Blik 1953/Þáttur nemenda, II. hluti
Smásaga.
Rósa litla og þrösturinn.
Sagan um hana Rósu er svona. Hún Rósa var 10 ára og hún var í barnaskóla og krakkarnir gerðu grín að henni, af því að hún söng svo hræðilega illa. þetta þótti henni leiðinlegt, og hún var svo oft döpur út af þessu. Einu sinni var hún á gangi úti í skógi. Þá sá hún fallegan fugl sitja þar á grein. Það var þröstur og hann söng svo yndislega, að Rósa varð alveg heilluð af söng hans. Nú settist Rósa niður og datt henni þá í hug að syngja svolítið með þrestinum. Svo fór hún að reyna, fyrst hægt og hikandi, og fannst þetta ekki vel gott hjá sér, en hún gafst ekki upp. Þegar hún fór heim fannst henni, að þetta hefði ekki verið svo afleitt hjá sér. Þetta gerði Rósa oftar, að fara út í skóg til að syngja með þrestinum. Nú söng hún orðið mjög vel. Svo átti einusinni að halda skemmtun í skólanum. Meðal annars átti að vera einsöngur. Já, og það var nú bara hún Rósa, sem var látin syngja, og allir, sem heyrðu, urðu yfir sig hissa á því, hve hún söng vel. Eftir það gerði enginn grín að Rósu, og hún hætti að vera hrygg. Og lýkur nú sögunni um hana Rósu litlu.
- Þ.G., 1. b.
Myndir úr skólanum
Röðin niður vinstra megin:
1 Þrjú gáfnaljós í 1. A.
2. Listamenn úr landsprófsdeild. Ályktunarorð: „Ástin gutlar innan í mér eins og spenvolg mjólk.“
3. Meyjar 3. bekkjar. Ályktunarorð: „Hvað er það, móti meyjaryndi, eins og tað orðið þurrt í vindi, eins tað“.
4. Fulltrúar vináttu 1. og 3. bekkjar.
Röðin niður hægra megin:
Ein eru uppi' til fjalla
yli húsa fjær.
Úti um hamrahjalla
Hreinn fær seiddar þær.
Yndisleg en ástarkörg
er hún litla Björg.
2. Skólastjóri iðkar fótamennt.
3. og 4. Ársfagnaður með dansi og dragspili. Glatt á hjalla. Gamlir nemendur í heimsókn.
Smábarnasaga.
Flugan og fífillinn.
Einu sinni var hunangsfluga á sveimi fyrir ofan fífil, sem breiddi út fallegu blómkörfuna sína á móti sólinni. Þarna sá flugan tækífæri til að safna sér dálitlu hunangi, og í þeim tilgangi steypti hún sér niður á fífilinn. Fífillinn varð ekki var við fluguna strax og hún kom. Hann hafði verið í svo djúpum hugsunum, þess vegna hafði hann ekki orðið var við hana. En hann rankaði brátt við sér. Honum þótti flugan vera frek að taka hunangið frá sér í leyfisleysi, svo að hann kallaði á vindinn, sem í þessu var að fara fram hjá, og sagði: ,,Hæ, þú þarna vindur, viltu hjálpa mér að reka fluguna burt?“ „Já, já, alveg sjálfsagt,“ sagði vindurinn. Og hann tók sig nú til og blés fast á fífilinn, svo að hún, sem átti sér einskis ills von, skall niður á jörðina, því að hún hafði ekki haft tíma til að bera fyrir sig vængina og lenti því beint á magann nær dauða en lífi af hræðslu. Loks gat hún hafið sig á loft og flogið heim til sín og kom ekki aftur, en fífillinn og vindurinn urðu góðir vinir og röbbuðu saman um daginn og veginn. Og lýkur hér sögunni.
- Þórunn Gunnarsdóttir, 1. b.
Áfengismál.
Áfengið er illt eiturlyf. Þegar menn hafa neytt áfengis, geta þeir gert æði margt illt af sér, framið þjófnaði, brotið og bramlað, slegizt og þar með skaðað sjálfa sig og aðra. Það er ekki skemmtilegt fyrir giftar konur að taka á móti eiginmönnum sínum heim undir áhrifum áfengis. Þeir brjóta ef til vill leirtauið og skemma allt það, sem konan hefur eytt tíma sínum í að gera sem fallegast og vistlegast til að gleðja mann sinn og börn.
