Blik 1958/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1958



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON, skólastjóri:


HUGVEKJA
flutt í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum
haustið 1957


Nemendur.

Fyrir skömmu var ævintýrið um konungssoninn hamingjusama lesið upp í Ríkisútvarpið. Flaug mér þá í hug sem svo oft áður, að líta mætti á ykkur sem konungssyni og konungsdætur, sem væru hér til þess að búa sig undir lífið, undir hamingjuleitina á lífsins leið, þetta, sem við þráum öll og viljum umfram allt höndla í lífinu.
Auðvitað hafið þið öll lesið ævintýri um börn og unglinga, sem mjög syrtir í álinn fyrir um hamingjusama framtíð bæði sökum fátæktar og vonds fólks, sem að þeim standa og örlög þeirra virðast hafa í hendi sér, svo sem slæmar stjúpur o.fl. En hafið þið nokkru sinni, nemendur mínir, gert ykkur glögga grein fyrir því, hvað það er oftast, sem höfundar ævintýranna láta bjarga þessu óhamingjusama æskufólki úr neti ógæfunnar og leiða það fram til heilla og hamingju í lífinu?
Þessi ævintýri hafa mjög mörg verið jafnan talin með gimsteinum heimsbókmenntanna og hafa flutzt úr einu landi í annað og eru lesin um allan hinn læsa heim. Hver mundi vera ástæðan?
Höfundar ævintýra þessara hafa verið næmir mannþekkjarar og mannlífshugsuðir, og ævintýrin þeirra boða okkur helg og óbifanleg lífssannindi, sem eiga erindi til allra. Hver eru svo þessi lífssannindi? Þau eru það, að tilfinningalíf og viljalíf okkar mannanna ráði meira um örlög okkar og lífshamingju en það, sem við í daglegu tali köllum vit eða vitsmuni.
Fyrir nokkrum árum átti það sér stað hér í Eyjum, að faðir einn hringdi til mín við upphaf skólaársins og tjáði mér, að einn af sonum sínum hæfi nú nám í Gagnfræðaskólanum. ,,Ég ætla að biðja þig alveg sérstaklega að reyna að troða einhverjum þekkingarmolum í þennan dreng, en hann er heimskur og á því erfitt með allt nám,“ sagði faðirinn í símaendann þarna hinumegin.
Mér fannst þessi tjáning föðurins í alla staði ógeðfelld og vildi sem fyrst fá slit á samtalið. Ég gat ekki annað en fundið til með æskumanni þessum, svo lítillar nærgætni sem hann virtist njóta hjá föður sínum og ætti þar litlum hlýhug og skilningi að mæta. Sárast verður jafnan að búa við skort á slíku hjá foreldrum sínum eða ástvinum og öðrum nánustu vandamönnum.
Hvað gat svo skólinn gert til þess að bæta drengnum að einhverju leyti upp þennan kulda og breyta hugarþeli föðurins til sonarins?
Þegar ég sá drenginn, leizt mér vel á hann og vænti strax góðs af honum. Við skipuðum hann umsjónarmann og trúnaðarmann skólans í bekkjardeildinni hans.
Satt var það, að enginn sérlegur námsmaður var þessi piltur. En brátt kom í ljós, að hann var trúr um allt, sem honum var trúað fyrir, prúður í skóla, skyldurækinn um nám og stundvísi og góður félagi. Hann ávann sér því fljótlega álit og traust okkar kennaranna.
Þegar fram á annan veturinn leið, spurðist farðirinn eitt sinn fyrir um það, hvernig námið gengi hjá syni sínum. „Hvernig vinnur hann heima?“ spurði ég.
„Alltaf virðist hann eitthvað vera að dudda við bækurnar,“ svaraði faðirinn. Ég vissi, að það var satt, því að pilturinn gerði eins og hann gat.
Þegar hér var komið, höfðum við gert nemanda þennan að sérstökum trúnaðarmanni og trúað honum fyrir fjármálum í sambandi við félagslíf nemenda.
