Blik 1955/Vorþankar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1955



SIGFÚS J. JOHNSEN, kennari:


Vorþankar


Sigfús J. Johnsen

Það er vor í lofti, ilmur gróandans leikur að vitunum. Grænir frjóangar stritast við að stinga upp kollunum og ná í gegnum fölnaðan vef hinna föllnu fylkinga, er fæddust og lifðu til þess að búa í haginn fyrir komandi líf.
Og nú er sólbjartur júnímorgunn. Sól rís í austri og sveipar eyjarnar okkar gullskreyttum hjúpi sínum. Í dag er sannarlega ástæða til gleði og til bjartrar trúar á glæsileik og gróanda lífsins.
Fyrir hugskotssjónir okkar flýgur hugsunin um sól og sumar sævigirtra eyja. Hugur okkar fyllist gleði og fögnuði yfir tilhugsuninni um það, er að höndum muni bera á öllum þeim glæstu dögum sólar, yls og birtu, er komandi sumar muni færa í skauti sínu.
Sá ótöluleiki hugsana, er á slíkum dögum fæðast, verða ekki taldar hér. En mér verður hugsað til lítils fugls. Hvar er hann núna? Ef til vill eru nokkrir þeirra þegar komnir til Eyjanna, en hvaðan komu þeir? Hvar hafa þeir verið og hvernig hefur þeim farnazt í baráttu sinni fyrir lífinu á dimmum og éljóttum vetrarnóttum? Ég ígrunda þetta, en finn þegar vanmátt minn til þess að svara eigin hugsun.
Það eitt er mér ljóst og því má ég treysta, að litli tápmikli fuglinn kemur og vitjar sumarslóða sinna fyrr eða seinna. Ég get verið öruggur og viss um að „þjóðarfuglinn“ okkar kemur. Lundinn kemur heim.
Næstu dagar líða. Þeir víkja á braut fyrir hækkandi sól. Fjöllin fyllast lífi; á bekkjum og syllum fæðist lífið á ný.
Mér kemur í hug ljóð Árna Árnasonar um líf og kynjagleði úteyjalífsins:

Hátignar frjóland fríða.
friðsæla Vanadís,
með skrúðgræna brekku blíða,
blómanna Paradís.
Hún glóir í glitvefsklæðum
og gullhlað um enni ber,
í kvöldroðans kynjaglæðum
hún kallar mig að sér.
— — —
Í Bjarnarey gista og böl af sér hrista
um bjartan sumardag,
eykur yndishag,
auðugt vængja slag,
útsýni fegra og allt glæsilegra
ég aldrei fann um kring,
fegri fjallahring,
fyllri algleyming.


Ástsöngur hljómar með yndi og ómar
frá eyjunnar fuglakór.
blóm dansa á hillum, bekkjum og syllum
brumar svo undir sjór.
Lognsærinn glitrar, í litbránni titrar
hver tindur Eyjalands.
Heillar huga manns
Heimaeyjar glans.