Þeir verstu hrekja kannske sjálfa konuna og börnin út á guð og gaddinn, svo að þær verða innkulsa og fárveikar, og eru börnin þá í hirðuleysi og mennirnir úti að slæpast eða sitjandi í tugthúsi, þegar þeir hafa eytt sínum síðasta eyri í þetta andstyggilega eiturlyf. Þá skortir móðurina og börnin fæðu eða annað, er peninga þarf til, og verða þá mæðurnar að fara og vinna sér og börnunum fyrir mat og klæðum.
Stundum eru bæði heimilisfaðirinn og móðirin með gesti alla daga og nætur og hafa áfengi á boðstólum. Börnin eru sársvöng og köld, skælandi eða dottandi úti í horni og una illa þessum hávaða og látum.
Áfengið eyðileggur skemmtanir. Það er ekki skemmtilegt að vera að skemmta sér innan um blóðugan bardaga, brotin áhöld, stóla og fleira.
Fólk neytir áfengis allt of mikið. Ungir menn og konur verða áfenginu að bráð og eyðileggja líf sitt með því og valda ástvinum sínum hryggðar.
Væri nú áfengisbann komið yfir landið okkar allt, þá hætti fólk að drekka, þegar ekkert væri til í búðunum. Heimilin mundu verða yndisleg, faðirinn kæmi heim frá vinnu sinni á unaðslegt heimilið sitt, hlýlegt og vistlegt, og þar biðu hans innileg eiginkona og góð börn. Þá skortir vonandi engan neitt.
Mál er til komið, að áfengisbann verði sett. Áfengið hefur leitt allt of margar hörmungar af sér og ætti ekki að leiða af sér fleiri.
- Hrönn Hannesdóttir, 1. b.
Góð hjálp.
Á Brekku var mikið að gera, því að heyannirnar stóðu nú sem hæst. Fólkið þeyttist fram og aftur við verk sín, en mamma var á þönum milli búrs og eldhúss um matmálstímann, til að ná í það, sem hún þurfti að nota um matinn. Dísa og Villi sátu við eldhúsborðið rétt eftir matinn og sveifluðu fótunum, hvort á sínum stól og hugsuðu um allt og ekkert, þar til Dísa sagði: „heyrðu, Villi, finnst þér, að hún mamma hafi ekki mikið að gera, eigum við ekki að hjálpa henni eitthvað, ef við getum?“ „Jú, það verðum við að gera, við getum þvegið upp fyrir hana saman, fyrst mamma mátti ekki vera að því, því að hún varð að fara strax út á tún eftir matinn til að raka. Við getum líka þvegið gólfin, vökvað blómin og þurrkað af og gert annað, sem við sjáum að þarf að gera, svo að mamma þurfi ekki að gjöra það, þegar hún kemur þreytt af túninu“. „Jæja, er þá ekki bezt að byrja og vera búin að öllu og allt verði orðið fínt, áður en hún kemur,“ sagði Dísa. Svo var tekið til óspilltra málanna og þvegið upp. Það gekk ágætlega, þó að einu sinni munaði minnstu, að Villi bryti grautardisk mjög fallegan, með rósum á, en því varð þó afstýrt, sem betur fór. Því næst tóku þau fötu, þvottaklút og annað, sem með þurfti, og þvoðu gólfin, og var það mjög vel af hendi leyst hjá þeim. Svo vökvuðu þau fallegu blómin hennar mömmu sinnar og gerðu annað það, sem þeim fannst mest þurfa í húsinu. Þegar þau voru búin að þessu öllu, fóru þau að leika sér og biðu jafnframt með óþreyju eftir, að mamma þeirra kæmi heim. Mamma þeirra kom eftir dálítinn tíma og hafði ætlað sér þó þreytt væri, að fara að taka til. Hún gekk inn í húsið og rak upp stór augu, er hún sá, að allt var í röð og reglu. Datt henni þá í hug Dísa Og Villi, þau höfðu líklega gert þetta. Hún gekk út og kallaði á þau. Er þau komu inn, tók hún þau í faðm sér og kyssti þau fyrir hjálpina og sagði, að áreiðanlega ætti enginn eins góð börn og hún.
- Þórunn Gunnarsd., 1. b.
Skemmtanir, áfengi, tóbak.