Ég tjáði nú föðurnum reynslu okkar af syni hans, sagði honum sem var, að hann væri að vísu ekki mikill námsmaður, eins og við leggjum venjulega merkingu í það orð, en manngerðin virtist áberandi traust og drengurinn áynni sér álit og hlýhug okkar kennaranna fyrir prúðmennsku, skyldurækni og trausta skapgerð, og hann væri að okkar áliti vænlegt efni í nýtan og góðan mann, ef ekkert sérstakt truflaði eðlilegan þroska hans til manndóms og dáða.
Ekki veit ég, hvort mátti sín meir á þeirri stundu innra með föðurnum undrun hans við orð mín og vitnisburð drengnum til handa eða hin sanna föðurgleði. Faðir þessi var auðsýnilega haldinn þeirri trú, að fátt eða ekkert annað væri gáfur eða guðsgjafir til verulegs manndóms og þroska en mikið næmi og skarpur skilningur. Aðra eiginleika virtist hann ekki kunna að meta. Ástæðurnar fyrir því læt ég ósagðar, þó að þær virtust mér auðsæjar.
Okkur íslenzkum feðrum hættir alltof oft til þess að álykta um börnin okkar, mannsefnið í þeim, eftir næmi og skilningi, — vitsmunum einum. Íslenzku mæðurnar eru hinsvegar oftast næmari fyrir hinu, sem raunverulega skiptir mestu máli um hamingjuna í lífinu, þ.e. tilfinninga- og viljalífið, innrætið eða manngerðin. Við gleymum því allt of oft, að ekki er allt fengið með vitsmununum einum, og ekki felst allt vitið heldur í næmi og skilningi. Hjartað elur líka sitt vit, ef ég mætti orða það þannig, og hjartalagið ræður ekki hvað minnst um það, hvað úr unglingnum verður, hversu góður sonur eða dóttir ungmennið reynist foreldrum sínum, og hversu nýtur og góður þegn það verður þjóðinni mikill hamingjugjafi ástvinum sínum. Á ekki þjóðin okkar í dag nóg af gáfuðum mannleysingjum og vanmetafólki á æskuskeiði?
Hvað hefur svo orðið úr þessum pilti í skóla lífsins? Þar hefur hann reynzt eins og hér í þessum skóla, traustur og trúr starfsmaður og skyldurækinn, sem nýtur tiltrúar og álits og er eins og hamingjusamur konungssonur, sem faðirinn ann og metur nú orðið og nýtur af mikillar hamingju. Pilturinn er þannig sannur lángjafi foreldrum sínum og allri fjölskyldu. Mætti ég óska ykkur hins sama, nemendur mínir. Þið eigið manngæðin til þess og viljalífið, ef þið notið þær guðsgjafir rétt og vel.
Fyrst ég óska að ræða við ykkur þessi efni nú með þeirri ætlan að vekja ykkur til hugsunar um þau, er ekki úr vegi, að minna ykkur á mann úr Íslendingasögunum, sem átti gáfur í ríkum mæli, eins og svo margir leggja merkingu í það orð, en varð samt einhver mesti ógæfumaður, sem fósturjörðin hefir alið við brjóst sér fyrr og síðar. Við skulum hugleiða eilítið manninn Gretti Ásmundsson.
Snemma tók að bera á gáfum Grettis. Svör hans og hnyttinyrði votta skarpan skilning og mikið hugmyndaflug. Sum þeirra lifa enn á tungu þjóðarinnar og teljast spakmæli. Skáldmæltur var Grettir einnig. Ekki vantaði hann heldur líkamlegu kraftana, svo sem kunnugt er. Fór þá ekki prýðilega saman hjá þessum manni það, sem við Íslendingar leggjum svo mikið upp úr og metum svo mikils: vitsmunir og líkamlegur styrkur, vit og hreysti? Samt vantaði eitthvað í Gretti. Ef til vill hefir sálin hans ekki verið hraust þrátt fyrir allt. Ekki spillti móðirin honum í uppeldinu. Móðir hans er nafnkunn í sögunni fyrir skapstillingu, fórnfýsi, móðurkærleik og næman skilning á þá eiginleika, sem veita okkur mesta hamingju í lífinu. Ef til vill unni hún þessvegna Gretti meir en hinum sonum sínum, að hún fann og skildi, hversu mjög hann skorti það mesta og það bezta, þó að hann væri gáfaðastur sona hennar.