Ef þú, lesandi góður, ert einn þeirra, er finnur til innilokunar, saknar víðfeðmi og stærðar meginlandsins, en smæð eyjanna okkar fyllir þig söknuði og þorsta eftir fegurð, glæsileik og töfrum, þá staldraðu við, og við skulum láta hugann reika stundarkorn í heimahögum okkar.
Við skulum halda til hafs. Sem farkost kjósum við okkur lítinn trillubát. Þegar við höfum fengið vilyrði fyrir farkostinum, þá tökum við til við að útvega nauðsynjar til ferðarinnar. Við höfum ákveðið að dveljast vikutíma í öðrum syðsta útverði Íslands. Áform okkar er að ráðast til uppgöngu í Súlnasker.
Þó að slíkri ferð sem þessari svipi ekki til ferðar Johns Hunt á Everest, þá þurfum við þó að taka til höndunum við útbúnaðinn. Margt þarf að hafa með. Ekkert má gleymast. Við tínum það til allt frá því smæsta til hins stærsta. Matarföng öll, eldunaráhöld, tjald og viðleguútbúnað, bönd, vatnsbirgðir, því að vatn fyrirfinnst ekki í fyrirheitna landinu, háfa og varahluti, sem slíkum veiðitækjum fylgja. Nú fyrst verður okkur fyllilega ljóst, hve mikill farangur okkar verður.
Þegar öllu hefur verið safnað saman, þá bindum við þetta allt í hæfileg samhengi, sem viðráðanleg eru tveim mönnum til uppdráttar.
Eftir að hafa hlotið beztu óskir um fararheill, leysum við landfestar og siglum út gegnum hið töfrandi hlið að gullkistu Eyjanna.
Á báða bóga gefur að líta gullið útsýni. Í norðri gnæfa Heimaklettur, Miðklettur og Yztiklettur í öllum sínum glæsileik. Í suðri gnæfir Helgafell og neðan við rætur þess blasa við augum bústaðir þeirra manna og kvenna, er Eyjarnar byggja. Þar gefur að líta, hvernig auði Ægis hefur verið breytt í vandaðar vistarverur, verksmiðjur og önnur mannvirki. Í vestri lokast útsýni af hinum háa og tignarlega fjallahring Blátinds, Eggja og Klifs.

ctr

Í Bjarnarey. Vindan ofan við bjargstokkinn.
Veiðin búin til heimflutnings.

Bátur okkar stefnir til austurs, en þar baðar hið sólblikandi haf austurverði hafnarinnar, Elliðaey og Bjarnarey, í dýrðarljóma sínum.
Við vendum til suðurs. Að baki okkur liggur ein fegursta innsigling veraldar. Það erum við báðir sammála um, jafnvel þótt þú sért víðförull sægarpur.
Spenningur okkar og æfintýraþrá stytta leiðina á áfangastað. Þó fer svo, að við komumst ekki hjá því að veita athygli hinu síbreytilega landslagi, er fyrir augu okkar ber.
Stakkabótin, Svörtuloftin, Brimurðin og Ræningjatangi vekja okkur til umhugsunar, jafnframt því sem við fyllumst gleði yfir því að þurfa ekki að fara suður í Miðjarðarhaf til þess að njóta náttúrufegurðar sem þessarar.
Í suðri ber áfangastað okkar við sjóndeildarhring, dálítið kassalaga sker. Við nálgumst óðfluga og það vex í augum okkar bæði að stærð, tign og virðuleik.
Brátt berst okkur til eyrna ómur af iðandi lífsþrótti bjargbúa. Þar hallast vangi ungans að móðurhlið og vængir mæðranna tengja bræðralagsband umhverfis hið síkvika ungviði.
Því nær sem dregur, þeim mun hrikalegri virðist okkur uppgönguleiðin. En allar hugsanir um geigvænlegt einstigi og hættur víkja fyrir athöfnum.
Báturinn býr sig undir að leggja að Steðjanum. Við tökum til 50 faðma af línu, en það er það eina, er við ætlum að hafa meðferðis upp að sinni. Vaðmálssokkarnir eru látnir sjá fyrir því, að ekki þurfi að hræðast, að buxnaskálmarnar flaksist til og festist á nibbum og körtum.
Nú erum við búnir til uppgöngu. Áhöfn bátsins, sem auk okkar eru tveir menn, hafa fengið boð um að halda suður fyrir eyna eftir að hafa skilað okkur á Steðjann og fylgzt með uppgöngu okkar. Þar eiga þeir að bíða okkar, þar til við höfum gefið niður til þeirra línuna, sem við tókum með okkur upp. Sjórinn er spegilsléttur, svo að ekki er hætta á, að illa takist til með lendinguna. Eftir stundarkorn höfum við báðir traust, sæviorpið, aldagamalt flæðarmálsmóberg Súlnaskers undir fótum.
Eftir að hafa klifið þriggja faðma sporhöggna leið, komum við á allstóra syllu eða bring, sem nefnist Bænabringur. Um tugi ára hafa bjargmenn staldrað hér við, fellt höfuðföt sín og lotið höfði í hljóðri bæn. Einn úr hópnum las þá ferðabæn og bað um leiðsögn og blessun almættis til handa þeim, er til uppgöngu höfðu ráðizt.
Hér stöldrum við augnablik. Hugir okkar hverfa burtu frá hinu jarðneska og einmitt nú, er við stöndum andspænis hinu hrikalega bjargi, þá finnum við vanmátt okkar, og nú er enginn svo sjálfum sér nógur, að ekki sé bezt að fela drottni forsögu leiðar okkar.
Eftir þessa stuttu dvöl okkar á þessum hljóða og látlausa stað, höfum við öðlazt öryggi, sem kemur að því haldi, er skilar okkur heilum á húfi upp eftir leiðinni, ýmist nærri beint upp eða örlítið til suðurs eftir veginum, sem varðaður er keðju, tengdri milli bjargfestra járnfleina, er við nefnum bolta.
Á vegi okkar verða nokkur hreiður, þar sem súlan hefur byggt hrauk sinn. Eftir nokkurt hugarstríð yfirgefa foreldrarnir afkvæmi sitt í mikilli angist. En hvað sjáum við ekki? Í æðum þessa unga náttúrubarns, sem eitt og vanmáttugt stendur eftir, rennur þó svellandi rammíslenzkt víkingablóð. Þó að við séum stórir að dómi ungans og slánalega lagaðar ófreskjur, þá skal barizt á meðan nokkur deigur dropi af hinu öra víkingablóði rennur í æðum ungans.

