Blik 1949/Þáttur skáta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1949


Þáttur skáta



Úr skátalífinu.

Eitt sunnudagskvöld hittumst við fjórir skátar úr nýstofnuðum flokki, við Landakirkju, því að nú var ætlunin að fara í útilegu. Eins og venjulega erum við útbúnir með svefnherbergishúsgögn og eldhúsinnréttingu á bakinu og er fyrirferðin eftir því. Við setjum okkur niður á kirkjubrunninn og bíðum í tólf og hálfa mínútu eftir Einari, en það er sá skemmsti tími, sem hann þarf til að átta sig á, að skáti sé stundvís.
Loks er þó haldið af stað undir söng og samræðum, sem aðallega snúast um það, hverjir gegna skuli hinum veigamestu störfum. Fyrst er að velja matsveininn, og óðar kemur fram sú tillaga, að Úlfar taki þetta að sér, þar sem hann býr yfir þeirri vizku, að hafragraut þurfi aldrei að sjóða meir en tvo tíma. Úlfar fær strax nafnið „Kastarholóníus“.
Þá er það varðeldastjórinn. Byrjar þá yfirheyrslan um það, hverjir hafi lært hjá Sigga Reim. Og það kemur í ljós, að Sveinn hafði losað ýmsa betri borgara bæjarins við tunnur og kassa, er sjálfsagt hefðu annars orðið fyrir. Hann þykir því sjálfkjörinn undir nafninu „Brennuvargur“.
Þegar komið er á tjaldstað, er fullskipað í embætti og sýna menn listir sínar í því að slá upp tjöldum, en þau vilja vera skökk og þurfa því ,,afrétting“.
Við sitjum í tjöldunum og segjum sögur og syngjum langt fram á kvöld. En allt í einu stendur „Brennuvargur“ í dyrunum og tilkynnir, alvarlegur eins og stefnuvottur, að hann hafi lokið störfum í þágu hins litla þjóðfélags. Við þjótum út til þess að skoða undrin. Og sjá! hér er logi lítið eitt stærri en á eldspýtu og fer vaxandi. Bálkösturinn er vandlega byggður upp af spýtnarusli, mosa, tuskum og hörðum þorskhausum. Hópurinn raðar sér nú kring um bálið, og fjölmargar lyktartegundir berast að vitum okkar. Hér vill Einar fá að sýna frásagnarlist sína og byrjar á draugasögu, en hún er svo löng, að afturgöngurnar voru úr leik, þegar komið var fram í miðja söguna, en þar tók við huldufólk, sem svo í lokin reyndist bara vera venjulegt fólk. En áður en sögunni er lokið, kemur Kastarholóníus vaðandi með skaftpottinn, ákveðinn í að sjóða kakó yfir bálinu. Hann stendur og teygir úr löngum handleggjunum yfir bálið til þess að forðast hitann og lyktina. Þegar vatnið fer svo verulega að hitna, man hann allt í einu eftir nokkru, sem hann hefur lesið í Heimilisritinu. Hann grípur annari hendi undir botn pottsins með vatninu, sem nú er við suðu, og ber hann þannig á lófa sér kringum bálið. Allir verða undrandi yfir þessum galdri, en Kastarholóníus lætur eins og ekkert sé og setur pottinn yfir aftur. Hitinn við bálið hefur þó kallað fram óteljandi svitadropa, sem renna niður andlit hans. Hann strýkur sér um enni og vanga með flötum lófanum, en það skapar okkur þá sýn, sem við seint munum gleyma: Kastarholóníus er orðinn svarti sauðurinn í fjölskyldunni, öllum til ánægju. Þegar kakóið er soðið og drukkið og allar draugasögur til þurrðar gengar, stingum við okkur í svefnpokana og sofum svefni hinna réttlátu. Um morguninn vöknum við með sólarupprás, því að eyrum okkar berast ægileg hljóð. Við þjótum upp úr pokunum og út. Og sjónin, sem fyrir augun ber, er hræðileg. Tjaldið, sem Einar sefur í, er fallið. Kýrnar höfðu slitið niður stögin og hámuðu nú mjög sakleysislega í sig grasið. Skjalda gamla á Brimhólum hafði snúið afturendanum að Einari, sem svaf vært undir berum himni. En allt í einu dettur eitthvað volgt og þungt niður á höfðalagið. Þetta var það, sem hljóðinu olli. Einar reis upp öskuvondur og hafði alveg gleymt, að skáti er hæverskur, og hellti úr sér ókvæðisorðum yfir saklaust spendýrið.
Þegar við höfðum loksins sannfært Einar um, að kýrin mundi líklega ekki skilja það, sem hann segði, varð hann aftur glaður og við gengum allir saman út í sóskinið.

Gísli Sigurðsson, III. b.


ctr

EYJASKÁTAR VIÐ GEYSI

Tíunda landsmót skáta var haldið á Þingvöllum dagana 1.—11. ágúst 1948. Þar mættust skátar frá 34 íslenzkum skátafélögum, samtals um 1000 skátar. Lúðraómar mótsins gjalla kl. 9 e.h. 1. ágúst. Þá birtist glæsileg skrúðfylking, sem kemur inn gangbrautina að Miðgarði, aðalhátíðarsvæði landsmótsins. Eru þar komnir hinir sögufrægu forfeður með Úlfljót í fararbroddi. Úr fjarska heyrist óma „Öxar við ána“. Úlfljótur hefur mál sitt. Hann hvetur unga sem gamla til löghlýðni og minnir á, að allir Íslendingar skuli með lögum land byggja.
Þá tekur til máls Þorsteinn Ingólfsson. Minnir hann á trúfesti við settar reglur, trú á guð og einlæga tryggð við fósturjörðina. Þá mæltu fleiri forfeður vorir, klæddir hinum fagra fornmannabúningi. Og öll var áeggjan þeirra til okkar hin sama: temja okkur hinar fegurstu dyggðir mannlegs lífs.
Ég geymi hugljúfar endurminningar um þessa sæluríku sumardaga og munum við öll geyma þessar björtu minningar sem aðrar í skátafélagsskapnum. — Við skátarnir ættum að vera þakklátir þeim, sem bentu okkur á þessa sumarheiðu braut æskunnar.

B.P., II. b.

ctr

Myndin er af hliði Eyjaskátanna á tíunda landsmótinu. Í skjaldarmerkinu er mynd af Heimaey. Að henni sveima fiskar. Bátar og skip eru á ferð, og fuglar svífa yfir. Einnig flugvél.
Óskar Þór Sigurðsson teiknaði skjaldarmerkið en Engilbert Gíslason málarameistari málaði það. Það vakti sérstaka athygli á landsmótinu.

Bergljót Pálsdóttir, II. b.