Blik 1951/Við leitum öll hamingjunnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1951



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON SKÓLASTJÓRI:


Við leitum öll hamingjunnar
(Brot úr skólaslitaræðu 1949)


Þorsteinn Þ. Víglundsson

Hvert er það takmark, sem allir menn stefna að? Hvert er það hnoss, sem allir vilja höndla? — Það er hamingjan. Það er farsældin.
Farsældin er það, sem föður og móður er hugfastast í uppeldi barna sinna. Okkur finnst það að minnsta kosti eðlilegast, að svo sé. Og innilegar hamingjuóskir foreldranna fylgja börnunum, þegar þau kveðja foreldrahúsin og leggja út í lífið.
Allir, undantekningarlaust, vitandi eða óvitandi, eru að leita að farsæld sinni eða hamingju. Einn sér hana í mannvirðingum, orðum og metorðum, annar í auðssafni, þriðji í munaði og sællífi. Fjórði sér hana og finnur hana í starfi, þar sem hugur og hönd fá mótað og skapað, — hvort sem það er í starfi og striti fyrir búi og börnum eða í víðtækari merkingu.
Það eru þessar nytsömu hendur þjóðfélagsins, sem gengi þess og tilvera byggist á. Hin starfandi hönd bóndans, sjómannsins, verkamannsins, iðnaðarmannsins, færir björgin í grunn undir framtíðarhöll þjóðarinnar.
Þegar þið, nemendur mínir, sem nú kveðjið skólann í dag, afréðuð á sínum tíma að hverfa til náms í Gagnfræðaskólanum, — hvort sem það hefur verið af eigin hvötum, eða fyrir orð foreldra ykkar eða annarra aðstandenda, — þá hefur hugsunin verið sú, að skólinn mætti verða þess megnugur að treysta vonir ykkar og foreldra ykkar framtíðarfarsæld, gera ykkur hæfari til að leita hamingjunnar og finna hana.
Hefur þá skólinn orðið þess megnugur? Slíku er erfitt að svara. Nokkra almenna fræðslu hefur hann veitt ykkur og mörg ykkar, eða flest, hafið vaxið að nokkurri menningu, því hef ég veitt eftirtekt, þó að erfitt sé að færa rök að þeim fullyrðingum. Og öllum ykkar vildi skólinn koma til nokkurs þroska. Það er víst. Hér hefur aðeins dálítil undirstaða verið lögð. Meira megnum við ekki. Hlutverk ykkar sjálfra er að byggja á undirstöðuna vel og traustlega. Manndáð ykkar og drenglund veldur þar mestu um, hvernig það tekst. Litla ríkið okkar, íslenzka lýðveldið, þarf skyldurækinn og traustan þegn í hverju rúmi, — á hverjum stað. Skapfestan og viljastyrkurinn, yljaður ættjarðarást og ósíngirni, er þar mikilvægt atriði hjá hverjum einstakling. Skyldutilfinningin í daglegum störfum er helgur dómur. — „Sú þjóð, sem veit sitt hlutverk, á helgast afl um heim, — eins hátt og lágt má falla fyrir kraftinum þeim“. Eins er það og um einstaklinginn:

„Nú þarf dáðrakka menn,
ekki blundandi þý.
Það þarf vakandi önd,
það þarf vinnandi hönd“.

Íslenzku þjóðinni ríður á því, að enginn skerist úr leik.
Spakur maður hefur sagt, að leyndardómur hamingjunnar væri ekki fólginn í því, að við gerum það eitt, sem okkur fellur bezt heldur hinu, að okkur falli það, sem við verðum að gera. Vinnugleðin, starfsgleðin er guðsgjöf, sem er veigamikil fyrir líf okkar og hamingju. Starfsfúsa höndin, sem stjórnast af vakandi önd skyldurækninnar, færir einstaklingnum farsælustu hamingjuna og skapar þjóðarheildinni öruggustu framtíðina.