ctr

Súla með unga.

Unginn glennir sundur gogginn og hyggst leggja til atlögu. En þessi óvænta áreynsla ungans verður honum ofraun og hann tekur til að selja upp glænýjum smáfiski og síld. Við friðmælumst við garpinn, en það kemur fyrir ekki, svo að við höldum enn á brattann.
Eftir því sem ofar dregur í bergið, vex gróðurinn. Á þessari hundrað metra leið okkar upp bergið hafa ótal jurtategundir, þrátt fyrir jarðvegsleysið, náð að festa rætur, allt frá þaranum við Steðjann og ýmsum tegundum skófa á jarðvegssnauðustu hlutum leiðarinnar að gróðurfláka þeim, sem við nú erum staddir í. Hér vaggar baldursbrá, hvönn og puntstrá blíðlega á fagurgrænum grasbölum. Upp úr gróðurflákum þessum gnæfa sérkennilegir móbergsdrangar.
Áður en varir, skýtur kollum okkar upp fyrir norðausturbrún eyjarinnar. Við erum komnir á leiðarenda. Það, sem nú ber fyrir augu, verður að bíða frekari athugunar.
Félagar okkar á bátnum bíða óþreyjufullir eftir að koma til okkar farangrinum.
Nú greiðkum við sporið, enda hallar vel undan fæti. Við stefnum suður á eyna. Þar er hún lægst og fýsilegust til að draga þar upp farangurinn. Að ofan virðist okkur, að hér gangi svolítil vík inn í eyna. En er við teygjum höfuðið fram af brúninni, sjáum við niður í mikla hvelfingu. En hvar er báturinn? Nú hafa þeir sennilega verið orðnir leiðir á biðinni og haldið aftur norðurfyrir.
En hvað er þetta? Innan úr berginu fyrir neðan okkur virðist litli báturinn okkar geysast fram. Nú verður okkur ljóst, að hér er ekki aðeins um hvelfingu að ræða, heldur geysimikinn helli, enda sjáum við eftir frekari yfirvegun grilla í ljós gegnum vesturhlið hvelfingarinnar. Hér er þá hellir, sem opinn er, að minnsta kosti til austurs, suðurs og vesturs. Yfir aðalhvelfingunni er skínandi fagur sumarhiminn, er færir birtu í þetta náttúruundur á alla vegu, nema að norðan.
Nú er ekki tími til frekari hugleiðinga. Báturinn vaggar undurmilt fyrir neðan okkur. Við göngum frá gömlum og slitnum bjargstokk, sem liggur hér við brúnina. Hann sannfærir okkur um, að við erum á réttum stað, einmitt á þeim stað, er veiðimenn hafa áratugum saman gefið niður afla sinn. Við erum „á Helli“.
Hin granna lína okkar rennur lipurlega eftir hjóli stokksins. Brátt er kallað neðan frá bátnum. Röddin, sem berst að eyrum okkar, er hljómmikil í endurómun sinni frá ótal kórum og hvelfingum hellanna.
Uppdrátturinn gengur að óskum, enda þótt við ættum fullt í fangi með að ná upp hinum stóra sjötíu lítra vatnsbrúsa. Síðasta byrðin rennur í bjargstokkinn.