Mér datt í hug að skrifa um skemmtanir. En um það er svo mikið rætt í ræðu og riti. Ég fyrir mitt leyti fer helzt aldrei á skemmtanir, og komi það fyrir, geri ég það helzt nauðug. Sem dæmi upp á það, hef ég farið þrisvar sinnum í bíó í þessa 3 1/2 mánuð, sem ég hef verið hér og aðrar skemmtanir hefi ég ekki sótt. En mér finnst leitt að sjá, hve mikið er gert að því hér að sækja þessar skemmtanir. En ég þekki það náttúrlega ekki annars staðar, en ég veit það, að heima er lítið um skemmtanir, og ef til vill er það vegna þess, að ég tek mikið eftir þessu. En það er ekki svo að skilja, að fólk eigi ekki að skemmta sér. Það er misjafnt, hvernig það er gjört, og allt er bezt í hófi. Ég skal nú segja ykkur, hvernig ég hafði það heima. Ég var búin að læra svona kl. 5—6, þá tók ég skíði mín eða skauta og lék mér fram að kvöldmat. Eftir mat settist ég svo og saumaði eða föndraði eitthvað annað og hlustaði á útvarp. Þannig er á ýmsa vegu hægt að eyða frístundum sínum. Eina samtalið, sem maður heyrir, er: „Fórstu á ballið í Höllinni?“ Eða: „Sástu þessa mynd eða hina?“ En ef fólkið gæti skemmt sér án áfengis og tóbaks, þá væri það kannske sök sér. Fullur maður er það versta, sem ég veit. Ég byrja alltaf að skjálfa, þegar ég sé fullan mann, og er mér strítt mikið með þessu. En foreldrar mínir hafa aldrei drukkið, svo að ég veit ekki, hvernig það er að eiga foreldra, sem koma fullir heim má segja hvert kvöld, svo að ekki þyrfti ég að vera svona þess vegna. Á aðfangadagskvöld fyrir nokkrum árum, svona um kl. 4-5, er mér litið af tilviljun út um gluggann, og sé ég þá fullan mann koma heim að húsinu. Ég fer þá og læsi öllum hurðum og geri síðan aðvart þeim, er í húsinu voru. Fór maðurinn fljótt aftur, en hvernig haldið þið, að konu og börnum þessa manns hafi liðið eða haldið þið, að þau hafi átt gleðileg jól.?
Tóbakið er að vísu ekki eins skaðlegt og áfengi, en víst er, að það er ekki hollt. Það var t.d. maður heima, sem var magaveikur, og honum var bannað að borða ýmsan mat, og einnig var honum bannað að reykja. Hann fer að öllum ráðum nema því að hætta að reykja, en honum batnar ekki, og hann var búinn að fá blæðandi magasár. Þegar hann var spurður, hvort hann hefði hætt þessu, þá svaraði hann: „Öllu nema að reykja.“ Hann vandi sig á það svo ungur og tóbaksþorstinn var orðinn svo óslökkvandi.
- Katrín Ingvarsdóttir, 2. b.
- Eskifirði.
„Enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur“.
Það eru mörg dæmi um það, að þessi málsháttur hefur við full rök að styðjast. Hversu oft hefur maður ekki heyrt sögur um drengi og stúlkur, sem hafa verið borin á höndum, ef svo mætti nefna það, — af pabba sínum og mömmu sinni. Þau hafa viljað allt fyrir börn sín gera, allt, sem þau hafa álitið, að þeim væri fyrir beztu. — Aldrei staðið á því að reyna að uppfylla óskir þeirra, falleg föt, góðan mat og svo leikföng eftir því sem efnin leyfðu.
Börnin taka við þessu með gleði og þykir vænt um allar þessar gjafir og þakka að sjálfsögðu fyrir þær. — En hvað skeður allt í einu?
Mamma kemur til þeirra, þar sem þau eru að leika sér að leikföngunum, sem hún hafði gefið þeim og spyr yfir hópinn: „Vill nú ekki eitthvert ykkar skreppa fyrir mig í næstu búð og kaupa fyrir mig 1 kg. af þurrkuðum ávöxtum, svo að ég geti gefið ykkur góðan ávaxtagraut á eftir fiskinum í dag?“ Þá segir Palli: „Hann Siggi getur farið.“ Siggi segir: ,,Hún Dóra getur farið.“ En hún segir strax: „Ég held að strákarnir séu ekki ofgóðir til að fara núna, því að ég fór í gær.“ — Síðan rífast þau um þetta, þangað til mamma er orðin þreytt á að hlusta á þau og bíða eftir, að eitthvert þeirra fari, og fer því sjálf. — Hún er hrygg í huga, börnin hennar eru ekki eins góð og hún hefur haldið þau vera. Þau gleðjast yfir að fá gjafir en vilja ekkert gefa í staðinn. —
Missi þessi börn móður sína og lendi hjá vandalausu fólki, sem lætur þau hlýða sér, hvort sem þau vilja eða ekki, þá sjá þau mismuninn. — Mamma þeirra elskaði þau og gladdi þau, en þau voru henni ekki eins góð og þau áttu að vera, þau vantaði viljann til að hjálpa henni og launa þannig hennar umhyggju fyrir þeim. — Nú, þegar hún var horfin, grétu þau hana, því að nú vissu þau, hvað þau höfðu misst.
