Blik 1957/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1957



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON, skólastjóri:


Hugvekja
flutt í Gagnfrœðaskólanum haustið 1956
(Færð síðan í stílinn)


Að afloknum öllum prófum vorið 1955 fóru nemendur 3. bekkjar hér í skólanum í ferðalag vestur á Snæfellsnes. Ég átti að heita leiðtogi fararinnar. Um ferðalag þetta skrifaði einn nemandinn skemmtilega frásögn og birti í Bliki í fyrra.
Á heimleiðinni gerðum við dálitla lykkju á leið okkar og ókum heim að Helgafelli, bæ Snorra goða. Bær þessi stendur undir samnefndu felli. Helgafell er lágt og auðgengið. Það er hálft á hæð við Helgafell okkar en grösugt og fagurt. Snemma á öldum trúðu forfeður okkar því, að menn dæju í fjöll og hæðir, tækju sér þar dvalarstað eftir andlátið. Þórólfur Mostrarskegg nam land á Þórsnesi, þar sem Helgafell rís. Hann hóf fyrstur átrúnað á fell þetta og gaf því nafn. Hann trúði því, að hann sjálfur og frændur hans mundu þangað fara eftir andlátið. Þessi eða annar átrúnaður á Helgafell hélzt öldum saman. Eitt sinn, er Snorri goði skyldi ráða fram úr vandamálum, sagði hann við þann, sem til hans leitaði: ,,Þá skulum við ganga upp á Helgafell; þau ráð hafa sízt að engu orðið, er þar hafa ráðin verið.“
Við höfðum afráðið að ganga á Helgafell og haga göngu okkar eftir fornri sögn með vissum ásetningi. Sögnin er á þessa leið:
Þú afræður í huga þér þrjár óskir göfugar og frómar, gengur síðan á Helgafell með þær í huga, þögull og einbeittur. Aldrei máttu líta aftur á leiðinni upp fellið.
Þegar upp kemur, snýrðu ásjónu þinni gegn austri og berð fram óskirnar þrjár.
Trúin flytur fjöll, segir gamalt orðtak. Svo djúpt er tekið í árinni um mátt trúarinnar. Henni verður því eigi mikið fyrir því að uppfylla þrjár frómar óskir þínar, ef hugur þinn og hjarta fylgir máli.
Afturlitið skal vera sönnun þess, að viljinn um óskirnar er veikur og reikull, og þá færðu þeim ekki fullnægt. Guð hjálpar þeim, sem hjálpa sér sjálfir, segir annað orðtak. Þegar viljann vantar og framtakssemina, er hætt við, að okkur gangi seint að ná markmiðinu eða fá óskum okkar fullnægt.
Ég hafði gilda ástæðu til að ætla, að við hefðum öll, þegnar skólans, sem þarna vorum á ferð, öðlazt trú á hina fornu sögn, ef við færum rétt að og höguðum ferð okkar eftir settum reglum. Til þess að tryggja okkur það, drápum við á dyr að bænum Helgafelli í von um að fá að bera saman ráð okkar við kunnugan. Húsfreyjan sjálf kom til dyra. Við tjáðum henni erindi okkar. Hún tók því sérstaklega alúðlega. Virtist okkur, að hún tryði sjálf hinni fornu sögn um dulmögnun Helgafells og óskaði innilega, að okkur mætti verða að trú okkar. Það styrkti mig í trú minni.
Áður en við lögðum á fellið, fylgdi húsfreyja okkur handan fyrir bæinn og sýndi okkur leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur, sem þar er. Síðan lagði hún á ráðin um gönguna á Helgafell. Við skipuðum okkur í eina röð. Hæst á fellinu er grjótbyrgi, sem Snorri goði á sjálfur að hafa hlaðið. Inn í það skal gengið, snúa andliti í austur og bera svo fram í huga hinar þrjár óskir. Ég gat ekki annað fundið, en við værum öll staðráðin í því að hlíta settum reglum og bera síðan fram óskirnar af föstum vilja, bljúgu hjarta og einbeittum hug.
Ég gekk fyrstur hina troðnu slóð upp á fellið. Ekki fyrst og fremst vegna þess, að ég átti að heita leiðtogi fararinnar, heldur með þeim ásetningi að fá aðstöðu til að lesa í andlit nemenda minna, sem á eftir mér gengju í byrgið, eftir að ég hefði borið þar fram sjálfur þrjár óskir. Allt gekk þetta samkvæmt reglunum. Við einbeittum huga okkar og vilja að óskunum þrem, gengum þögu1 á fellið og litum aldrei aftur á leiðinni. Þar gengum við beint í byrgið og bárum fram óskirnar, sem voru og eru einkamál okkar. Andlit nemenda minna voru einbeitt og ákveðin, og gat ég ekki betur séð, en hjörtun slægju með og hugur fylgdi máli.