Glaðvær andlit félaga okkar kinka til okkar. Höfuðfötin blakta í höndum þeirra í kveðjuskyni. Ómar af vélaskellum tifa og fjarlægjast. Báturinn hverfur inn í klettinn til vesturs. Vélarhljóð menningarinnar hljóðnar, víkur fyrir töfrandi söng tugþúsunda fugla. Við erum nú syðstu íbúar Íslands.
Tjaldstaðurinn er valinn og við hefjumst handa um að koma tjaldinu upp og ganga frá vistunum.
Að þessu loknu er gott að geta gripið til hitunartækjanna, og að andartaki liðnu hressum við okkur á ilmandi kaffisopa. Með bollana í höndum virðum við fyrir okkur umhverfið. Hér erum við ekki einir. Umhverfis okkur á alla vegu vagga sér og hneigja íbúar eyjarinnar.
Fyrir austan okkur er töluvert súlnabæli. Þetta „þorp“ er að vísu ekki stórt miðað við „höfuðþorpið“ uppi á háeynni, en byggðin er engu að síður þétt. Okkur telst svo til, að hér muni vera um áttatíu til hundrað hreiður.
Aldnir en þó sérlega tígulegir foreldrar kjassa unga sína. Stoltir feður glenna sundur gogga sína og unginn stingur sterklegu nefi sínu í föðurkok og sækir þangað fæðu sína. Á okkar vísu er þetta ekki sem viðfeldnast borðhald, en í ríki náttúrunnar verða allir fordómar mannlegrar háttprýði að víkja fyrir lögmálinu. Þetta sem annað verður í augum okkar fögur sjón, er vekur vissar tilfinningar ástar og umhyggju í hjörtum okkar.
Í rúmri seilingarfjarlægð frá okkur til suðurs og vesturs hoppa hundruð reisulegra svartfugla (langvíur). Hér er iðandi líf. Eggin liggja hér í hundraðatali, en nokkrir ungar hafa þegar fagnað sólu og sumri með komu sinnu í fylkingu ættbálks síns.
Við veitum athygli eggi, sem vaggar á láréttum fleti og virðist brjóta öll náttúrulögmál. Stór svört trjóna brýzt gegnum eggskurnina. Við erum vitni að náttúrulögmálinu í framkvæmd.
Enn snúum við höfði og lítum upp til norðurs. Hér breiða suðurhlíðar eyjarinnar fangið í móti okkur, skreyttar hinum fegursta gróðri, sem bærist í vestan andvaranum milli hinna fagurlaga hryggja, er liggja í skipulögðum röðum niður brekkuna. Varla verður litinn svo blettur, að ekki standi þar lundapör, er baða sig í sólskininu.
Ofar öllu þessu gnæfir varða, sem ber þess vitni, að hér hafa menn áður verið. Varða þessi er hlaðin á móbergsklöpp. Þetta mun vera Skerpresturinn. Við ljúkum við kaffisopann, minnugir þess, að við eigum töluverðu ólokið eftir að hafa séð Skerprestinn.
Þjóðsagan um mennina tvo, er fyrstir áttu að hafa klifið Súlnasker, svífur fyrir hugskotssjónum okkar.
Við rísum á fætur og höldum rakleitt að þessari sögulegu vörðu. Á leiðinni rekum við upp hundruð prófasta. Vængir þeirra kljúfa loftið. Þar er sem dragi fyrir sólu, er fylkingin sveimar í hringi yfir brekkunni. Hér og þar sjáum við moldarþústur fyrir framan holuop lundans. Íbúar holunnar hafa nýlokið við að þrífa til í vistarveru sinní.

ctr

Lundi í háfi.