Grettir var ótuktarlegur föður sínum. Og hann hirti ekki um það, þó að hann á þann hátt særði tilfinningar móður sinnar, sem fórnaði honum miklum kærleika og ástúð.
Til þess að létta sér hrossagæzluna heima á Bjargi, réðist hann með hníf í hendi að málleysingjanum, forustuhryssu föður síns, þar sem hún stóð við stallinn í hesthúsinu, og fló af henni hrygglengjuna. Þegar þessi sami unglingur skyldi gæta gæsa foreldra sinna og vinna þeim þannig eitthvert gagn, hafði hann ekki stjórn á skapi sínu, þegar gæsirnar reyndust bágrækar, heldur lagði hann hönd á þessa málleysingja líka og vængbraut nokkra gæsaunga.
Samur var Grettir og jafn við sig með ótuktarskapinn og kersknina við ferðafélaga sína, er hann sigldi með þeim austur yfir hafið til Noregs. Allt þetta lesið þið um í Grettissögu. Hverskonar manngerð er það eiginlega, sem ræðst að varnarlausum málleysingjum, dýrum, særir þau og kvelur? Slíkt fólk, ungt sem gamalt, er sjúkt. Þar skortir ekki neitt smáræði á heilbrigt tilfinningalíf. Hamingjuskilyrðin í þeim mannshjörtum eru engin. Slík ómennska, sem dýrin verða fyrir af þvílíku fólki, á sér rætur í tilfinningalífinu.
Ég er ekki viss um það, nemendur, að þið hafið tekið nógu gaumgæfilega eftir því hjá mér, að ég taldi son föðurins hérna áðan vænlegt efni í nýtan og góðan mann, ef ... (það var skilyrðum háð), ef ekkert sérstakt truflaði eðlilegan þroska hans til manntaks og dáða. Hér á ég fyrst og fremst við eiturlyfjanautnirnar, tóbaks- og áfengisnautnina.
Ekki eru ýkja mörg ár síðan nokkrir piltar hér á ykkar aldri og eldri urðu eitt haustið uppvísir að þjófnuðum eða hvinnsku. Í hópi þessara drengja voru nokkrir, sem hér höfðu dvalizt við nám um stund og látið aðvaranir mínar um neyzlu tóbaks á æskuskeiði sem vind um eyrun þjóta. Ég þekkti því miður sum af þessum ógæfusömu ungmennum mæta vel.
Af sérstökum ástæðum fékk ég að vera við réttarhöldin yfir þeim. Sá atburður líður mér aldrei úr minni. Þar sá ég opið standa það eymdanna djúp, sem ég hefi frá fyrstu stundu starfs míns hér í kaupstaðnum varað nemendur mína við af innstu einlægni, eymdardjúp eiturlyfjanautnanna.
Drengir þeir, sem ég þekkti í þessum ógæfusama hópi, reyndust yfirleitt ekki miklir námsmenn hér í skólanum, en slæmir drengir voru þeir ekki, þó að viljalífið væri vanþroskað og skapgerðin veikluleg á þeim aldri. Ég efast satt að segja um, að nokkur þeirra hefði viljað eða getað gert nokkurri skepnu mein. Og hefðu þessir piltar notið traustrar og þó mildrar handleiðslu til þroskaaldurs, hefðu þeir ef til vill aldrei lent á þessa glapstigu.
Hvað hafði svo leitt yfir piltana og heimili þeirra þessa óhamingju?