—o—

Ég var eitt sinn í kaupavinnu með mörgu ungu fólki, körlum og konum. Þar var oft glatt á hjalla og unnið af kappi og trúmennsku. Þó var vinnan ógeðþekk sumum okkar. Vinnugleðin í góðum hóp létti starfið og þokaði til hliðar öllum leiðindum.
Í þessum hóp voru tvær rosknar stúlkur. Þær höfðu víst orðið fyrir miklum vonbrigðum í lífinu og litu á það öðruvísi en við, hin yngri. Við trúðum á lífið og glæsta framtíð, eins og heilbrigðum og lífsglöðum æskulýð ber að gera. Þær virtust þunglyndar og örvæntu um alla framtíð. Hér bar mikið á milli. Við strákarnir vildum reyna að létta þeim lífið, fá þær til að hlæja með okkur og vera glaðar. Það mistókst. Það var eins og að reyna að kveikja í blautu spreki. Það brestur og snarkar, og þar við situr. Hér virtist örvæntingin hafa kæft trúna á lífið og hamingjuna, — hjartans þrám aldrei fengizt fullnægt.
Einn góðviðrisdag, þegar setið var að kaffidrykkju undir berum himni, hitti piltur einn í hópnum naglann á höfuðið. Þegar við höfðum drukkið kaffið, tók hann til að spá í bollana. Öllum gerði hann vel til. Við strákarnir áttum að verða miklir menn og eignast góðar, myndarlegar og fallegar konur. Ungu stúlkurnar fengu líka óskum sínum fullnægt þarna í kaffibollunum. Hugsjónir fæddust og hitamagn fór um önd. Mikið var hlegið í gáska og græskulausu gamni. Pilturinn virtist hafa glöggsæjan skilning á draumum hjartnanna hjá þessu meðstarfsfólki sínu.
Svo kom röðin að stúlkunum tveim. Til þess var leikurinn gerður. Pilturinn sá þar biðla í bollunum. Hann sá ríka bændur, sem voru í leit að myndarlegum konuefnum. Hann sá þá á næstu grösum. Hann sá þær mektarhúsmæður og mæður í fögru umhverfi. Það virtist sem vonin og gleðin lifnaði á ný. Hann hafði borið töfrabalsam á hjartasárin. Ef til vill var pilturinn dulrænn. Það var eitthvað sérkennilegt við hann. Það virtist sem stúlkunum yxi megin í trú og von.
Sleppum þessu. En — nemendur mínir —, hvað er lífið án vonar, — hvað er það án trúar? Hvað er það án hugsjóna? Af mínum sjónarhól séð er það án þess ekkert nema örvænting og gleðivana tór.
Nemendur mínir, ef ég tæki nú til að spá fyrir ykkur, hvað þá? Hverju myndi ég spá?
Ég er enginn spámaður, eins og þið vitið. Og ekki er ég spámannlega vaxinn heldur.
Þó hef ég ríka hneigð til að ætla, að þið eigið góða framtíð í vændum, ef, — ef. Hugboð mitt er skilyrðum háð. Gæfa okkar og gengi er skilyrðum háð. Og hver eru svo þessi skilyrði? Þau eru fyrst og fremst skilyrðislaus trúmennska við sjálfa sig og lífið. Gerumst við þar tryggðrofar, lifum við syndaraugnablik, sem líf okkar fær ekki bætt og vart eilífðin.
Mér finnst, að þið séuð nú öll hamingjunnar börn — og lífið brosi við ykkur. Þið eigið ykkar fögru æskudrauma. Möguleikarnir eru alls staðar. Þið eruð heilsuhraust og þið eruð góðum gáfum gædd.
Þegar ég fullyrði þetta, er mér sem ég heyri nokkur ykkar hugsa sem svo: „Ekki ég, ekki er ég gáfaður, — enda er fullnaðarprófseinkunnin mín lág. Annað hvort er hann að hræsna eða hann man ekki eftir mér.“ Jú, ég man eftir ykkur öllum. Þegar ég skrifaði þetta, hafði ég hugleitt ykkur öll og rifjað upp kynni mín af ykkur.
Fjarri fer því, að þið séuð öll jafn vel gerð eða fallin til bóklegs náms. En þið búið þá yfir öðrum eiginleikum, sem bæta upp tregar bóknámsgáfur og eru þeir ekki minna virði fyrir sjálf ykkur og þjóðfélagið. Starfsfúsar hendur geta bætt upp tregðu um bóklegt nám. Starfandi hendur og vinnuþrek þegnanna er ómetanleg eign þjóðfélaginu. Sum ykkar búa yfir handlagni, sem er veigamikil og nytsöm guðsgjöf. Sum ykkar búa yfir sérstökum gáfum til náms í sumum bóklegum greinum og getið samfellt þær verklegu námi. Gerið það.
Þið hafið öll eitthvað gott og nytsamt til brunns að bera. Glæðið það. Reynið, nemendur mínir, að skilja og þekkja sjálf ykkur, og hlynnið með alúð að þeim vísi manndóms og manndáða, sem býr með ykkur öllum og vex og þróast sjálfum ykkur, foreldrum ykkar og þjóðfélaginu í heild til blessunar. „Þekktu sjálfan þig til fulls, það er dýpsta menning,“ segir skáldið.
Eitt er ykkur öllum sameiginlegt nú; þið eruð öll reglusöm og skiljið gildi þess, eins og stendur að minnsta kosti. Er það svo veigamikið atriði fyrir æskumanninn? Já, það er veigamikið atriði til þess að gáfur ungmennisins, á hvaða sviði sem er, — njóti sín. Þetta skiljið þið, það veit ég. Starfsgleðin, heimilishamingjan, trúin á lífið, — allt, sem veitir lífinu gildi, hverfur á dyr, ef við bjóðum óreglunni heim. Margir, sem það hafa gert, minnast bindindistímanna með söknuði. Jafnframt harmast þeir yfir óreglunni tímum gerfigleðinnar.
