Blik 1953/Áfengi fyrir 402 miljónir á 9 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1953



Áfengi fyrir 402 milljónir

á 9 árum.


Blik birtir hér dálitla skýrslu um áfengissölu ríkisins undanfarin 9 ár. Við getum á ýmsa lund gert okkur grein fyrir, hve mikil framleiðslutæki t.d. við hefðum getað keypt fyrir þessar fúlgur fjár, sem þjóðin hefur notað til áfengiskaupa á undanförnum árum. Fyrir 402 milljónir hefðum við getað keypt um 40 nýtízku togara t.d. eða 3—400 stóra vélbáta með öllum fullkomnustu tækjum nútímans.
Fyrir fúlgu þessa hefðum við einnig getað byggt skólahús handa 100—200 skólum og er þá vel lagt til hvers eins, og við hefðum ... og við hefðum. En þetta höfum við ekki gert. Heldur höfum við notað þetta óhemju mikla fé til þess að valda miklum ófarnaði með þjóðinni, skerða menningu hennar og hamingju, já, valda óheyrilegri óhamingju og böli á marga lund, einstaklingum, fjölskyldum og heilum byggðarlögum. Alltof margir unglingar sýna hörmulegt staðfestuleysi gegn eiturlyfjanautnum. Vanþroski og kæruleysi valda þar mestu um. Það er of ríkt í okkur mönnunum að láta reka á reiðanum, veigra okkur við að vinna gegn straumnum, heldur láta okkur reka dottandi að ófarnaðarósi.

Árið 1952 seldi ríkið áfengi fyrir 64 milljónir króna. Það eru 426 kr. á hvert einasta mannsbarn á öllu landinu, eða 2130 kr. skattur á hverja fimm manna fjölskyldu.
Meðfylgjandi tölur sýna, hvað áfengissalan hefur verið 9 síðastliðin ár:

Ár Krónur
1944 36.770.158,00
1945 40.152.282,00
1946 47.227.021,00
1947 57.947.949,00
1948 63.177.696,00
1949 60.913.543,00
1950 65.572.836,00
1951 66.564.000,00
1952 64.026.000,00

Margir halda því fram, að áfengis- og tóbaksnautn æskulýðsins hér í Eyjum fari vaxandi. Það er sorglegt, ef það er satt. Margan eiga þó Eyjarnar staðfastan og heiðarlegan ungling í þeim efnum, t.d. innan skátahreyfingarinnar og Gagnfræðaskólans. En þó finn ég til þess, hvað sá staðfasti hugur nær stundum, — já oft, — skammt, þegar unglingarnir eru lausir undan áhrifum þessara stofnana og þeirrar bindindisstarfsemi, sem þar á sér stað, og láta þá berast með straumnum.
Unglingar, æskumenn, verið trúir æskuhugsjónum ykkar og bindindisheitum, og ykkur mun vel farnast. Sú trúmennska er aðalsmerki hvers góðs ungmennis. Sú trúmennska leiðir af sér tryggð og dyggð í öllu daglegu starfi til heilla landi og lýð. Reglusamur æskumaður, vinnufús, er bezta eign þjóðfélagsins. Óreglusamur æskumaður er vonarpeningur þess.

Þorsteinn Þ. Víglundsson.