Tvær óska minna voru þannig vaxnar, að þeim varð fullnægt á næstu 10—12 mánuðum eða þá ekki. Vissulega fékk ég þeim báðum fullnægt á s.l. ári. Hin þriðja bíður síns tíma. Þær voru allar frómar, lausar við alla eigingirni og miðuðu að heillamálum almennings í þessu bæjarfélagi eftir minni gerð og mínum takmarkaða skilningi.
Þessi forna sögn um óskirnar þrjár og Helgafell er mjög merkileg frá mínum bæjardyrum séð. Hún er að einu leyti smækkuð mynd af lífinu sjálfu. Beitum við ekki viljanum og hugarorku í daglegu striti og stríði, verður okkur harla lítið ágengt. Það hafið þið sannarlega fengið að reyna sjálfir, nemendur mínir, — þið, sem hlotið hafið góðar gáfur í vöggugjöf, en þó borið úr býtum mjög lítinn árangur af löngu barnaskólanámi. Einkunnir ykkar, sem þann flokk fyllið, og reynsla okkar kennaranna segja sína sögu, hörmulega sögu um pund, sem grafið hefir verið í jörðu, gáfur illa notaðar — sögu um afturlit og reikult ráð. Við verðum að vona það, nemendur, að þetta standi allt til bóta, og megi verða til viðvörunar og skilningsauka hinum, sem betur eru á vegi staddir.
Nú vík ég máli mínu að öðru ferðalagi.
Helg rit greina frá því, að það hafi átt sér stað austur í Gyðingalandi. Við Dauðahafið stóð eitt sinn borg, sem Sódóma hét. Sagan segir, að líf fólksins þar hafi verið saurugt og syndsamlegt í meira lagi. Þess vegna afréð Guð að tortíma borginni. Einn var sá maður þar, sem sérstaklega gekk á guðs vegum og forsjónin vildi ekki láta farast. Hann hét Lot. Honum bauð því Guð að ganga út úr borginni. Það þáði hann með þökkum. Kona Lots var viljaveik, götukær og gjálíf. Hún fylgdi þó manni sínum út úr borginni, vildi gjarnan njóta vináttu hans við Drottinn og njóta þannig ávaxta hins hreina lífernis.
Á leiðinni út úr borginni hvarflaði hugur hennar sífellt til hins bága siðgæðislífs, sem hún hafði tamið sér í Sódóma og unni. Viljinn til betrunar var veikur. Hún þráði gjálífið, veslings konan. Þess vegna leit hún aftur. Og Drottinn lét hana verða að saltstólpa. Þegar við börnin í barnaskólanum lásum í Biblíusögunum okkar um konu Lots, sem leit aftur og varð að saltstólpa, skildum við ekki söguna. Ekki fengum við heldur skýringu á henni, þegar við gengum til prestsins. Nú þykist ég skilja þessa sögu prýðisvel. Hún greinir frá mannveru, sem engan vilja hefur til þess að lifa siðferðilegu lífi eða þiggja handleiðslu æðri máttarvalda. Þetta viljaleysi konunnar leiðir hana til andlegs dauða. Hún varð að saltstólpa þarna í nánd við Dauðahafið, af því að þar rísa slíkar vörður upp úr sandflæmunum, en hér á Íslandi mundum við hafa getað orðað það svo, að konan hefði orðið að hraundranga eða stuðlabergsstólpa.
Alltaf kemur mér þessi saga í hug, þegar nemendur mínir láta botninn detta úr náminu eða sjálfum sér, ef ég mætti orða það svo, líta sem sé aftur á miðjum vetri, og gefast upp við námið.
Sálarslénið heltekur viljann, hugurinn verður reikull og ráfandi. Sannanlega leiðir oft til þess, að þetta viljaslén veldur þessu æskufólki andlegum dauða, breytir því í steingjörvinga. Viljinn bíður hnekki, hugurinn hvarflar af heillabraut og frómar óskir láta sér þess vegna til skammar verða.
Í kvæði sínu, „Myndin“ fjallar Þorsteinn Erlingsson um hugsjónamál æskumannsins og afturhvarf eða uppgjöf. Skáldið líkir hugsjón æskumannsins við brúði, sem æskumaðurinn gengur til faðmlaga við. „Brúðargangan“ var auðveld í fyrstu, en þegar tók að þyngjast fyrir fæti á þessari morgungöngu lífsins, reyndi á kjarkinn, viljastyrkinn og þolgæðið, ef settu marki skyldi náð. „Þá leistu aftur, vinur, það varð þín dauðasynd“.