Einar Benediktsson segir í hinu stórfenglega kvæði sínu „Einræðum Starkaðar“, þar sem hann hugleiðir sitt eigið líf: „Við skrum og við skál í skotsilfri bruðla ég hjarta míns auði.“ Ennfremur segir hann: „Minn hlátur er sorg.“ — Gleði hans er uppgerð, gerfigleði. Undir stakki gáskans og ölgleðinnar grætur hann yfir sjálfum sér. Hversu margir mundu ekki geta sagt hið sama. „Mungátin sjálf ber moldarkeim“ og óhamingjan, illra hóta nornin, liggur í leyni á botni vínstaupsins. Þetta þekkjum við og sjáum, hvar sem við lítum í kringum okkur hér í bæjarfélaginu og þjóðfélaginu.
Í ársriti skólans, Bliki, hafið þið birt hugsanir, sem eiga rætur í sjálfum ykkur og lífinu. Eitt ykkar segir þar: „Áfengis- og tóbaksneyzlan er sjálfskaparvíti. — Sá maður, sem temur sér bindindi og reglusemi í æsku, er og verður bæði viljasterkari og skapfastari en sá maður, sem lætur tælast til eiturlyfjanautna á unga aldri. Bindindissemi er einn af aðalkostum hvers manns.“ Þetta voru ykkar eigin orð, fögur orð, fallegar hugsanir, sem ég veit, að eru ykkar sannfæring nú. Staðföst trú á þá sannfæringu er tryggð við lífið sjálft og hamingjuna. Það hef ég sjálfur reynt. Svik við þann málstað, þá lífsskoðun, veldur oftast stjórnlausum hrakning um lífsins sjó, ófarsæld,— hamingjuleysi. Eitt ykkar lýsir drykkjumannskonunni og kjörum hennar. Gömul fyrir tímann, grátur, sultur, eymd, — lamað taugakerfi. Allt þetta hlýzt af því að búa við hið óskaplega sjálfskaparvíti heimilisföðurins, sem hlauzt í upphafi af ístöðuleysi og viljaveiklun — og ímynduðum gleðiauka, sem reyndist tál og tortíming.
Á s.1. ári kom út bók eftir einn af elztu og þrautreyndustu skólamönnum landsins, Sigurð Guðmundsson skólameistara á Akureyri. Kennir þar margra grasa, svo sem vænta mátti.
Einn kafli bókar þessarar fjallar sérstaklega um skóla, áhrif þeirra og einkenni. Þar tekur höfundurinn fram nokkur atriði, sem einkennir góða skóla, og um leið góða nemendur. Fyrsta og veigamesta atriðið er reglusemi. Svo fer höfundurinn mörgum orðum um nauðsyn þess, að æskulýðurinn sé bindindissamur, og hversu mikil blessun það er æskulýðnum að rækja bindindi og skirrast alla óreglu.
Ég hygg, að ég megi fullyrða, að þið séuð eins og stendur fyrirmyndarnemendur um alla reglusemi.
Það ber við, að hingað koma nemendur, sem stundað hafa nám í öðrum skólum. Sumir reynast prýðilega. Aðrir hafa sýnt sig í drykkjuskap og annari óreglu. Ég hef orðið þess var, að fólk hér hneykslast á þessu og fellir dóm um skólann þeirra ekki síður en þá sjálfa. Svo mundi einnig verða um okkar skóla og ykkur, þar sem þið farið og dveljið, ef þið gætið ekki skyldu ykkar og látið glepjast. Þið sjálf eruð vottorð heimila ykkar, foreldra ykkar og skóla og ráðið niðurstöðum dómsins eða almenningsálitinu.
Mikilvægt atriði í starfi skóla er sá andi, sá hugur, sem ríkir milli nemenda efri og neðri deilda.
Páll Melsted segir um andann í Bessastaðaskóla: „Neðri bekkingar þóttu litlir virðingarmenn í þá daga.“ Benedikt Gröndal skáld lýsir ruddahætti og stráksskap eldri nemenda í garð nýsveinanna í sama skóla. Slík framkoma skapar úlfúð og óvild, margs kyns leiðindi og sálarníð.
Undan slíkri framkomu er ekki ástæða til að kvarta í okkar skóla. Framkoma ykkar eldri nemenda við þá yngri og óreyndari er yfirleitt lýtalaus, og félagsstarfið milli aldursflokkanna oft ánægjulegt og þroskavænlegt. Ef til vill væri þetta á annan veg, ef deildirnar eða bekkirnir væru fleiri og aldursmunurinn meiri.
Þó vil ég ekki neita því, að það eigi sér stundum stað, að nýnemarnir kvarti undan lítilsvirðingu hinna eldri og oflátungshætti í hugsun og framkomu. Þó hef ég aldrei orðið þess var, að slíkt ylli illindum eða óvild. — Enginn æskumaður er lakari, þó að hann finni dálítið til sín, ef slíkri sjálfskennd er stjórnað af skynsemi og sannri virðingu fyrir eigin persónu, en birtist ekki sem einskær spjátrungsháttur og heimskupör.
Þá er samvinnan milli kennara og nemenda og hugarþel hið þriðja mikilvæga atriði í hverjum skóla. Í öllum skólum er það breytingum háð og áraskipti að því. Ekki þarf stundum nema einn eða tvo nemendur í bekk til þess að spilla samhug og samvinnu kennara og bekkjarsagnar í heild. Hvað um þetta atriði í okkar skóla? Ég minnist margra ára og bekkjarsagna, þar sem samhugurinn og samvinnan hefur verið svo ánægjulegt í þessum deildum, sem frekast verður á kosið. Þess er mér ánægja að minnast.
Ég veit, að ykkur er nú ríkt í huga spurningin sú, hvað ég álíti um hið liðna skólaár í þessum efnum. Ég skal engu leyna. Starfsandinn, sem ríkt hefur í 1. og 2. bekk hefur verið góður þetta skólaár, eftir því sem hægt er að vænta eða ætlast til af mjög misjöfnum nemendum að þroska og námshæfni.
Meðal sumra ykkar, gagnfræðinganna, hefur þessi samvinna ekki verið eins góð og skyldi á þessu skólaári, og hinn ákjósanlegasti samhugur verið dálítið mislitur og blæbrigðóttur. Meðal ykkar eru úrvalsnemendur. Sumir ykkar eru hins vegar ekki hneigðir til bóklegs náms en þvingaðir til þess. Sú pynding kallar fram andúð á bóknámi og veldur stundum margskyns erfiðleikum. Slíkt brennur við í öllum skólum.

