Blik 1955/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1955



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON, skólastjóri:


HUGVEKJA
flutt í Gagnfræðaskólanum 4. jan. 1954


Þorsteinn Þ. Víglundsson.


Samkennarar og nemendur.
Fyrir nokkrum árum frétti ég af ungum Íslendingi, sem dvaldist við nám í borg erlendis.
Borgarstjórinn bar kennsl á Ísland og ól með sér hlýjan hug til íslenzku þjóðarinnar.
Hann komst á snoðir um það, að ungur Íslendingur stundaði nám þar í borginni.
Afréð nú borgarstjórinn að heiðra íslenzku þjóðina með því að bjóða Íslendingnum heim kvöld eitt, er hann hafði gestaboð inni.
Þegar setzt var að veizluborðum, varð Íslendingurinn ungi þess vís, að þar skyldi freyða vín á hvers manns borði.
Þessi íslenzki æskumaður hafði fyrir skömmu kvatt heimili sitt, foreldra sína og systkini. Aldrei hafði hann bragðað áfengi, og því hafði hann heitið sinni góðu móður, að það skyldi hann aldrei gera. Líka þekkti hann þess mýmörg dæmi heima, hversu áfengisnautnin leikur mörg heimili hart, tortímir heimilishamingju og býr þjóðfélaginu „vanmetakindur“ úr góðum og gáfuðum mannsefnum. Þess þekkti hann einnig fjölmörg dæmi, að stundargleði áfengisneyzlunnar lengist oft í ævilangar hörmungar og ógæfulíf.
Ungi Íslendingurinn fann til feimni og minnimáttarkenndar innan um veizlugesti borgarstjórans.
Hvað átti hann að gera?
Mundu ekki borgarstjórinn og frú hans þykkjast við það, ef hann hafnaði hinum freyðandi góðgjörðum? Mundi hann sjálfur verða talinn minni maður af þeim sökum? Mundi hann, fulltrúi íslenzku þjóðarinnar í gestaboðinu, verða álitinn henni til vansæmdar, ef hann hafnaði gjörsamlega hinum „gullnu veigum?“
Þessar hugsanir höfguðu huga hans og orkuðu á lund hans, meðan gestirnir röðuðu sér að veizluborðunum.
Ungi Íslendingurinn varð nú í skyndi að gera upp við sjálfan sig vandasaman reikning, gera upp við samvizku sína.
Eins og eldingu sló niður í huga hans orðum Lúthers. — Á úrslitastundinni miklu hafði hetjan Lúther sagt, að það væri háskasamlegt að breyta gegn samvizku sinni. Nú var æskumaðurinn íslenzki staðráðinn í að gera það heldur ekki.
Þegar undir borð var setzt, tjáði hinn ungi landi okkar gestgjöfum sínum með þeirri kurteisi og hógværð, sem hann átti til, að hann neytti ekki áfengra drykkja, hefði aldrei gert það.
Borgarstjórinn brást alúðlega við þeirri tjáningu hins frómlundaða æskumanns. Kvaðst hann kunna að meta bindindi, þó að hann neytti sjálfur víns.
Síðar í gestaboðinu flutti borgarstjórinn stutta ræðu fyrir minni Íslands. Fór hann nokkrum orðum um afspurn sína af íslenzku þjóðinni, bókmenntum hennar, sögu og sjálfstæðisbaráttu. Hann drap í ræðu sinni á dvöl íslenzkra æskumanna erlendis við nám og annað, sem auka mætti þeim manngildi og hæfni til þess síðar að skipa betur sitt rúm í atorkusömu þjóðlífi hér heima. Síðast ræddi hann um sín litlu kynni af þessum unga Íslendingi og tjáði gestunum algjöra höfnun hans um neyzlu áfengra drykkja. Þannig kvaðst borgarstjórinn vilja þekkja unga menn. Hans eigin þjóð kvað hann alltof fátæka af ungum mönnum, sem vissu, hvað þeir vildu, væru ekki eitt í dag og annað á morgun, ættu lífsstefnu, lífshugsjón, sem þeir brygðust ekki, hvað sem á bjátaði. Hann kvað það gæfunnar braut fram eftir veg. Viljasterkur, stefnufastur æskulýður, sem hlotið hefði gott uppeldi, það væri dýrmætasta eign hverrar þjóðar, sagði borgarstjórinn.
Nemendur mínir! Ég beini nú fyrst og fremst orðum mínum til ykkar, sem eldri eruð. Oft hefi ég hugleitt þennan unga landa okkar. Mér þykir vænt um hann. Skapgerð hans heillar mig. Ég hefi oft óskað þess, að nemendur mínir, hver og einn einasti, væru gæddir staðfestu hans og vilja um það að vera sjálfum sér, æskuhugsjónum sínum, foreldrum sínum og þjóð sinni trúir í einu og öllu. — Og mikil hefur sigurgleði unga Íslendingsins verið svona innra með honum, þegar hann skildi, hve stórkostlegan sigur hann hafði unnið á sjálfum sér með staðfestu sinni og einbeitni.
Annað heillar mig í þessari litlu frásögu: Manngöfgi borgarstjórans, hinn góði skilningur hans á gildi viljaþols og trúfesti gagnvart æskuhugsjón sinni og góðum áformum.
Borgarstjórinn dáði hugrekki unga Íslendingsins og andans frelsi. En fullkomlega frjáls erum við ekki, fyrr en við gerum hiklaust, það sem við vitum, að er satt og rétt, hvað sem það kostar.
Mér finnst eitt megineinkenni tíðarandans vera undanlátsemin við það, sem við vitum, að er satt og rétt, staðfestuleysið.
Margur nú á dögum býsnast yfir léttúð æskulýðsins, gjálífi hans og drykkjuskap. Víst er um það, að lausung í ástum og áfengisneyzla fara oft saman. Hvort tveggja eru ávextir hins veika vilja til að standa mót. Þar lætur tíðum vitið og greindin í minni pokann, býður lægri hlut, sökum skorts á hugrekki og þreki. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því, að alltof margir nemendur mínir hafa farið í hundana að meira eða minna leyti undanfarinn aldarfjórðung, þrátt fyrir eldheit áform um reglusemi, staðfestu og gætni, þegar þeir yfirgáfu skólann og lögðu von bráðar til atlögu við lífið sjálft.
Það þarf hvorki eldra fólk né lífsreyndara en þið eruð, nemendur mínir, til þess að skilja svo mikið af lífinu í kringum ykkur, og safna reynslu af þeirri skynjun, að drykkjuskapur og lausung í ástamálum leiðir aðeins að einu marki, óhamingju og niðurrifi á manngildi. Dæmin eru deginum ljósari.
Ungar stúlkur hafa um of lítið taumhald á ástrarþrá sinni og ástarórum. Þær láta auðveldlega ginna sig. Alltof margar kasta innstu og viðkvæmustu tilfinningum sínum þegar á mjög ungum aldri í faðminn á strákalörfum, sem skirrast ekki við að ginna þær með bifreiðum og víni til dæmis. Þær skortir vit og þrek til að standa mót. Þær sóa salti ástarinnar þegar á æskuskeiði í Pétur og Pál, svo að einungis hálfkulnaðar glæður verða eftir af hinu hreina og einlæga tilfinningalífi ástarkendanna handa hinum væntanlega lífsförunaut.
Nákvæmlega hið sama á sér stað hjá ungum piltum í of ríkum mæli.
Sundrung hjónabanda eða óhamingja í heimilis- og ástarlífi stafar æði oft af þessum sökum. Hinar einlægu og viðkvæmustu tilfinningar hjá báðum aðilum hjónabandsins jafna fljótt þær snuðrur, sem kunna að hlaupa á hjónasamlífið, en hafi þeim viðkvæmu tilfinningum verið sóað á æskuskeiði í lausung og gjálífi, er ekki von á góðu síðar í ástarlífinu. Hvað ætti þá að jafna hina hugsanlegu árekstra í löngu samlífi ?
Sízt megum við leggja skynsemina á hilluna gagnvart tilfinningalífinu, ef svo mætti að orði komast. Við megum aldrei sleppa hendinni af sjálfsstjórninni, gefa á bátinn viljavitið og viljaþrekið. Ef við gerum það, erum við um leið orðin veifiskatar í höndum þeirra afla, sem leiða okkur til ófarnaðar.
Enginn æskumaður þarf að blygðast sín fyrir ástarkenndir sínar og ástarþrá. Það er einmitt einkenni heilbrigðs sálarlífs. En eitt er að þrá og annað að hlaupa hugsunarlaust eftir þrá sinni og ósk hverju sinni. Gætið þess sem oftast, nemendur mínir, að láta skynsemina halda í hönd tilfinninganna. Leiðið hvort tveggja fram á lífssviðið af viljafestu og hugrekki, og þá mun ykkur vel farnast. Minnumst þess, að