Með elju og þrautseigju hafa fæturnir sópað burtu því, er nefið hefur áður losað um. Áður en varir, sjáum við ekki betur, en einhver lundanna róti ekki einungis mold heldur ausi ennfremur vökvaslepju. Hugsanatengsl við fyrri sjón villti okkur sýn.
Hér var ekki lundi að verki heldur lítill fýlungi, sem streittist við að ausa yfir okkur úr maga sínum. Hefði hann ekki beitt þessu vopni sínu, hefðum við sennilega ekki veitt honum athygli, þar sem hann lá að mestu hulinn slútandi grasi og öðrum gróðri. Við víkjum úr vegi, því að við þekkjum það, er hann hafði ætlað okkur, og okkur fýsir ekkert í það.
Nú stöndum við andspænis vörðunni, er gnæfir svo hátt á norðausturhorni Skersins.
Áður höfum við gert árangurslausar tilraunir til að friðmælast við eyjaskeggja, en nú er ætlunin að semja við verndarvættina sjálfa.
Og enn kemur okkur í hug þjóðsagan af mönnunum tveimur, er fyrstir klifu Skerið. Sá þeirra, er ekkert vildi hafa með Guð og góða siði, hlaut refsingu frá Skerprestinum, sem hristi eyna alla og steypti skerinu til suðurs, svo að hinn sjálfglaði fjallamaður féll í hafið, en með hjálp prestsins stóð guðsóttamaðurinn eftir, en síðan hallar Skerið svo mjög til suðurs, sem það nú gerir.
Að forn-íslenzkum sið færum við prestinum nú peningafórnir, sem við stingum inn í vörðuna, en þar falla peningarnir niður í grunna skál í móbergsundirstöðunni. Fórn sem þessi, er við nú framkvæmum, hefir verið færð presti áratugum saman af öllum þeim, er til uppgöngu hafa hér ráðizt. En hvar er þá allur auðurinn? Við sjáum aðeins fáa peninga úr sleginni mynt, sem hafa fá merki elli til að bera.
Með einhverjum hætti og af einhverjum hafa fórnir forfeðranna verið þegnar.
Þar sem við erum nú komnir svo nálægt hátoppi eyjarinnar, þá höldum við göngunni áfram og snúum nú til norðvesturs.
Bráðlega mætir augum okkar stórfengleg sjón. Skerandi hvít breiða blasir við augum. Fulltíða kremhvítar hafsúlur hoppa hér á milli afkvæma sinna, kyrjandi margraddaðan söng ungviðinu til dýrðar. Hundruðum saman vagga þessir stóru, glæsilegu fuglar um í þessari stórborg.
Að baki þessari hrífandi sjón blasir hinn töfrandi fjallahringur Heimaeyjar í fjarlægð, sveipaður bakgrunni stórfenglegrar landsýn eldfjalla og jökla með hvanngrænum hlíðum. Yfir öllu hvelfist himinninn heiður og blár segjandi: „Þetta allt er þér gefið, þú vanþakkláti maður.“
Dagurinn líður í dýrðarljóma glæsilegrar íslenzkrar náttúru. Ótöluleiki dásemda ber fyrir augu í drynhviðu undursamlegs undirleiks hundruð þúsunda fugla, frjálsra, eiginlegra og sannra náttúrubarna.
Kvöld færist yfir. Enn hljómar unaðssöngurinn á landi, í lofti og á legi. Aðeins um miðnætti færist hinn fullkomni friður yfir eyna og ómar söngvanna hljóðna en aldan skvampar léttilega í kvöldkyrrðinni.
Einn stundarfjórðung er allt hljótt. Nóttin færir frið og ró öllum sínum náttúrubörnum, boðandi um leið komu nýs dags með birtu, yl og líf.
Við leggjumst þreyttir til hvíldar, fullir þakklætis fyrir tilveru okkar og þá tilfinningu, að við séum hluti af þessu öllu. Við erum börn náttúrunnar.

S.J.J.