Það kom berlega í ljós í réttarhöldunum, að þeir höfðu þegar á barnsaldri látið leiða sig eða tæla til tóbaksnautnar og lent í vondum félagsskap. Tóbakseitrið veiklaði þegar hinar ungu og viðkvæmu taugar þeirra og krafðist jafnframt viðhalds áhrifanna. Þetta haust voru piltar þessir orðnir fátækir af aurum, og þeir fengu ekki aura heima til tóbakskaupa, þó að heimilin framfærðu þá. Nú skorti þá því aura til þess að geta satt tóbakshungur sitt. Þá gripu þeir til þess örþrifaráðs að stela tóbaki. Aldrei hefi ég í starfi mínu fengið áþreifanlegri sönnun fyrir réttmæti þeirrar aðvörunar, sem ég hefi látlaust haldið að nemendum mínum öll starfsár mín, að venja sig ekki á eiturlyf eða temja sér nautnir þeirra. Þessir drengir höfðu sannarlega látið þær viðvaranir mínar í þeim efnum þjóta sér um eyru án þess að taka hið minnsta tillit til þeirra, enda ef til vill um seinan fyrir þá, þar sem þeir voru þegar orðnir þrælar tóbaksins, áður en þeir hófu hér nám. Og nú voru þessir veslings drengir stimplaðir þjófar og sumir þeirra reknir úr skóla fyrir hvinnsku eða þjófnað. Þessi atburður í lífi þessara pilta hefir eflaust truflað eða truflar heilbrigt tilfinningalíf þeirra og þroska.
Þetta er átakanleg saga, og við megum ekki, nemendur mínir, láta hana hverfa fram hjá okkur íhugunar- eða umhugsunarlaust.
Fjarri er það mér að álykta þessa pilta fædda með þjófshvatir. Já, fjarri er það mér. Þeir eru aðeins glöggt og átakanlegt dæmi um beztu manngerðir, sem á unga aldri verða þrælar illra afla, láta aðsteðjandi óheillastraum flæða yfir sig og gerast þar viljalaus reköld. Nemendur mínir, ábyrgðin af velferð ykkar og hamingju færist nú æ meir og meir á ykkar eigin herðar, eftir því sem þið eldizt. Undir þeirri ábyrgð verðið þið að rísa og reynast menn að bera. Þá reynir á viljalíf ykkar og siðgæðisþrek — og svo gæði tilfinningalífsins. Með sterkum og einbeittum vilja, sem yljaður er næmu og heilbrigðu tilfinningalífi, ber ykkur að sækja á brattann. Til þess hafið þið allir nægilega vitsmuni, svo er forsjóninni fyrir að þakka.
Óneitanlega er það oft gott, sem gamlir kveða. Þeir hafa reynsluna, og reynslan hefir skerpt hugsun þeirra og skilning.
Þegar ég var á æskuskeiði, heyrði ég aldrað fólk halda því fram, að sá piltur, sem væri góður móður sinni og nærfærinn við hana, yrði líka góður við konuna sína og börnin sín, sem sé góður heimilisfaðir. Þessu trúði ég, og lífið hefir aukið mér skilning á þessari speki gamla fólksins. Hér eru það manngæðin, og þá fyrst og fremst tilfinninga- og viljalífið eins og allstaðar annarsstaðar, sem verða hornsteinar fagurs heimilislífs og mannlífs. Án þessara hyrningasteina verður jafnan gisinn og þroskalítill gróður á lífsakri okkar mannanna. Alltaf vorkenni ég þeim æskumanni, sem launar móður sinni kærleikann og fórnarlundina með kulda, kæruleysi og óhlýðni. Þar vantar eitthvað meira en lítið í tilfinningalífið. Hætt er við, að sá skortur geri illa vart við sig síðar í hans eigin heimilislífi.
Bratti námsins er nú framundan. Leggið á hann ótrauðir. Þar fáið þið nú fyrsta tækifærið til að sýna og sanna sjálfum ykkur og öðrum, hversu vísirinn til sterks viljalífs og traustrar skapgerðar er ríkur í ykkur. Sumum ykkar verður sú brattaganga leikur einn en öðrum erfiðari. Þá megum við ekki slaka á klónni eða gefa eftir. Þá skulum við minnast þess, að baráttan við örðugleikana og sigurinn yfir þeim er leiðin til að öðlast sterkan vilja og efla með sér manndóm og manntak.
Við skulum öll reyna að skilja sjálf okkur og þau lögmál, er mestu varða um farsæld okkar og hamingju í lífinu.

Þ.Þ.V.