„Þú manst hinn fagra morgun;
með brosi þín hún beið
í brúðarklœðum sínum
og heimti þig á leið;
Þar þyrsti breiddan faðminn
í armlög ungra sveina,
og opinn stóð hann hverjum,
sem þorði að koma og reyna.


Þá fannstu allt í einu
sem eld í hverri taug,
og áfram þutu fœtur,
en lengra hugur flaug;
svo bein og stutt var brautin
að brunni nautna þinna,
en brúður ung og fögur,
og lítið til að vinna.


En túnið þitt var þrotið
og þar var engin mær,
en þér gekk fljótt á engjar,
en hún var ekki nær,
en ljúft og létt var sporið,
þó lengdist brúðargangan
um löndin þau hin næstu,
um dalinn endilangan.“

Þannig lýsir skáldið þessari brúðargöngu æskumannsins, þegar hann leitar í faðm sinnar æskuhugsjónar. Allt virðist auðvelt í fyrstu. Hugurinn er heitur og ör á þeim árum. Stutt leið virðist á stefnumótið við veruleikann eða staðreyndirnar. Markið er skammt undan, finnst æskumanninum. En þessi brúðarganga lengist, það reynir á þolrifin, viljann, hjartað, sem undir slær, — og svo kemur afturhvarf hugans og uppgjöfin.

„Þá leiztu aftur, vinur,
það var þín dauðasynd;
þá varð þitt fjör að lúa,
þá hvarf hin fagra mynd;
Og væna sveitin víða,
sem var þér nóg og öllum:
nú varð hún þröngur dalur
og luktur háum fjöllum.“

Eins og í sögunni um konu Lots, þá fullyrðir skáldið íslenzka, að þetta afturhvarf æskumannsins frá göfugri hugsjón, leiði til andlegs dauða. Allt verður svo þröngt og ömurlegt. Hugsjónaeldurinn í augunum slokknar, þunglyndið og deiglyndið heltekur hugann. Allir erfiðleikar verða að háum fjöllum, sem engin tök virðast á að yfirstíga. Svo er þá gripið til þess ráðs að deifa hugarangrið með nautnum eiturlyfja og annarri ólyfjan. Og kvæði skáldsins um uppgjöf æskumannsins endar á þessu erindi:

„Því sá, sem hrœðist fjallið
og einlagt aftur snýr,
fœr aldrei leyst þá gátu:
hvað hinumegin býr.
En þeim, sem eina lífið
er bjarta brúðarmyndin,
þeir brjótast upp á fjallið
og upp á hæsta tindinn.“

