Blik 1946. Ársrit/Fallegur draumur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1946


PÉTUR SIGURÐSSON:

Fallegur draumur


Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Vestmannaeyjum. — Dreymdi mig þá nótt eina, að ég kæmi inn í allstóra stofu. Ég varð bæði undrandi og hrifinn af því, sem ég sá. Mér þótti standa mikill jurtapottur, á stærð við hálfa hálftunnu, í suðvesturhorni stofunnar. Upp úr honum hafði vaxið þráðbeinn og sterkur tréstofn, er náði upp undir loft. Þar tók við limið, og var það geysilega mikið. Tréð tók á sig skarpa beygju upp við loftið og breiddi limið sig um allt loftið, en var þó svo þróttmikið, að það náði alla leið í norðvesturhorn stofunnar, án þess að svigna niður á við, og þótti mér þetta furðulegt. Ég tók þá eftir opnum dyrum á herberginu og vissi, að þar fyrir innan var svefnherbergi, og varð mér litið þar inn.
Þar var þá Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri, og þótti mér hann gæta barna sinna. — Hann virtist vera mjög ánægður og rólegur þarna með börn sín. Mér þótti þetta vera heimili hans.
Ég sagði Þorsteini þennan draum nokkru seinna, og ég réð hann fyrir því, að Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum mundi blómgast vel undir skólastjórn hans. Nú getið þið, lesendur góðir, sem stundið nám við skólann og hafið fylgzt með þróun hans undanfarin ár, bezt dæmt um það, hvort ég hef ráðið drauminn rétt, og hvort hann hefur rætzt.
Ég vona, að æskulýður Vestmannaeyja, sem nám stundar við skólann, vaxi við það að manndómi og drengskap, er samsvari þessu þróttmikla, limprúða, laufgræna og fallega tré, sem ég sá í draumnun. Ekki er nóg að læra margvísleg fræði. Það út af fyrir sig bjargar mannkyninu ekki. Hið mikilvægasta hefur orðið útundan í mannheimi, það er ræktun persónuleikans, manndómsins og skapgerðarinnar.
Þjóðir hafa lagt mikla stund á lærdóm, ræktun og framleiðslu. Samt flýtur heimurinn í blóði. Milljónir manna líða hungur, og hörmulegt öngþveiti ríkir víða á meðal manna og þjóða. Hin blómlegu og vel ræktuðu lönd eru sundurtætt og breytt í auðn og dauðramannareiti, bústaðir manna, borgir og byggðir, skraut hallir og stórhýsi, allt er lagt í rúst. Allt vegna þess, að menn hafa ekki enn lært hið mikilvægasta og nauðsynlegasta, þótt þeir hafi lært margt, en það er, að stjórna sjálfum sér.
Menn hafa aukið lærdóm sinn mjög og alla kunnáttu. Þeir rannsaka, mæla og vega himin, haf og jörð, alla hina sýnilegu og áþreifanlegu tilveru. — Þeir fljúga um loftin blá, kafa djúp hafsins, tala hver við annan fyrirhafnarlaust heimsendanna á milli og láta náttúruöflin þjóna sér. Þeir hafa lært öll hugsanleg fræði, meira að segja lært furðu vel að snuða hvern annan í viðskiptum. Mikið hafa þeir lært, mikið geta þeir og miklum kröftum kunna þeir að stjórna, en samt kunna þeir ekki enn nægilega vel að stjórna sjálfum sér, og þess vegna verður allt þetta, sem upp var talið, að banvænum vopnum í höndum þeirra.
Skólar, kirkjur og heimili þurfa að hefja um heim allan nýrækt í mannlífinu sjálfu. — Unga kynslóðin verður að gera sér það ljóst, að vilji hún fá að búa við blessun lífsins, gróðurdaggir þess, blíðu og yl, en ekki sprengjuregn og eldspúandi skriðdreka, þá verður hún að stíga feti framar en fyrri kynslóðir, og vanda enn betur allt uppeldi sitt. Hún verður að vera kröfuhörð við sig sjálfa. Hið bezta fæst ekki fyrirhafnarlaust. Góðan heim fáum við ekki, nema að mennirnir verði sannir drengskaparmenn, þjóðhollir og farsælir í allri sambúð sinni og viðskiptum við aðra menn. En slíkur sálarþroski og slík skapgerð er mannkyninu ekki meðfætt. Slíkt er ávöxtur mannræktunar, og gæði og magn ávaxtarins fer auðvitað eftir því, hve vel mannræktin er stunduð.
Hættum því að blekkja okkur sjálfa, og búumst ekki við góðu né góðum heimi, nema við gerum öll skyldu okkar til þess að svo megi verða, og munum, að lífið er strangur skóli. — Til hamingju með það þrotlausa framtíðarnám.

Reykjavík, 4. apríl 1945