skipinu undan sem allra fyrst, þar sem það rak að skerinu og var komið ískyggilega nærri því, bað Hannes okkur tvo að fara fram á, vera fljóta, festa fokkuskautið stjórnborðsmegin og strengja vel. Við urðum að sæta færi vegna sjóa að komast fram á skipið, en það gekk þó vel. Átök kostaði það við stýrimanninn að hagræða seglinu eftir boði Hannesar. Svo mikilvægt fannst Hannesi, að boði hans væri hlýtt, að hann kom sjálfur í skyndi fram á skipið, þó að viðsjárvert væri, er við vorum að festa skautið stjórnborðsmegin, og var hann þó ekki orðinn eins léttur á sér og áður sökum aldurs. Hann var sannkölluð hetja og víkingur að dugnaði, áræði og útsjón. Ef seglskautið hefði verið fest bakborðsmegin eins og stýrimaðurinn ætlaði sér, hefði skipið sótt meira upp í vindinn og eflaust lent á Faxaskeri, enda vorum við það nálægt því, að vélbáturinn gat ekki lagt að ,,San“ eftir að dráttartaugin slitnaði.
Eftir að skipið var sloppið fram hjá skerinu, voru öll segl dregin upp og siglt inn á Ál. Síðan var slagað austur með Sandi, unz hægt var að sigla beitivind suður flóann fyrir vestan Elliðaey og síðan inn á Víkina. En þar kom Heimaey okkur til aðstoðar og dró okkur inn á innri höfn.
Komið var myrkur, er við fórum inn á milli hafnargarðanna. Af þeim sökum var öll aðstaða verri við að festa skipið við hafnarfestarnar. Akkerið var látið falla, er við héldum, að við værum komnir inn fyrir þverfestina, er framtaumarnir (Sjá Blik 1957) voru tengdir við. En síðar kom í ljós, að svo var ekki, og féll akkerið utan við ætlaðan stað.
„San“ snerist yfir til stjórnborða á akkerisfestinni, en öll segl höfðu nú verið felld að undanteknu afturseglinu, sem var haft uppi til þess að auðvelda snúning skipsins um akkerisfestina. Einnig kom nú árabáturinn til aðstoðar. Í hann var tekinn stálvír, sem festur var í afturtauminn. Vírinn var dreginn á handafli inn í skipið með því, að hann var dreginn gegnum þrískorna hjólklofa (blakkir) í skipinu og tvískorna við tauminn. Þegar hjólklofarnir komu saman, voru þeir færðir sundur á ný, þar til festartaumnum hafði verið náð inn í skipið og hann festur þar. Allt tókst þetta að lokum þrátt fyrir slæma aðstöðu.
Við vorum alls 9 1/2 klukkustund að sækja „San“ inn fyrir Eiði og ganga frá því á höfninni. Þetta var óvenjulega langur tími. Enda fannst þeim svo, er í landi voru, því að skipaafgreiðsla Gísla J. Johnsen sendi v/b Soffíu, VE 226, út til okkar, þegar á daginn leið, til þess að vita, hvernig okkur gengi. Þá munaði minnstu, að illa færi fyrir bátnum, því að bátsvélin stanzaði rétt utan við syðri hafnargarðinn. Þar sem allmikill austansjór var og vindbræla, eins og áður segir, rak bátinn að garðinum. Báturinn lét akkeri falla, en það kom að litlum notum vegna nálægðar hans við hafnargarðinn. Á síðustu stundu tók vélin aftur á rás, svo að öllu var borgið frá þeim örlögum, er annars hefðu beðið báts og áhafnar eins og v/b Njáls og skipshafnar hans á sömu slóðum nokkrum árum áður.
Þessari síðustu hafnarleiðsögn til handa seglknúðu farmskipi hingað lauk þess vegna betur en áhorfðist í fyrstu. Hið sama mætti segja um margar slíkar ferðir okkar fyrr og síðar. Lánið hefir þar jafnan verið með í förum.

J.Í.S.