Blik 1958/Á ísskörinni

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1958INGIBJÖRG ÓLAFSDÓTTIR:


Á ísskörinni


1969 b 23 A.jpg


Ingibjörg Ólafsdóttir frá Eyvindarholti.


Ingibjörg Ólafsdóttir er f. 12. apríl 1895 að Dalseli undir Eyjafjöllum. Faðir Ingibjargar var Ólafur bóndi í Eyvindarholti í Landeyjum Ólafsson bónda í Hólminum Jónssonar bónda í Miðey Jónssonar Þorkelssonar bónda að Ljótarstöðum Grímssonar. Kona Ólafs bónda í Eyvindarholti var Sigríður Ólafsdóttir frá Múlakoti í Fljótshlíð.
Ingibjörg Ólafsdóttir fluttist til Vestmannaeyja árið 1920. Hún var gift Birni vélstjóra Bjarnasyni bónda og útgerðarmanns Einarssonar í Hlaðbœ. Ingibjörg missti mann sinn árið 1947. Þeim varð 8 barna auðið, og eiga þau öll heima í Eyjum. Ingibjörg Ólafsdóttir er ein allra mesta blómaræktarkona í Eyjum.
Myndin var tekin á 60 ára afmœli Ingibjargar.

Þegar ég var á unga aldri, sagði Sigríður Ólafsdóttir frá Hólminum í Landeyjum mér sögu þá, sem hér birtist. Föðuramma hennar, Sigríður Árnadóttir, sagði henni, og þekkti hún vel til þess, er gerðist. Mig minnir, að telpan, sem atburðirnir greina frá, hafi sjálf sagt henni frá þeim.
Sigríður Árnadóttir (f. 1800) var gift Diðriki Jónssyni bónda í Hólminum, og voru börn þeirra, sem mér er kunnugt um, Árni hreppstjóri í Stakkagerði hér í Eyjum, (Sjá Blik 1957); Þórður, sem gerðist mormóni og fór til Vesturheims; Guðmundur, sem fórst með Jóni Brandssyni frá Hallgeirsey, og Ragnhildur kona Ólafs Jónssonar frá Miðey. Jón í Miðey, faðir Ólafs, var sonur Jóns bónda á Ljótarstöðum (f. 1766) Þorkelssonar (f. 1727 d. 17/9 1806), bónda þar Grímssonar.
Jón Jónsson var bróðir Þorkels yngra á Ljótarstöðum (f. 1799), sem nafnkunnur var fyrir bátasmíðar sínar. Þorkell Jónsson smíðaði t.d. hin kunnu opnu skip hér í Eyjum, Gideon (1836), Trú og Ísak. Margir ágætir hagleiksmenn voru í ætt hans.
Kona Þorkels Grímssonar bónda á Ljótarstöðum hét Guðrún Jónsdóttir (f. 1731), og er það frá henni, sem saga þessi greinir.
Þegar saga þessi gerðist, var Guðrún 8—9 ára gömul og alin upp á sveit. Hvort foreldrar hennar voru dánir eða svo fátækir, að þeir gátu ekki séð fyrir henni, veit ég ekki með vissu.
Sá háttur var á hafður um framfærslu telpunnar, að hún var látin dvelja hálfan mánuð á hverju heimili í sveitinni, sem bjargálna var, en á þeim tíma þrengdi fátækt mjög að þjóðinni.
Guðrún Jónsdóttir sagði svo síðar frá, að misjöfn hefði vistin verið á heimilunum, og fór það mjög eftir manngerð húsbændanna. Sumsstaðar leið henni vel, annarsstaðar miður. Þó var þar eitt heimili, sem skar sig úr öllum öðrum um slæma líðan stúlkunnar. Húsmóðirin var ákaflega harðlynd, og sonur hjónanna, 12—14 ára, sat sig ekki úr færi að hrella litlu stúlkuna og lítilsvirða og brigzla henni um fátækt hennar og einstæðingsskap. Sjálf fann hún mikið til einstæðingsskapar síns og umkomuleysis og þurfti því ekki að minna hana á það. Hin næma og viðkvæma barnslund hennar leið mikið við þetta. Eitt sinn kom það í hlut Guðrúnar litlu að dvelja hjá harðlyndu húsmóðurinni um jólin.
Litla stúlkan var ekki látin sofa í baðstofunni eins og hitt fólkið á heimilinu, heldur var hún látin sofa ein úti á fjóslofti. Þar svaf hún á fleti. Ekkert ljós mátti hún hafa hjá sér, og leið hún mikið fyrir það, því að hún var ákaflega myrkfælin og ístöðulítil. Hún grét því mikið í einverunni og myrkrinu. Hún bað oft fyrir sér og las bænirnar sínar, sem amma hennar og mamma höfðu kennt henni, af einlægum huga, og veittu þær henni alltaf huggun og hugsvölun. Oftast var hún svöng, en ekki leið hún af kulda á fjósloftinu, því að þar var notalegur ylur. En löng urðu henni kvöldin í skammdeginu og döpur einveran.
Á jólakvöldið sat hún ein síns liðs í skammdegismyrkrinu. Þá bað húsmóðirin son sinn að færa telpunni jólamatinn út á fjósloftið, því að ekki mátti hún stíga fæti í baðstofuna, hún, sveitarómaginn. Innangengt var úr bænum út í fjósið og göngin nokkuð löng. Strákurinn mætti kettinum í göngunum, og var hann með dauða mús í kjaftinum. Tók þá strákurinn músina og lét á matardisk telpunnar, en át sjálfur hangikjötsbita, sem á diskinum var. Þar næst hélt hann ferðinni áfram og rétti telpunni jólamatinn.
Í niðamyrkrinu þreifaði telpan á því, sem á diskinum var. Fann hún þá þegar dauðu músina, en við mýs var hún fjarskalega hrædd. Telpan varð yfir sig hrædd og rak upp skelfingaróp. Tvær vinnukonur voru þarna nærstaddar og heyrðu hræðsluóp telpunnar. Þær tjáðu það húsmóðurinni, sem skundaði fram á fjósloftið. Húsfreyjan kom gustmikil með ljós í hendi til þess að vita, hvað um væri að vera. Telpan sýndi henni diskinn með músinni. Þá varð konan yfir sig reið við son sinn, því að ekki var öðrum en honum til að dreifa. Hún tók jólamatinn hans og færði telpunni og refsaði stráknum mjög eftirminnilega, því að ekki vantaði hörkuna. Eftir þetta lagði strákurinn hatur á telpuna, gerði henni flest til miska, því að hann kenndi henni um refsinguna, sem hann fékk fyrir strákapör sín.