Annars er þessum málshætti. „Enginn veit, hvað átt hefir, fyrr en misst hefur“, bezt svarað með sögunni um týnda soninn í biblíunni. —
- Unnur A. Jónsdóttir, 1. b.
Minningar úr skóla.
Þegar ég skrifa þessar endurminningar, þá er mér efst í huga gamli Gagnfræðaskólinn, því að það er hann, sem geymir endurminningar frá gömlum skólaárum.
Það er þaðan, sem allir gagnfræðingar hafa verið útskrifaðir hér í bænum fram að þessu. Getur hann því ekki talizt annað en merkileg bygging, sem stendur nokkur ævintýraljómi af, þrátt fyrir útlit og aðstæður, eins og þær voru þá, að mér finnst, og svo er líklega með fleiri þá, er stundað hafa þar nám sitt.
Eins og gefur að skilja, og þeir vita, er í framhaldsskóla hafa verið, ríkir ætíð gleði meðal nemendanna, sem eru allir á líkum aldri.
Farið var í skemmtigöngur öðru hvoru til hressingar og upplyftingar. Var þá gengið á fjöll, eða eitthvað út um eyju, inn í Herjólfsdal, austur á Hauga eða suður í Stórhöfða, svo eitthvað sé nefnt.
Ekki get ég sagt frá neinni sérstakri skemmtigöngu, nema frásögnin verði of persónuleg.
Annars held ég, að sumum gæti þótt nokkuð gaman að hafa farið í handknattleik uppi á Klifi, hringleik eða „Eitt par fram“ uppi á Há, skoðað sig um í iðrum Stórhöfða við kertaljós, en einmitt á þá leið var skemmtiferðum skólans háttað.
Mér hefur stundum dottið í hug, að það hljóti að vera skemmtilegra að búa í það litlum bæ eða borg, að hægt sé að fara út úr honum með sæmilega hægu móti, heldur en í stórborg, sem geymir íbúa, sem aldrei hafa út fyrir úthverfin komið, því að snerting við náttúru landsins hlýtur aldrei að geta átt sér stað í borgum, þótt um stóra garða sé að ræða í þeim. Auðvitað hafa þær margt annað að bjóða, svo sem fræg listasöfn o.m.fl., sem ekki er hjá öðrum í eins ríkum mæli.
Geta því slíkar skólagönguferðir, sem farnar eru um nágrenni bæjarins, eflt og aukið ást á landi voru. Auk þess eru þær tilbreyting frá daglegu skólastarfi.
Aðalhátíðin í skólanum var 1. desember-skemmtunin, sem fór fram með glæsibrag, með alls kyns dagskráratriðum og veitingum, þó að ekki væru drukknar hinar „gullnu veigar“, sem aldrei eru sæmandi og sízt unglingum á þeim aldri. Stendur Gagnfræðaskólinn hér á mjög háu stigi, hvað snertir bindindi nemenda. Annar sá fagnaður, er þótti mikið til koma, var grímudansleikurinn, er Afrodítir skólans huldu sig með indverskum blæjum og öðru því, er henta þótti.
- Jóhann Ágústsson.
Sköpunarsagan.
Denna litla fannst mikið til um sköpunarsöguna, eins og honum var sögð hún í sunnudagaskólanum. Dag einn nokkru síðar var auðséð á honum, að hann var eitthvað lasinn, enda þótt hann kvartaði ekki eða kveinkaði sér. Móðir hans bað hann að segja sér, hvað amaði að honum, en Denni hristi höfuðið í þögulli alvöru lengi vel. Loks stóðst hann ekki lengur mátið, greip báðum höndum undir síðuna og sagði kjökrandi: „Mamma, ég held ég ætli að fara að eignast konu.“