Eitt einasta syndar augnablik,
sá agnarpunkturinn smár,
oft lengist í ævilangt eymdar strik,
sem iðrun oss vekur og tár,

eins og skáldið kveður.
Því miður má mörg stúlkan, og margur pilturinn líka hafa yfir þessa ferskeytlu af heitum söknuði og trega, af því að vilja og þol skorti til að standa mót á örlagastundum æskuáranna. Það skorti viljaþrek og hugrekki til að standa af sér aðsteðjandi strauma á örlagastundum æskuáranna, þegar ástarþrá og órar slævðu alla skynsemi, svo að æskumaðurinn gerðist stjórnlaust rekald á ólgusjó tilfinningalífsins.
Þetta syndaraugnablik, sem skáldið nefnir svo, er örlagastundin, þegar skynsemin er látin sleppa hendi sinni af tilfinningalífinu. Þá reynist viljalífið okkar of veikt, staðfestan engin. Við bregðumst æskuhugsjónum okkar í ýmsum myndum. Það eru syndaraugnablikin örlagaríku í lífi æskumannsins.
Ég veit það, að þið eigið öll, nemendur mínir, þá æskuhugsjón að vera bindindisfólk. Andstæð áform væru óeðlileg á ykkar aldri. Mætti forsjónin gefa ykkur viljaþrek og hugrekki til þess að bregðast aldrei þeirri æskuhugsjón ykkar, leiða aldrei yfir ykkur það syndar augnablikið örlagaríka.

Þ.Þ.V.