Nemendur mínir. Þessi hugvekja mín er flutt ykkur í vissum tilgangi. Ég þekki það úr 30 ára skólastarfi, hve margir unglingar koma hingað í skólann með þeim fasta ásetningi að starfa vel, starfa með hug og hönd að náminu. Í fyrstu virðast þeir hugfangnir af hugsjón sinni. Óskirnar um mark og mið eru þeim efstar í huga. Allt virðist svo auðvelt, meðan hugsjónaeldurinn logar. Engum kemur þá til hugar að líta aftur, meðan allt leikur í lyndi. — En svo tekur að sækja á brattann. Þá fer að reyna á viljann og þróttinn. Sem betur fer hrósar fjöldinn af ykkur miklum sigri í þessari fjallgöngu okkar eða brúðargöngu. En því miður reyndist sumum hún of erfið. Hugurinn reynist hvikull, viljinn veikur; umhverfið býður margs konar freistingar, sérstaklega á vertíð. Og fyrr en varir er sem allar frómar óskir séu gufaðar upp úr hugskotinu, fjörið orðið að lúa, hin fagra mynd horfin, unglingurinn orðinn að saltstólpa eða andlegri hraunstrýtu.
Ég þekki engan ungling á ykkar reki, sem ekki æskir þess að verða nýtur og góður þjóðfélagsþegn. Það er göfug hugsjón. Til þess þarf hug og dug. Á þeirri göngu að settu marki má ekki líta aftur, þó að mótvindur blási og öldur ýfist við keipa.
Fátæk þjóð, fátækt land hefir löngum verið viðkvæðið um íslenzku þjóðina. Nú eru þær harmatölur horfnar að mestu. Af hverju? Af því að þjóðin okkar hefir á undanförnum 100 árum eignazt nógu marga hugsjónamenn, sem ekki litu aftur, þó að á móti blési, heldur báru ótrauðir og einbeittir frelsis- og framfarahugsjónir þjóðarinnar fram til sigurs. Þessi fjölmenni hópur góðra Íslendinga á að vera fyrirmynd hinna uppvaxandi kynslóða á hverjum tíma.

„Hvort sem þú í hendi hefur
hamar, skóflu eða pál,
pentskúf, meitil, penna, nál,
hvaða starf, sem Guð þér gefur,
gerðu það af lífi og sál.


Láttu dag hvern ljós þitt stœrra
lýsa, — klíf þú sérhvern múr,
áfram gegnum skin og skúr.
Kjörorð þitt sé: Hœrra, hœrra!
Hugsjón þinni vertu trúr.“

Þannig hvatti skáldið okkar, Sigurbjörn Sveinsson, æskulýð Eyjanna til hugsjónalífs, — til dugs og dáða.
En hvað sem öllum öðrum hugsjónum líður, þá skyldi það vera hugsjón hugsjónanna hverjum æskumanni að vera maður. Í þeirri brúðargöngu um fjöll og firnindi er hollt að minnast þess, þegar á reynir, að hugur mannsins á eðli til að vera dulmagnað segulafl til manntaks og dáða í atbeina með huldum guðseðlisöflum, ef við þjálfum hugann og temjum viljann í þá átt. Til þess þarf stál í sál og einbeittan ásetning, — og svo þarf hjartað, sem undir slær, að vera hlýtt og næmt.
Mætti lífið náðarsamlegast veita ykkur það allt saman.

Þ.Þ.V.



Byggingarkostnaður Gagnfrœðaskólans til 31. des. 1956

1. Til 31. des. 1954
(Sjá Blik 1955)
kr. 1.968.137, 31
2. Árið 1955 kr. 645.334,89
3. Árið 1956 kr. 666.098,44
Byggingarkostn. alls
til 31. des. 1956
kr. 3.279.570,64
Framlag ríkissjóðs:
1. Til 31. des 1954 kr. 660.000,00
2. Árið 1955 kr. 322. 600,00
3. Árið 1956 kr. 179.500, 00
Alls kr. 1.162 100,00
Ríkissjóði ber að greiða
helming stofnkostnaðar.
Kostnaður Ríkissjóðs
nemur til 31. des. 1956
kr. 1.639.785,32
Frá dregst greitt kr. 1.162.100.00
Skuld ríkissjóðs 31. des. 1956 um kr. 477.685,32

Á þessum árum hefur byggingarsjóður haft alls kr. 6.000.00 í húsaleigutekjur og er ekki tekið tillit til þeirra hér.

Áhalda og tækjakaup:

1. Til 31. des. 1954 kr. 155. 216,51
2. Árið 1955 kr. 24.819.55