Allir dagar líða, — líka þeir döpru og erfiðu. Litla stúlkan fór í annan stað og í enn annan, — fátækt einmana barn með ekkert öryggi bak við sig, alls staðar þiggjandi náðarbrauð frá vandalausu fólki, sem henni kom ekkert við.
Svo er þá röðin komin aftur að harðlyndu húsmóðurinni, syni hennar og heimili. Enn er vetur og jörðin þakin hvítum hjúpi, flestir lækir huldir ís og klaka, ár skaraðar, og frostrósir byrgja skjáinn.
Þung og sár eru spor þess, sem klæðlítill og svangur verður að reika á milli bæja og þiggja náðarbrauð hjá öðrum og ekki sízt, ef leiðin liggur þangað, þar sem sárast er að dvelja. Sonur harðlyndu húsmóðurinnar er sendur á móti litlu stúlkunni til þess að hjálpa henni yfir torfærur. Á leiðinni koma þau að skaraðri á eða vatnsmiklum læk. Strákur hleypur yfir lækinn milli skara og skipar litlu stúlkunni að hlaupa á eftir. Það vogaði hún ekki, þó að hún ætti lífið að leysa. Hún treysti sér ekki yfir lækinn hjálparlaust. Ef þú kemst ekki yfir lækinn, verð ég að skilja þig eftir á ísskörinni, sagði strákur og lét svo um mælt, að bættur væri skaðinn, þótt hún kæmist ekki lengra. Síðan hélt hann leiðar sinnar án þess að skeyta meira um telpuna.
Þarna sat þessi umkomulausi munaðarleysingi við lækinn, aleinn á hvítri hjarnbreiðunni, ískaldri auðninni. Ísskörin fyrir framan og beljandi vatnsstraumurinn, en svo langt til næsta bæjar, að kjarkinn brast til að leggja upp í þá för. Nú mundi enginn hjálpa henni nema guð einn, og nú bað litla stúlkan heitar og innilegar en nokkru sinni áður á hinni stuttu lífsleið. Amma hennar hafði kennt henni langa bæn, sem hún sjálf hafði víst lært af mömmu sinni eða ömmu, og hún sagði henni að biðja hennar, ef hún væri í hættu stödd. Þessa bæn kallaði amma hennar Maríugrát, og fannst Guðrúnu litlu, að amma hennar læsi bænina fyrir sér með meiri viðkvæmni, helgiblæ og lotningu en nokkuð annað guðsorð. — Nú hafði litla stúlkan bænina yfir af þeirri alvöru og þeim innileik, sem hún mundi, að amma sín hafði gert:

