Blik 1954/Sigurgeir Jónsson frá Suðurgarði

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1954



ÁRNI ÁRNASON:


ctr

Nokkur minningarorð, tekin úr
GESTABÓK bjargveiðimanna í Bjarnarey.


Sigurgeir Jónsson var fæddur að Hallgeirsey í Austur-Landeyjum 25. júní 1898, en fluttist með foreldrum sínum til Vestmannaeyja árið 1903. Foreldrar hans voru þau hjónin Jón bóndi í Suðurgarði Guðmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir.
Sigurgeir ólst upp með foreldrum sínum og var þeim mjög kær og góður sonur í hvívetna. Hann varð snemma mjög bráðgjör um allt það, er ungmenni bezt má prýða, elskaður og virtur af öllum, er honum kynntust. Hann var hár maður, herðibreiður, styrkur vel og fylginn sér, léttur og kattliðugur, dökkhærður, en ljós í andliti, fríður sýnum og skein birta og blíða úr hverjum andlitsdrætti, en augun ljómuðu ávallt af gleði og fjöri. Hann var hrókur alls fagnaðar, söngvinn í bezta lagi, orðlagður tenoristi — hljómakær og ávallt syngjandi af hjartans lyst.
Í kringum Sigurgeir var því ávallt birta, gleði og frískleiki. Þetta kom ekki hvað sízt fram á heimili hans, sem orðlagt var fyrir hlýleika á öllum sviðum, gleði og vinfesti, og svo í úteyjalífinu, í hinum fámenna einangraða veiðimannahóp, þar sem allt er undir þessum eftirsóttu eiginleikum mannlífsins komið. Þar var Sigurgeir enginn miðlungsmaður í daglegri umgengni og störfum öllum, heldur fyrirmaður þeirra, er fremstir voru.
Sigurgeir var lundaveiðimaður með afbrigðum góður og slyngastur fjallamaður sinnar samtíðar á öllum sviðum fjallamennskunnar: áræðinn, fljótur og traustur, svo að öllum framkvæmdum þótti ávallt bezt borgið undir hans forsjá, varfærinn og athugull svo að orð fór af meðal fjallamanna. Hann hafði gist og farið um allar úteyjarnar og heimalandsfjöllin þvert og endilangt og hlotið einróma aðdáun allra fyrir eindæma lipra fjallamennsku, hnitmiðaða og örugga.
Á Alþingishátíð Íslands 1930 kleif hann hamar Almannagjár svo frækilega, spariklæddur og á stígvélaskóm, að alla setti hljóða af undrun og ofvæni. Þúsundir manna horfðu á afrek þetta og þótti mikils umvert fræknleik þessa unga Vestmannaeyings, og hann gerði Vestmannaeyjum mikinn sóma.
Bjarnarey er leigumáli jarða fyrir ofan Leiti þ.e.a.s., fyrir ofan Hraun og meðal þeirra Suðurgarðs. Sigurgeir fór þess vegna ungur að aldri að stunda þar fjallaferðir og veiðar. Tók hann ástfóstri við Eyjuna sína fögru — Bjarnarey — hið undur fagra hátignar frjóland, paradís fuglalífs og litfagurra blóma, hún átti hug hans óskiptan öllum stundum. Þar var hans annað heimili.
Um eyjuna hafði hann farið oft og mörgum sinnum, laus og bundinn allt frá efstu brúnum til sjávarmáls. Hann þekkti hvern stein og hverja þúfu, hvern bekk og bæli, laut og brekku, haus og tó.
Það kom þess vegna eins og reiðarslag yfir íbúa Heimaeyjar á uppstigningardag árið 1935, að Sigurgeiri í Suðurgarði hefði þá um daginn orðið fótaskortur í brekku í Bjarnarey, hrapað fyrir brún fram og látið lífið. Menn gátu ekki trúað þessari váfregn. Það var óhugsandi. En — váfregnin reyndist því miður sönn. Hann hafði hrapað.
Og alla setti hljóða. Heimaey var í tárum. Hún hafði misst einn af sínum beztu sonum. —

Há var sú þruma, hamrarnir rísa,
heyrist frá klettunum vættanna hjal
sárustu andvörp syrgjandi dísa
segja mér öðlinginn hniginn í val.

Í kynjaglæðum kvöldsólarinnar sátu samstarfsmenn Sigurgeirs heitins og drúptu höfði í hljóðlátri minningu um fallinn vin og afreksmann. Í austri gnæfði við himinn Bjarnareyjan undurfagra, sorgmædd, þögul og hátignarleg, tárvotum blómum skrýdd og íklædd purpuraklæðum hins rennandi sumarröðuls, en dimmir skuggar í giljum og skorningum teygðu sig langt niður eftir berginu og voru til að sjá eins og sorgarslæður prýðandi viðhafnarskrúða eyjarinnar.
Þarna höfðu þeir lifað og hrærzt í sátt og samlyndi, unaði og yndi, en nú, við sviplegt fráfall ástkærs vinar, hlaut þetta unaðssemdalíf að breytast ákaflega mikið. Allt hlaut að minna þá á hann, vininn, sem þeir syrgðu nú og söknuðu úr sínum hóp.

Hjartað þráir, það ég sver,
þig minn kæri vinur,
örlög valda, að innst hjá mér
eitthvað berst og stynur.
Keppti að marki hátt en hljótt,
hlynnti að samtíðinni.
Engu, sem var lágt og ljótt,
laut hann nokkru sinni.
Heimaeyjar hylli naut
hetjan, lífs á vori.
Heiðarleikans hálu braut
hann gekk af festu og þori.
Hjartað þráir, það ég sver,
þig, minn góði vinur.

Sigurgeir lézt tæpra 37 ára gamall, ókvæntur og barnlaus, öllum harmdauði.

Júní 1952.
Árni Árnason,
frá Grund.