Blik 1950/Til sjóróðra í Mjóafirði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1950



Til sjóróðra í Mjóafirði


Kringum aldamótin síðustu fóru margir Vestmannaeyingar til Austfjarða í atvinnuleit, karlar til róðra, konur í sumarvinnu. Fjöldi fólks af Suðurnesjum fór líka austur. Brátt gengu Vestmannaeyingar fyrir öðrum Sunnlendingum austur þar sökum dugnaðar, sérstaklega þóttu þeir duglegri sjómenn og betri fiskimenn en Suðurnesjamenn.
Árið 1896 fór ég til Austfjarða að Brekku í Mjóafirði til Vilhjálms Hjálmarssonar bónda þar. Með mér var Vigfús Jónsson í Túni hér og Jón Jónsson í Dölum.
Þegar við komum austur, var báturinn inni í pakkhúsi tilbúinn til róðra.
Við byrjuðum róðra 29. maí og enduðum þá 3. nóv. um haustið. Við rérum 101 róður og fiskuðum 38707 fiska.
Árið áður, 1895, fórum við hinir sömu til Mjóafjarðar og rérum á sama bát frá sama heimili. Hófum við róðra 1. júní og rérum til 19. sept. 66 róðra og fengum 22526 fiska. Oft rérum við langt og fengum stundum erfiðan barning.
Einu sinni vorum við 7½ klukkustund upp undir Steinsnesið, sem er utarlega norðanmegin Mjóafjarðar. — og þaðan heim í Brekkuvör 4½ klukkustund. Við sóttum sjóinn mjög fast, því að okkur þótti heiður Vestmannaeyja vera í veði, ef við fiskuðum ekki allra manna bezt, — og svo var Friðrik Svipmundsson formaður í Seyðisfirði.
Það var síðla sumars 1896, að mig dreymdi einkennilegan draum, sem ég réði fyrir hættulegri sjóferð.
Þegar ég fór í róðurinn sömu nótt, sem mig dreymdi drauminn, skildi ég úrið mitt eftir og stakk nokkrum blöðum inn á mig. — Þegar við ýttum úr vör kl. 2 um nóttina, var veðrið einstaklega fagurt, fullt tungl, heiðríkt og sjórinn eins og spegill. Við rérum langt út fyrir Rif, sem er með dýpstu miðum. Við vorum með venjulega lóðarlengd, 960 króka eða 320 króka í hverju bjóði. Vegna hugboðs míns um vont veður, lögðum við aðeins úr tveimur bjóðum.
Þegar tók að birta, sáum við í norðaustri mikinn skýja bakka, sem hækkaði fljótlega og breiddist upp á loftið. Við hófum þegar að draga lóðina. — Eftir svo sem 10 mínútur var komið rok, svo að sjóinn skóf. Við fleygðum öllum fiskinum af seinna bjóðinu, því að nægileg stöðvun var komin í bátinn og sjór óx með norðurfallinu, sem rann gegn rokinu og æsti sjóinn.
Þegar við höfðum dregið lóðina, reyndum við að sigla á mastrinu einu. Þá gaf mjög á bátinn, svo að við sigldum á þríhyrnunni. Þá þeyttist báturinn áfram sem kólfi væri skotið. Brátt fengum við svo mikla sjói, að sumir þeirra nær fylltu bátinn. Vigfús og Jón skiptust á að ausa af öllum kröftum og miklum dugnaði. — Vigfús sat frammi í bátnum, Jón í austurrúmi. Þá kemur sjór stærri en nokkru sinni. Hann féll yfir mig við stýrið og fram í bátinn. Um leið og sjórinn kaffærði mig, sleppti ég stýrinu og hélt mér dauðahaldi í skorbitann. Annar fótur minn festist undir fjöl í skorbita-milligerðinni. Annars mundi mig hafa tekið út.
Þegar þetta skeði, hélt ég, að sjóferðinni væri lokið, en jafnhliða tók mig mjög sárt, hve móðir mín yrði hrygg, þegar hún frétti látið mitt. Félagar mínir héldu mig tapaðan úr bátnum, því að ég hvarf þeim sjónum um stund. Vigfús bjargaði árunum; annars hefðu þær tapazt. Öðru bjóðinu töpuðum við í sjóinn. Við gátum aldrei gert okkur eiginlega grein fyrir því, hvernig báturinn lyfti sér aftur og flaut. Þegar langt var komið að þurrausa bátinn, fengum við sjó, sem nær þóftufyllti hann á nýjan leik. Þá sagði Jón: „Mér þykir verst að vera ekki búinn að éta bitann minn, ef við drepum okkur nú!“
Þegar hér var komið, munum við hafa verið hálfnaðir upp að Steinsnesi, en sjórinn var líkur og oft hálffyllti og þóftufyllti, eða alls um 20 sinnum, að við héldum síðar, þegar við gátum ræðzt við og gert okkur grein fyrir því, sem gerzt hafði. Það gerðum við, þegar í varið kom innan við Steinsnesið.

Ég held, að enginn okkar hafi fundið til hræðslu, og sjóhræddir menn mundu aldrei hafa bjargazt á opnum báti í öðru eins veðri.
Í land komum við með fimm fiska, sem eftir löfðu í miðrúminu.

Magnús Guðmundsson,
Vesturhúsum.