Eilíft ljós, eilífur er Guð, eilífur er hinn helgi andi. Eilífur er andinn, sem þú sendir mér af sjálfum þér fimmtudaginn, þá er þú steigst upp til himins. — Sjö voru stigin til himins. Eitt heitir þróttur, annað þolinmæði, þriðja styrkur, fjórða staðlyndi, fimmta bindindi, sjötta líkn og sjöunda miskunn.
Þess veit ég vonina vísa, sæll drottinn minn, ef ég lít spor þitt ið neðsta, þá mun ég ekki missa ið efsta. Þessi orð mælti in mildasta móðir guðs, þá er hún stóð undir krossinum helga horfandi á píningu sonar síns. Blóð og vatn flaut af sárum hans on'yfir andlit hennar, og hún sveipaði með dúknum blóðið af kinnum sér: „Heyr heyrandi sút í kvöld, sorg og móð. Líttu á mæðurnar miskunnaraugum, veittu huggun í harminum. Hugurinn, brjóstið og augun mín, ég kvelst nú yfir sárum þín. Hver mun nú móðirin jafn særð af píningu sonar síns, sem ég er nú?
Blómin blómanna, líknin siðanna há, sárt er á að sjá, hversu hörð píningin vera muni í þrengingu naglanna.
Nú bliknar, nú fölnar fegurðarlistin. Hingað hrýtur, þaðan flýtur bogi blóðs. Almild er sú höndin, sem svo er negld. Alblint er það hugskotið, sem slíku veldur.
Nú man ég það sanna, sem hann Símon sagði í dag á nóninu, að ég mundi verða að stynja og andvarpa. Tárin bera vitni líkamanum að utan, en hvað í brjóstinu býr að innan? Heyrðu nú sonurinn sæli og góði. Dauðinn mun okkur skilja. Hann skýldi að þér, en þrengdi að mér. Gyðingar, vægið þið syninum mínum. Krossfestið mig og festið okkur á eitt tré bæði. Saklaus þolir hann bönd og vendi, háð og hálshögg, spjót og spýtingar, kross og nagla, bana og brigzl. Fyrir einum hluti harma ég: yðar sakirnar fagna ég.
Grátið minn skaða með mér. Munið og virðið, hvað ég hefi fyrir yður borið; þá munuð þið eignast eilífa dýrðina og eilífa sæluna bæði þessa heims og annars.
Svo segir minn heilagi Ágústínus biskup.
Hver sem hefir þennan formála fyrir sér og virðir sem grát sællar Maríu Jesú móður, þann inn sama mun ekki óvinurinn svíkja eða nokkurn hans niðja eða náunga skaða gera; svo flýr óhreinn andi af hvers manns húsi og herbergjum, sem grátur sællar Maríu Jesú móður er sunginn eða lesinn á kvöldin, þegar maður sofnar, eða á morgnana, þegar maður vaknar.
Laðaðir séu allir til himnaríkis fyrir utan enda.
Amen.

Einmitt á þessari stundu var einn af ráðandi mönnum sveitarinnar á ferð um þessar slóðir. Hann kom allt í einu auga á dökka þúst á hjarninu við lækinn. Víst bærðist það. Eitthvað lifandi hlaut það að vera. Það skyldi því athugað nánar. Hann sló í hest sinn og nálgaðist óðfluga þann stað, þar sem litla stúlkan sat á snjónum við ísskörina. Hún var grátbólgin og aðfram komin af kulda. Hann komst við af þessari sjón. Hann setti barnið í hnakkinn fyrir framan sig og reið með hana til næsta bæjar, þar sem henni var hjúkrað og veittur ágætur beini. Þessi hjartagóði maður lét barnið segja sér allt um veruna hjá harðlyndu konunni og syni hennar, jólakvöldið minnisstæða og svo um komuna að læknum. Það styrkti frásögn barnsins, að kvisazt hafði um sveitina þetta með jólamatinn árið áður.
Velgerðarmaður barnsins komst mjög við af frásögn þess og kvað svo á, að hún skyldi aldrei framar þurfa að kvíða vistinni hjá harðlyndu konunni, — hann skyldi sjá til þess.
Eftir þetta kom hann telpunni fyrir á ágætu heimili, þar sem allir voru henni mjög góðir. Þar náði hún góðum þroska og varð myndarstúlka og mannvænleg. Hún giftist síðan Þorkeli Grímssyni, og munu þau hafa hafið búskap á Syðri-Úlfsstöðum í Krosssókn í Landeyjum, en fluttu síðan að Ljótarstöðum og gerðu þann garð frægan.
Þorkell Grímsson var mikilsmetinn maður og þau hjón mjög vel efnum búin. Guðrún Jónsdóttir var gæfusöm og góð kona, og trúði hún því einlæglega alla ævi, að guð hefði heyrt bænir hennar, þar sem hún sat á ísskörinni og bjóst við dauða sínum.
Treystið guði umfram allt og gleðjið fátæka og hjálpið þeim, voru beztu lífsreglurnar, sem hún gaf börnum sínum.
Guðrún Jónsdóttir varð gömul kona (f. 1731, d. 1815) og gæfusöm. Hún varð rík af veraldlegum auði, en mesta auðlegð átti hún í hreinni og fölskvalausri trú og trúnaðartrausti til forsjónarinnar.

I.Ó.