—o—

Tómstundír okkar geta verið gullkorn ævinnar. Það eru ekki starfsstundirnar, sem eru okkur hættulegastar heldur tómstundirnar. Hvernig verjum við þeim? Margur tregar tómstundir sínar, af því að þeim var illa varið, — þeim var á glæ kastað. Og margur sér það of seint, hvernig hann hefði bezt varið tómstundum sínum, svo að hamingja hefði af þeim hlotizt og farsæld.
Þess vegna er það svo mikilvægt hverju ungmenni, að það öðlist sem fyrst þroska til að skilja lífið sjálft, lögmál þess og vegi. Við verðum snemma að læra að velja og hafna, — velja vel, velja rétt. Þá þurfum við ekki að minnast æskuáranna með harmi og sárum huga. Þá verða æskuárin hugljúf og æskuminningarnar hvatning til dugs og dáða.
Mér hefur orðið fjölyrt um æskuárin og lífshamingjuna. Hún er mér ríkust í huga, þegar við skiljum. Vart nokkuð orkar meira til leiðinda og mæðu hjá kennara en að vita nemendur sína, efnileg og mannvænleg mannsefni, grotna niður og fara í hundana, eins og það er stundum kallað, af því að þeir hirtu ekki um að skilja sjálfa sig og lífið, vega og meta, velja og hafna vitandi vits, heldur flutu sofandi að feigðarósi eða létu vilja og stefnulaust arka að auðnu.
Hinn árvaki hugur æskumannsis er sigurvænlegur. Allt of margir meðal okkar neyðast til þess að taka undir með skáldinu, sem þetta kveður:

„Ég fann það um síðir, að gæfan er gler,
svo grátlega brothætt reyndist hún mér,
en æskan er léttstíg og leikur sér
að ljómandi gullinu fríða,
en glerið er brothætt og grjótið er víða.


Mér gersemin dýra var gefin í hönd;
í gáskanum héldu mér engin bönd.
Ég lék mér á æskunnar ljómandi strönd,
sá leikur varð gullinu að meini;
ég braut það í ógáti á örlagasteini.“

Mættuð þið alltaf bera gæfu til að varðveita gullið í ykkur og aldrei brjóta það á örlagasteini; bera giftu til að þræða þann veginn á lífsleiðinni, sem leiðir til mestrar hamingju og sannrar farsældar.